þriðjudagur, október 30, 2007
Erla perla kveður
En nú er kominn tími til að fara aftur heim til ÍSlands. Í annað líf.
Það hljóta að bíða mín einhver ævintýri þar. Ef ekki þá bý ég þau til.
Ég hef einnig ákveðið að kveðja bloggheiminn.
Jáb, hætta að blogga.
Hætta á toppnum sagði einhver.
Takk fyrir lesturinn allt fallega fólkið mitt þarna úti, þetta er búið að vera ógislega gaman og það hefur svo sannarlega kjaftað á mér hver tuska – í 4 ár! Og athugið, í sama gamla útlitinu þrátt fyrir pressu, geri aðrir betur! Bleikur og túrkís eru alveg í uppáhaldi hjá mér ennþá hehe.
En nóg um það, Erla perla kveður kjaftæðið.
Sátt, södd og sæl.
Og munið mottóið – Spread your wings and fly.
Það virkar.
Við sjáumst á förnum, þið lofið að heilsa!
Out elskurnar.
E
mánudagur, október 29, 2007
Lokauppgjörið
Augnaverkefnið fyrir Edine sem ég sagði ykkur frá hér fyrir neðan kostar 25.000 krónur, læknisheimsóknir (2 auka), taugatest og góð barnagleraugu. Það þýðir að það eru 31.000 krónur eftir til að gefa áður en ég held á brott.
Ég hef ákveðið að deila peningunum niður á þá sem ég hef hingað til aðstoðað - Walters, Yami, Edine og Marielu mömmu hennar og Eunise, ásamt því að gefa Ernesto garðyrkjumanni úr vinnunni og bróður Yami vænan skerf. Hann er svo yndislegur. 28 ára, á 5 börn og er með 180 dollara á mánuði. Og býr í fátækrahverfinu sem ég sýndi ykkur fyrr í mánuðinum. 31.000 kall skipt niður á upptalda aðila gera því 6100 kall á mann, eða 100 dollarar. Þau munar alveg um þennan bónus.
Þessi söfnun gekk upp. Vinir, félagar, fjölskylda og fólk sem þekkir mig ekki persónulega tók þátt og gerði góðverk með litlu efforti. Þvílíkt frábært. Samtakamátturinn já.
Og það var nú það.
sunnudagur, október 28, 2007
Di Whiskey!

laugardagur, október 27, 2007
EDINE

Frá því Edine fæddist hefur hún séð illa og átt í vandræðum með fallegu súkkulaðibrúnu augun sín. Hún sér ekki mun á mömmu sinni og öðrum konum í margmenni og horfir á sjónvarpið með nefið ofan í skjánum. Hún sér ekki tröppur og fær illt í augun í sólinni. Því eru augun hennar oft hálflokuð og hún sér hreinlega sama og ekkert. Uppeldi hennar er víst líka þess eðlis að hún hefur oft þurft að loka augunum. En það er jú samt alls óskylt genagöllunum sem hrjá augun hennar.
Edine litla er frænka Eunise vinnu- og vinkonu minnar. Dóttir systur hennar, Marielu. Mariela á 3 börn og er Edine yngst og fæddist 14 mánuðum eftir að „pabbi“ hennar hafði framið hrottalegt sjálfsmorð, en alvöru pabbi hennar er bróðir þess manns. Sá skandall er þó ekki opinber eða ræddur. Mamman hefur átt í stormasömum samböndum og hafa báðir barnsfeður hennar verið ómerkilegir menn handalögmála, kúgunar og framhjáhalds. Eitthvað sem er alltof algengt og viðgengst hér. Virðing fyrir konum er lítil, sérstaklega hjá þeim fátækari og ómenntuðu. Núlifandi pabbi Edine fór í raun frá mömmu hennar fyrir aðra konu og þar með fór fyrirvinna fjölskyldunnar. Mariela er atvinnulaus. Hún fær þó sendan pening frá fyrrverandi tengdaföður sínum sem býr nú í Bandaríkjunum, hann sendir af hugulsemi 100 dollara á mánuði fyrir mat. Annað er það ekki. Pabbinn kemur víst af og til heim og er þá með stæla og læti, oft með aðrar konur og Mariela getur ekki mótmælt. Hún verður að eiga einhvers staðar heima með börnin sín og hún verður að halda 100 dollurunum á mánuði til að geta gefið þeim að borða. Þetta rétt dugar fyrir hrísgrjónum og baunum út mánuðinn. Reyndar skila peningasendingarnar sér víst bara af og til nú orðið þar sem þær fara fyrst um hendur fyrrverandi tengdamömmunnar sem freistast oft til að taka dágóðan skerf. Eða er í vondu skapi út í Marielu þann daginn. En samt kannski mest af því eiginmaðurinn plottar eins og hann getur til að hún fái ekki peninginn.
Það má því reyna að skilja það af hverju Mariela hefur ekki farið með dóttur sína til almennilegs augnlæknis eða haft áhuga á að sækja svör við blindu hennar. Hún hefur hvorki átt til kraft né fé. Hvað þá trú í allri ótrúnni eða von í vonleysinu. Það er auðvelt að gefast upp og það vitum við líka sem höfum það samt þúsund sinnum betra en Mariela og börn. Andinn bara gefst upp og við sættum okkur við hlutina. Hættum að berjast því það hefur ekkert að segja. Reyndar fór Mariela með Edine í fyrsta sinn til læknis fyrir um hálfu ári síðan, eftir að Gerður mágkona hennar hafði hvatt hana til þess lengi. Hún fór á almenningsspítala og þar fékk Edine þjónustu sem þjónustaði hana ekki neitt. Þær voru sendar á milli staða og fengu samt enga greiningu. Litla daman fékk þó gleraugu sem hún hefur aldrei viljað nota enda kolröng samkvæmt greiningu augnlæknisins sem við fórum til í dag. Edine sagðist fá illt í höfuðið þegar hún notaði gleraugun og mamman hana sagði hana alls ekki vilja ganga með þau, sem var augljóst því þau voru bæði brotin og beygluð. Þegar maður er 6 ára og sér nánast ekki neitt og er orðin nokkuð félagslega bældur sökum þess þá auðvitað bara brýtur maður gleraugun sín sem voru hvort eð er að gera allt verra en það var.
Við fórum í dag til eins færasta augnlæknis landsins. Ég sótti þær mæðgur, Eunise kom með og saman eyddum við deginum á spítalanum. Eftir ítarlega skoðun með tækjum og tólum og eftir hina og þessa augndropana greindist Edine með ferna ólíka kvilla sem ég kann ekki að endurtaka hér. Hluti er genagalli sem ekki er hægt að laga sbr. taktfastur titringur í augunum sem er eitthvað tengt e-um taugum í heilanum. Þá er hún svakaleg nærsýni og með einhvers konar bletti á augasteinunum. Að lokum er himnan yfir auganu eitthvað skrýtin í laginu sem orsakar skringilega bjagaða sjón.
Edine er nú í góðum höndum, fer í taugarannsókn á morgun til að hægt sé að greina titringinn nánar og sjá hvort þetta sé versnandi eða batnandi og hvort hægt sé að laga þetta síðar meir með aðgerð. Svo verður hún undir eftirliti á 2 mánaða fresti til að byrja með til að skoða þróun blettanna á augunum hennar. Og síðast en ekki síst fær hún ný gleraugu sem eru rétt fyrir hennar sjóndepurð. Læknirinn skrifaði upp á resept og ég lét Marielu mömmu Edine fá peninga til að kaupa almennileg barnagleraugu sem mega beygjast og beyglast, ásamt því að láta hana hafa peninga fyrir komandi rannsóknum og læknisheimsóknum. Það er jú mikil vinna bæði fyrir barn og foreldra að barnið byrji að nota gleraugun en í þetta skiptið verða gleraugun bæði þægileg og gefa henni sjón sem hún mun án efa uppgötva fyrr en síðar að sé betra en myrkrið. Eða við skulum vona það.
Edine byrjaði í skóla, sex ára bekk, um mitt árið en hætti fljótlega þar sem hún hafði ekkert í námið. Hún var ekki spennt yfir því að byrja í skólanum eins og flestir sex ára sem ég þekki, heldur grét af sorg þar sem hún gat ekki tekið þátt í kennslustundinni. Barnið sá ekkert. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að hún gengur í almenningsskóla þar sem alls ekkert tillit er tekið til sérþarfa. Edine sat aftast og sá hvorki kennarann né töfluna. Fékk eftir að hafa kvartað að setjast eilítið framar en það hafði ekkert að segja fyrir hana. Kennaranum var alveg sama, Edine gat ekki fylgst með og hætti fljótlega að vilja fara í skólann. Og þá var það bara búið. Mamman gat ekki mótmælt því þú þarft jú að hafa augu til að geta lesið.
Með því að fá augun sín að hluta til til að virka fær Edine tækifæri til að geta stundað skólann. Og menntun er lykill að kannski eilítið betra lífi en ella þótt þú sért fæddur inn í fátæktina. Svo í raun vorum við ekki einungis að opna augu heldur einnig tækifæri að betri lífsgæðum og möguleikum í lífi litlu stúlkunnar til að plumma sig í lífinu. Svo takk mín kæru! Það er ekkert meira virði en að eiga alla vega von.
Mariela þakkaði mér innilega fyrir á spítalnum... og fór að gráta. Ég fór þá auðvitað líka að gráta. Stundum bara getur maður ekki meir. Og á erfitt með að hugsa hlutina ítarlega og djúpt því það er bara svo sárt. Við getum ekki lagað kvillann. Edine mun aldrei sjá fullkomlega og við vitum ekki hvernig þetta endar. En maður gerir það sem hægt er í stöðunni. Ég grét af gleði yfir því að geta aðstoðað þær. Ég grét yfir ólæknandi óréttlætinu sem Edine fæddist inn í. Ég grét yfir því að vera svona heppin að eiga heilbrigða Veru. Og ég grét af því Edine brosti.


fimmtudagur, október 25, 2007
Vera 3,3 ára
Vera Víglunds er að standa sig vel hér úti. Hún er farin að líka betur á leikskólanum og er hætt að láta það fara í taugarnar á sér að skilja ekki mikið í sænsku eða spænsku, en bæði tungumálin eru notuð á leikskólanum. Mín er náttúrulega perfeksjonisti og vill alls ekki tala íslensku við útlensku krakkana og þegir því meira og minna í leikskólanum en fær þeim mun meiri útrás þegar hún kemur heim. Hún nær jú að tala íslensku við hinn Íslendinginn sem er með henni í skólanum, hann Gest Gerðarson og minnir hann reglulega á að hann eigi að tala íslensku við sig en ekki spænsku. Vera er nú samt farin að pikka upp orðin og notar þau inn á milli í talið sitt sem getur verið frekar fyndið.
Nokkrir nýlegir gullmolar frá Veru:
Mamma, þessi föt eru svo svakalega sucio (skítug)
Vera er skellihlæjandi og segir "Ég er alveg að deyja úr ungri" (meinandi að hún sé alveg að deyja úr hlátri)
Við erum að keyra út úr bænum og Vera kemur auga á kúahjörð á beit út um bílgluggann "mamma og pabbi, ég sé fullt af nautum og kýrum - og hei - þarna er ein frosin!" - en það var hvít stytta af nauti á miðju túninu.
"Mamma mig langar í skó með hælum" og bendir á kúrekastígvél á markaðnum (smituð!!)
Annars finnst henni ennþá skemmtilegast þegar hún er með mikið af verkefnum að vinna og elskar að lesa og púsla. Sagan um Emil í Kattholti er orðin default í bílnum og hún hlær alltaf eins og vitleysingur þegar Emil missir plokkfiskinn á tærnar á pabba sínum. Svo skammar hún öll dýrin sín og dúkkurnar með orðunum: "Kisu-strákskratti"! eða "litlu-babyborn-strákskratti!" Á eftir Emil kemur Kardemommubærinn, en samt bara kaflinn þar sem ræningjarnir þrír eru að ræna Soffíu frænku. Já, mín veit sko hvað henni finnst skemmtilegt og ekki eins skemmtilegt.
Vera er náttúrulega svakalega ákveðin og frek á köflum, svona eins og ég býst við að flestir 3 ára séu. Hún er samt ljúf inn við beinið og fullvissar sig og foreldrana oft á dag um að hún hlýði aaaaaalltaf, "eða sko, núna hlýði ég alltaf" bætir hún svo við. Eftir vinnu hjá mér er hún búin að vera með pabba sínum frá hádegi eftir að leikskólanum lýkur og þá er mamman uppáhalds og við leikum okkur fram að háttatíma. Yfirleitt með Bratz eða dýrin hennar. Ég á að tala fyrir Bratz dúkkurnar en Vera segir mér nákvæmlega hvað ég á að segja, það er víst ekki sama hvað það er. Svo röðum við dýrunum og Vera breytist iðulega í ljón eða hund. Þá fer hún þvílíkt í karakter og öskrar og öskrar og þegar ég bið hana að hafa lægra segir hún auðmjúklega: "já, en ég er Samson og veistu ekki að ljón öskra svona hátt?" (ljónið í Óbyggðunum). Svo passar hún sig á að hreyfa sig eins og ljón og sitja og liggja eins og ljón. Sleikja mig eins og hundar gera og tekur allt upp með munninum. Þvílíkir leiktaktar þar á ferð. Stundum höngum við líka í hengirúminu að spjalla saman, en Vera kemur reglulega til mín og segir "mamma, eigum við að spjalla?" Þá ræðir hún um hvað litla babyborn er orðin stór og dugleg og jafnvel óþekk. Mjög flottar og fyndnar samræður sem við getum átt á spjallinu.
Það er yndislegt að eiga þessa litlu snúllu og sjá hana vaxa og dafna eins vel og raun ber vitni. Hún er lítill snillingur og ég þekki það frá sjálfri mér hvað það getur verið erfitt að vera mikið niðri fyrir og vilja gera ALLT og ALLT Í EINU. Að vera ákafur og áhugasamur, ráðríkur og stjórnsamur. Vera er jú algjörlega að frekjast upp á köflum og við foreldrarnir reynum að taka bara á hverju keisi fyrir sig, með misjöfnum árangri þó. Hún er jú ekki í sínu eðlilega umhverfi hér og veit nákvæmlega hvað hún kemst langt með okkur. Það eru jú bara við og hún. Hún er svo klók. En ég veit líka og finn sterklega að hún er alltaf að gera sitt besta, er svo ljúf, er algjör knúsu og kyssari og með svo gott hjarta :)
Hér má sjá dömuna syngja fyrir sjálfan sig fyrir svefninn en söngbækur eru í uppáhaldi núna - og svo er það eitt voffavídeó frá ströndinni í rigninguni á Costa Rica um helgina.
það er smá plástrasýki í gangi þessa dagana
Sollu frænku pilsið er í uppáhaldi þessa dagana

Í mömmó með Masayu og Litlu babyborn
Vera mokaði sjálf yfir sig og sagði "sjáiði, ég er hafmeyja"
útrás á ströndinni eftir aksturinn til Costa Rica
"hei, þessi skel er fagurbleik" - elska þegar það koma svona háfleyg orð
miðvikudagur, október 24, 2007
Kókoshnetupása








Alltaf gaman að eiga afmæli en...
Þetta fer nú að verða komið gott.
þriðjudagur, október 23, 2007
Björt jól með vararafstöð frá Yamaha!
mánudagur, október 22, 2007
Út um gluggann
framrúðan þrifin í rigningu fyrir cordóba

göturnar fyllast á augabragði þegar demburnar koma - og þið getið rétt ímyndað ykkur þegar það rignir stöðugt eins og undanfarnar 2 vikur

En nú skín sólin og ég er farin út í löns að hlýja mér.
Nica - Costa Rica - Nica
Í rigningunni á laugardaginn ákváðum við að klára aðalmission ferðarinnar og "skreppa" yfir landamærin til Costa Rica - og tilbaka. Við lögðum snemma af stað og eins gott, því ÚFF. Þetta var sko ekki skrepp. Við fórum yfir landamærin og þurftum þá að byrja á því að skrá bæði okkur og bílinn út úr Nicaragua. Vorum send hingað og þangað eftir hinum og þessum pappírssneplunum, vel stimpluðum og undirskrifuðum af a.m.k. þremur aðilum sem voru líka hér og þar um svæðið. Þau hripuðu eitthvað merkilegt í þykku rúðustrikaðar bækurnar sínar sem enginn mun nokkru sinni getað flett einhverju vitrænu upp í. Eftir um klukkustundarráp hingað og þangað á landamærasvæðinu var ég búin að ná að skrá okkur út úr Nicaragua. Af hverju er svona mikið mál að komast út úr einu landi landleiðina? Ekki er þetta svona úti á velli! Alla vega, við tók að skrá okkur inn í Costa Rica og það var annað eins. Og þvílíku erfiðleikarnir að vera að fara á bíl með Nica númeri inn í Costa Rica. Við þurfum að fylla út pappíra eins og við værum að "flytja bílinn inn", sem er mér algjörlega óskiljanlegt af hverju. En maður gerir bara það sem manni er sagt að gera. Þetta var annar klukkari. Vera og Viggi biðu inni í bíl :S En mér tókst þetta, og þetta voru 2 tímar með því að greiða einhverjum strák sem bauð fram aðstoð sína í ringulreiðinni smotterís tips. Og þarna vorum við bara komin út úr Nica og inn í Costa Rica, og missionið ekki completed, því okkur vantaði jú að skrá okkur aftur inn í Nica til að fá nýtt túristavisa fyrir Veru, það var að renna út, er bara 90 dagar. Við ákváðum að nenna ekki meiru alveg strax og keyrðum inn í landið. Keyrðum í um klukkutíma og já, þetta var sko annað land.
Ég upplifði Costa Rica sem allt öðruvísi en Nicaragua í þá 3 tíma sem á náði að vera þar. Landslagið var þó alveg eins: Sömu grænu hæðirnar og ströndin var eins. Maður tók samt strax eftir því að það var eitthvað hreinna og skipulagðara. Það voru skilti sem sögðu manni reglulega að maður væri á réttri leið og allt var vel merkt. Ekki í Nica, nono. Rafmagnsstaurarnir voru steyptir og stóðu beinir, ekki hálffúnir og skakkir eins og í Nica. Rafmagnsvírarnir voru meira að segja strekktir! Við sáum svo ennfrekar að við vorum í öðru landi þegar við renndum inn í fyrsta smábæinn, Liberia. Þar var moll og fullt af fínum skyndibitastöðum. Í svona bæ í Nica gæti maður í í mesta lagi fundið sér sjálfdauðan brasaðan kjúkling að borða í fáförnu lókal mötuneyti, tja, eða bara grænmeti á markaðnum. Við renndum lengra, forvitin að vita hvort það rigndi líka á Costa ríkískum ströndum. Og já, það var rigning og ströndin og víkin var nánast nákvæmlega eins og San Juan del Sur þar sem við gistum í Nica. Fyndið. Alveg eins nema fullt af hvítum túristum! Það sér maður ekki í Nica. Fullt af venjulegum túristum í vel pressuðum stuttbuxum og stuttermaskyrtum og nóg af fínum hótelum sem þót voru ekki enn klædd að utan með speglagleri. Og svo voru vestræn looking kaffihús og ef mér skjátlast ekki að hafa séð matseðil fyrir utan eitt kaffihúsið á þýsku... Þetta er fyrsta ströndin eftir landamærin og sú sem er lengst í burtu frá San José, höfuðborg Costa Rica, en samt var matseðillinn á þýsku - geri aðrir betur. Og allir töluðu ensku. Í San Juan del Sur (sem þó er aðaltúristaströndin í Nica) tala kannski 3 ensku - og það er ekki sjéns að þú hittir á þá. Spænska er það eina sem virkar í öllu landinu. Í Costa Rica svissaði ég yfir í enskuna, eða tja, reyndi það, spænskan kom reyndar svo automatískt að ég átti erfitt með það hrós hrós hehe! Það sem gerði svo út um samaburðinn var markaður sem við römbuðum inn á á þessari strönd. Það var eiginlega hrikalegt. Svona túristadrasl í öllum regnboganslitum, það sama og ég sá á Spáni þegar ég var 10 ára, það sama og ég sá á strönd í Tælandi fyrir nokkrum árum og það sama og ég sá á Krít í hitteðfyrra! Sá sem framleiðir þetta er snillingur í markaðssetningu! Allt það sama, bara merkt mismunandi löndum. Og þegar maður sér sama skeljahálsmenið liggjandi í bunka með 500 öðrum þá bara langar manni ekki í það... Nei, þetta er ekki til í Nicaragua. Enda kannski engir túristar sem koma í beinu flugi frá Evrópu til að kaupa svona dót. Sem betur fer. Í San Juan del Sur eru einn og einn bakpokaferðalangur og svo nokkrir gringos að sörfa.
Ég fíla Nicaragua. Ég fíla orginalið sem er ennþá hérna. Við erum ekki drukknuð í túrisma þótt landið mætti vissulega fá inn tekjur af túrisma. Það kann að vera leiðigjarnt að borða brasaða kjúklingabringu og platanos en mig langar heldur ekki í Burger King á Nicaraguanskri strönd. Það er stemmningskiller.
Svo beisikklí var Costa Rica ekki sú paradís sem ég hélt, en ætli ég sé nokkuð dómbær á þetta. Costa Rica er ábyggilega paradís, þetta fer jú allt eftir því hverju þú ert að leita. Ég held auðvitað með Nica í einu og öllu og sá bara snefil af Costa Rica. Ströndin sem við fórum á hét Playa Hermosa, og jújú, hún var vissulega hermosa (falleg) - en Nica bara fallegri.
Mér fannst auðveldara að skrá mig aftur inn í landið, þótt það væri nákvæmlega sami prósessinn í sömu löngu röðinni og kaosinni. Það var bara gott að vera kominn heim.
föstudagur, október 19, 2007
Um lönd og strönd
Kem vonandi heim með skjaldbökuvídeó í farteskinu.
Alla vega nokkrar freknur.
fimmtudagur, október 18, 2007
Hugmyndaríkið
Í allri umræðunni um það hvað ég á að verða þegar ég kem heim og þegar ég verð stór kom félagi minn með tillögu að því að ég yrði "vídeóblaðamaður". Mér líst alls ekki illa á þennan spennandi starfstitil hvað sem hann nú ber með sér, en það væri án efa hægt að gera skemmtilega sketsa um hversdagslega hluti heima og bera fram á öðruvísi hátt. Ég er nú þegar með fullt af hugmyndum. Í kjölfarið kíkti ég á sviðsljósið á mbl.is með Ellý (var að heyra af því) og æi hvað það er nú ekki skemmtilegt. Hrikalega frægt og innantómt eitthvað. Ekki mín hugmynd um góða vídeóblaðamennsku. En þetta er samt flottur titill. Kannski ég fari og geri heimildamyndir í frístundum, en ég og ein vinkonan lumum þar einnig á nokkrum hugmyndum. Æ, hvað það er samt gott að eiga hugmyndir. Maður fær þó hugmyndir þótt það verði kannski lítið úr þeim. Kannski verður einhvern tímann eitthvað úr einhverju. Eins og til dæmis hugmyndin að því að skrifa bók. Sem verður kannski að einhverju meiru ef ég verð dugleg. Ég hringdi í bókaforlag í dag og þeir vilja fá handrit til að skoða og meta hvort ég sé útgáfunnar virði. Úbsí, ég vissi ekki að maður þyrfti að skrifa bókina fyrst og svo sjá hvort maður fengi hana útgefna eða ekki. Ég reyni kannski við fyrsta kaflann og sendi og athuga stöðuna. Ef þið eruð með sambönd í bókaforlögin endilega látið mig vita!
Hugmyndir já. Koma og fara. Ég veit nú ekki hvort ég sé hugmyndarík en ég þakka fyrir að fá alla vega hugmyndir, hversu vondar sem þær geta verið. Það er oftast ein góð sem laumast með inn á milli. Ég elska til dæmis að breinstorma eftir lausnum, þá fær maður milljón útópískar ógerlegar hugmyndir þangað til maður finnur þá réttu að lausninni. Ég veit hreinlega ekki hvort það var mín hugmynd að skrifa bók um reynsluna hér eða hver það var sem sagði mér að prófa. Þegar ég var lítil stúlka (ég var einu sinni lítil, alveg satt) skrifaði ég í minningarbækurnar að mig langaði að vera rithöfundur og söngkona. Flestar stelpurnar vildu verða flugfreyjur, hárgreiðslukonur og hjúkkur. Ég söng með Witney Houston og í hárbustann fyrir framan spegilinn og skrifaði mikið af sögum og ljóðum. Ég skrifa stundum ennþá ljóð. Geymi þau í skúffunni, þau eru svona prívat tilfinningaopinberun sem ég svakalega feimin við að meira að segja lesa sjálf. Ég ákvað svo á óléttunni fyrir 4 árum að ég vildi skrifa bók í fæðingarorlofinu. Það var sem sagt þegar ég vissi ekki að fæðingarorlof væri ekki frí heldur erfið vinna þar sem maður er óútsofinn með bauga og stjórnað af hormónum. Og auðvitað varð ekkert úr þeim skrifum. Ekki frekar en að lesa allar bækurnar sem ég hafði sparað að lesa fram að orlofi og læra af sjálfsdáðum á gítar á meðan barnið svæfi. Right.
Hér úti í Níka hef ég verið dugleg að lesa, alla vega miðað við mig. Búin að hamstra hva, 4 bækur frá því ég kom. Yfir kertaljósi á kvöldin í rafmagnsleysinu. Maður dettur alveg inn´i bækurnar þannig. Barnið farið að sofa, kallinn líka að lesa eða á fótboltaæfingu, ekkert sjónvarp, ekkert net, og ekki æskilegt að fara út í myrkrið. Flugdrekahlauparinn hélt mér vel og gaf mér hugmynd um ókunnugan heim, Alkemistinn sagði mér hvernig maður stýrir sjálfur sínum örlögum, með því að velja, með því að vinna og með því að trúa á sig. Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn gaf mér pepp og vonandi innri ró þótt ég sé lítið fyrir jógað og Viltu vinna milljarð tók mig með sér aftur til elsku Indlands í svakalega skemmtilegri frásögn. Svo var ég að byrja á Sölku Völku...
Já, þessi lestur er góð þjálfun fyrir verðandi bókina „Súkkulaðikleina í Nicaragua“.
Eða hvernig líst ykkur annars á titilinn sem ég var að finna upp á rétt í þessu? Allar hugmyndir varðandi bókarskrif og útgáfu vel þegnar!
miðvikudagur, október 17, 2007
Forvitni
Daglegt brauð já, nema Vera er hætt með dudduna - á daginn sko. Hitt kemur síðar, eða þegar hún er orðin 5 ára að eigin sögn.
Sexí salsa
þriðjudagur, október 16, 2007
Rithöfundablaðamannaeventmanagermastersgráðumamman ég
En fyrst, athuga hvort ég geti skrifað um reynslu mína hér í Níka þegar ég kem heim. Án þess að vita nokkuð um það hvernig maður skrifar bók, hver gefur út, hvort maður tapi eða græði. Ef þetta verður skúffueintak sætti ég mig við það (not) og gef hana vinum og ættingjum í jólagjöf 2008.
Læt svo örlögin ráða rest. Reyni að stýra, velja og hafna og enda svo einhvers staðar í svakalega góðum málum.
Þá-er-það-á-kveð-ið.
mánudagur, október 15, 2007
Valkvíðakastið mitt
Og ég hugsa og hugsa en kemst auðvitað ekki að neinni haldbærri niðurstöðu.
Þess vegna fór ég einmitt í mannfræði, til að vita EKKI hvað lífið býður mér upp á vinnulega séð. Til að ganga nú örugglega ekki inn í eitthvað leiðinlega fyrirfram skilgreint starf sem lægi ljóst fyrir að mannfræðingar ynnu. Nei, ég valdi óvissuna. Og hef líkað hún vel. En stundum er þetta bara erfitt val! Ég hef verið minn eigin gæfusmiður hvað varðar að nýta menntunina í starfi og það hefur reynst mér vel. Ég kann að selja mig enda frábær þótt mannfræðina nyti ekki við. Möguleikarnir sem við mér blasa þegar ég kem heim eru margir og alls konar og ætli ég þjáist ekki af valkvíða fremur en að það sé lítið úrval möguleika. Þeir sem heima eru segja mér að atvinnumarkaðurinn blómstri. Ókey, gott og vel, ánægjulegt að heyra, en ég sé samt bara auglýsingar í Mogganum fyrir viðskipta- og lögfræðinga. Sem er ekki ég. HVAÐ vill Erla perla gera? Í hverju ætlar hún að brillera næst? Hverjum á ég að selja mig? Ég hef eitthvað verið að gæla við þá hugmynd að fara í skóla næsta haust og skrifa og leika mér þangað til (og sleppa því þá að kaupa föt þangað til eh...), en á maður að vera að mennta sig þegar markaðurinn er svona opinn og öflugur? Og ég veit ekki einu sinni hvað ég myndi vilja læra. Valkvíði. Sem er jú víst betra en að hafa ekki val eins og þorri þeirra háskólanema hér í Níka sem útskrifast og brillera og fara svo að keyra taxa fyrir smáaura eða vera atvinnulaus í mörg ár. Svo ég er ekki að kvarta til að vera með það á hreinu, ég er bara að ræða þetta við ykkur. Ykkur já.
Hvað finnst þér að ég eigi að verða þegar ég verð orðin stór (eða bara þegar ég kem heim)? Komdu með það, ég er tilbúin og tek öllum hugmyndum fagnandi!
Eldfjallaferð milli gusa





föstudagur, október 12, 2007
El mercado
Gjöriði svo vel, Huembes el mercado.
fimmtudagur, október 11, 2007
Cowboys í Camoapa


þessi kábbojstígvél eru úr plasti en seljast grimmt
að passa hestinn
prik er líka leikfang
Hjálparvatn






gamla amman týndi síðustu mangóin af trénu handa okkur sem Eunise bjó svo til dýrindis safa úr
eldhúsið
og svo hópmynd - ég veit að ég er stór, en þau eru samt mjög lítil líka!