<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júlí 28, 2006

AfmælisVeran 

Afmælisveislan í Stokkhólmi var æði. Bleik vel skreytt kaka (þarf að fara á kökuskreytingarnámskeið - það var eins og einhver 2ja ára hefði skreytt) og tvö kerti sem Vera þurfti að blása ansi oft á, þ.e. ég kveikti á þeim svona hundrað sinnum og mín blés, eða hélt að hún blési, ég aðstoðaði aðeins fyrir aftan eins og vera ber. Svo voru það bara fullt af litlum berum bossum úti í garði að sulla. Svo útlenskt og æðislegt eitthvað.
Stefnum á íslenskt afmæli í næstu viku og óska þess að það verði sól til að fá sumarfílinginn (og að geta hent börnunum út í garð!).

Við erum sem sagt komnar heim og leggjum af stað í annað ferðalag, eilítið styttra, rétt á eftir. Stykkishólmur (næsti bær við Stokkhólmur!) er áfangastaðurinn og hlökkum við mikið til að upplifa íslenska sumarnáttúru þar í faðmi fjölskyldunnar. Koma svo sól!


Og blása!


Vera fékk margt fallegt í afmælisgjöf í Stokkhólmi, og þar á meðal þennan frábæra og lágværa síma!


Gaman að sulla!

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Afmælisstelpan mín 

Í dag er Vera Víglunds 2 ára!

Það var fyrir tveimur árum sem ég barðist við að koma henni í heiminn, og það tók á. Án efa æðislegasta, skrýtnasta og mest spennandi stund sem ég hef upplifað. Hér má lesa um fæðinguna fyrir þá sem vilja vita eða rifja upp (1. ágúst - Hún er fædd).

Tveggja ára Vera er yndisleg vera.

Hún er næstum orðin altalandi og talar mikið. Ok, ætli það komi ekki frá mér. Hún getur stundum ekki sofnað á daginn þegar ég reyni að rölta með hana til að hún hvíli sig fyrir sjálfri sér talandi. Það er allt svo spennandi: "Mamma, sjáu bíll, gulur bíll, pabbi á líka gulan bíl, pabbi í vinnunni, pabbi elska Veru sína, mamma líka, Vera líka, allir saman..." Bla bla út í gegn um allt og ekkert. Svakalega sætt. Og svo gaman að geta virkilega rætt málin við hana og hún skilur mig og ég hana.

Vera kann orðið fullt af lögum, og syngur sum alveg sjálf, eins og Allir krakkar, Gamli Nói, Atti Katti Nóa og að sjálfsögðu Hún á afmæli í dag. Hún hefur greinilega gaman af því að syngja, enda eins gott, mamman er sígaulandi. Reyndar er eitt nýtt hjá henni þegar ég syng hátt eitthvað lag sem er henni ekki að skapi: "Mamma hæææættttu!!!". Já ok...

Vera er frekar róleg en ég sé hér úti í Stokkhólmi að það er samt töggur í minni. Lætur ekki auðveldlega rífa af sér og getur verið jafn frek og öskrandi reið eins og aðrir 2 ára eiga að vera. En það er yfirleitt afar auðvelt og fljótlegt að tala hana til. Bara að segja henni sögu af hesti eða hundi myndi laga ansi margt!

Svo er aðalfréttin náttúrulega sú að daman er farin að pissa í kopp. Hún er búin að vera mikið bleyjulaus hér í hitanum í Sverige og Skarpi frændi var farinn að pissa í kopp. Svo mín fór bara líka að segja til og nú er aðalsportið að pissa sem oftast í koppinn. Glæsileg frammistaða!

Ég gæti talað endalaust um dömuna mína, en læt hér staðar numið þar sem ég þarf að fara að undirbúa sænska afmælisveislu. Það verður að sjálfsögðu bleik prinsessukaka :)


sunnudagur, júlí 23, 2006





Og fleiri sem af einhverjum orsökum vildu ekki birtast í gær.
Get bara ekki sleppt því að sýna ykkur þessar snúllur.
Og svo meira seinna.
Heij.
E

laugardagur, júlí 22, 2006

Sumar og sól í Stokkhólmi 

Vera og Skarpó frændi eru í góðum gír hér í Sverige eins og sjá má.
Þau rífast ekki neitt (nooooooot!) og við mömmurnar erum ekkert að verða gráhærðar á þeim á köflum heldur(nohooot!).

En þau eru svo sæt, svo þessum krúttlegu frændsystkinum er það algjörlega fyrirgefið að vera tveggja ára ákveðnar frekjudollur og rifrildahundar.







sunnudagur, júlí 16, 2006

Ég fer í fríið 

Ég átti að vera komin í frí í síðustu viku, Vera er í fríi og því engin önnur leið en að fara einnig í frí. En hef unnið heilan helling samt sem áður í vikunni enda kallar nýja vinnan á að maður standi sig ;). Ég verð að segja frá því hvað Vera er búin að vera svakalega góð sl. viku, er búin að vera úti um hvippinn og hvappinn í pössun, hér og þar og alls staðar - og er alveg sama! Hún er búin að vera í pössun hjá litlum frænda og svo líka lítilli frænku, hjá Selmu æðislegu pössustelpunni okkar, svo hjá afa Sigga og ömmu Jónu og síðast en ekki síst fór hún alveg sjálf á gæsló. Ekki málið fyrir mína. Reyndar hefur málamiðlunin oft verið sú að hún sé að fara að passa litla frænda, litlu frænku eða voffann hans afa Sigga, en ekki að hún sjálf sé að fara í pössun. Og svo spyr hún: „Mamma innuna? Mamma sækja Jejju?" (mamma er að fara í vinnuna, mamma ætlar þú svo að sækja mig?) og þegar það er komið á hreint er málið klárt. Svo mikil hetja þessi mús!

Við Vera erum svo á leið í alvöru frí á morgun og það í heila 10 daga. Skiljum pabbann eftir með verkefnin og ætlum að heimsækja uppáhaldsfólkið okkar í Stokkhólmi. Við munum reporta þaðan eins og við nennum, en það verður víst 25 stiga hiti og sól þar svo ég garantera ekki að ég muni ekki liggja flatmagandi í sólinni, sveitt og slök, ekki nennandi neinu. Reyndar mun Vera halda upp á 2 ára afmælið sitt í fríinu, en stefnum líka á afmælisveislu þegar heim er komið, en það verður auglýst síðar (þegar ég ákveð hvenær ég nenni að baka...)

Hejdo í bili mine venner.
E


Bö!


Vera að sinna áhugamálinu sínu - belti eru málið í dag sem endranær


Þessi stelling er flott - rimlarnir á milli táslanna er klassísk svefntelling fyrir Veru


Sofandi sæt - og í sætri stellingu!


Hlaupagarpur


Vera að sýna okkur að hún er með píkó - eins og hún kallar það hehe...

laugardagur, júlí 15, 2006

Mér finnst rigningin góð... 

...þótt smá sól inn á milli sé nú allt í lagi líka.

Neibb, engin Hekluganga þessa helgi vegna veðurs.
Við Vera höfum nú samt verið duglegar að hitta fólk í þessari rigningar-inniveru og sjáum sólina okkar m.a. þannig.
Hér má sjá nokkra sæta krakkalakka sem við höfum nýlega hitt. Myndirnar eru svo sætar (þ.e. krakkarnir!) að ég hreinlega tími ekki að birta þær ekki.


Vera og Auðun Gauti tjilla saman undir teppi


Vera heldur á verðandi vinkonu - nýfæddri óskírðri Óskar- og Hilmarsdóttur


Hanna Hulda Ebbudóttir og Vera í röndóttum fíling


Vera og Jón Frímann minnsti frændi sem býr lengst í burtu á Ólafsfirði


Úti í rigningunni með Margréti Líf frænku og Anotoni Karli frænda


Fína stelpan hennar mömmu sinnar á leið í afmælisveislu


Valur Björn Ellu-Dóru og Atlason kom alla leið úr sólinni í Californiu í heimsókn til okkar


hehe


Úlfhildur frænka og Vera Víglunds


Vera og uppáhalds Úlfurinn okkar að háma í sig jarðaber

fimmtudagur, júlí 13, 2006

Alveg lost 

Horfði á síðasta þáttinn af Lost á mánudagskvöldið var, nema ég vissi ekki að það væri síðasti þátturinn. Ég hafði áður horft á þennan sama þátt, en ég hafði keypt mér hann á netinu. Fattaði þá ekki heldur að þetta hafi verið síðasti þátturinn. Svo bara var þetta síðasti þátturinn. Oh. Alveg eins og í seríu eitt fattaði ég ekki að síðasti þátturinn hafi verið síðasti þátturinn og var alltaf að bíða eftir síðasta þættinum. Ok, ég er fattlaus, en hei. Þetta endar aldrei. Soldið pirrandi. Allt gerist svo lúshægt og svo gerist bara ekkineitt.

Horfði svo á síðasta þáttinn Despó og skildi það aðeins betur. Ætli það þýði ekki bara að ég sé eilítið meira desperate heldur en lost. Eða eitthvað. Despó endaði illa, eru svoldið svartsýnir þættir. Örugglega raunsæir líka. Morð, lyki, svik og framhjáhöld. Neeeee... mitt líf er ekki alveg svona desperate. Bara smá plat í mesta lagi. En ég fíla þættina. Betra en að vera endalaust lost.

En hvað á maður nú að gera þegar síðustu þættirnir í seríunum sem ég fylgdist með eru búnir? Magni er ekki það magnaður að ég tolli til að horfa á rokkþátt gamalla sukkaðra kempa. Og ekki fær maður sér kvöldgöngu í sumarsólinni þetta sumarið.
Kannski bara meira blogg/bögg/bull.

mánudagur, júlí 10, 2006

Helgin mín fín 

Sumar helgar eru bara skemmtilegri en aðrar. Síðastliðin helgi var svoleiðis helgi. Og ég er með svona sumar-djamm-helgar-fiðring í maganum. Vill helst alltaf hafa þetta svona.

Djammið á föstudagskvöldinu var náttlega engu líkt. Beztu Gallupstelpur í heimi í grilli og góðum djammgír. Ég tók ítalska vinkilinn á matinn og hann sló alla vega í gegn í mínum maga. Við erum snillingar í drykkjuleikjum og því að leika okkur yfir höfuð. Við dönsuðum við allt píkupopp veraldarinnar og nýja parketið mitt fékk alveg að finna fyrir djammandi pinnahælum. En ég er bara búin að ákveða að þetta er gólf til að dansa á og hana nú.

Árleg ferð tengdafjölskyldunnar upp í bústað var einnig þessa helgi. Ég þaust upp í bústað eftir djammið þar sem Vera og Viggi og allir hinir 29 biðu mín. Já, allur skarinn telur 32 manns hvorki meira né minna og þið getið ímyndað ykkur fjörið. Það voru settar upp rólur og rennibraut fyrir barnaskarann sem telur 15 barnabörn. Geri aðrir betur.

Svo toppuðu Ítalirnir mínir helgina með því að vinna. Þeir áttu þetta alveg skilið, voru laaaaangsætastir.

Svona eiga helgarnar að vera. Sitt lítið af hvoru, dansdansdans og smá sveitastemming í bland (gisti sko ekki í tjaldi!).
Hver vill vera memm næstu helgi á Heklu?


Stórfjölskyldan Helgason ehf i Eilífsdal um helgina


Hér má sjá fríðan hóp Gallup(sumar fyrrverandi en so what)kvenna. Við kunnum alla vega að pósa.

föstudagur, júlí 07, 2006

Ok, ég skal alveg segja ykkur frá því að þrátt fyrir að vera þokkalega vel komin inn í vinnuna mína nýju, að þá er þetta annar morguninn sem ég keyri óvart á gamla staðinn í vinnuna. Já, ég tók ranga beygju í Borgartúninu bæði í morgun og í gærmorgun og var alveg að fara að leggja bílnum þegar ég fattaði að ég ætti að vera 2 húsum frá...
Hemmm...þetta er sem sagt allt að koma.

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Nýherjinn ég 

Þá er ég svona alltaf betur og betur að komast inn í málin í vinnunni. Ég er samt ábyggilega ennþá vitlausasta manneskjan á staðnum sem er alltaf pínu erfitt tímabil. En ég finn að þetta er að koma. Ég er ekki eins ringluð og áður og veit nú hvar klósettið er og hvað nokkrir heita. Svo er ég búin að læra alls konar ný tæknileg orð sem ég get slegið um mig með í réttum hópi fólks. Ég er að vinna við skemmtilega hluti, mér líður eins og ég sé að plana brúðkaup eða annan skemmtilegan viðburð á hverjum degi, enda það hluti af vinnunni minni. Nema hvað að ég hef nokkrum milljónum meira til að eyða, jibbíííí!Fartölvuherferð, Golfmót og tæknisýning...iss piss, tek þetta hælinn!

Mórallinn er fínn, öðruvísi en á gamla staðnum, en samt mjög fínn. Þegar maður var rétt svo að ná að venjast opna rýminu í Gallup finn ég að það muni taka mig jafn langan tíma að venjast bláu loðnu skilrúmunum á milli mín og annarra samstarfsmanna. En ég er búin að hengja alls konar fínt dót á skilrúmið , eins og vinkonumyndir, vinnusímanúmerið mitt sem ég get ekki munað og Ítalíupóstkort, svo það hefur víst vissan tilgang. Teppið á gólfinu er víst líka gott upp á hljóðdempun að gera. Mötuneytið er alltof gott og starfsmannaafslátturinn af tækjum og tólum hættulega góður.

Ég held það fari bara að koma tími á að plana grillpartý fyrir nýju vinnufélagana. Svona til að halda dampi og komast út fyrir rammann.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Jejja 

Um að gera að skrásetja það að litla múslan mín hún Vera er farin að fallbeygja! Hún fer til Ömmu og mamman sækir JejjU. Djísús hvað hún er bræt. Svo kann hún allt í einu að segja G og K og er því mun skýrari heldur en fyrir viku síðan. Amma Gunna er því ekki lengur Tunna hehe. Svo kann hún allt í einu löng og flott orð eins og Stefanía (dedanía), Kanína og afmælispakki (ammaípakki). Um helgina þegar við fundum ekki hjólahjálminn hennar (en fórum samt út að hjóla og allur Hafnarfjörður horfði á eftir okkur eins og mamman væri raðmorðingi) tautaði mín allan daginn: „Mamma bæinn kaupa hjám á Jejju“. Jahérna. Samt spurning hvenær henni tekst að segja nafnið sitt.

sunnudagur, júlí 02, 2006

Innipúkinn ég 

Ég er ekki búin að fara í neina útilegu í sumar. Ég sem var alltaf á fleygiferð út um landið á sumrin áður fyrr. En núna hreinlega nenni ég því ekki. Nenni ekki að hafa mig af stað, pakka heilum haug af alls kyns fötum (bikiní og kuldagalla) lenda í rigningu og kulda, vakna sveittheitur og myglaður í lekandi tjaldi... æi, nei. Ég held meira að segja að ég verði innipúki um verslunarmannahelgina.

Mér finnst orðið þeim mun skemmtilegra að halda eða fara í góðar innanbæjar-grillveislur á sumrin. Þessa helgina var fullt af fólki í mat hjá okkur, í vikunni verður ítalskt upprifjunarkvöld með hvítvín í annarri og parmaskinku í hinni og helgina næstu verður langþráð gallupgellugrill sem er miklu meira fjör en útilega getur nokkru sinni orðið, en m.a. er drykkjukeppni, brjóstakeppni og trúnó á hæsta stigi á dagskránni. Sem sagt djamm þar sem maður er í pæjufötum, getur farið í sturtu daginn eftir, sefur í mjúku rúminu sínu, er ekki með hor í nös af kulda og þarf ekki að drekka hvítvínið úr plastglasi. Æi, ég bara nenni þessu ekki þetta sumarið! Kannski kemur þetta einhvern tímann aftur. Ég er á soldið nennissekki tímabili núna. Allar breytingarnar í lífi mínu kalla á letibykkjuna í mér og normið.

Ég stefni þó á að ganga fljótlega á Heklu, það er ennþá smá fjallgönguneisti í mér. Verst hvað ég er í lélegu formi eftir allar grillveislurnar og sukkið. En þeir sem þekkja mig vita að ég kemst langflest á þrjóskunni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker