<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

KissíKiss 

Mér finnst gaman að taka myndir og Veru finnst myndavélin orðin vægast sagt spennandi. Hún þarf að skoða allar myndir sem ég tek af henni og svo fer hún reglulega í göngu um húsið og tekur myndir af því sem henni finnst merkilegt. Þyrfti að sýna ykkur afraksturinn. Þið hafið kannski líka tekið eftir því að Vera er búin að þróa mjög frambærilegt fyrirsætubros eftir allar myndartökur móðurinnar sem er frekar fyndið. Þegar henni finnst hún hafa gert eitthvað glæsilegt, hvort sem það er t.d. að teikna fína mynd, byggja turn, rugla hárið á sér út í loftið eða skella sér í skó af mömmunni kallar hún oftar en ekki: "Maaammma, taka mynd"...!

Vera myndasmiður tók þessa mynd af mömmunni"Mamma, við að skittast á" -mamman átti svo að taka mynd af Veru
Mamman setti svo upp myndavélakissustútinn af gömlum vana...


og litli apakötturinn tók greinilega eftir skrýtnu brosinu mömmunnar...


Sækjast sér um líkar?

:)

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Tvö ár og sjö mánuðir... 


...síðan Vera fæddist.

Í dag er uppáhaldsleikurinn sem fyrr mömmó. Vera er mamma allra dúkkanna sinna. Nýlega eru þær samt stundum litla systir hennar. Hún er allt í einu að missa sig yfir litlum börnum og sagði um daginn að hana langaði í litla systur. Ég svaraði rólega (áhugaleysislega?): Já, já, kannski seinna. Þá kom frá minni: "Nei mamma, NÚNA!".

Vera talar orðið fyrir dúkkurnar sínar, aðallega með mjórri röddu"mamma, mamma... mamma mín" og "mamma mín, ég elska þig", voða fallegt. Umönnunarhæfileikar Veru eru ómældir, hún er sífellt að hugga, gefa, pakka inn, svæfa, lesa fyrir dúkkurnar og knúsa þær. Aðrir leikir núna er að Veru finnst gaman að leika kisu, þ.e. að vera kisa. Sem heitir Mjása. Þegar hún hrekkur í þann gír skríður hún um húsið mjálmandi og biður um mjólk að lepja. Þá er líka vinsælt að leika Mikka ref. Röddin breytist og hún brettir upp á litla nefið sitt og segir: "Á ég að éééééta þig?".

Vera í flottu sparikápunni minni hér myndinni til hliðar (hvernig finnst ykkur húsið þarna í bakgrunni?!)


Kaffiboðsleikur er nýtt fyrirbæri hjá Veru. Þá lokar hún sig inni í herbergi og kallar svo eins hátt og hún getur: "Maaammma, gakktu í bæinn". Þá á ég að banka og hún opnar dömulega og segir: "Viltu ganga í bæinn? og "Viltu kaffi?" Hún hellir þá upp á kaffi með því að gramsa lítið eitt í eldhúsinu sínum og svo sitjum við eins og tvær hefðarfrúr og sötrum ímyndað kaffi með múmínbollastellið hennar. Svo verðum við að hræra reglulega í kaffinu með skeiðinni af því það er svo heitt. Eins er hún mikið í því núna að gefa mér alls konar afmælispakka. Pakkar einhverju dóti sem hún á inn í teppi eða einhver föt, eða setur í tösku og gefur mér. Þá á ég að segja takk og knúsa hana fyrir.

Um daginn sullaði Vera niður mjólk á borðið þegar hún var að borða seríósið sitt og sagði: "Hei, mamma þú verður að sjá - það er mjólkurkind á borðinu okkar". Ímyndunaraflið er s.s. alveg í lagi.

Vera er alltaf dugleg að segja mér fréttir af leikskólanum: "Bryndís var veik í dag". "Stefán pabbi hennar Sóllilju kom að sækja hana". "Bríet Dalla var að lemja Hrefnu Sif. Hún fór að gráta og ég var að knúsa hana"... oooooo músin mín.


Nýjasti frasinn: Guð minn góður!


Vera búin að búa til afmælispakka úr pabba sínum

Mamman Vera að lesa fyrir barnið sitt


föstudagur, febrúar 23, 2007

Hlaupadjamm 

Stelpupartý og þrítugsafmæli er það sem er á döfinni þessa helgina. Útstáelsinu mun greinilega seint linna hjá mér, jafnvel ekki fyrr en ég leggst hreinlega í gröfina. Gaman að því. En ég er að taka mig á, ætla að vera róleg, drekka sprite í klaka til að vera hress og njóta fjölskylduleiks helgarinnar. Og svo tekur maður jafnvel í krossarann eða fer út að hlaupa ef veðrið verður gott. Já, ég ákvað það í dag að reyna við 1-2 víðivangshlaup í vor, 10 km. Sá á www.hlaup.is að Víðivangshlaup Hafnarfjarðar er 19. apríl og ekki seinna vænna en að fara að æfa sig betur í útihlaupi. Og bæta jafnt og þétt við vegalengdina. Þá hlýt ég að drattast þetta. Á endanum. Útihlaupin mín eru nú orðin ALVEG 4 talsins en vonandi mun bætast jafnt og þétt í sarpinn á næstu vikum þar sem skipulögð útihlaup með vönum hlaupurum í hádeginu eru á dagskrá. Sjávarsíðan hér við Borgartúnið er auðvitað ídeal æfingasvæði og Laugardalurinn líka segja þeir vönu.

Ég er komin með nýjan hlaupavænan Ipdod sem ég er búin að ákveða að gefi mér slatta kraft undir seglin. Svo óska ég mér alls kyns girnilegs hlaupadóts í afmælisgjöf til að peppa mig upp: Hlaupaúr, hlaupabuxur (vetrar og sumar með stuðningi við kálfann!) hlaupajakka, hlaupahúfu, hlaupasokka... Jamm, það er víst allt svona hlaupa hitt og þetta til. Ég veit alveg að það eru meira en 2 mánuðir í afmælið mitt en hei, ég er afmælisstelpa og þetta var fyrsta auglýsingin. Mig vantar þetta náttúrulega mjög nauðsynlega til að skrúfa upp hlaupaímyndina. Árangurinn fylgir svo kannski jafnvel hugsanlega í kjöfarið.

En guðminngóður, ég ætla svo sannarlega að vona að þið haldið ekki að ég sé orðin voða öflugur hlaupari, ó nei, því fer fjarri. EN mun betri nú en áður þar sem ég var jú arfaslakur hlaupari sem rétt komst kílómeterinn, illt í hnjám og baki, móð og másandi. Það er liðin tíð þótt ég verði nú seint hlaupameistari.is. Bara alltaf gaman að eignast nýtt áhugamál.is. og gaman að sjá árangurinn þótt hægur sé.

Árangurinn birtist líka í almennri vellíðan ásamt því að sjást á kílóafjöldanum en það eru þó nokkur kg farin frá því ég byrjaði hlaupin í haust. Einhver hrósaði mér með þeim orðum að ég væri orðin eins og "blað í vindi". Ég veit ekki hvort það sé kúl eða ekki og veit ekki hvernig blöðum í vindi líður, en ég hef það fínt. Held meira að segja að ég hafi séð (örugglega ímyndaðan) sixpakk í speglinum um daginn. Sá reyndar líka ennþá beyglurnar á lærunum en það er aukaatriði...

Meira um hlaupin síðar.
Djammið líka.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

ÖskRudagur 

Vera mús tilkynnti mér í gær að það væri sko öskRudagur á morgun - og svo rak hún einmitt upp skaðræðisóp eins hátt og hún gat!
Vera álfaprinsessa á leið á leikskólann í morgun
Hér má sjá Veru Víglunds vel málaða fyrir daginn og með augabrúnir í fyrsta sinn (teiknaðar reyndar en samt smart!)

Litla nýja Baby Born (dúkkan HEITIR það) sem amma Gunna kom með frá útlöndum í gær fékk að fara með á leikskólann til að öskra.

Vera á annars orðið þó nokkrar dúkkur, enda það í raun það eina sem hún leikur sér eitthvað með - ásamt dúkkufylgihlutum. Henni hefur ekki enn tekist að gefa þeim nafn þrátt fyrir að við höfum reynt ýmislegt saman. Nei, henni finnst ekkert passa og því heita þær: Stóra dúkka, Baby Born, Litla dúkka, Mjúka dúkka, Dúkka með hárið og svo nú Litla nýja Baby Born.

Svo er smá saga um uppáhaldstuskubrúðuna hana Kanínu - sú hét alltaf bara Kanína þar til allt í einu í gær, þá skyndilega hét Kanína Karen Rósa. Ég komst að Karen Rósa er nýfædd systir einnar stúlkunnar á leikskólanum... Vera strauk Karen Rósu sinni umhyggjulega um ennið og knúsaði hana í hálsakotið á sér og sagði með mjúkri móðurlegri röddu: Karen Rósa er litla systir mín. Ég er mamma hennar. Mamma - ég langa í litla systur!

Jahérnahér...

Sjálf ætla ég að vera tígrisdýr í dag - mjá.
Gleðilegan öskrudag öll sömul.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

E+A - like this! 

Ég og Andrea Gylfa vorum alveg að rokka í síðustu viku þegar ég fór í minn fyrsta söngtíma til hennar. Hún kenndi mér öll blús og jazz söngtrixin sín og mér leið eins og sannri söngstjörnu. Í klukkutíma. Fyrir tímann þurfti ég sjálf að finna nótur af lögum sem ég vildi syngja, fyrir píanóleikarann, og var það alveg ný upplifun fyrir mig að koma inn í tónlistarverslun til að kaupa nótur. Þarna voru rokkarar með sítt svart litað hár með rót niðrá axlir að prófa rafmagnsgítara og aflitaðir popparar að hrista hristurnar sínar. Groovin´it. Allir voða tónlistarlega flottir og klárir og ég fékk snert af öfund. Af hverju fékk ég ekki að læra á gamla orgelið sem við áttum í den? Demit. Alla vega, röddin verður þá bara að vera mitt eina hljóðfæri. Ég ætlaði að læra sjálf á gítar í fæðingarorlofinu en komst einhverra hluta vegna (kannski barnsins vegna?!) ekki í það. Tek námskeið í það einn daginn.

Í tónlistarbúðinni byrjaði ég á því að fletta í bókum og möppum í von um að finna einhver girnileg lög en komst fljótlega að því að ég þekkti nú alls ekki mikið af blús og jazzlögum. Og hvað þá að ég fyndi réttar nótur. Kínverska er mér jafn skiljanleg og nótur. En tónlistarsnillingurinn í búðinni tók mig upp á arma sína. Hann fékk smá söngprufu hjá mér og vissi þá upp á hár í hvaða tóntegund ég þyrfti nóturnar af Summertime.
Ég: Ha, E- moll, D-dúr, fís... Ssíííís ?!

Fyrir tímann á morgun fékk ég heimaverkefni um að æfa víbratóið og að impróvisera með lagið, syngja út fyrir laglínuna ásamt því að setja blústilfinninguna í lagið. Ég er sígaulandi og finnst ég strax orðin mun betri en fyrir tímann. Vera er hins vegar strax byrjuð að sussa á mig og það eru 9 vikur eftir....

Ó sumartími....

Kv,
Erla Gylfa

mánudagur, febrúar 19, 2007

Í nefið 

Verður maður ekki að standa með sínum líkum og segja að maður sé sáttur við Eika Hauks í júróvisjon. Ég held það. Hann er reyndar ekki með mér í Rauðhærðaklúbbnum en það er sama, ég veit hvað hann hefur gengið í gegnum. Eiki var vel meikaður í keppninni á laugardaginn en hárið var jafn reitt og tætt og rokkaralegt og alltaf. Rauði glansinn aðeins farinn að dempast svona eins og gengur og gerist með aldrinum. Og Jónsi tapaði með tískuklippinguna sína og ber brjóstin. Mikið hefði ég gefið fyrir eitt heitt vonbrigðisviðtal við hann eftir að fyrsta sætið var tilkynnt. Kannski kríuskítskamburinn sé bara dottinn úr tísku og rauður makki frekar málið. Erla perla segir auðvitað já takk við því.

Og á meðan þetta er að gerast á litla Íslandi sem þykist nú vera hippogkúl og móðins miðað við alla hina, þá rakar Britney Spears af sér hárið úti í alvöru heiminum og tekur Eika Hauksæðið okkar í nefið - isssssssssssssssssssssss....

Bolla bolla 


Erla kerla myndarlega 


Jamm, mín er farin að bródera! Eða kallast það ekki örugglega það þegar maður saumar svona krosssaum?! Það held ég. Ég keypti þetta ókláraða listaverk af listakonu fyrir fimm árum síðan og hef hvorki haft eirð né tíma þar til núna að byrja á þessu.

En ég er byrjuð og stefni á að klára þetta á árinu (svona listaverk eiga víst að vinnast hægt sagði mér einhver sérfræðingur). Takið eftir því að myndin er ekki einu sinni máluð á strigann heldur þarf ég sko að telja út eins og ekta bróderingakerling. Einn daginn verður þetta flottasti púðinn í höllinni.
Erla kerla.
Posted by Picasa

Posted by PicasaTakið eftir gríðarlega vönduðu handbragðinu (getur verið að ég hafi aðeins ruglast þegar ég bróderaði eins og vitleysingur í fluginu til og frá Egilsstöðum um daginn??)

laugardagur, febrúar 17, 2007

Krossaradagur 

Í dag var krossað í Sandvík á Reykjanesi
Posted by Picasa

Viggi
Posted by Picasa

Sandkassaleikur
Posted by Picasa

Posted by Picasa

Ekkert smá kúl leiksvæði þarna í fjörunni
Posted by Picasa


Erla perla gerði sitt besta í sandinum
Posted by Picasa

Alveg þokkalega ánægð með árangurinn - sandurinn er erfiður og ég er nokkuð TOT eftir átökin og skelf vel í handleggjunum þegar þetta er skrifað!
Posted by Picasa

Posted by Picasa

Posted by Picasa


SandvíkinPosted by Picasa

föstudagur, febrúar 16, 2007

Erla perla á Egilsstöðum 

Egilsstaðir voru afrek. Ég tók flugið á hælinn þrátt fyrir notalegan strekkingsvind eins og flugstjórinn kallaði ókyrrðina á leiðinni. Ég greip bara einu sinni LAUST í arminn á samstarfsfélaganum (var búin að heita mér því að grípa ekki í lærið á honum sama hvað myndi ganga á) á leiðinni austur og var slök sem slefandi áhyggjulaust barn á leiðinni heim (ekkert andvarp og hvað þá grip!). Á leiðinni las ég bæði Moggann og svo bróderaði ég eins og brjáluð væri í mestu hossunum. Taldi út og einbeitti mér að listaverkinu mínu. En púlsinn var normal og ég svitnaði ekki dropa. Ég er ennþá með flugriðu eftir ókyrrðina en hræðslan er farin. Jibbí - ég er útskrifuð innanlands sem utan!

Egilsstaðir eru pínulítill bær að mér virtist. Alla vega miðað við Hafnarfjörð og að þetta eigi að heita höfuðstaður Austurlands. Ég hafði einu sinni áður komið á Egilsstaði, fyrir fjórum árum þegar við Viggi þræddum hvern einn og einasta austfjörð í sumarfríinu okkar. Þá stoppuðum við stutt við, kíktum á Hallormsstað, á Skriðuklaustur, í Bónus og fengum okkur kaffi og köku í sólinni á kaffihúsi bæjarins. Í gær var hins vegar dimmt yfir og grenjandi rigning og ég sá alls ekki svo mikið út um móðukennda gluggana á bílaleigubílnum frá flugvellinum og að fundarstað. Í aðfluginu sá ég að Lagarfljótið var gaddfreðið og mér sýndist ormurinn svamla undir yfirborðinu. Eða var sú sýn bara von um meira ævintýri en ég vissi að þessi fundarferð yrði? Snitturnar á Hótel Héraði voru afbragð og hvítvínið rann vel niður (þótt ég hafi sko alls ekki verið að staupa mig fyrir heimflugið, neibb, bara hrein samdrykkja og mingl við viðskiptavini og ekkert annað) Hreindýrin héldu sig uppi á heiði en ég naut þess þó vel að borða hreindýrahamborgara á Búllunni.

Ég hitti engin Egil en þetta var samt fínn staður.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Flottur dagur 

Gott veður er mér hugleikið í dag. Ég er svo fegin að það sé ekki stormur en ég er alveg að fara að gerast flughetja og fljúga til Egilsstaða á eftir.
Ég ætla að vera ofurkúl á því í fluginu.
Góða ferð.
Takk.

Ég sótti dömuna snemma um daginn (í fyrsta sinn!) og það gangandi.
Þetta var bara yndisleg aukaklukkustund sem við fengum þarna saman.
Við erum nú víst svolítið svipaðar með loðhúfurnar okkar... sama brosið alla vega :)Vera lagðist í sólbað í blíðunniSandurinn var að vísu frosinn en snjórinn virkar alveg eins vel í hús

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker