<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, maí 31, 2005

Namaste! 

Indlansforseti er í kurteisisheimsókn á Íslandi. Gott fyrir hann. Og okkur. Hann er alveg hrikalega krúttlegur í útliti með hálfsítt grásprengt hár sleikt að andlitinu. Virðist hógvær en pottþétt klár. Mér finnst virkilega fallegt af Íslendingum, tja, eða Actavis að ætla sér að selja Indverjum alnæmislyf á mun ódýrara verði en gengur og gerist. Aids er víst að breiðast út einna hraðast á Indlandi.

Ég var jú einu sinni á Indlandi. Og það var upplifun í lagi. Við fórum með bakpokana okkar og ferðuðumst eins ódýrt og við mögulega gátum en 5 kall skipti í alvörunni máli! Við fórum frá Dehli, niður með vesturströndinni suður til Kerala og svo upp aftur með austurströndinni þar sem við enduðum svo í Kalkútta. Þetta tók okkur tæpa 3 mánuði og klikkaðri 3 mánuði er ekki hægt að finna í mínu lífi. Í jákvæðri merkingu sko. Fólkið var yndislegt og bar að mér fannst mikla virðingu fyrir okkur útlendingunum. Það var óþægilegt á köflum en lét manni um leið líða vel og bætti í öryggistilfinninguna. Ég man nú að maður fékk í alvörunni vægt menningarsjokk þegar maður lenti um miðja nótt í Delhi. Ég fattaði þá þetta orð "menningarsjokk" því ég fékk vægt sjokk. Fólk svaf út um allt á umferðareyjunum og gangstéttum. Átti hvergi heima nema veginum á. Mannmergðin er þvílík og yfirþyrmandi að það er ólýsanlegt. Hitinn og skíturinn í bland límdist við heilann á manni og það var erfitt að finna almennilegan og öruggan mat annan en hnetur og banana. Ekki nema á spes hótelum sem Lonely Planet biblía ferðalangans mælti með og sem voru orðin vestræn fyrir útlendingana. Þar var maturinn ætur. Annars var allt með sama skítabragðinu. Vatnið er jú rotið og geymsluaðferðirnar á matnum líka. Þrátt fyrir magaverk og pínu langmestan tímann og þrjár spítalavistir í kjölfarið nutum við ferðarinnar í botn. Drukkum í okkur kaosina.

Talandi um menningarsjokk. Fyrstu 3 dagana héldum við okkur án gríns inni á hóteli þar sem mikið af túristum héldu sig. Við fórum að sjálfsögðu eftir því hvað Lonely planet sagði okkur að gista fyrstu næturnar. Þetta var greinilega skjól frá mergðinni en við hreinlega höfðum okkur ekki út fyrir hússins dyr. Sátum og drukkum vatn uppi á þaki og fylgdumst með lífinu úr hæfilegri fjarlægð. Svo manaði maður sig í að fara út og það var æðislegt! Allt í klessu alls staðar. Eða það fannst mér þá. Ltir og læti. Kýr og kaos. Ég aðlagaðst fljótt hitanum og skítnum og það var ekki tiltökumál að breyta matarræðinu og jafnvel drekka löngu útrunnið kók og kex. Ég byrjaði að elska Indland. Klósettpappír hætti að vera nauðsyn og vatn og vinstri hendin varð málið eftir klósettferðir eins og vaninn er á Indlandi. Sem betur fer. Ímyndið ykkur ef allir Indverjar myndu skeina sér með þvílíkum slatta af klósettpappír eins og við gerum hér heima!! Jesús minn.

Þetta var svona smá survivor dæmi. Að vera án beisikklí allra helstu þæginda og bara með nokkrar af þeim nausynjum sem til voru. Við t.d. tókum tannkrem og túrtappa með okkur að heiman því það er erfitt að finna slíkt á Indlandi. Eins þvottaefni og filmur. Já, þær eru misjafnar þessar "nauðsynjar".

Ég var ánægð að komast lifandi frá Indlandi, sérstaklega í ljósi þess hversu erfitt það var að ferðast á milli staða þar. Frétti það sem betur fer eftir á að á Indlandi er hættulegasta lestarkerfi í heimi og ekki er það nú skárra að ferðast með rútunum. Blindfullir bílstjórar þeysast oftar en ekki fram af klettafjöllum og hugsa glatt til betra næsta lífs með góðu karma.

Eftir um 3 mánaða dvöl á Indlandi vorum við farin að hlakka til að komast í burtu frá áreitinu og látunum og komast í aðeins meiri lúxus. Tæland bauð upp á allt það besta og þar eyddum við dágóðum tíma. Það var samt svo skrýtið að eftir mjög stutta stund í Tælandi langaði okkur aftur til Indlands. Maður var feginn að komast þaðan en saknaði þess svo nánast strax, eða um leið og lúxusinn í Tælandi var orðinn daglegt brauð.

Ég vona að ég komi einhvern tímann aftur til Indlands. Indland hefur sama og ekkert breyst síðustu 30-40 árin svo ég efa það að það eigi mikið eftir að breytast á næstu áratugum. Bretarnir skildu illa við það fyrir um 57 árum þegar Indland fékk sjálfstæði frá Bretum og einhvern veginn hefur þeim ekki tekist að komast á gott ról eftir það. Ætli mannfjöldinn og fátæktin komi ekki í veg fyrir það.
Manngæskan og mórallinn í fólkinu bætir skortinn á lúxusnum þó margfalt upp.

Someday.

mánudagur, maí 30, 2005

FerðIN 

Ég hlakka geðveikt til að verða þrítug. Ok, það er jú heilt ár í það en það er sama. Við vinkonurnar úr MH sem eru mínar bestu vinkonur, við erum hvorki meira né minna en 8 stykki, verðum allar þrítugar á næsta ári og það allar á 3 mánaða períódi. Tja, ok, nema ein sem er einu ári yngri og var voðalega klár í grunnskóla og hoppaði upp um bekk. Dr. Kolla klára. En hún sjálf gleymir því meira að segja að hún sé beibíið í hópnum!

Ástæðan fyrir því að ég hlakka svona til er kannski ekki það að finna grátt hár eða nýja hrukku (sem væri þá samt auðvitað BROShrukka - arn´t they all?!) heldur sú að við vinkonurnar ætlum að fara saman í þrítugsafmælisferð aldarinnar. Við höfum að sjálfsögðu lagt fyrir í sjóð í þó nokkurn tíma og eigum dágóða slummu til að eyða þegar að því kemur.

Verið er að ræða áfangastað og vá hvað það er erfitt þegar allur heimurinn bíður manns! Norður Afríka, s.s. Egyptaland eða jafnvel sigling á Níl, eða Túnis kemur sterkt til greina. Við erum jú 8 sterkir karakterar með ákveðnar skoðanir og það tekur dágóðan tíma að mjatla þessu saman. En það kemur. Mun koma. Í raun skiptir það mig mestu máli að vera með þessum frábæru stelpum bara einhvers staðar, hvar sem það verður í útlöndum, þar sem við getum leikið okkur með kokteil í annarri og líka hinni...ahhh!
Get bara ekki beðið eftir því að verða þrítug!

Hér fyrir neðan má sjá okkur vinkonurnar! Það er virkilega erfitt að ná mynd af okkur öllum saman þar sem það eru alltaf þó nokkrar af okkur sem búa í útlöndum! Held að síðasta hópmynd sé alla vega 2-3 ára gömul og því ekki til á digital!


Hér erum við sex af vinkonunum saman alveg hrikalega sætar. Talið frá vinstri til hægri: Erla Perla - ég, Embla lögfræðingur og nýbökuð mamma þar sem Gunni Már er pabbinn, Sonja sem býr í Danmörku með Gesti sínum og er í mastersnámi í stjórnun og markaðsfræðum, Berglind sem var að útskrifast úr LHÍ sem fatahönnuður og ætlar að flytjast til London í haust með honum Kristni Gunnari, Vilborg sem á von á sínu fyrsta barni með honum Rúnari sínum í lok ágúst og svo Dr. Kolla, besti læknir í heimi, sem ætlar að giftast honum Aroni í sumar :)

Myndin er tekin í lok janúar á árshátíð matarklúbbsins okkar Smjatt. Og jesús minn hvað við erum agalega flottar píur!!! Posted by Hello


Þetta er hún Mæja pæja vinkona. Hún býr í úthverfi London með Binna sínum en hún var að klára master í ferðamálafræðum og vinnur nú við ráðgjöf í þeim bransa :) Posted by Hello


Þetta er hún Eva Dís skvís með Veru glænýja. Hún býr nú og starfar í Nice í Frakklandi með sínum heittelskaða Sam sem hún ætlar að giftast næsta sumar :) Posted by Hello

sunnudagur, maí 29, 2005


Hér er Vera á leið í fyrsta hjólatúrinn sinn í dag. Hún fílaði þetta vel, var hin rólegasta og virti fyrir sér umhverfið og lífið um leið og hún þaut áfram aftan á hjá mömmunni.  Posted by Hello

föstudagur, maí 27, 2005

Vera 10 mánaða! 


Vera skvísa 10 mánaða Posted by Hello

Vera er orðin 10 mánaða, en hún náði þeim merka áfanga í lífi sínu á miðvikudaginn var 25. maí.

Maður bæði finnur og sér að hún er að nálgast það að verða 1 árs, hún er orðin svo stór og klár! Hún fór í 10 mánaða skoðun í gær og er orðin 9,4 kíló og 75 cm. Kílóin eru svo til á meðaltalinu en hæðin einu staðalfráviki fyrir ofan meðaltal. Svo hún er í fínum málum þar. Hún skilur orðið heilmikið og borðar orðið allan mat en það eru nýlega komnar 2 tennur í efri góm auk þeirra sem hún fékk í neðri góm fyrir um 2 mánuðum. Vera klappar og dillar sér mikið við tónlist og segir "datt" við hvert tækifæri og takk þegar ég segi takk. Algjör apaköttur. Hún stóð sjálf upp í fyrsta sinn í fyrradag á afmælisdaginn sinn og fílar það í tætlur þótt hún sé mjög óstöðug ennþá. Hana langar að labba með en dettur oftar en ekki á rassinn og fer þá að gráta. Það er orðið aðeins erfiðara að svæfa stelpuna þar sem rúmið virðist vera orðið spennandi vettvangur brölts á alla vegu. Standa upp, velta sér á magann, reisa sig, sitja, flækja fótunum í rimlunum og kíkja í gegnum rimlana í "týnd og gjúgg" er málið í dag, en það er kominn mikill leikur í mína sem hlær að öllu. Hún situr oft og flettir í gegnum bækurnar sínar og skellihlær. Vá, hvað það er krúttlegt, maður fær bara hjartasting!

Vera er lasin í dag, með eyrnarbólgu nr. 4. Fer til sérfræðings eftir 2 vikur sem metur það hvort daman fái rör í eyrun. Mamman er að geggjast inni í góða veðrinu með veika stelpuna, en ég geri allt fyrir Veruna mína :)

Á toppnum 

Ég er bara alltaf á toppnum!
Enda topppæja.
Í gær var ég á toppi Móskarðshnjúka en þeir eru nágranni Esjunnar (þessir tveir hægra megin við Esjuna sem sólin skín alltaf á) en ég gekk upp á fjallið með vinnufélögum eftir vinnu. Eiginlega samt eftir jarðaför hjá mér því amma Vala var jarðsett í gær. Í kyrrþey, henni líkt að vilja ekki að fólk "hafi fyrir" sér. Athöfnin var dásamlega falleg og ég hélt engu inni í þetta sinn. Held ég hafi bara verið að gráta fyrir tvær ömmur og einn afa í einu.

Gangan á Móskarðshnjúka var mjög skemmtileg og falleg. Það tók okkur stelpurnar (vorum reyndar með þeim síðustu!) um einn og hálfan tíma að komast upp og svo lölluðum við niður á klukkutíma eða svo. Svo þetta var svona ídeal "eftir vinnu" fjallganga. Útsýnið var náttúrulega brjálæðislegt í orðsins fyllstu merkingu og maður sá í allar áttir í góða veðrinu í gærkvöldi, m.a. Kjósina, Þingvallavatn, Búrfell og Heklu. Ég mæli með göngj á Móskarðshnjúka, Esjan fölnar bara við hlið þeirra! Ég er þegar farin að hlakka til næstu göngu sem verður á Snæfellsjökul fyrstu helgina í júlí.


Móskarðshnjúkar þegar búið er að labba um helming hæðarinnar, þessi fjær er hærri og maður gengur á hann Posted by Hello


Séð yfir Kjósina Posted by Hello


Hnjúkurinn góði Posted by Hello


Lítið fólk á stórum tindi Posted by Hello

miðvikudagur, maí 25, 2005

Búúhú... 

Dagurinn í dag er búinn að vera skrýtinn.
Eða er ég kannski bara skrýtin?

Vinnan er alltaf ágæt svo sem og ekkert merkilegt þaðan að segja. Fékk leikara til að stýra rýnihópum sem voru á dagskrá en þeir voru löngu planaðir. Ég gat jú ekki stýrt þeim af því ég þurfti óvænt að fara í kistulagningu hjá ömmu Völu. Já, enn ein kistulagningin var í dag. Ég sá ömmu Völu í síðasta sinn. Og felldi þó nokkur tár þar. Þetta var bæði sorglegt og fallegt. Og áhrifamikið eitthvað. Tekur á.

Ég trúi því ekki að ég eigi enga ömmu og engan afa lengur. Þessir stólpar í lífi manns eru bara farnir og maður finnur þvílíkt fyrir því. Ég beisikklí þekki engan gamlan lengur. Engan eldri en tengdapabba og hann er 63 ára! Sorglegt. Gamla fólkið talar allt öðruvísi en það unga og um allt aðra hluti sem maður hefur svo gott af því að hlusta á. Mér fannst alltaf gaman að tala við ömmurnar og afann um daginn og veginn og heyra hvað þau voru að spá, sem oftar en ekki var svo fjarlægt því sem ég unga konan var að pæla í. Að tala við og umgangast gamalt fólk einhvern veginn gerir mann svo góðan og sáttan.

Miðvikudagskvöld eru svo sem endranær frátekin fyrir kóræfingar og kvöldið í kvöld var engin undantekning. Ég söng eins og ég gat þrátt fyrir dágóða hálsbólgu og pínu depurð og þróttleysi eftir daginn. Kórstjórinn skammaði mig fyrir að segja að mér fyndist eitt lag sem við erum að syngja leiðinlegt. Mér finnst það leiðinlegt. En hefði kannski getað haldið KJ. Eða orðað það öðruvísi. Annar kórfélagi opnaði umræðuna um að lagið væri of flatt og hægt sungið og ég tók undir. Og ég bætti við að mér þætti það hreinlega leiðinlegt. Og það fór auðvitað yfir strikið. Greyið kórstjórinn er að gera sitt allra besta og stendur sig frábærlega í starfinu, hefur þvílíkan metnað og húmor í lagi, og svo skítur maður bara yfir eitt lag sem hann er búinn að velja fyrir okkur. Þvílíkur glataður mórall í mér. Ég hefði líklega allt eins getað sagt að mér þætti lagið "flatt" eða notað annað orð heldur en leiðinlegt en ætli ég sé ekki bara of beinskeytt eða hreinskilin fyrir suma. Aldrei lærir maður. Ég hágrenjaði inni í mér af móral og baðst strax afsökunar og svo aftur eftir æfinguna. Stjórinn átti þó erfitt með að horfa í augun á mér eftir þetta og var augljóslega særður og reiður og þótti mér það leiðinlegt. Ég skil það vel (en hvað er ég núna oft búin að skrifa orðið "leiðinlegt"? Þetta fer að verða leiðinlegt hér...). Oh, ég nenni ekki að vera týpan sem skemmir fyrir heilum kór.
Not my style.

Ég fór svo að grenja í alvörunni á miðri kóræfingu í lagi sem heitir Mitt Faðir vor, en ljóðið er eftir Kristján frá Djúpalæk. Búúhú. Allt í einu bara missti ég það. Saug sífellt upp í nefið og þerraði tárin þegar þau streymdu niður kinnarnar. Hefði þurft að snýta mér en vildi ekki tótallí eyðileggja meira fyrir kórnum, þau voru jú að syngja sitt besta í miðju lagi. Þetta bara snerti mig bara beint í hjartað og mér varð hugsað til ömmu Völu og athafnarinnar í dag sem var svo falleg. Ætli kórstjórinn hafi ekki haldið að ég væri að grenja út af viðbrögðunum sem ég fékk frá honum um "leiðinlega" lagið. En það gat ekki verið lengra frá raunveruleikanum. Var BARA að hugsa um sjálfa mig og hvað aumingja ég ætti nú bágt að eiga enga gamlingjaömmur og afa í mínu lífi lengur sem mér þótti svo vænt um.

Ég er svo svona að ná mér niður hérna á blogginu. Alltaf gott að blogga bara hlutina í burtu. Koma þeim út. Ahhh.

Þetta var skrýtinn dagur fyrir skrýtna stelpu.

mánudagur, maí 23, 2005

Það kom að því :) 

Haldiði að ég hafi ekki fengið afmælisgjöf frá kallinum mínum í fyrradag.
Ég bara trúði ekki mínum eigin augum, var löngu hætt að trúa því að eitthvað myndi gerast. Hann skammaðist sín ekki einu sinni fyrir að velja FH fram yfir afmælisdag konunnar svo hvað þá meira! Og ég fór næstum því að grenja af gleði þegar ég sá að það fylgdi meira að segja kort með! Það er nú bara aldrei nú orðið. Hann segir að kortið sé bara í hjartanu. Voða sætt - en það er ekki nóg fyrir mig! Já, maður gerir kröfur. Kortið hefði næstum því (bara næstum því samt) verið nóg, svo sætt var það. En armbandið sem ég fékk að gjöf var alveg geggjað og ég fyrirgaf honum afmælismistök aldarinnar á nóinu.
Já, svona er maður nú soft. Inn við beinið.

sunnudagur, maí 22, 2005

Eurovision lifi! 

Eurovisionkeppnin er merkileg fyrir margra sakir. Eins og einhver sagði þá hatar maður að elska hana og elskar að hata hana. Þetta er svona love hate samband. Maður hatar hana því við komumst aldrei neitt almennilega áfram og vinnum aldrei (já, ég er tapsár!!) og þykist ekki fíla hana því þetta er svo hallærisleg pólitísk nágrannasleikjukeppni. Og svo elskar maður hana af því hefðin segir okkur að gera það, en maður skilur samt ekki af hverju maður elskar keppnina í laumi. Grikkir eru að gera það gott, auk þess að vinnan evrópukeppnina í fótbolta hrepptu þeir hnossið í gær í annars dágóðri bombukeppni. Mér fannst þetta nefninlega snúast ansi mikið um brjóst og bombur í ár og áttu karlkynskeppendur á brattann að sækja innan um allar brjóstadívurnar. Ég kaus samt Danmörk. Eða hélt með þeim, ætlaði að kjósa, en nennti því svo ekki. Við töpuðum hvort eð er. Ætli við komumst nokkurn tímann upp úr blessaðri forkeppninni? Við eigum engan þannig bandamenn sem bjarga okkur. Búhú.

Manni finnst lögin í þessari keppni alltaf jafn léleg og halló en svo einhvern veginn sjatlast þau inn og maður er farinn að tjútta og syngja hástöfum með í næsta júróvisjónpartýi. Þetta snýst nefninlega meira um partýin heldur en keppnina sjálfa. Tylliástæða fyrir partý, partý partý, það er það sem þetta snýst um. Ég mætti í eitt slíkt partý í gær og það voru nú fæstir sem nenntu að horfa á keppnina!! Jú, kannski af því við vorum ekki með (greyið Selma litli hobbiti). Eftir partýið fórum við öll á NASA þar sem Páll krúttiprútt Óskar var með júróvisjónpartý aldarinnar. Þó svo ekki væri nema fyrir þetta Pallapartý að júróvisjónkeppnin haldi velli!! Þetta var alveg frábært kvöld og geggjað djamm. Já, mamman og pabbinn settu dótturina í næturpössun og hrundu íða með Palla og júróvisjónfélögum. Icy hópurinn gamalkunni steig á svið og tók Gleðibankan við rífandi fögnuð og eins Jónsi með Heaven, Sigga Beinteins og Grétar með Eitt lag enn. Alveg fyndið!! Að hugsa sér að maður svingi með La det svinge og missi sig yfir Fly on the wings of love... er alveg magnað. Glatað, ég veit, en það er þetta love hate dæmi sem ég var að reyna að lýsa. Ég kom raddlaus út af NASA eftir held ég bara skemmtilegasta djammkvöld í nokkur ár! (man svo lítið hvað gerðist fyrir tíð Verunnar! - Var líf fyrir Veru??).

Kvöldið endaði svo skemmtilega. Við skröltum heim í leigara sem laumaðist til að pikka okkur upp fyrir utan leigubílaröðina endalaust löngu. Þessi leigubílaröð finnst mér svo glatað dæmi eitthvað, er svona staðfast merki um smáborgarabrag Íslands. Að maður þurfi að bíða í röð á hverjum einasta skemmtistað í bænum og þurfi svo að húka í röð í upp undir klukkutíma eftir leigubíl eftir djammið er alveg ótrúlegt. Skil ekki pointið. Það virkar því miður ekki lengur að tosa pilsið aðeins upp fyrir hnén og þrýsta brjóstunum fram til að húkka bíl... ó, nei. EN, mér tókst nú samt að húkka einn leigara en hann tók okkur upp í á "röngum" stað með dálitlum trega (án þess að gera neitt! - var sko ekki í pilsi...). Við ókum af stað og byrjuðum að ræða málin. Og það kom í ljós að örlögin höfðu aðeins tekið í taumana við val á leigara þetta kvöld. Leigubílstjórinn okkar, hann Ottó kallinn, er kominn til ára sinna og átti í alvöru heima í húsinu OKKAR á Hverfó þegar hann var yngri! Hann bjó á efri hæðinni með fjölskyldunni sinni, en húsið var þá skipt niður í 2 íbúðir með sérinngangi. Alveg magnað og þvílík tilviljun. Það var þá ástæða af hverju honum fannst hann þurfa að taka okkur upp í fyrir utan röðina. Ottó taldi upp alla nágrannana í götunni og rakti ættir eins og gamalt fólk kann svo vel að gera. Og vá hvað ég var að fíla þetta. Fann söguna og sálina í húsinu mínu umvefja mig.
Það finna líka held ég allir hvað þetta er gott hús og með góðum anda.

Mamman og pabbinn sváfu svo út í morgun og ég varð ekkert þunn....ehh...framan af degi. Þynnkuskíturinn fór að gera vart við sig í Húsdýragarðinum þar sem Vera og Skarpi frændi voru í þvílíku stuði ólíkt mömmunni. Ég fékk lausan heila, hjartslátt í hausinn og sterkustu svefntilfinningu ever ásamt góðum skjálfta. Ég sem varð aldrei þunn! Það er greinilega margt sem breytist með mömmutitlinum.
En það breytir því ekki að ég er þegar farin að hlakka til elsku júróvision að ári sem ég hata að elska svo mikið.


Við stelpurnar (Dr. Kolla og Embla lögfræðingur og mamma með meiru) og Palli að meikaða á NASA í gærkvöldi - Takið eftir því hvað við Palli erum sérstaklega close...! Posted by Hello

laugardagur, maí 21, 2005

Amma Vala 

Amma Vala dó í dag.
Hún var 77 ára og búin að vera sjúklingur meira og minna alla tíð síðustu árin en bjartur andinn hélt henni gangandi. Alltaf þegar ég kvaddi hana þegar ég var að fara í ferðalag þá var hún alltaf viss um að hún yrði ekki lengur þegar ég kæmi tilbaka. En alltaf var amma Vala á sínum stað á Kleppsveginum. Hún var seig. Amma var m.a. með lungnasjúkdóm og krabbamein og hennar tími var allt í einu kominn. Amma Vala var ekki hrædd við dauðann, hún trúði heitt og þráði að deyja. Og fékk það loks áðan. Hún er nú komin til afa Skarpa og þau sameinast í himnaríki þar sem allt er svo fallegt og gott. Ekkert krabbamein og engin þjáning.
Guð geymi ömmu Völu mína.

Úff, báðar ömmurnar farnar á mánuði.

föstudagur, maí 20, 2005

Sundpælingar 

Jæja. Ég fór aftur í sund í morgun. Þvílíkt hress í bragði og spræk. Svaf reyndar aðeins yfir mig því Vera svaf svo vel en ákvað samt að fara og mæta bara frekar of seint í vinnuna. Já, hvað gerir maður ekki fyrir heilsuna!
Sólin skein og ég fékk nokkrar krúttlegar og sumarlegar freknur í andlitið um leið og ég tók kílómeterinn á hælinn. Ég þurfti reyndar að smeygja mér doldið oft framhjá eldgömlum köllum sem syntu aðeins í of miklum hægagangi fyrir sundpíuna mig, og með skýluna girta upp á bringu. En lét það ekki á mig fá. Fór svo aðeins í pottinn og hlustaði á pottaumræður dagsins sem snérust að mestu leyti um veðrið og formannskjörið á laugardaginn. Össi frændi á víst eftir að tapa, en mun samt ekki láta það á sig fá. Gamla fólkið veit þetta allt. En sjáum til hvað gerist. Sundtíminn endaði á því að horfa á eina gamla skokka á sundbolnum á grasblettinum fyrir framan laugina og það minnti mig á ömmu Sillu. Hún hljóp alltaf einn hring í kringum laugina, jafnvel í él og hríð. Svo var einn eldgamall en nautsterkur að taka armbeygjur og annar magaæfingar. Þetta gamla fólk sem stundar laugarnar er eitthvað svo hresst og sprækt.

Þótt amma mín Vala hafi búið í nágreni við sundlaugarnar í Laugadalnum í mörg ár hefur hún því miður ekki haft tækifæri til að stunda sundið. Hún hefur verið sjúklingur í mörg ár, með ýmis konar kvilla.
Og núna liggur hún banaleguna heima hjá sér. Í friði og ró.
Megi Guð, afi Skarpi og amma Silla taka vel á móti henni þegar hún fer yfir í hinn heiminn.

miðvikudagur, maí 18, 2005


Vera sefur orðið vært á næturna þrátt fyrir ýmsar ansi fyndnar svefnstellingar eins og sjá má! Ég kom að henni svona í gærkvöldi.

Hún fer að sofa um kl. 20 og sefur streit þar til hún vaknar spræk milli 7 og 7:30 á morgnanna - mömmunni til mikillar ánægju og svefnheilsubótar :) Posted by Hello

þriðjudagur, maí 17, 2005

Kamillan mín 

Ég er búin að setja inn link á bloggið hennar Kamillu sem er í Danmörku um þessar mundir. Kamilla var með mér í mannfræðinni og er alltaf svo dugleg að læra. Hún er alltaf í skóla þessi elska og brillerar í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. Ég veit ekki alveg hvað hún er núna að læra en það er víst eitthvað voðalega spennandi á háskólastigi. Við verðum eiginlega að reyna að lesa út úr því á blogginu hennar www.blibb.blogspot.com :)

Annars verð ég að segja ykkur hvað kom fyrir mig í morgun. Ég fór í Laugardalslaugina og synti heilan helling!
Já, nú er það nýjasta nýtt að synda tvo morgna í viku og fara svo í ræktina í hádeginu 2-3 daga. Og þá reyndi ég alla vega fyrir Krít!

mánudagur, maí 16, 2005

Es tut mir leid...er ist tot! 

Við fórum í bíó á laugardagskvöldið eftir að okkur bauðst óvænt pössun. Það er alltaf næs að fá símtal korteri fyrir bíó þess efnis hvort viðkomandi megi nú ekki passa á meðan mamman og pabbinn gera sér glatt kvöld fyrir utan heimilið :)

Svo við skelltum okkur á eina níu-bíóið sem var í boði þetta kvöld, og það var reyndar mynd sem okkur langaði að sjá. Der Untergang, um Hitler og nasismann. Og kvöldið sem átti að vera óvænta skemmtikvöld foreldranna varð að svona áhyggjukvöldi yfir þessum grimma heimi. Fékk alveg stein fyrir hjartað yfir þessari mynd. Vissi það svo sem að þetta væri engin rómantísk grínvella en úff. Það sem mér fannst skrýtnast við þessa mynd var að ég sem áhorfandi fékk samúð með Hitler! Kannski var þetta hluti af hormónatjúttinu sem er í gangi í mér fylgjandi því að brjóstagjöfin er hætt en kannski var þetta meiningin í myndinni. Veit það ekki. Ég mæli alla vega alveg með þessari mynd fyrir þá sem vilja sjá öðruvísi mynd. Svo er þetta líka gott til að hressa upp á þýskuna. Fengu ekki annars allir 10 í þýsku eins og ég?? hehehehe...

sunnudagur, maí 15, 2005

Kleifarvatn og kótilettur 

Kótilettur kvöldsins runnu ljúflega niður. Ahhh, það er formlega komið sumar á Hverfisgötunni, búið að grilla kótilettur og meððí. Sumarstemmningin í hámarki. Vera fékk reyndar krukkumat, var ekki svo spennt fyrir kótilettunum, kannski af því að það eru heilar 4 tennur að ryðjast fram í efri góm hja henni. Þá kannski langar mann ekkert sérstaklega að naga á kótilettum.
Veljum íslenskt lambakjöt á grillið.

Þetta var æðislega fínn dagur. Vera svaf út eftir að hafa pirrast til að ganga 3 í nótt, ábyggilega vegna tannanna sem eru á leiðinni. Þetta tekur á. Greyið múslan. Svo mamman og pabbinn sváfu líka út og hvað það var gott maður lifandi. Æði. Spurning um að halda henni vakandi fram á nótt um helgar til að fá að sofa út daginn eftir...nei, kannski er það ekki svo ýkja barnvænt.

Við byrjuðum daginn á því að fara til ömmu Sillu, eða í húsið þar sem amma bjó, að vökva blómin bæði inni og í gróðurhúsinu. Þar sátum við svo úti í blíðunni og fengum okkur hádegismat. Það er skrýtið að vera þarna án ömmu. En samt vinalegt og ég kvíði fyrir því þegar húsið verður selt og það verður ekki hægt að mæta þarna lengur á sunnudögum. Þá verður þetta allt svo endanlegt eitthvað. Vonandi selst það ekki fyrr en eftir sumarið. Þá getur maður notið blíðunnar í fallega garðinum hennar ömmu.

Eftir hádegið skelltum við okkur rétt út fyrir bæinn eða á Kleifarvatn. Að sjálfsögðu má sjá myndir úr förinni hér fyrir neðan :) Við fórum við vinum okkar sem er með einn lítinn gaur. Vera var í kerrunni en sá litli sullaði í vatninu og lék sér í sandinum. Ég hlakka svo til þegar Vera hefur vit á því að leika sér svona, vera gaur og skíta sig út og sulla og skemmta sér í "sveitinni". Núna horfði hún bara aðdáunaraugum á litla vin sinn sem fór á kostum. Það var blíða til að byrja með en svo komu skýin og allt í einu vorum við að snæða nestið okkar í dágóðu roki og skítakulda með sultardropa á nefinu. Þá var kominn tími á heimferð. Kótilettuát tók við og núna ætla ég að skella mér í ísbúðina og kaupa bragðarefi fyrir okkur hjónaleysin. Ekta ísbíltúr væri óskandi en það er víst liðin tíð í bili, músin er komin í draumaheiminn...

Hvað gerðist annars á Hvítasunnudag?
Æts, ein léleg í kristinfræðinni!


Veran og Úlfurinn sæt saman Posted by Hello


kissi kissí! Posted by Hello


Við Kleifarvatn Posted by Hello


Smakkað á blómi í garðinum hjá ömmu Sillu Posted by Hello


Litli álfurinn í garðinum á Hverfó Posted by Hello


Að skoða heiminn Posted by Hello

laugardagur, maí 14, 2005

Brjóstin búin 

Þá er brjóstgjöf móðurinnar formlega lokið.
Til hamingju eða ég samhryggist þér?
Ég veit það ekki, það eru blendnar tilfinningar sem fylgja þessum kaflaskiptum í lífi mínu og Veru. Ég hélt samt að þetta myndi vera tilfinningalega erfiðara eða þá að ég vildi bara alls ekki hætta með hana. Að ég myndi vilja vera að lauma brjóstunum að henni svo lengi sem ég gæti, en það er ekki svo. Ég er mjög sátt þrátt fyrir að vera dulítið aum í túttunum rétt í þessu þar sem þau eru að jafna sig greyin. Framleiðslan er ennþá dágóð.

Ég hafði verið með 2 gjafir yfir daginn þegar ég fór að vinna, á morgnanna og á kvöldin en sleppti svo morgungjöfinni um daginn þegar Vera var farin að vakna kl. 5 til að fá sér sopa og kúra með brjóstinu. Þá var komið nóg af því og það tók 1 morgunn með öskri og brjáli en svo finnst henni þetta ekkert mál og er hætt að vakna svona snemma til að leita eftir brjóstinu. Svo hefur pabbinn verið að gefa henni pela fyrir svefninn þegar mamman er fjarri góðu gamni og Vera elskar pelann sinn. Svo allt í einu voru brjóstin ekki eins spennandi. Enda kannski ekki nógu hratt rennslið í þeim eftir alla mánuðina (líka miðað við pelann)og eitthvað minna í boði en áður. Svo ég ákvað bara að hætta þessu í fyrrakvöld. Brjóstin eru búin. En vonandi hverfa þau samt ekki alveg í kjölfarið!
Og Vera er formlega orðin stór!
Og mamman ekki eins mikilvæg. Skrýtið. Hlekkurinn þungi og órjúfanlegi sem hefur verið á milli okkar sl. 9 1/2 mánuð er ekki lengur.
Jæja, ég get þá alla vega núna farið að djamma án samviskubits! Ég held að innflutnings-eurovisionpartý sé næst á dagskrá...

P.s. pabbinn vildi koma því að að Vera kann núna líka að segja pabbi (með ii og allt!). Það kjaftar á henni hver tuska um þessar mundir, hún meira að segja talar í svefni og reynir að apa allt eftir manni sem maður segir. Og tekst það bærilega!

föstudagur, maí 13, 2005

Skríðandi Vera 

Jahérna hér.
Ég sit hér heima í stofu, mygluð eftir heita og erfiða nótt, en litla músin er lasin. Ég verð bara að deila því með ykkur (já, ég trúi því að ykkur finnist þetta í alvörunni jafn merkilegt og mér!) að ég var rétt í þessu vitni að því að Vera "skreið" þvert yfir stofuna til að ná sér í eitthvað ákveðið dót sem hana langaði að leika sér með! Já, rúmlega 9 og 1/2 mánaða stelpan, það var komið að því. Hún var ekki að flýta sér að þessu! Og lasin og allt! Dagmömmurnar sögðu mér að hún væri dálítið pirruð yfir því að vera sú eina af 10 börnum hjá þeim sem sæti bara á rassinum og gæti ekki hreyft sig um svæðið (hin börnin eru eldri) svo mín hefur bara ákveðið að taka sig á og færa sig um set. Vera fer að sjálfsögðu ekki hefðbundna leið á skriðinu heldur færir sig um á rassinum, mjakar sér áfram með því að toga sig áfram á höndunum, notar fæturna ekki enn mikið til að hjálpa sér svo þetta er voðalega erfitt en hún á eftir að þróa þetta betur. Það er sem sagt ennþá eitthvað í að hún fari á fleygiferð, en þetta er alveg ferlega krúttlegt. Spurning um að fara að splæsa í hlið fyrir stigana...

Hér má sjá helstu afrek Veru Víglunds í hnotskurn:
Brosa: 5 vikna
Hjala: 6 vikna
Borða mat: 5 mánaða (1 máltíð á dag)
Sitja sjálf óstudd: 5 1/2 mánaða
Fyrsta hláturskastið: 6 mánaða
Borða 4-5 máltíðir á dag: 7 mánaða
Hvað er Vera stór?: 7 mánaða
Týnd og gjúgg: 7 mánaða
"Mamma" (eða eitthvað því um líkt!) 7 mánaða
Klappa sjálf saman lófunum: 8 1/2 mánaða
"Datt" rúmlega 9 mánaða
SKRÍÐA: rúmlega 9 1/2 mánaða :)

Já, Vera er orðin svo stór og klár! Og æðisleg og skemmtileg. Og doldið ákveðin og frek líka... en hei, get bara ekki skammað hana fyrir eitthvað sem ég sé í sjálfri mér...


Týnd! Posted by Hello


Vera setur sig í skriðstellingar Posted by Hello

miðvikudagur, maí 11, 2005

Keilir sigraður 

Jæja. Mamman komst upp á Keili í gærkvöldi. Ekkert mál fyrir mömmu hans Jóns Páls. Af hverju ætli Keilir heiti ekki Keila? Þetta er bara ein stök KeilA. Ég fór með nokkrum vinnufélögum en gangan er hluti af verkefni sem við köllum 5 tindar og var Keilir fyrsti tindurinn sem við sigrum.

Gangan að Keili er þó nokkuð löng í gegnum hraunið og tók það um 30 mínútur fyrir hópinn að komast að fjallinu. Leiðin upp er svo stutt og brött, um 200 metra hækkun en fjallið sjálft er 380 metrar yfir sjávarmáli. Smá hóll. En ég ætla nú alls ekki að gera lítið úr þessu fjalli eða göngunni á það því þetta tók alveg á. Er stutt en virkilega bratt og maður blés vel úr nös. Allt í allt vorum við um 2 og 1/2 tíma upp og niður með góðri kaffipásu á toppnum. Mér leið vel allan tímann og er ekki einu sinni með harðsperrur í dag, daginn eftir! Gerir aðrar mömmur betur. Vera var heima með pabbanum, þetta var of seint á dagskrá fyrir dömuna. Svo hefði ég satt að segja ekki boðið í að vera með hana á bakinu í brattanum efst á fjallinu. Vigga hefði nú tekist það en mömmunni hefði nú ekki litist á blikuna.

Við byrjuðum gönguna í rigningu og roki en eftir um korters labb lægði og sólin fór að skína. Fjallasýnin á toppnum var engu lík og maður fékk náttúrufílinginn beint í æð.

Mæli með Keili fyrir þá sem vilja góða hreyfingu, ferskt loft í lungun og náttúruinnspítingu á hæsta stigi!


Keilir kíkir yfir hraunið Posted by Hello


Á réttri leið Posted by Hello


Keilisbörn svokölluð við hlið Keilis Posted by Hello

þriðjudagur, maí 10, 2005

Ég mæli með... 

...rafmagnstannbursta! Það er snilld. Fékk mér um daginn eftir að hafa hlegið að frænku minni með einn slíkan. En svo prófaði ég og vá, nú fæ ég dýrindis tannanudd á hverjum degi. Þetta er í alvörunni frábært, prófiði bara! (nei, ég þekki engan rafmagnstannburstaframleiðanda)

...að koma á óvart! Já, það er það besta í heimi. Þvílík tilfinning þegar surpræsið kemur...ahhhhhh. Engu líkt. Sjálf reyni ég reglulega að koma á óvart. Bara með einhverju litlu dæmi, það þarf yfirleitt svo lítið til að gleðja vini sína (og lover...)!

...göngu á Keili. Ég hef reyndar aldrei gengið á hann en er að fara að leggja í hann á eftir. Fer með fólki úr vinnunni. Planið var að taka Veru með í bakpokanum, en það var lárétt haglél úti rétt áðan svo mamman ætlar að skokka upp (vúff, skokka...þetta er fyrsta gangan mín ekki á malbiki eftir óléttu og Veru) á meðan pabbinn knúsar Veruna.

sunnudagur, maí 08, 2005

Myndasería 

Fjölskyldan brá sér út fyrir bæjarmörkin í morgun á þessum fallega degi - þriðja í afmæli - og fór í göngutúr í Heiðmörk með Veruna í bakpokanum. Sú litla fílaði það vel og svaf á sínu græna mest allan tímann. Eftir að göngunni lauk var Vera hin sprækasta og einbeitti sér meðal annars að því að því uppgötva og smakka á grasi og lyngi :)


 Posted by Hello


Svona stór! Posted by Hello


Veru fannst grasið þvílíkt spennandi! Posted by Hello

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker