<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, janúar 29, 2004

ABC 

Var að taka til í gömlum diskettum og fann eftirfarandi frásögn sem ég skrifaði fyrir 5 árum síðan á ferðalagi okkar um Indland.

Mig langar til að segja ykkur frá litlu ævintýri sem ég og kærastinn minn urðum hluti af á ferðalagi okkar um heiminn fyrir fáeinum árum. Þetta er ekki rauðhettu saga með vondum úlfi eða ástarsaga úr fjöllunum, heldur frásögn um heimsókn okkar á munaðarleysingjaheimili í Gannavaram á Indlandi. Þeir lesa sem nenna!

Þetta er ævintýri um blákaldan veruleika sem í senn er sorglegur og skemmtilegur, fallegur og ljótur. Þetta litla ævintýri er Heimili litlu ljósanna. Á því búa fullt af fallegum börnum og landið þeirra heitir Ísland. Heimilið er alfarið styrkt af göfugum Íslendingum í gegnum ABC hjálparstarf og við vorum svo heppin að fá að hoppa í nokkra daga inn í lífsmynstur þessara foreldralausu fyrirmyndabarna sem þakklát lifa dýrmætu lífinu sínu með bros á vör.

Það var í byrjun desember 1998 eftir tveggja mánaða ferðalag okkar um Indland, sem við ákváðum að heimsækja Heimili litlu ljósanna. Við höfðum styrkt barn á þessu heimili í rúm 2 ár og fannst tilvalið að stoppa í Gannavaram og brjóta þannig upp yfir 30 tíma lestarferð sem tekur að fara frá Chennai (Madras) til Calcutta. Við vissum sama og ekkert um heimilið og hagi þess, aðeins það sem mánaðarlegt fréttabréf hafði borið okkur heim frá ABC. Við ákváðum að láta aðstandendur heimilisins ekki vita að við værum að koma í heimsókn og fá þannig ósvikna stemningu heimilisins beint í æð. Við vildum fá að sjá þetta eins og það virkilega er. Við vorum búin að upplifa margt þessa rúma 2 mánuði á ferðalagi um Indland og héldum því að við vissum að nokkru leyti við hverju væri að búast, -bara því sama og venjulega - rusli og óþrifnaði, skipulagsleysi og skorti – en þó kurteisi og fullt af brosum þrátt fyrir allt.

Þegar við mættum á svæðið fundum við strax að þarna ætti sér eitthvað virkilega sérstakt stað. Eitthvað þvert á móti okkar indversk mettaða hugarlund og indverskum staðreyndum. Þetta var svona íslenskt Indland þegar upp var staðið.

Við hringdum í Samuel forstöðumann heimilisins þegar lestin loksins skilaði okkur á áfangastað. Símanúmerið höfðum við fengið á Íslandi áður en við lögðum að heiman. Hann varð afar hissa í símann þegar við kynntum okkur og sögðumst vera frá Reykjavík á Íslandi. Eftir örskamma stund var hann kominn að sækja okkur á lestarstöðina og átti varla til orð að það væri loksins komin heimsókn frá Íslandi til þeirra. Það var rétt fyrir kvöldmat sem við komum á svæðið og strax hópuðust fjölmörg börnin í kringum okkur og brostu og hlógu og vildu koma við okkur. Mörg voru að sjá hvítan mann í fyrsta sinn. Mín fyrsta tilfinning þegar við gengum þarna umvafin börnum, var einhvern vegin svona þakklát tilfinning, einhvers konar "Díönu prinsessu" andi, eins fáránlega og það kann að hljóma!! En okkur leið eins og drottningu og kóngi í litlu ævintýri þessa daga sem við dvöldum hjá börnunum.

Við gengum um svæði barnaheimilisins sem er ansi stórt og skoðuðum okkur um með yfir sig spenntan og ánægðan krakkaskarann á eftir okkur. Svæðið sem Heimili litlu ljósanna hefur til umráða samanstendur af skóla með um 20 skólastofum, 3. hæða stóru húsi þar sem börnin sofa, húsi sem þau borða og þar sem eldað er handa þeim, nýju húsi þar sem öll klósettaðstaða er, húsi með sturtuaðstöðu og svo húsi fyrir starfsfólk og hjálparfólk. Einnig eru þau með lítið fjós undir buffalóana sína þar sem þau fá alla mjólkina fyrir börnin. Í smíðum er svo nýr matsalur og annað hús undir börnin sem kemst í gagnið innan skamms, en það er mikil þörf á meira plássi því barnahópurinn stækkar ört.

Í upphafi þegar heimilið var stofnað fyrir um 5 árum, voru á því um 300 börn, sem núna hefur fjölgað í 1800 á mjög skömmum tíma. Samuel þekkir öll börnin með nafni og hann neitar aldrei neinu barni um heimili sem kemur inn af götunni, sama hvernig ástatt er hjá þeim og hverrar trúar þau eru. Þau eru öll fædd og klædd og öllum kennt kristinfræðin um Guð og Jesús Krist. Mörg börnin koma sjálf og oft koma ættingjar barnanna með þau þegar foreldrarnir hafa yfirgefið þau eða eru látin. Einnig er til í dæminu að foreldrar barnanna komi sjálf með börn sín út af því að geta ekki annast þau sökum fátæktar og allsleysis. Þegar barnið er komið inn á heimilið dvelur það þar allavega til 18 – 20 ára aldurs, en þá er það búið með skólagönguna og getur unnið fyrir sér sjálft og spjarað sig í hinum harða heimi Indlands.

Eitt kvöldið meðan á dvöl okkar með ljósunum stóð var búið að ákveða skemmtun fyrir krakkana því að sonur Samuels átti afmæli þennan dag. Það er með engu móti hægt að halda upp á afmæli 1500 barna, einnig þar sem ekki er vitað um afmælisdag flestra barnanna, og því tók Samuel til þess ráðs að halda eitt stórt afmæli fyrir öll börnin í samkomuhúsinu. Og við vorum virkir þátttakendur í þeirri skemmtun. Afi afmælisbarnsins prédikaði og við sungum öll saman afmælissönginn. Svo var kakan skorin og afmælisbarnið fékk að bragða á henni en hann var sá ein,i því því miður hefði hún aldrei dugað ofaní alla munnana. Eldri stúlkurnar stráðu litlum gulum heilögum blómum yfir okkur öll og Samuel kynnti okkur formlega fyrir börnunum sem með aðdáun störðu á okkur. Með hjálp nýja hljóðkerfisins sem þau höfðu eignast sögðum við þeim frá Íslandi og öllu fólkinu heima sem væri að hugsa til þeirra og vildu hjálpa þeim að vaxa úr grasi og mennta sig. Við sögðum þeim frá lífinu á Íslandi og kulda og snjó. Svo steig einn strákur, sirka 4 ára, á sviðið og vildi endilega syngja fyrir okkur í míkrafóninn. Hann söng fjörugt indverskt lag þar sem öll hin börnin tóku undir í viðlaginu. Ég gleymi aldrei þessum strák eða söngnum. Enn í dag stend ég sjálfa mig vera að söngla þetta lag og þá rifjast allt svo auðveldlega upp fyrir mér. Svo vildu þau endilega að við mundum syngja fyrir sig sem og við gerðum svo undirtók í húsinu, við mikinn fögnuð barnanna sem alltaf vildu fá að heyra nýtt og nýtt lag. Sofðu unga ástin mín og jólasveinar einn og átta hafa ábyggilega aldrei lent í öðru eins!

Það er erfitt að standa fyrir framan 1500 munaðarlaus börn og segja þeim að einhver elski þau og það sé verið að hugsa til þeirra frá Íslandi, sem sum hver vita enn ekki hvar eða hvað er. Að horfa á 3000 stór og falleg munaðarlaus augu stara á sig með þvílíkri dýrkun og eftirvæntingu er upplifun sem erfitt er að lýsa. Tárin komu svo oft fram í augun á okkur, en sú hugsun að við séum að hjálpa til og bros barnanna sem fór ekki af þeim, lét þau hverfa aftur jafn óðum. Kvöldinu lauk svo með trúði og galdrakarli sem galdraði alla óhamingju í burtu og skemmti börnunum með ýmis konar brögðum og kúnstum og það var greinilegt að Samuel hafði gefið börnunum virkilegan dagamun þetta kvöld. Öll fóru þau skælbrosandi að sofa.

Daginn eftir fylgdumst við með því hvernig venjulegur dagur í lífi barnanna er. Hann er í stuttu máli svona: Þau vakna klukkan 8 á morgnana og fara þá öll í sturtu, en það er mikið lagt upp úr hreinlæti, og þau klædd í hrein föt og greidd. Hár yngri stúlknanna flétta hjálparkonurnar en eldri stúlkurnar flétta hvor aðra. Morgunmatur er borðaður á eftir því, og skólinn byrjar klukkan 10, alla daga nema sunnudaga sem er frídagur barnanna. Það eru margir bekkir, frá 1. bekk upp í 10. bekk, og er börnunum raðað niður eftir getu og aldri. Skólinn þeirra er viðurkenndur af indverska ríkinu og hafa börnin því gilt prófskírteini að skólagöngunni lokinni sem ekki allir skólar í Indlandi hafa. Þau stunda mörg fög eins og til dæmis Hindí, sem er opinbera málið í indlandi ásamt ensku, (en í Indlandi eru töluð 18 aðal tungumál) Telugu, tungan sem töluð er í héraðinu, ensku, stærðfræði, vísindi, samfélagsfræði og félagsfræði. Klukkan 12 er svo hádegishlé og skólanum lýkur klukkan hálf fimm. Þá hafa þau frían tíma fram að kvöldmat og einnig eftir kvöldmat. Svo fara allir að sofa klukkan 9.

Við fylgdumst með kennslunni í skólanum og gengum á milli skólastofanna sem eru opnar út, án glugga og hurða - bara undir þaki. Eldri börnin hafa skólaborð og stóla og það er krítartafla í hverri stofu. Skólabækurnar eru gamlar og slitnar en þjóna sínum tilgangi. Drengir og stúlkur sitja sitthvoru megin í stofunni af gömlum sið. Yngri börnin sitja á gólfinu og eiga hver sína litla krítartöflu og krít. Þau virtust öll hafa mikinn áhuga á að læra og það var greinilegt að engum leiddist. Kennsla fer mikið fram munnlega þar sem kennarinn talar um hlutina og börnin þylja mikið upp í kór. Voða mikið eins og hér heima, nema kannski að þakklætið að fá að læra skilar sér í áhuga og gleði.

Í hádeginu borðuðum við með börnunum í matsalnum þeirra og það var mjög gaman. Við sáum stærstu hrísgrjónapotta á hlóðum sem hægt er að ímynda sér, þeir voru á stærð við meðal heitan pott. Og alla vega 10 talsins. Það er borðað í 2-3 hollum og fær hvert barn heilt fjall af hrísgrjónum á diskinn sinn ásamt sósu og stundum grænmeti. Vatn er drukkið með, en fjögur til fimm börn drekka saman úr einu glasi því ekki er til nóg af glösum. Hjálpararnir stóðu sig eins og hetjur í skömmtuninni og allt gekk hratt og vel fyrir sig og börnin borðuðu ótrúlegt magn af grjónum eins og indverjum er lagið. Við, fullorðið fólkið, gátum ekki torgað helmingnum á við það sem krílin borðuðu. Það voru saddir og ánægðir krakkar sem gengu frá borðinu eftir matinn og þvoðu sér um hendurnar á meðan stáldiskarnir voru skolaðir fyrir næstu munna.

Þennan dag fengu börnin frí eftir hádegi í skólanum vegna heimsóknar okkar og var þeim öllum stillt upp á skólalóðinni fyrir myndatöku. Þau fengu jólagjöfina sína fyrirfram í tilefni komu okkar og myndatökunnar, en hvert barn fékk nýjan skólabúning. Þeir gömlu voru orðnir slitnir og alltaf hverfur eitthvað af fötum barnanna þegar fátækir vinir og ættingjar koma í heimsókn og sjá sér þann kostinn vænstan að fá eitthvað af fötum “lánuð” heim. Þarna stóðu svo þessi fyrirmyndabörn og nemendur í nýju skólabúningunum sínum með bros á vör og stilltu sér þæg og góð upp fyrir Ísland. Svo fengu þau frjálsan tíma fram að svefni. Stúlkurnar sofa saman á hæð og drengirnir saman. Hvert barn hefur sína strámottu til að sofa á á gólfinu og teppi til að breiða ofan á sig. Svo eiga allir sinn lítinn kistil þar sem þau geyma sína einka hluti. Ég kíkti inn í svefnálmur stúlknanna og þar voru sumar að biðja bænirnar sínar og aðrar að hjálpast að við að losa flétturnar fyrir svefninn. Enn aðrar voru sofnaðar og hjúfruðu sig þétt að hvor annari í svefni. Það er augljóst að börnin eru öll miklir vinir, enda hafa þau aðeins hvort annað.

Heimili litlu ljósanna er án efa heimili af Guðs náð. Andrúmsloftið er afar friðsælt og gott að öllu leyti. Samuel hefur tekist mjög vel að gefa börnunum gott heimili, heimili af öryggi og umhyggju, en það er það sem þessi litlu foreldralausu börn þurfa. Skipulagið á hlutunum er mjög gott, ólíkt því sem gengur og gerist á Indlandi, enda ekki annað hægt þegar um svona mörg börn er að ræða. Okkur var mjög vel tekið af litlu ljósunum og aðstandendum þeirra og það var greinilegt að hér hafa það allir eins og best er á kosið í stöðunni. Það kom okkur mikið á óvart hversu allt var hreint og fínt miðað við Indland - en þetta er jú lítið Ísland í Indlandi.

Þörfin er mikil á góðum stuðningi frá okkur Íslendingum. Þau stóla öll á okkur. Þau vantar til dæmis dýnur til að sofa á, stóla fyrir öll börnin og bækur á tómt bókasafnið sitt. Einnig er þörf á skóla hér á menntaskólastigi því börnin sem hér eru búin með 10. bekk eru oftast ekki tilbúin að fara út af heimilinu í skóla annars staðar. Draumurinn er að gera þennan stuðning við munaðarleysingjana að keðjuverkandi samstarfi. Þegar þau eru orðin fullorðin og búin að læra hér á heimilinu í skóla og á lífið, þá hjálpi þau næstu börnum. Þetta er allt á góðri leið, en það vantar alltaf fleiri styrktaraðila.

Í dag kostar það mig 2500 krónur á mánuði að styrkja Ramesh Vinukonda, 12 ára munaðarlausan dreng á Heimili litlu ljósanna. Við höfum styrkt hann núna í 5 ár eða frá því hann var 7 ára. Við fáum af og til senda mynd af honum ásamt einkunnum úr skólanum og myndir sem hann hefur teiknað. Í hverju bréfi skrifar hann að hann elski okkur. Þetta heitir að vera styrktarforeldrar og lætur okkur líða vel vitandi af því að við getum hjálpað aðeins til. Það skiptir allt máli hversu lítið sem það er. Maður hugsar sig ekki tvisvar um að fara í bíó og eyða í popp og kók og með því, - af hverju ættum við að hugsa okkur tvisvar um þetta?! Fyrir okkur sem Íslendinga er þetta ekki mikill peningur á mánuði, - en fyrir litlu ljósin er þetta líf.

Þau báðu kærar kveðjur frá Íslandi á Indlandi.

Vá - tilfinningin hellist alveg aftur yfir mig núna þegar ég les þetta 5 árum síðar. Eins og það hafi gerst í gær.

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Stigahrap 

Ég er í henglum akkúrat núna - datt svoleiðis eða hrapaði hreinlega í stiganum hér heima. Lenti svakalega flott samt - á bakinu með lappirnar upp í loftið, eins og hálfviti. Og þetta var helv... vont. Er að kálast í bakinu - marin og blá.

Síminn hringdi og það var einhver sölumaður í símanum að selja geisladiska fyrir félagið Hetjurnar sem eru félag langveikra barna og svo var hann að tala um diskinn og listamennina sem gáfu vinnu sína til að setja á diskinn og bla bla... og ég að labba niður stigann - úr risinu, svaka einbeitt að hlusta á hvaða æðislega disk hann væri að selja...(!) og á sleipum inniskóm... og plaff. Síminn hentist úr hendinni á mér, ég öskraði úr mér lungun og fór svo að grenja ég meiddi mig svo! Og sölukallinn var enn í símanum... ég veit ekki hvað hann hefur haldið. Að ég væri að losa mig við hann? Mikið á sig lagt... súrt ef einhver reynir þetta til að losa sig við sölumann. Neeee, þetta var alveg hallærislegt. Og vont. Björtu punktarnir við þetta fall er að ég losnaði við kallinn úr símanum og þarf því ekki að kaupa þennan hetjulega geisladisk (kann ekki að segja nei við svona gæja) og Viggi kom hlaupandi og kyssti á báttið í bak og fyrir. Mmm.

Fall er fararheill = dett ekki aftur í þessum stiga og verð happí ever after á Hverfó. Svona hef ég ákveðið að túlka þennan atburð (þar til ég dett næst) ;)

sunnudagur, janúar 25, 2004

Helgin 

Helgin var fín. Laugardagurinn fór í maraþonkóræfingu sem stóð beisikklí yfir allan daginn. En það var þess virði, lærðum fullt enda ekki seinna vænna þar sem tónleikar eru á næsta leiti. Já, skora á alla að koma og hlusta á Kammerkór Hafnarfjarðar syngja með Erlu kórsöngfugl innanborðs!

Í dag sunnudag var svo farið í sund og fengið sér tilheyrandi pulla á eftir. Kringlan eignaðist nokkra peninga frá okkur en ég splæsti í þessar fínustu buxur og í svona ljósastjörnu til að hengja í gluggann... - gat ekki ákveðið mig hvort mig langaði meira í hvíta og gráa eða turkish litaða svo ég splæsti bara í báðar!! Veit er klikk ... Þær eru æði. Begga vinkona er með eina svona græna í glugganum hjá sér og ég féll alveg fyrir henni.


En well, Elva, Torfi og Úlfur komu svo í heimsókn og við horfðum saman á Tékkana gjörsamlega ganga frá Íslendingum í handboltanum. Alveg svekkjandi hvað við erum eitthvað léleg þessa dagana í boltanum. Í alvöru þá finnur maður móralinn í íslensku samfélagi sveiflast með gengi "strákanna okkar". Þegar þeim gengur vel eru allir svo kátir og ánægðir og fjölmiðlarnir brosandi (einu jákvæðu fréttirnar oft á tíðum) en þegar þeir tapa þá fellur mórallinn í ákveðna lægð og fólk og fjölmiðlar pirra sig yfir því hvað þeir hafi nú verið lélegir greyin. Helst einhvern veginn í hendur finnst mér! Buðum svo Elvu og kó í heimagerða pizzu eftir leikinn. Úlfur er alltaf í stuði, alltaf brosandi og sætur.

Þannig fór um helgi þá. Sem sagt, ekkert slúður og ekkert spes að gerast. En þannig eru oft bestu helgarnar.

föstudagur, janúar 23, 2004

Bóndadagurinn 

Já, bónadagurinn er loksins runninn upp! Loks fæ ég tækifæri á að gleðja bónda minn. Eeeemmmmeett. Æ, ég veit það ekki - finnst svona skipulagðir "gleðji-dagar" ekki alveg vera að funkera. Það á ekki að þurfa að segja manni að vera með surprise - þá er það ekkert surprise lengur. Maður á bara að fatta upp á því sjálfur á ósköp venjulegum dögum. Þá kemur það á óvart. Það er búið að búa til þvílíkar væntingar hjá öllum körlum að þeir verða bara fyrir vonbrigðum þegar þeir fá "bara blóm" eða "bara dinner" sem konan eldar hvort eð er alla aðra daga ársins. Svo held ég að körlum finnist ekkert gaman að fá blóm. Það eru bara kellurnar sem vilja gefa þeim blóm af því þeim langar svo í góða lykt og fegurð í stofuna hjá sér. Alla vega flestir karlmenn - vill nú ekkert vera að alhæfa hér neitt.

En verð að segja ykkur frá alveg hrikalegustu póstsamskiptum sem áttu sér stað hér í IMG á meðal kvenna, en hér er meilgrúppa sem heitir "konur" og aðeins konur fá þann póst sem er sendur á það. Og í gær byrjaði ein að spyrja okkur hvað við ætluðum nú að gera fyrir mennina okkar á bóndadaginn, hvort við gætum nú ekki skipst á hugmyndum...jæks! Einhverjar ætluðu að elda góðan mat, aðrar stungu upp á þriggja mánaða áskrift að Sýn...oj, þetta voru alveg hrikalegar samræður. Þær sem mest tóku þátt í þessum póstsamskiptum eru aðeins eldri en við - kannski er þetta kynslóðabilið - wow - veit það ekki. Að við þessar yngri erum meiri rebels og finnst þetta ekki viðeigandi á meðan hinar gömlu og "góðu" halda sig við hefðirnar því "þannig á þetta að vera"? Nei, bara pæling.

Kannski er samt hægt að líta á tilganginn með bóndadeginum nú á dögum sem svona tæki til að "hrista upp í fólki". Að minna það á að það getur brotist út úr viðjum vanans. Að hversdagurinn þurfi ekki að vera leiðinlegur af því hann er hversdags. Að lítil tilbreyting er oft allt sem þarf.

Hvað sem þessi dagur er eða gerir þá fær Vigginn alla vega knús frá mér, en það er ekki í tilefni dagsins. Bara í tilefni þess að ég elska hann - hvort sem það er bóndadagurinn eða ósköp venjulegur föstudagur.

þriðjudagur, janúar 20, 2004

Trúarbragðapælingar 

Trú er flókið fyrirbæri fyrir mér. Heyrði í fréttum að frönsk stjórnvöld ætla að banna fólki að ganga með áberandi trúartákn eins og blæjur, stóra krossa og gyðingakollhúfur. Já, þvílíkt og annað eins - er þetta hægt? Er betra að reyna að þurrka út "vandamálið" heldur en að einbeita sér að rótum vandans? Ætli þessir hlutir eins og blæjan, krossinn og húfan sé í alvöru málið? Hefur ekki hver rétt á að hafa sinn smekk og frelsi í klæðaburði jafnt sem tali? Ja, ég bara spyr. Þetta er jú flókið, en að halda að allt verði betra þegar fólk getur ekki merkt sig ákveðinni trú held ég að geri hlutina ekkert betri. Frjálslyndið ekki alveg að drepa Frakkana hér. Jú, það eru án efa stór vandræði sem hljótast á milli kaþólskra og þeirra fjölda múslima sem þar búa en ég efast um að blæjan og krossinn séu málið þegar upp er staðið. Það þarf frekar að kenna umburðarlyndi og virðingu fyrir "hinum", kenna fólki að lifa í sátt og samlyndi hvort sem það er með grænt hár, gulltennur, í strápilsi, með blæju, kross eða kollhúfu. Það hlýtur að vera hægt. Á endanum.

Spurningin er alltaf hversu langt á að ganga. Ég man eftir að ég las einhvers staðar að múslimar sem voru í meirihluta í einhverjum litlum bæ í Þýskalandi fengu því framgengt að kirkjuklukkurnar í bænum sem höfðu klingt á hverjum sunnudegi í aldaraðir skyldu þagna. Kirkjuspilið töldu þeir móðgun við sig og sína trú. Hugsið ykkur. Banna þetta og banna hitt er held ég ekki alveg að gera sig. Frekar að læra að sætta sig við, taka fólki eins og það er og fara millileiðina þegar deilt er.

Pís bró.

mánudagur, janúar 19, 2004

Árshátíðar-Smjatt 

Ég er í matarklúbbi sem heitir Smjatt. Svona eins og smjattpattarnir. Já, okkur stelpunum finnst miklu skemmtilegra að elda og borða heldur en prjóna í saumó eða hvað það nú heitir. Við stofnuðum því matarklúbbinn Smjatt og drykkjuklúbbinn Sötr þegar við útskrifuðumst úr MH. Vorum hræddar um að sambandið myndi slitna á milli okkar, en Smjatt og Sötr hafa þvert á móti gert okkur að bestu vinkonum.

Árshátíð Smjatts var á laugardagskvöldið. Þá fá makarnir að fylgja með og við gerum eitthvað aðeins öðruvísi eins og höfum þriggja rétta máltíð og einhvers konar skemmtiatriði. Að þessu sinni var leikur þar sem allir viðstaddir áttu að kjósa mesta kúlista, mesta djókarann, mesta djammarann, mesta gáfnaljósið, mestu dúlluna og "pollýönnu" hópsins. Þetta var hinn skemmtilegasti leikur og dreifðust stigin ansi jafnt á milli manna. Fyrir þá sem til þekkja þá samkvæmt þessum niðurstöðum er Begga mesta dúllan, Aron mesti kúlistinn, Eva mesti djammarinn, Sonja Pollýanna, Viggi mesti djókarinn og ég mesta gáfnaljósið!! Jesús minn hvað það passar ekki í þessum hópi gáfnaljósa. Flestar dúxar í sínum fögum og allir svakalega klárir á sínu sviði. Enda dreifðust þessi stig mest. Ég rétt marði í 3 stig af 13! Ykkur að segja hefði ég frekar vilja vinna kúlistaverðlaunin, en svona er samkeppnin hörð í hópnum! He he. Við erum öll svo æðisleg að það hálfa væri nóg. Ég elska vini mína! Án þeirra gæti ég hreinlega ekki verið. Svo smjöttum hátt og sötrum vel og lengi :)

By the way, hér er smá fóður fyrir karl-lesara þessa bloggs ef einhverjir eru - hún Dollý okkar Parton titts á afmæli í dag - kántrígella og eilífðarhottí með meiru... enjoy.


föstudagur, janúar 16, 2004

Góða helgi! 

Varð að deila þessum flotta Robbie með ykkur.
Hef reyndar aldrei verið hrifin af tattúi en það svínvirkar á þessum kauða.Góða helgi - og munið

(bakið á Robbie)

fimmtudagur, janúar 15, 2004

Hvítir sokkar 

Alltaf eru fréttirnar jafn skemmtilegar. Ég elska svona useless fréttir sem eru ekki um pólitík eða stríð. Slíkar íslenskar fréttir fjalla jafnan um veður og færð, sauðburð eða náttúruna. Í fréttunum áðan var hins vegar frétt frá Hollandi um hvíta sokka. Já, það var einhver ráðherra sem lagði inn formlega kvörtun þar sem hann var að vinna í ráðuneyti nokkru um að það væri of mikið af fólki sem væri fínt klætt í vinnunni en rústaði því svo með því að vera í hvítum sokkum! Bara fyndið. En örugglega réttmætt. Eða það finnst mér. Veit svo sem ekki hvort ég myndi leggja inn kvörtun en þetta er jú allsvakalega ljótt fyrirbæri. Hvítir sokkar við jakkaföt eru ekki að fúnkera í mínum huga. Sá sem gerir það hlýtur að vera litblindur. Hvítir sokkar eiga í raun bara að vera tabú fyrir utan íþróttasalinn. En ég held það sé nú erfitt að ætla sér að banna hvíta sokka á vinnustað! Í vinnunni hjá mér er reyndar einn gæi sem er alltaf í hvítum sokkum, reyndar bara við gallabuxur, og hann er í inniskóm og þessir sokkar æææpa alveg á mig á hverjum degi. Og ég hugsa bara ósjálfrátt hvað greyið manninn er lummó. Það bara getur ekki verið að konan hans viti um þessi mistök. Ég veit, ég er ekkert skárri en hollenski ráðherrann. En maður getur samt bara ekki bossast með allt. Smekkur manna er bara misjafn sem betur fer. Maður væri ekkert spes ef allir væru eins kúl og maður sjálfur....Jæks!

Kórstelpan ég 

Fór á mína fyrstu kóræfingu síðan fyrir 10 árum í gærkvöldi. Er svaka ánægð með mig. Já, er byrjuð í Kammerkór Hafnarfjarðar og líst vel á. Þetta er lítill kór en svaka fínn og ég á 2 svaka fínar frænkur í kórnum sem hafa verið í honum lengi og láta vel af.

Nú, þetta gekk svona la la hjá mér. Ég les ekki nótur og spila ekki á hljóðfæri svo ég verð að hlusta extra vel til að ná lögunum. Í gær (og í dag) var ég líka með hálsbólgu og var nú ekkert að sperra röddina neitt hátt. Líka best að stay low svona fyrst um sinn sko – svo kemur sprengjan síðar!

Lögin sem við erum að syngja núna kallast matrígalar og eru einhver spes tegund af tónsmíði sem ég á eftir að uppgötva. Það er mjög spes taktur í þessum verkum en mjög falleg. Kórstjórinn sagði að það að syngja matrígala sé eins og að læra að drekka Wiskey, maður þarf að læra á það, kemur smátt og smátt og svo á endanum verður maður háður því. Úff, veit nú ekki með þá samlíkingu, hef aldrei getað drukkið Wiskey. En ætla þrátt fyrir það að gera mitt besta með matrígalana og allt hitt sem verður þarna á dagskrá.

Er svo ánægð með mig að vera loks orðin kórstelpa aftur. Þetta er svooo skemmtilegt. Svo fær maður meira að oft að syngja á ítölsku og svona. Eitt lagið sem við æfðum í gær hét “lascia mi morire” (frá árinu fimmtánhundruð og eitthvað) og er mest þessi setning út í gegnum allt verkið. Það var svaka fallegt, en ég held að ekki margir kórfélagar hafi gert sér grein fyrir því að þetta þýðir “leyfðu mér að deyja”! He he. En það er aukaatriði því ryþminn og söngurinn er svo fallegur. Já, nú er ég ekki bara fugl, heldur söngfugl.

miðvikudagur, janúar 14, 2004

Konur 

Var að heyra í útvarpinu að í gær hafi það gerst í Afganistan í fyrsta sinn að kona birtist í sjónvarpi með hárið bert, þ.e. án höfuðklúts. Sem mér finnst frábært. Sýnir kannski og vonandi að eitthvað sé á leiðinni að breytast til hins betra þarna fyrir konur.

Svakalega er maður nú heppinn að vera kona á Íslandi. Jafnréttisbaráttan alveg í brennidepli og í raun flott að vera kona. Reyndar finnst mér ákveðin pressa vera á íslenskum konum. Þær eiga að vera fallegar, hávaxnar, klárar, helst með margt á könnunni í einu, eiga slatta af börnum, vera samt í formi, kunna að elda góðan mat, vera í stjórnunarstöðu, vera helst í framhaldsnámi með vinnu, alltaf í tískunni og brosandi.

Ok, ég er hávaxin, bláeyg, sæmilega klár, slatti að gera hjá mér í hinu og þessu, er í fínu formi þótt ég sé með selló, kann að elda (góðan?) mat, reyni að vera í tískunni og brosi oftar en ekki. Þá vantar bara stjórnunarstöðuna, framhaldsnámið og börnin! Tja, það er ágætisárangur hjá mér. Væri samt ábyggilega frábær árangur í Afganistan. Eða hvað? Þar eru án efa aðrar áherslur sem snúa meira að einstaklingsfrelsinu heldur en ofurmennistískulúkkfrelsinu. Eða hvað það á að kalla þetta frelsi sem við búum við hér á Íslandi.

Hvað sem því líður er ég stolt af því að vera íslensk kona.

þriðjudagur, janúar 13, 2004

Heimsmet í brjóstahaldaralosun með einni 

Var að horfa á Jay Leno í gær og þar birtist þessi maður sem á heimsmetið í brjóstahaldaralosun með einni hendi! Já, það sem fólki dettur í hug. Hann vildi verða heimsmethafi í einhverju og prófaði þetta. Æfði sig heima á gínum og varð svona svaka góður í þessu. Losaði 17 stk. á 46 sekúndum hjá Jay. Þvíííílíkt afrek segi ég nú bara.

Í hverju gæti maður nú prófað að verða heimsmethafi? Auddi og Sveppi hafa nú reynt ýmis Íslandsmet í 70 mínútum, þeir ættu kannski að reyna fyrir sér í vitleysisgangnum á heimsvísu.

Eftirfarandi heimsmet koma til greina (ég gæti hugsanlega orðið góð í þessu ef ég æfi mig):

Brjóstahaldaralosun með tönnunum (við konur hljótum að vera betri í þessu en karlar og er með þokkalegustu tennur)
Klæða sem flesta karlmenn úr nærbuxunum í beinni útsendingu með einni hendi
Knúsa sem flesta á einni mínútu

Neee, held ég láti nægja að vera ábyggilega mesta frekjan, rauðhausinn, freknufeisið og fattlausust innan vinahópsins :)

sunnudagur, janúar 11, 2004

Bella Italia 

Vorum að koma af veitingastaðnum Ítalíu, búin að gúffa í okkur bestu pizzum bæjarins, Quattro stagione og Americana. Höfðum ekki farið á Ítalíu í langan tíma en áður fyrr vorum við fastir gestir. Og það er alltaf jafn æðislegt að sitja þarna og borða. Viggi var sko yfirþjónn þarna í gamla daga og þá mætti maður í mat svona tvisvar í viku. Svo eftir að Viggi hætti þá hélt Ítalía áfram að vera staðurinn "okkar".

Það er yndislegt að koma þarna á sunnudagskvöldum, en þá er hann Leone iðulega að spila og syngja. Leone er s.s. ítali sem byrjaði að vinna á Ítalíu sem pizzugerðarmaður en fór svo síðar meir að syngja og spila á gítar ítölsk lög fyrir matargesti. Og hann er svakalega flottur. Sjarmerar mann alveg upp úr skónum. Ég gleymdi næstum því að borða af því hann tók mig svo með í söngnum. Veitingastaðurinn er lítill og Leone er í svo mikilli nálægð og tekur mann alveg með sér.

Ítalskan er líka svo seiðandi tungumál. Ég hef alltaf elskað ítölskuna. Sérstaklega eftir að ég lærði að babbla hana ágætlega úti í suður Sviss í den. Lærði að tala ítölsku þegar ég var að vinna á píanó bar eitt gott sumar 18 ára gömul úti í ítölskumælandi Sviss. Kunni ekkert til að byrja með, skildi bara "coca cola" og "fanta" og "gin tonic" inn á milli allra hinna orðanna þegar gestirnir pöntuðu sér drykki. Svo fór maður að skilja orðin í kring og samhengið. Lærði sem sagt það sem ég kann af fullum ítölskum bargestum (...mest karlkyns) sem reyndu stöðugt að sjarmera mig með sér annað hvort í spagettí, í siglingu út á bátinn þeirra, upp í fjallakofann þeirra, á ströndina með þeim... og you name it. Já, þarna var ég, rauðhausinn, kölluð "bionda" (var víst ljóshærð í þeirra augum!) af ítölsku sjarmörunum og var þvílíkt hot. Þeim var alveg nákvæmlega sama þótt Viggi væri að vinna hinu megin við vegginn á sama hóteli, ég var á barnum og hann að þjóna inni í matsal! Skipti þá litlu máli. Ég lærði að segja nei við þá - en notfærði mér samt samræðurnar í að læra ítölskuna :)
Þetta var skemmtilegt sumar.

En aðalástæðan fyrir því að við fórum á Ítalíu fyrr í kvöld var að Harpa og Gunni vinir okkar eru að fara að gifta sig í sumar og ég (veislustjórinn stolti) og Viggi stungum upp á því að Leone myndi syngja í kirkjunni hjá þeim. Þannig við tókum Hörpu með okkur (Gunni er fjarri góðu gamni úti í Saudí að fljúga) til að leyfa henni að heyra. Og hún dáleiddist á stundinni, eins og við.

Ég hef nú misst niður nánast alla ítölskuna þótt ég skilji enn slatta. En ég er svooo skotin í þessu tungumáli. Það er svo hljómfagurt og flottur ryþmi í því. Það er ástæða fyrir því að langflestar óperur eru á ítölsku, virkar einfaldlega flottast. En ég fékk sendan bækling frá Tómstundaskólanum Mími um daginn og hef ákveðið að taka ítölskunámskeið þar þótt síðar verði og rifja upp gamla takta.

Si, devo imparare di piu italiano.....
Tanto amore a tutti.
Ciao,
(hljóma ég ekki sexí??)

laugardagur, janúar 10, 2004

Íslensk ædol 

Horfði á Ædolið í gær. Þar sem ég tími ekki að borga fyrir Stöð 2 fór ég til ömmu og horfði á það með henni! Já, hún hefur fylgst með þessu áttræð kellingin eins og flestir aðrir Íslendingar. Og fílar þetta vel. Pæliði í því að karókíkeppni sé orðin eitt vinsælasta sjónvarpsefni landans! Reyndar var handbolti á RÚV á meðan á ædolinu stóð - Ísland-Sviss og amma þurfti alltaf að vera að skipta yfir og kíkja á leikinn! Tékka hvernig vörnin var að gera sig og hvort Óli Stef hetjan hennar væri nú ekki að standa sig. Hún er nebblega gömul handboltahetja. Spilaði með Haukum hér í gaaaaaamla daga og þær urðu Íslandsmeistarar 10 ár í röð. Ég hef séð gamlar myndir af henni spila og þá var það úti á grasi í hvítum plíseruðum pilsum. En samt flottar!

Nú, ég er svo ánægð með að hún Ardís er loksins dottin út úr þessari Ædolkeppni. Mér hefur fundist hún ömurleg frá byrjun. Svo planað og flatt einhvern veginn allt sem hún gerir. Svo útreiknað og týpískt. Ok, hún er með fína englarödd en heildin verður alltof leiðinleg eitthvað. Kalli B. er held ég langsterkasti keppandinn. Hann á eftir að vinna þetta. Ég held eiginlega með honum eftir að Anna Katrín er farin að klikka svona í röddinni.

Og ó mæ kræst hvað Birgitta Haukdal greyið leit illa út í imbanum í gær. Var aukadómari í keppninni og hún var eins og gömul útbrúnkuð kelling með krumpaða leðurhúð eftir aðeins of marga ljósatíma. Æts, var ekki að gera sig. Málar sig svo alltaf eins og trúður. Ekki að gera sig. Ok - maður er ekki sú brúnasta (enda kannski löglega afsökuð = rauðhaus), er reyndar hrikalega hvít og föl þessa dagana, en mér finnst alltaf jafn fyndið þegar íslenskar stelpur keppast við að vera sem brúnastar á Íslandi í janúar!! Það sést ekki einu sinni til sólar hvað þá meira. Og margar þeirra eru á leiðinni að verða með svona krumpu-leðurhúð eins og greyið Gitta.

fimmtudagur, janúar 08, 2004

test 

Ætla að reyna að setja mynd inn á þetta blessaða blogg... en er ekki sú klárasta í þessu svo við sjáum hvað setur...

Ef ég er klár þá mun Robbie Williams birtast ykkur kæru lesendur hér fyrir neðan...
Sá tónleika með honum í sjónvarpinu milli jóla og nýárs og hann er svo æðislegur. Það tilkynnist hér með að ég er hrikalega skotin í honum! Þvílíkur töffari.... úff.
Megið búast við fleiri myndum síðar...Jess, þetta tókst :)
Enjoy.

miðvikudagur, janúar 07, 2004

Viggi afmæli 

Í dag á hann Viggi minn afmæli - orðinn 31! Til hamingju ástin mín.
Í kvöld verður smá afmæliskaffi fyrir þá sem fengu ekki nóg yfir jólin :)

föstudagur, janúar 02, 2004

Gleðilegt ár! 

Gleðilegt ár allir sem ég þekki og þekki ekki nær og fjær! Þakka allt gamalt og gott og súrt og sætt.

Þá er jólastússið liðið og allt að falla í normið aftur. Reyndar er hátíðinni hjá okkur aldrei almennilega lokið fyrr en Viggi er búinn að eiga afmæli þann 7. janúar svo það er enn dágóður partýtí­mi eftir.

Jólin voru fí­n. Lögðust vel í­ mig aldrei þessu vant. Og ég var ekki að bíða eftir að þeim lyki eins og svo oft áður. Bara naut þess að sofa og borða yfir mig af mat og kökum. Fórum tvisvar upp í Bláfjöll á snjóbretti. Í seinna skiptið í­ frábæru færi, það var allt á kafi í­ snjó og púður út um allt og gott veður. Fórum um kvöld og það er svo svakalega kósí að vera uppi í fjöllum að brettast í myrkrinu. Eitthvað svo rómó.

Nú, ég fékk fullt af fínum gjöfum (ætla reyndar að skipta yfir helmingnum af þeim... já, það má velta því fyrir sér hvað mannfræðikenningarnar um gjafir sem ég skrifaði um hér fyrir ofan segja um það...Þekkir viðkomandi mann ekki nógu vel? Er maður að hafna gefandanum á ákveðinn hátt með því að sila því sem hann ákvað að gefa mér? Úff, ég veit það ekki?!)
En fínasta gjöfin var frá Vigganum. Svaka sætt armband úr uppáhaldsbúðinni minni, Aurum. Mæli alveg með henni. Flott íslenskt hönnum. Svo Viggi sló í gegn þetta árið - eins og alltaf.

Og ég sló víst líka í gegn var mér sagt, en ég málaði mynd handa kappanum og hún er þegar komin upp á vegg (NB. er samt bara föndrari - ekki listakona...) Nú er bara að leggja hausinn í bleyti hvað ég á að gefa honum í afmælisgjöf.

Um áramótin vorum við svo með 20 manns heima í mat, báðar fjölskyldur okkar. Það var bara útbúið eitt stórt langborð í stofunni sem náði endanna á milli. Mikil vinna en svaka gaman. Vona að þetta verði árlegur viðburður.

Ég og Viggi fórum saman yfir liðið ár daginn fyrir gamlárs, hvað við gerðum á árinu og hvað gerðist sem við mundum sérstaklega eftir. Ætla að fara að fordæmi Binna (www.binniborgar.blogspot.com) hennar Mæju og gera upp árið hér og nú á síðunni:

Uppgjör :)

Janúar: Já, janúar var fínn mánuður. Viggi varð þrítugur og við héldum heljarinnar þrítugsafmæli. Það var dansað og djúsað fram á nótt eins og okkur er lagið.

Febrúar: hmmm..... hvað var eiginlega á seiði þá? Man bara ekki eftir neinu sérstöku þótt það hafi ábyggilega verið eitthvað. Júbb, árshátið IMG - ég og Lena í árshátíðarnefnd og við slógum í gegn með diskóþemanu. Páll Óskar dj og dúettinn Þú og ég mættu á svæðið og tóku lagið.

Mars: Litli Anton Karl fæddist 5. mars.
Amma varð áttræð og bauð allir fjölskyldunni til Kanarí og þar dvöldum við í viku í góðu yfirlæti. Sól, sjór og sandur og góður matur.... mmmmm. Kanarí kom mér virkilega á óvart. Hef alltaf haldið að Kanarí væri bara fyrir gamalmenni og sjúklinga en þannig virðist það vera markaðssett hér heima. En svo var nú alls ekki. Þarna var alls konar fólk. Meira að segja er þetta orðin hálfgerð hommanýlenda - tók víst við af Ibiza hvað það varðar fyrir nokkrum árum. Svo allir una sér vel þarna. Reyndar er ekkert hevví djamm þarna en nóg um að vera. Nektarströnd og allt (oj oj oj...)

Apríl: Í apríl 2003 var ég búin að vinna í heilt ár hjá IMG Gallup. Já, tíminn líður hratt þegar það gengur vel og er gaman.

Maí: Fórum til Köben í heimsókn til Vilborgar og til Auðuns og Völu í Lundi í Sverige. Svaka skemmtileg ferð. Ég átti afmæli í tívolíinu og við fórum meira að segja tvisvar í turninn sem hendir manni niður á feiknahraða. Fékk svakalegt kikk út úr því - og þykist svo vera flughrædd! Tja, meiri vitleysan. Fékk svo krúttlega fiðrildasandala í afmælisgjöf frá Vigga.
Í Lundi lærðum við að spila Kubb sem er sænskt víkingaspil og er rosa skemmtilegt. Varð vinsælt meðal vinanna hér heima og við fengum nett kubb æði. Frétti síðar um sumarið að hér heima er haldið íslandsmót í Kubb! Verðum pottþétt með á næsta ári.

Viggi, Aron og Rúnar fóru í gönguskíðaferð upp á Vatnajökul og Embla og Eva héldu upp á afmælið sitt með stæl. Við héldum líka afmælis-júróvisjónpartý sem var virkilegt stuð, enda ekki við öðru að búast með þeim frábæru vinum sem við eigum.

Júní: Brósi afmæli. Ég, Viggi og Helena gengum upp á Snæfellsjökul um hvítasunnuhelgina með snjóbrettin og tókum krúsið niður. Alveg magnað. Sv fórum við Viggi, Helena, Rúnar og Örlygur upp á Hvannadalshnúk helgina á eftir og geri aðrir betur! Tókum brettin með okkur og krúsuðum niður. Við vorum 15 tíma upp og niður með góðum pásum. Þetta var klikkuð ferð. Ólýsanlegt útsýni og náttúrufílingur. Ég var alveg dauð eftir þetta og langaði mest til að leggjast í dvala í nokkra daga eftir þetta. Titraði og skalf af þreytu en var svo í góðum gír strax daginn eftir. Geri þetta pottþétt einhvern tímann aftur.
Sonja, Kolla og Vilborg áttu 27 ára afmæli. Vilborg kom heim frá Köben og Mæja kíkti í heimsókn frá UK.

Júlí: Fórum mörg saman í Landmannalaugar. Það var þoka og rigningarúði allan tímann og laugin var köld en samt var gaman. Hittum eitthvað lið sem var með gítar og söngbækur og sungum alla nóttina. Viggi og Rúnar urðu svo fullir að þeir héldu að þeir væru orðnir blindir þegar þeir sáu ekki lengur söngtextana....æjæjæj... svona fer alkahólið með mann. En djö voru þeir fyndir. You had to be there.
Mæja afmæli :)

Ágúst: Um verslunarmannahelgina fórum við Viggi í IMG gönguna. Sonja og Gestur fóru með okkur en við vorum 14 saman. Þó aðeins 4 frá IMG. Gengum á 4 dögum frá Laka yfir í Núpsstaðaskóg. Svaka fín ganga. Fórum yfir einn skriðjökul og 3 jökulár sem var hægara sagt en gert. Þvílíkur kraftur í náttúruöflunum. Einn í hópnum féll ofan í jökulsprungu og var heppinn að slasa sig ekki illa. Þetta var þokkalegt sjokk fyrir allan hópinn en fór vel sem betur fer. Svo var ég næstum flotin í burtu í einni jökulánni. Sá bara lífið fljóta framhjá mér og mig drukkna í ánni, svo svakalegur var straumurinn. Áin var að gleypa mig. Ég fullyrði að ég hef aldrei orðið eins hrædd á ævinni, úff hrikaleg lífsreynsla. En ég er hér enn, var bjargað af hetjum sem voru með mér :)
Eftir gönguna keyrðum við Viggi svo um austfirðina, þræddum hvern fjörð á fætur öðrum og gistum í bændagistingu sem er algjör snilld. Fengum frábært veður og þetta var mjög spes. Fátt fólk á ferli í þessum fjörðum. Enduðum á Mývatni í góðra vina hópi.
Þann 12. ágúst fæddist svo elsku Úlfur hennar Elvu. Oh, hann er bara æðislegur. Þegar ég hélt á honum dagsgömlum fann ég í fyrsta sinn þá tilfinningu að ég gæti orðið og að ég treysti mér virkilega til að verða einhvern tímann mamma.

September: Sumrinu lokið, ferðalögum og göngum lokið í bili. Begga hélt fínt afmælispartý.

Október: Elva Ruth afmæli. Auðun Gauti kom í heiminn í Sverige.

Nóvember: Við búin að eiga heima á Hverfisgötunni í 1 ár. Það er svaka fínt, okkur líður hvergi betur. Mamma átti afmæli.

Desember: Jólaglögg IMG með IMG-Idolinu sem ég, Vilborg Helga og Trausti stóðum fyrir. Fengum fína dóma (okkur fannst við ógeðslega fyndin). Jólasmjatti var haldinn og svo komu jólin og áramótin.

Finító. Ég er ábyggilega að gleyma einhverju, en árið 2003 var barasta afbragðsár. Við Viggi höfum t.d. ekki ferðast eins mikið innanlands og utan í langan tíma.
Og 2004 leggst prýðilega í mig.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker