<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, september 28, 2007

Gleðilega helgi... 



Við ætlum að leika okkur í lúxusnum á þessu hóteli á Montelimar ströndinni sem er um klukkutíma frá Managua. Já, öfgarnar eru skrýtnar, maður fer úr því að safna fyrir framtönn og lyfjum yfir í að njóta lífsins á einkaströnd. Úff. Já, lífið er skrýtið og öfugsnúið. En alltaf er maður að gera sitt besta.
Skál í sandi, sundi og sjó...

Tranquilissimo... 


Níkar eru upp til hópa rólegheitafólk.

Hér er ekkert stress og fimm mínútur á níkatíma geta allt eins verið fimm tímar. Í umferðinni stoppa bílar hér og þar á miðri götunni til að spjalla eða bara til að klóra sér í hausnum. Einhverjir flauta jú en sýna samt skilning og bara sveigja hjá. Frasinn að drífa sig er ábyggilega ekki til hér. Það þarf mikið að ræða málin hér og fólk situr mikið úti í ruggustólunum sínum fyrir utan húsin sín og ræðir málin. Það eiga ALLIR ruggustóla. Ef eitthvað kemur upp á eins og árekstur eða annað er erfitt að afgreiða málið á no time eins og Íslendingurinn ég myndi til dæmis helst vilja gera, en mun auðveldara og níka like að ræða málið síendurtekið ofan í þaula. Sko án þess samt að komast að niðurstöðu.

Já, tjill er takturinn hér. Ég hef sem sagt lært ennþá meiri þolinmæði núna - vei vei fyrir mér. Set það á cv-ið! Nei þetta er auðvitað svakalega hollt og engin ástæða til að æsa sig what so ever. Þægilegt og næs. Ruggandi rólandi róandi rólegheit. Og svo auðvitað salsa inn á milli.

Við fjölskyldan erum komin í taktinn og höngum mikið heima eftir vinnu og skóla og þá auðvitað í hengirúminu og í hengirólunni.



þessar eru teknar af veröndinni okkar í bleika húsinu, hangandi hægindi - svona eins og það á að vera!



Vera í réttum takti
þetta krútt sáum við um daginn, algengt er að börn séu svæfð (og geymd!) í hengirúmum.

miðvikudagur, september 26, 2007

Öryggið mitt 

Það er eitt starf hér í Nicaragua sem ég get ekki hætt að pæla í.
Það er starf öryggisvarðar.

Hér er allt morandi í öryggisvörðum, einkennisklæddum með risariffla á bakinu. Þeir eru við öll betri einkaheimili, við allar verslanir og meira að segja úti á almenningsbílastæðum hér og þar í borginni. Þeir standa eða sitja gjörsamlega aðgerðarlausir við hlið og dyr á húsum og verslunum, svitnandi í sólinni sallarólegir. Hlutverk þeirra er að gæta, passa, opna dyr og búið. Sumir eru heppnir og fá að skrá niður alla bíla sem koma á bílastæðið eða að ákveðinni byggingu. Þeir hafa sem sagt ekkert að gera! Flestir vinna verðirnir 24 tíma vaktir og maður sér þá marga berjast við að sofna ekki. Eða hreinlega bara ganga ekki af göflunum og fara að skjóta á alla í kringum sig. Eða sjálfan sig. Eða ég ímynda mér það alla vega. Ég vorkenni hverjum einasta sveitta aðgerðarlausa aumingjans verði sem ég sé og auðvitað mest þeim sem situr og opnar fyrir mér hliðið í vinnunni og að botnlanganum heim til mín. Þeir heilsa alltaf hressir (ábyggilega hluti af starfslýsingunni þeirra) og sumir reyna að brydda upp á samræðum. Úti á götu flautar hver einasti vörður á eftir mér og kallar mig amorecituna sína og guapa chella (fallega hvíta! - og ég sem er orðin svo brún) . Einstaka vörð sé ég lullast við að sópa nokkur lauf sem fuku sem betur fer af trénu og enn aðrir á bílastæðum opna fyrir mann dyrnar ásamt því að hjálpa mér að bakka út úr stæði með bendingum og flauti í flautu. Eins og ég þurfi þess.


Ætli þetta kallist ekki þjónusta en mér finnst þetta svo mikill óþarfi. Og hver er að passa hvern og fyrir hverju? Managua er víst mjög örugg borg miðað við aðrar í Rómönsku Ameríku. Kannski er það af því verðirnir eru að vinna gott starf, en ég held samt ekki. Hér eru vissulega glæpir og kannski ef þeir væru ekki væri búið að ræna mig á einhverju bílastæðinu eða í hraðbankanum. Það er gott að vita af vörðunum en samt held ég að þeir kunni fæstir á byssurnar sínar.

Verðirnir mínir hér heima eru reyndar hvorki í búning né með byssur og eru í raun bara aumir hliðarverðir. Þeir eiga að passa að enginn nema íbúar komi inn götuna og er það vel. En úff hvað mig verkjar í hjartað í hvert sinn sem þeir opna fyrir mér. Á milli þess sem þeir opna húka þeir svo í 2 fm kofa með rifinn stól og svarthvítt sjónvarp fyrir sápurnar. Þeir taka ruslið mitt og bjóðast til að þrífa bílinn minn fyrir 150 ísk. sem er ágæt viðbót við annars skítlegt kaupið sem er varla meira en 100 dollarar á mánuði.

Víst er betra að hafa starf en ekki starf, en ég væri svo gjörsamlega gengin af göflunum af aðgerðarleysi að ég get bara varla hugsað þetta... Djö standa þeir sig vel.

þriðjudagur, september 25, 2007

Walter á vefinn! 

Ég fer alveg að birta uppgjör söfnunarinnar hér á síðunni, peningarnir ykkar eru í góðum höndum og allt að gerast hér.

Auk þessa dýrmæta fjársjóðs frá ykkur hef ég fengið 2 digital myndavélar í hendurnar og eina fartölvu. Slæmu fréttirnar í þeim góðu eru hins vegar þær að fartölvan sem í boði var og Viggi kom með út var aðeins of gömul og hæg og virkaði ekki á netinu hér í Níka. Ég fór með hana á tölvuverkstæði og lét meta hana og þetta var niðurstaðan: Óstarfhæf :(

Fyrir þá sem hafa fylgst með undanfarið þá vita þeir að þessi fartölva var ætluð Walter spænskukennaranum mínum. Þegar tölvan verður hans fær hann myndavélina líka. Við Walter hittumst ennþá einu sinni í viku til að spjalla og halda kontakt (og hann að halda smá aukavinnu = launum!) Við ræðum lífið og tilveruna og ég sé blikið í augunum hans þegar ég svara honum varðandi ferðalög mín um heiminn. Um lífið mitt á Íslandi og hvernig hlutirnir virka utan Níka. Hann er áhugasamur kennari sem þyrstir í þekkingu og vísdóm. Hann er venjulegur millistéttar Níka með 30 þúsund krónur á mánuði samtals að meðtalinni þeirri einkennslu sem hann krækir sér í hér og þar og sér fyrir fjórum börnum auk konu. Hann kvíðir fyrir jólunum og sumarfríum því þá er hann kauplaus. Hann keyrir enn um á eldgamla mótorhjólinu sínu í hvernig veðri sem er og kaup á regngalla er á dagskránni frá okkur til hans. Við eigum fyrir því.

Ég sagði Walter um daginn frá hugmyndinni með fartölvuna, að það væri fullt af fólki heima sem vill taka þátt í að gleðja Níkana sem ég væri að segja sögur af. Hann væri orðinn þekktur meðal lesenda og það væri alveg sjéns á að útvega honum tölvu. Walter, eins hlédrægur og rólegur og hann er tók bara um höfuðið og þorði ekki að trúa mér. Kleip sig svo í handlegginn og athugaði hvort hann væri vakandi þegar ég sagði honum að það væri búið að útvega tölvu fyrir hann – frá ykkur. Ég var því kannski aðeins of fljót á mér þegar ég minntist á að tölvan væri komin í hús og það liði ekki á löngu þar til vegir internetsins væru honum opnir og hann myndi loks frelsast og fljúga um upplýsingaviskubrunninn sem enginn áhugasamur ætti að lifa án...
En ansans. Oh.

Því spyr ég aftur auðmjúklega mín kærustu hvort þið vitið um einhverja gamla, en þó ekki eldeldgamla, fartölvu sem mögulegt væri að láta af hendi til hans Walters? Það væri draumur. Verðandi Aupairin hennar Gerðar kemur hingað út eftir viku og gæti tekið hana með sér. Nú ef það gengur ekki upp er planið að splæsa í eina notaða hér úti.

Walter sagði mér að síðasta vika hafi verið sú lengsta í lífi hans í langan tíma. Það var sem sagt vikan á milli þess sem ég sagði honum að tölvan væri komin og að hann fengi hana eftir skoðun. Hann hafði meira að segja farið á markaðinn og keypt sér nýja tösku sem tölvan kæmist ofan í auk kennslugagnanna.
Æts. Ég var bara svo spennt sjálf!

Ég treysti ykkur því til að kíkja í skúffur og skápa og í alla vasana og athuga hvort gamla fartölvan fái að fara í góðan málsstað hingað til Nicaragua.
Koma svo, við viljum fá Walter á vefinn!

Vera 3,2 ára 

Vera á sitt mánaðarlega afmæli í dag og er nú orðin þriggja ára og tveggja mánaða. Nákvæmlega og ákkúrat. Ég hef svo sem ekkert nýtt að segja af dömunni nema að hún er að standa sig svakalega vel hér úti í Níka. Reyndar vill hún nú stundum ekki fara á leikskólann og finnst augljóslega erfitt að skilja ekki neinn og vera ekki skilin - þar sem hún þarf jú að tjá sig mikið um allt og ekkert (=talar nonstop!). Þegar hún vælir á morgnanna um að vilja ekki fara í skólann og við segjum að hún verði að fara, byrjar hún að díla og skvíla við foreldra sína. Út úr samningaviðræðum gærdagsins fékk hún til dæmis súkkulaðiKinderEgg, að fara í bleika fiskatækið í mollinu og horfa á heila mynd í DVD þegar hún kæmi heim úr skólanum - fyrir það eitt að fara í skólann. Við reynum en hún er orðin ansi klók! Ok, við erum orðin nokkuð svag...

Svo er hún bara alltaf í sundi með pabba sínum en það er uppáhaldsstaðurinn hennar hér úti. Svalt og skemmtilegt.










mánudagur, september 24, 2007

Að komast leiðar sinnar 

Ég keyri um á Kíu og það ætti nú að segja margt um samgöngutæki Nicaragua. Ég segi svona, Kían er drossía miðað við margt þótt hún kallist seint kúl kaggi. Hér úir og grúir af alls konar ökutækjum og markmiðið er bara eitt: Að komast frá a-b. Uppi á þaki, aftan á palli, á hestbaki, í nautakerru eða hjólataxa, þetta virkar allt og setur skemmtilegan lit á annars alveg nógu crazy umferð!
Ég tók mig til í nokkra daga og myndaði hin ýmsustu samgöngutæki út um gluggann á ferð um borgina og útkoman er algjört æði!
Þessi sjón er mjög algeng, að troða sem flestum aftan á pallinn. Og þetta er ekki einu sinni rúta eða strætó, bara prívatbíll. Öryggisbelti, ha - hvað er það?

Myndavélin vekur hvarvetna lukku



Strætóarnir eru gamlir skólabílar frá Bandaríkjunum og setja lit á annars mjög litskrúðuga bílaflóruna


Já, jesús er ást



Hjólataxi er fljótleg og ódýr leið til að komast stuttar vegalengdir


krútt aftan á kerru

Bara bjartsýnn í seinnipartsumferðinni í Managua
Hestvagnar eru mjög algeng sjón út um allt

Nautsterkir
pallurinn er til að nota hann!
Lödur eru í uppáhaldi hjá mér, enda keyrði ég á sínum tíma um á einni slíkri. Hver man ekki eftir gula Lenna?
Það er nóg af Lödum hér og þessar tvær eru þær flottustu sem ég hef séð hingað til, ein gömul lögguLada og svo önnur vel pimpuð upp með krómi


Um að gera að láta fara vel um sig á pallinum, til þess er hann!


Það er alls ekki svo leiðinlegt að keyra í Nicaragua enda margt merkilegt að sjá á leiðinni.

Skiljiði svo núna af hverju mig langar í pallbíl?!


föstudagur, september 21, 2007


Gleðilega helgi mis amores

Varúð... 

.. eðlur á veginum

...slöngur á veginum

Þetta er á leiðinni til Sébaco í gær en þangað fór ég vegna opnunar á 3. mæðrahúsinu sem ICEIDA byggði. Fyrir utan það að eiga á hættu að keyra á slöngur og eðlur á veginum (fyrir utan allar kýrnar) þá voru þessi api og páfagaukar til sölu við vegakanntinn.






Ég veit til þess að þessi dýr eru friðuð og bannað að selja þau. Ég gaf mig á tal við sölufólkið og spurði út í þetta og fékk þá það svar að það væri sko ekki bannað í Nicaragua, bara í Bandaríkjunum. Já, allt er til sölu sem mögulega er hægt að græða á. Apinn kostaði 300 dollara og páfagaukarnir 40 dollara stykkið.

fimmtudagur, september 20, 2007

Á markaðnum í Masaya 

Það er svakalega gaman að fara á markaðinn í Masaya og skoða dótið þar. Þetta er svona listmunamarkaður þar sem hægt er að finna allt mögulegt eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Nú þegar er búið að splæsa í hengirúm og rólu og ég er alveg að halda í mér þangað til ég fer með að kaupa mér haug af töskum og beltum og skarti...
listmunir


þetta er jú land kúrekanna

Ferskir og nýrúllaðir vindlar frá Estelí í norðri


Þessi selur vindla undir eigin merki eins og sjá má



þriðjudagur, september 18, 2007

Alvara Níkalífsins 

Lífið hér er víst ekki bara strönd og góðir kokteilar.
Nono.

Hér er enn verið að berjast við eftirmála Felix á Atlantshafsströndinni með neyðaraðstoð og m.a. verið að safna peningum, fötum, mat og svörtu plasti til að senda austur. Það eru auglýstar safnanir hér og þar af prívat samtökum og tónleikar til styrktar fórnarlömbunum. Mér skilst að stjórnvöld hafi víst ekki enn gefið út formlega beiðni um aðstoð sem stoppar mörg samstarfslönd í að geta gefið neyðarpeninga í aðstoðina. Kannski er verið að ræða málin, kannski þorir enginn að hreyfa sig af ótta við að vera rekinn, kannski er forsetafrúin upptekin við annað mikilvægara hvað svo sem það er, en sumir segja hana þurfa að samþykkja velflest sem gert er. Hún sé í raun valdameiri en karlinn sinn hann Daníel.

Fyrir utan það að margir dóu og slösuðust, eru enn fleiri heimilislausir eða eiga tætt hús án þaks, fullt af vatni. Fólk er í blautum fötum og er dauðhrætt þegar það rignir. Það eru samt bara venjulegar rigningar eins og voru fyrir bylinn, svo sálfræðileg áhrif þessa hamfara eru líka mikil. Skólar eru óstarfhæfir og það verður án efa erfitt að fá krakkana aftur til að byrja í skólanum þegar þar að kemur. Það er talað um alla vega 2 ára uppbyggingartíma eftir svona disaster. Þetta er rosalegra en maður getur ímyndað sér.

Nú, svo hefur Nicaraguanska þingið nýverið staðfest algjört bann við fóstureyðingum sem hér var lögleitt sl. haust. Læknar mega ekki einu sinni eyða fóstri af læknisfræðilegum ástæðum eins og til dæmis ef börn verða ólétt og ef kona er með utanlegsfóstur. Þá verður bara að leyfa barninu að vaxa og deyja og væntanlega konunni líka.

Orkumálin eru nú í einhverjum enn meiri skandal en áður og rafmagnsleysið bara eykst með hverri vikunni. Ég skil skandal gærdagsins ekki til hlýtar en hann snýr víst að því að orkufyrirtækið hér gerði einhvern samning eftir útboð við eitthvað skringilegt fyrirtæki sem enginn hefur heyrt um og er kannski jafnvel ekki til. Einhverjir segja vini forstjórans jafnvel skrifaða fyrir þessu meinta fyrirtæki sem skráð er í Panama en auðvitað neitar forstjórinn öllu og lýgur í beinni í fréttunum og allt. Bara blákalt. Já, þessi skandall lak í fréttirnar en hvað ætli margir skandalar geri það ekki?
Ef þetta er lausnin á raforkuvanda landsins mun líklega bara myrkva enn meira á næstunni.

Já, svona er lífið sem sagt líka í Níka.
Myrkur í sólinni.
Þyrnar í sandinum.
Alvara bakvið salsataktinn.

Ég frétti að heima sé víst rigning og grámyglulegt.

Vera strandastelpa 

Vera var að horfa á Söngvaborg í gærkvöldi og þar voru Sigga og María að spyrja krakkana hvað þau ætluðu að verða þegar þau verða stór. Ein sagði söngkona og annar eitthvað annað.

Þá sagði Vera: Mamma, þannig að ég er orðin stór ætla ég að verða fullorðins.
Mamman: Já, flott hjá þér. Og hvað ætlarðu að gera þegar þú ert orðin fullorðins?
Vera: Ég ætla að verða mamma. Þá getur ég ráðið mikið mikið mikið! Og líka elda og alls konar.

ok...









Á harðaspretti


This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker