<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, febrúar 28, 2004

Jæja, þá er barasta kominn laugardagur. Vikan flýgur hreinlega áfram. Það er svona þegar það er mikið að gera.

Allir í Gallup fóru í jarðaför á miðvikudaginn hjá litlu stelpu vinnufélaga okkar. Það var svakalega falleg athöfn en afar erfið. Ég get bara ekki hugsað hvernig foreldrum litlu stelpunnar líður. Bara hvernig þau komast í gegnum þetta.

Á miðvikudagskvöldið var svo kóræfing eins og venjulega á miðvikudögum. Mér finnst það alltaf jafn skemmtilegt. Það er tónleikaþrenna á næstunni (e.ca. 3 vikur minnir mig), þ.e. 3 tónleikar og kórinn slatta frá því að vera tilbúin. En einhvern veginn hefst þetta víst alltaf í tæka tíð. Svo fer kórinn á Mývatn í byrjun júní að syngja með fleiri kórum. Þá verð ég nú ábyggilega komin með góða kúlu, verð komin 6 mánuði þá, svo ég náði að plata Vigga með - til að keyra og hugsa um mig :) Það verður líka bara gaman, að taka smá íslenskt sumar saman áður en maður verður kas og kemst ekki neitt fyrir utan Reykjavíkursvæðið.

Í gær var svo ÍMARK (Íslenski markaðsdagurinn) og ég sat fyrirlestra um hin og þessi málin er tengjast markaðsmálum allan daginn. Það var mjög áhugavert. Mér finnst svona svo skemmtilegt. Maður gat pikkað upp góða punkta hér og þar. Þetta minnti mig á að vera komin aftur í skólann, og það var bara svaka góð tilfinning. Um kvöldið var svo boðið í þriggja rétta máltíð á Nordica og ball á eftir. Það var fínt. Maður var náttlega edrú innan um allt stuðliðið. Ég er ekki alveg búin að venjast því. Langaði þvílíkt bara að detta í það og verða full og vitlaus. Svona eins og venjulega á djamminu og svona eins og allir hinir! En nei, nei, það er auðvitað ekki í boði. Ég þrauka! Skemmti mér samt alveg vel, tjúttaði eiginlega allt kvöldið við diskólög Gullfoss og Geysis og gleymdi því hreinlega um stund að ég væri ólétt! Var í þvílíkri sveiflu. Hitti líka Kristján Hauks þarna sem er bara skemmtilegasti maður í heimi á dansgólfinu - og þá var ekki aftur snúið! BAra diskó friskó eins og það gerist best edrú! Krílið hefur ábyggilega ekkert skilið hvaðan á sig stóð veðrið.... ætlar þessi kelling ekkert að fara að slaka á?!

Svo ég er bara í rólegheitunum í dag. Enda alveg þreytt eftir þetta kvöld. Næstum því hálfþunn líka af reyk sem var ansi mikill þarna í gær. En ég er nú búin að ákveða að vera ekkert viðkvæm með það. Bara fara og gera það sem mig langar burt séð frá látum og reyk. Nenni hreinlega ekki að leggjast í dvala þótt ég sé ólétt. Ó, nei. Langar að vera með!

Erum að fara í útskriftarveislu og partý hjá Beggu vinkonu á eftir/kvöld. Hún var að útskrifast úr líffræði í HÍ. Svaka dugleg. Er nebblega samhliða líffræðinni búin að vera í LHÍ í fatahönnun og útskrifast úr henni sumarið 2005. Og þá verður hún líffræðingur og listakona! Góð blanda.
Til hamingju elsku BEX :)

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Útvatnaðar sundstelpur 

Það var gaman í gærkvöldi. Þá hittumst við 4 gamlar sundstelpur úr SH. Við hittumst heima hjá mér og það voru mjög skemmtilegir endurfundir.

Já, við vorum sko sundstelpur í gamle dage. Æfðum eins og vitleysingar í mööörg ár og kepptum oft og iðulega. Syntum 25-30 km á viku og fórum létt með það. Ég samt skil það ekki í dag hvernig maður hreinlega nennti þessu! Maður praktikklí bjó í sundlauginni á tímabili, sérstaklega þegar maður fór bæði á morgun- og kvöldæfingar. Ég man samt að það þurfti sjálfsaga til að mæta, keppa og klára hverja æfingu fyrir sig. En þetta var skemmtilegur félagsskapur og ég og við allar án efa þakklátar fyrir þennan tíma sem mótaði okkur svona líka svakalega vel. Við búum alltaf að þessum sjálfsaga og kunnum að sjálfsögðu vel að synda.

Höfðum samt á orði í gær að við förum alls ekki oft í sund nú á dögum til að synda. Maður skellir sér bara beint í pottinn og tekur í mesta lagi 2 ferðir í sprikli. Horfir með hryllingi á aumingjans sundfólkið á æfingu. Vorkennir því að vera að erfiða þetta því við vitum hvað þetta er erfitt, en er samt um leið stoltur af því að það geti og nenni þessu.

Þegar við hættum að æfa um 16-17 ára aldurinn þá fékk maður hreinlega algjört ógeð á sundi og því að synda. Maður var náttúrulega orðin þvílík pæja þá og hafði engan tíma fyrir þetta. Þurfti að fara að mæta á böllin og tékka út gæjana. Ég man að ég fór ekki í sund í langan tíma á eftir að ég hætti. Klórlyktin pirraði mig og ég fékk bara hroll.

Enn í dag syndi ég mjög lítið. Tek eina og eina æfingu á stangli og þá rétt meika 1,5 km með herkjum. En hei- það er sko ekki af því ég er í svo lélegu formi... heldur frekar af því það er svo svakalega leiðinlegt að synda! Já, mér finnst það huuundleiðinlegt í dag. Maður hefur svo mikinn tíma til að hugsa þegar maður er að synda að maður kemur bara helþreyttur upp úr! Veltir öllu hundrað sinnum fyrir sér og greinir allt í spað. Alls ekki hollt fyrir áhyggjurnar!

Ein af okkur í gær komst vel að orði þegar hún sagði okkur hreinlega útvatnaðar að öllu leyti! Tek undir það. Það er nákvæmlega rétta orðið!

mánudagur, febrúar 23, 2004

Erla misheppnaða 

Ég er Erla misheppnaða núna.
Konudagurinn fór svo með mig að ég klessti á. Og það ekkert lítið. Og á lánsbíl. Alveg glatað. Fór á bíl systur hans Vigga í bollukaffi til ömmu og á leiðinni heim tókst mér að köka bílinn hennar. Bara hreinlega man ekki hvernig þetta gerðist, bara allt í einu var allt í klessu. Ok, það er eitt að klessa á, en að vera ekki á sínum eigin bíl heldur á lánsbíl gerir þetta mun leiðinlegra en ella. Og þau eru bara búin að eiga bílinn í mánuð. Æ, æ, aumingja ég núna! Bara nenni ekki svona veseni. Ok, jú, ég er fegin að sleppa ómeidd. Ég er fegin að hafa ekki slasað neinn annan (nema bílana). En ég vildi að þetta hefði verið minn bíll.

Og ég sem var að monta mig við einhvern um daginn að ég hefði aldrei svo mikið sem klesst á snjóskafl eða staur á minni 11 ára bílprófsævi. Aldrei neitt. Hefði betur haldið KJ með það. Það hlaut að koma að þessu. Ég er (stend ennþá við það) þessi multi-task-ökukona sem kann að borða, drekka, skipta um stöð, tala í símann og glossa mig á sama tíma á ferð. Reyndar var ég með tvær hendur á stýrinu í gær og skil þetta þess vegna ekki alveg!

En ó, well. Ég fékk alveg vægt sjokk eftir þetta og titraði og skalf í þó nokkurn tíma. Vorkenndi systur hans Vigga og mági svo fyrir að eiga þennan kökuklessta bíl. Eftir mig. Svo eftir að því sjokki lauk fór ég að spá í fjárhagslega tjóninu sem við urðum fyrir - sem er að vísu bara sjálfsábyrgðin því bíllinn var í kaskó. En ég fór að mæla það í barnavagni, barnabílstól, barnarúmi og barna- hinu og þessu. Þvílík vitleysa. Auðvitað eru peningar aukaatriði þegar svona fer. En mér líður bara svo misheppnað með þetta. Glatað.

Er að fara til þeirra á eftir og hreinlega með í maganum yfir þessu. Þau vita um þetta (voru sko úti í útlöndum þegar þetta gerðist) og ég veit að auðvitað eru þau spæld. En vonum að þau hafi hjarta í sér til að fyrirgefa mér þetta. Það er hægt að gera við bílinn og það mun víst ekkert sjást.

Best að kenna óléttunni um þetta :)
Ah, mér líður aðeins betur!

laugardagur, febrúar 21, 2004

Erla kerla? 

Ég er í sjokki.
Einn góður vinnufélagi minn kallaði mig Erlu kerlu í vinnunni á föstudaginn! Nú er ég víst ekki Erla perla lengur heldur Erla kerla í hans huga þar sem ég er að verða mamma. Kemst ekki í fjallgöngur og get ekki dottið íða og eitthvað.
Æææææj nei! Plís ekki. Ég sem er búin að ákveða að vera kúl gella alla meðgönguna og töffaramamma!
Verður maður að kellingu þegar maður eignast kiddara?
Kannski í augum þeirra barnlausu? Breytist ímynd fólks á manni strax á 16. viku meðgöngu! Hjálp.
Úff ég veit það ekki.

En eitt er víst að ég lofa sjálfri mér hér með að standa mig eins vel og ég get í að verða ekki að Erlu kerlu. Ég bara fíla það ekki.
Erla perla it is and will be.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Húsmóðir og sjálfboðaliði 

Það er nú svo sem ekki mikið að frétta af mér þessa dagana. Er akkúrat rétt í þessu bara að drepa tímann á meðan lærið er í ofninum. Já, þið heyrðuð rétt! Ég er sko með læri í ofninum eins og ekta íslensk húsfrú. Og móðir auðvitað. Maður er sko að standa sig. Nei, án gríns – lærið er í ofninum...en það er nú fyrst og fremst af því að við fengum þetta blessaða læri gefins síðastliðið haust úr sveitinni hjá systur hans Vigga og það er búið að taka allt plássið í frystinum síðan þá! Og svo var hún Halldóra frænka akkúrat að koma til landsins frá Stokkhólmi í gær þar sem hún og fjölskylda hennar býr. Svo það var upplagt að slá nokkrar flugur með þessu læri. Svo í kvöld er sko íslenskt sveita-fjallalamb á disknum mínum, með ekta brúnni sósu (júts, ég kann víst að búa hana til), grænum baunum, soðnum kartöflum og rauðkáli. Mmmmmm hlakka til að smakka á herlegheitunum.

Annars er það kannski helst að frétta þessa dagana að ég er loks orðin sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum. Hef ætlað að gera það lengi og það er nú komið af stað. Maður verður sko að vera góður stundum. Reyndar held ég að ég sé samt góð eiginlega stundum alltaf.

Ég er orðin svona “vinkona” ungrar 18 ára stúlku sem hefur orðið fyrir miklu einelti í sínu lífi. Ég verð vinkona hennar ca. 2 x í mánuði um 2 tíma í senn. Það er nú það minnsta sem maður getur gert. Hittumst á kaffihúsi í vikunni og það var svo fínt að tala við hana. Gekk bara prýðilega. Ég fann að hana vantaði augljóslega einhvern til að tala við. Á sama og engar vinkonur. Alveg hrikalegt. Svo ég ætla að gera mitt allra besta til að peppa hana upp og láta henni líða vel og fá sjálfstraustið aftur. Ég hlýt nú að vera ágætis fyrirmynd. Bara eins gott að hún þekkti mig ekki þegar ég var sjálf á hennar aldri... úff.

Eftir að hafa hitt hana var mér svo mikið hugsað til þess hvað það er mikilvægt að eiga vini. Já, og kunningja. Bara fólk til að hitta og hanga með og tala við og deila hlutunum með, hversu lítilvægir sem þeir eru.

Fjölskyldan mín er ekki svo þétt svo ég hef alltaf verið svakalega háð vinkonum mínum. Og það er frábært hvað ég á æðislegar vinkonur. Þær eru mér hreinlega allt. Gæti ekki lifað án þeirra. Svo á ég frábæra vinnufélaga í Gallup sem skipta mig líka mjög miklu máli. Ég held að ég gæti kallað marga þeirra vini mína í dag. Maður er í kringum þá allan daginn og ýmis mál eru rædd. Það er ómetanlegt.

Svo það er án efa rosalega erfitt að vera 18 ára fín og sæt stelpa með sínar vonir og þrár, strákamál og drauma og hafa engan til að deila því með. Geta ekki farið á böllin í skólanum af því þú þekkir engan til að fara með. Mér væri þetta ómögulegt.

Svo ég er svakalega þakklát elsku vinir. Ég elska ykkur öll (er sentimental óléttukrappið nokkuð eitthvað að sækja á núna eða...?!)
Knús smús.

þriðjudagur, febrúar 17, 2004

The news is out 

Jæja, jæja.
Fréttir dagsins eru að Erlan er með barn í mallanum! Ó, já, það er víst :)

Viggi og Erla eru að verða mamma og pabbi.
Ó mæ kræst! Það er skrýtið til þess að hugsa.

Og afsakið þeir sem ég hef ekki náð að tilkynna þetta fyrr en þið lesið þetta hér á þessari síðu. Það eru þó nokkrir. Til dæmis hún Helena bankadrottning sem hefur ekki haft tíma fyrir mig undanfarið - ég er búin að panta með þér hádegismat trekk í trekk til að segja þér fréttirnar en okkur tekst ekki að hittast! En well, hádegismaturinn kemur en the news is out!

Reyndar hef ég ekki hugsað það mikið um þessa bumbu enn, enda sést hún sama og ekkert ennþá og ég hef lítið sem ekkert fundið fyrir þessu enn sem komið er. Er bara enn að taka á því í World Class og finn enga breytingu á minni líðan. Eða jú. Ég lýg. Það er eitt. Ég þarf að pissa svona þrisvar sinnum á hverri nóttu. Strax! Hvernig verður þetta þegar á líður? Geng í svefni inn á bað (sem er betur fer bara 5 skref) með hjartslátt í pissublöðrunni, alveg í spreng. Og jú, svo þarf ég að borða oftar. En engin ógleði eða neitt slíkt eins og maður heyrir oft.

Ég er s.s gengin 15 vikur með krílið, sem er víst 10 cm og 60 grömm í dag samkvæmt doktor.is (besta vefsíðan þessa dagana!). Kynfærin eru komin, það getur sogið þumalinn, kyngt og ég veit ekki hvað og hvað. Það má segja að næstum allt sé nú þegar myndað og eigi bara eftir að þroskast næstu 25 vikurnar. Alveg magnað.

Það er margt sem flýgur í gegnum hugann þegar maður uppgötvar slíkt sem óléttu. Þótt þessi getnaður sé þaulplanaður get ég sagt ykkur að ég fékk næstum því taugaáfall að sjá tvö strik á óléttustrimlinum sem ég pissaði á í desember! Algjört planað sjokk! Vissi hreinlega ekki hvað ég átti að gera. Var ein heima og hljóp í hringi í húsinu, upp og niður stigann eins hissa og ég veit ekki hvað!

Ok, þegar maður er búinn að taka pilluna á hverjum morgni í 12 ár þá hreinlega verður að plana að hætta að taka hana. Ég gleymdi henni aldrei í 12 ár því inntaka hennar fylgdi hreinlega þeirri athöfn að tannbursta sig - og ekki gleymir maður því! Ég hafði aldrei á ævinni áður tekið óléttupróf og var því að pissa á strimil í fyrsta sinn. Og gvöð hvað það var stressandi. Að vona, en samt í hræðslukasti, að það komi tvö strik = ólétta, en um leið vera í panik kasti og auðvitað aldrei tilbúin í barneignir! Maður er víst aldrei tilbúinn fyrr en þetta bara kemur hef ég heyrt. Það er víst aldrei "rétti" tíminn. Og ég sé þetta er ákveðið hlutverk sem maður þroskast í með tímanum.

Mér finnst ég alla vega ekkert sérlega mömmuleg (hvað sem það nú þýðir) akkúrat núna. En ég veit ég á þetta til somewhere eins og aðrar mömmur.

Þetta er enn frekar óraunverulegt fyrir mér. Við erum samt búin að fara í 12 vikna sónar þar sem við upplifðum þetta beint í æð, horfðum á 20 mínútna live vídeó af barninu innan úr mér. Frekar spes upplifun. Þetta tók svona langan tíma þar sem ljósan þurfti að fá barnið í einhverja spes stellingu til að geta framkvæmt hnakkaþykktarmælingu til að reikna út líkur á Down syndrome. Ég ætla ekki að fara út í siðferðislegar pælingar hér á þessum mælingum en þær eru verulega umdeildar. Auðvitað er bilun að vera að leita að DS börnum þegar barnið getur fæðst með svo marga aðra "galla" sem ekki er hægt að tékka á. En ég verð að segja að ég fór í þennan sónar fyrst og fremst út af forvitni. Langaði að kíkja. Reyna að gera þetta raunverulegra fyrir okkur. Þessi blessaða mæling varð að svo miklu aukaatriði þegar við horfðum á barnið hreyfa sig og sofa til skiptis. Sjóið var sem sagt 20 mínútur af því krílið fór alltaf að sofa!! Ljósan reyndi að vekja það með því að ýta í það og pota, en það steinsvaf! Ég þurfti á endanum að hoppa til að það rankaði við sér. Þetta er augljóslega svefnpurrka eins og pabbi sinn!

Alla vega, 10. ágúst er dagurinn.
Já, og þeir sem telja mig skipulagsfrík geta tekið þann titil af mér þar sem ég planaði þetta ekki betur en svo að barnið á örugglega eftir að fæðast um verslunarmannahelgi (sem er víst ekkert voðalega vinsælt hef ég heyrt) og ég (og þar með Vigginn hehe) kemst ekki í eina fjallgöngu í sumar!
En það er án efa líka fínt að vera kas og eiga barn í birtu og sól. Sérstaklega fyrir kuldaskræfu eins og mig. Svo maður líti nú á björtu hliðarnar á þessari dagsetningu :)

Já, sumarið er tíminn :) Alla vega okkar tími.

sunnudagur, febrúar 15, 2004

Sorgardagur 

Ég er alveg ólýsanlega sorgmædd í dag.
Lítil tveggja ára dóttir eins vinnufélags míns dó í gær.
Það er óendanlega erfitt að hugsa til þess hvernig honum og fjölskyldu líður og til þess að lífið sé svona grimmt við tveggja ára saklaust barn.
Sem fékk bara kvef og dó upp úr því.
Alveg hræðilegt.

Í Gallup ríkir mikill fjölskylduandi og í raun líður mér eins og einhver virkilega nákominn mér hafi látist. Svo sterk er Gallupfjölskyldutilfinningin. Þessi litla snúlla sem dó hafði oft komið með pabba í vinnuna. Þá kom hún ósjaldan inn til mín til að tala, hún talaði nefninlega mjög skýrt og mikið miðað við aldur. Ég man ég lakkaði einu sinni á henni litlu neglurnar sínar.

Ég votta þeim mína dýpstu samúð og sendi þeim alla þá styrktarstrauma sem ég á til að komast í gegnum þetta.
Og bið góðan Guð um að hugsa vel um nýja engilinn.

laugardagur, febrúar 14, 2004

Það rann allt í einu upp fyrir mér í gær þegar ég var að skoða þessa síðu mína að það eru greinilega fleiri en vinir mínir að lesa þessa bloggsíðu. Já, það var hún Hrefna, sem by the way ég þekki ekki neitt, sem kommentaði á skrif mín um frammistöðu kóranna á tónleikunum um síðustu helgi. Ok, frábært að fólkið "mitt´" sé að lesa þetta krapp, en soldið skrýtið til þess að hugsa að einhverjir aðrir séu að lesa þetta. Maður verður bara feiminn!

Alla vega. Verð að segja að þessi síða er fyrst og fremst tjáningarstaður fyrir mig og bullið í mér. Hef alltaf haft mikla þörf fyrir að skrifa um allt milli himins og jarðar; sögur, tilfinningar, bréf til vina, ættingja og mín sjálfs, ljóð og hvers kyns pælingar. En jú, auðvitað er furðulegt að þurfa að setja þetta á netið! En svona er nútíminn.

Fór á Somthings gotta give (eða hvernig það er nú skrifað) á fimmtudaginn. Ætluðum á franska mynd á kvikmyndahátíð en það var uppselt á hana. Svo við skelltum okkur bara á þessa. Þar var nú líka svo fullur salur að við Viggi þurftum að skiptast á að sitja á stól! Ekki mjög spennandi. En það var annað hvort stóllinn eða stara rangeygður myndina á fyrsta bekk.

Myndin var fín. Ekkert meistaraverk. En fín mynd. Er öðruvísi að því leytinu til að maður sér ekki oft ástarsögu fólks á þessum aldri sem þau voru, þ.e. 50-60 ára. Og það var mjög sætt. Ástin er svo krúttleg, líka hjá eldra fólki. Ég hreinlega elska þegar ég sé eldra og jafnvel gamalt fólk labba úr bíó/leikhúsi eða bara úti á götu einhvers staðar haldandi í hendur hvors annars. Ætla að vera svoleiðis par.

Já, ástin. Það er víst einhver amerískur ástardagur í dag. Getur einhver sagt mér hver þessi Valentínus var eða er? Er þetta einhver amerískur ástarguð eða hvað? Tja, ég veit það ekki. Auðvitað eru svona dagar hollir og góðir og allt það. Gefur þeim sem vilja kannski tækifæri á að vera extra ástfangin í dag. Maður fær tækifæri á að vera góður við þá sem maður elskar, eins og það sé ekki hægt á öðrum dögum. Ok, þetta er án efa ágætur reminder fyrir marga, eins og fleiri dagar, t.d. bóndadagurinn og fleiri slíkir dagar. Hef reyndar áður tjáð mig um ágæti svona daga á þessari síðu og var ekkert sérlega jákvæð þá. En æi, svo sá ég vinkonur mínar vera að gefa mönnunum sínum borvél og hamar og solleis og þá sá ég að þessi dagur gæti verið nauðsynlegur fyrir marga! Annars heyrði ég einhvers staðar að það væri til einn svona "karladagur" en 7 svona "konudagar". Man þá nú ekki alla, en það er V-dagurinn, konudagurinn, Kvennadagurinn (19.júní) og dagur feminista. Man ekki meira. Við konur þurfum greinilega að láta minna á okkur meira en karlarnir. Þeir eru víst nógu áberandi í þjóðfélaginu already þessar elskur.

En ástin já... Ég elska bara svo marga. Allar bestu vinkonur mínar, ættingja, almættið, langflestar stelpurnar í vinnunni og meira að segja suma stráka í vinnunni líka. Auðvitað er þetta orð ást og "ég elska" ofnotað en það er bara svo hentugt þegar mann vantar virkilega sterkt orð til að lýsa tilfinningum sínum. Ekki misskilja, ég elska Viggann langmest og best og endalausast. En hina samt helling. Bara öðruvísi.

Fyrst að þessi dagur er kominn til að vera þá hreinlega vona ég að ástin blómstri hjá einhverjum. Vonandi verður einhver gömul ást endurnýjuð, brjálæðisleg ást tryllingsleg og ástarglóð að báli. Hver veit.

Sá líka auglýsingu í blaðinu í morgun um tilboð á túlípönum í Blómavali í tilefni dagsins. Svo svona dagar eru ekki til alls gangslausir.
Held ég skelli mér barasta á eitt búnt.
Fyrir ást mína á sjálfri mér.

föstudagur, febrúar 13, 2004

Klósettköfun 

Muniði þegar maður var lítill alltaf að búa til svona gogga? Með alls konar litum og kommentum. Svo átti einhver að velja sér tölu og maður taldi og opnaði gogginn á viðkomandi tölu sem lent var á. Það fyndnasta í heimi þá fannst mér þegar einhver lenti á "þú ert klósettkafari" í goggnum mínum. Hvað gæti verið viðbjóðslegra? Ekki margt.

Alla vega. Ég gerðist klósettkafari í dag. Og það á veitingastað þar sem ég ætlaði mér að snæða í rólegheitum í hádeginu. Var í "burger og bjór" ferð með nokkrum vinnufélögum á Ruby´s þegar ég þurfti að pissa. Klósettin á svona stöðum eru ekki alveg þau girnilegustu svo ég stóð og pissaði og miðaði askoti vel. Og það gekk vel, enda margæft. Finnst svona klósettsetur ekki það sem mig langar að klessa berum rassinum og hvað þá gellunni á. Well. Ég er sem sagt að girða mig þegar ég rek hendina í IMG starfsmannakortið mitt sem var kyrfilega fest á gallabuxurnar og það bara plops... beint ofan í klósettið! Æjæjæj! Og nú var illt í efni. Þaut fram og bað afgreiðslustúlkuna um gúmmíhanska eða plastpoka eða eitthvað þar sem ég missti kortið mitt ofan í klóið. Hún varð vandræðaleg á svipinn en reddaði svo uppþvottahönskum staðarins. By the way, þetta er ekki the cleanest place svo þau eru pottþétt að nota hanskana í uppvaskið akkúrat as we speak... jakk. En alla vega, ég veiddi kortið snilldarlega upp úr klósettinu og pissinu og öllu því sem þar var (örugglega alls konar örverur og ógeð maður) og fékk uppþvottalög og þvoði kortið mitt. Já, þetta var frekar vandræðalegt.

Ég borðaði reyndar kjúllasamlokuna mína eftir þessar ófarir með bestu lyst. En það er líka önnur saga á bak við það sem ég segi frekar frá síðar á þessu blessaða bloggi.

Já, ég er klósettkafari.

mánudagur, febrúar 09, 2004

Ég var spurð af samstarfsmanni mínum á djammi um daginn hvenær ég ætlaði nú að fara að gifta mig. Ég tjáði honum að það væri ekki á dagskránni í bráð þar sem minn heittelskaði unnusti drullaðist ekki á hnén. Og ekki fer ég, svo mikið er víst. Ég sagðist þó hlakka til þessa dags þótt gifting sé alls ekki aðalatriðið í huga okkar hjúa.

Í framhaldi af því spurði hann mig hvort ég vissi nú samt ekki hvaða lög ég vildi hafa í brúðkaupinu, þar sem ég væri þessi fína söngkona (var nýbúin að garga í karókí rétt áður). Og ég get nú bara sagt ykkur það að ég hef oft pælt í því (hvaða unga "lofaða" stúlka á sér ekki draumabrúðkaup í laumi??) og ég vissi um kannski 1-2 lög sem ég vildi hafa. En svo tjáði ég honum hins vegar annað sem ykkur á kannski eftir að finnast skrýtið og það er að ég veit frekar hvaða lög ég myndi vilja láta spila í jarðaförinni minni þegar að henni kemur. Nei, ekki misskilja mig - ég er ekki á förum, alla vega ekki viljandi og vona að dauðinn sæki mig seint um síðir. En ég veit samt hvaða lög skulu spiluð við athöfnina. Alla vega svona ef maður deyr undir fimmtugu eða eitthvað.

Heyr himnasmiður myndi fá að óma fyrst. Í blönduðum kór. Það er alveg geggjað lag. Hef oft sungið það með Hamrahlíðakórnum á sínum tíma og táraðist í hvert sinn. Sofðu unga ástin mín fær svo að koma næst. Helst í einsöng, samt ekki óperu. Bara svona fallega klassískt. Þetta er eiginlega uppáhalds íslenska lagið mitt. Ain´t no sunshine fær svo að hljóma að lokum. Já, það verður ekkert sólskin eftir að ég dey. Alla vega ekki hjá mér!

Ok, klikkaðar pælingar en frábær lög.

Þá er það alla vega orðið skjalfest :)

sunnudagur, febrúar 08, 2004

Heimur farfuglanna 

Fór á Heim farfuglanna í dag. Fór í þrjú bíó í fyrsta sinn held ég bara á ævinni. Og það var mjög spes. Fullt af krökkum með mömmu og pabba í bíó.

Þetta var mjög flott mynd. Það verður samt að segjast að mér fannst mjög spes að sitja í bíó í næstum 2 tíma og horfa á fugla! Og bara fugla. Jú, og smá landslag. Svo var falleg tónlist undir. En það er sama og ekkert talað í þessari mynd. Fuglar að fljúga, fuglar að sýna sig fyrir hvorum öðrum, fuglar að synda, fuglar að deyja, fuglar að eiga unga, fuglar að tala saman, fuglar að skíta og fuglar að gera allt sem fuglar geta hreinlega gert.

Það er ótrúlegt hvað þessar litlu skrýtnu skepnur geta gert með þann baunaheila sem fulgar eru með. Fuglarnir fljúga margir hverjir 10-20 þúsund kílómetra til að leita betri skilyrða til lífs. Og þeir fara alltaf sömu leiðina suður og tilbaka. Alveg ótrúlegt.

Myndin er mjög listræn og flott. Maður fékk mörg óvenjuleg sjónarhornin af fuglunum og í raun ótrúlegt hvernig hægt er að gera þetta. Mæli með henni ef þið viljið upplifa allt öðruvísi bíóferð.

Okkur gekk svona líka vel á tónleikunum í gær. Vorum fyrsti kórinn af þremur sem söng og það er ótrúlegt hvað þetta tókst vel miðað við æfingarnar á undan. Við vorum eiginlega bara svona semi tilbúin. En svo hljómuðum við bara eins og englar allt í einu og allt gekk upp :)

En jesús minn, Kammerkór Mosfellsbæjar er nú bara algjört djók. Það var hreint út sagt hræðilegt að hlusta á kórinn. Þetta var eiginlega ekki kór, voru bara læti í mínum eyrum. Maður fékk í alvörunni svona kjánahroll að hlusta á hann falskan og úr takt og skrækan og bara hræðilegan. Það var einhver sópran þarna sem var svo skökk greyið að hún bara skríkti og það skar svoleiðis í eyrun. Þetta var bara alveg til að skammast sín fyrir. Og þau sungu heil 7 lög! Algjört pein að hlusta á þau. Skemmtanagildið er greinilega í fyrirrúmi hjá þeim frekar en fallegur söngur. En í alvöru þá fannst mér þessi kór bara eyðileggja tónleikana. Maður fór bara að hlæja þetta var svo kjánalegt. Voru líka að syngja einhverja afríska söngva með einhver áslátturshljóðfæri og með öskrum og köllum, alveg hrikalegt. En well, þetta er búið og gert og bara aumingja þau!

Kammerkór Reykjavíkur var fínn. Þar söng hún vinkona mín sem ég er búin að skíta aðeins yfir á síðum þessa bloggs... Idolið Ardís Ólöf dúett með annarri stelpu. Og það var svakalega fínt hjá henni, enda fín klassísk söngkona þótt engin poppstjarna sé! Og svo er hún svo fýld, stökk ekki bros á vör allan tímann.

Við vorum sem sagt best. Unnum þetta (ok, veit, þetta var ekki keppni... en það er sama!)

Í gær var svo dinner hjá Drífu með Gallup stelpunum og mökum. Það er alltaf sérstakt stuð í því. Tókst frábærlega. Gáfum Ellu Dóru myndband með okkur í kveðjugjöf sem hún á alltaf að horfa á þegar hún saknar okkar í Kaliforníu :)

Viggi er svo farinn upp í Bláfjöll núna en ég nennti hreinlega ekki uppeftir í þessum 10 stiga gaddi. Svo er ég víst ekki heldur að fara á snjósleðann hans Axels fyrir austan þar sem allur snjórinn fauk víst barasta í burtu í óveðri á föstudaginn (er náttlega klikkað land). Er hreinlega að spá í að skella mér bara í bíó á frönsku kvikmyndahátíðina - er ekki Heimur Farfuglanna málið í dag? Læt ykkur vita á morgun.

laugardagur, febrúar 07, 2004

Helgi framundan... 

Föstudagskvöld og helgin framundan. Það er ljúft. Vikan samt búin að vera fín.
Á morgun eru svo kórtónleikar (my first in 10 years...) og svo matarboð með Gallup stelpum og mökum. Ætlum að kveðja Elluna almennilega svona privately. Á sunnudaginn er ég svo að vona að við fáum að prófa nýja snjósleðann hans Axels bró - langar svo að fá þessa tilfinningu að þeysa um snjóeyðimörk á fullu með tækið á milli lappanna......arg. Nú ef það verður ekkert úr því ætla ég að eyða deginum með Beggu vinkonu sem ég hef ekki séð lengi. Fara á rúntinn, í koló og á kaffihús. Svona kósí vinkonudagur. Þeir eru nauðsynlegir reglulega.

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Þvæla kvöldsins 

Jæja, þá er ég komin af næst síðustu kóræfingunni fyrir tónleikana á laugardaginn. Já hvet alla kórunnendur til að mæta í Tónlistarskólann í Hafnarfirði (hjá Hafnarfjarðarkirkju) á laugardaginn kl. 17 en þá eru Kammerkór Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar og Reykjavíkur með tónleika. Verður svaka flott. Ég elska hreinlega karlaraddirnar í þessum kór, og í raun í hvaða kór sem er. Þær eru svo flottar, svo dulúðlegar og seiðandi. Miklu flottari en kellurnar (þó ég sé svaka flott sko).

Nú, var ekki búin að segja frá Gallup fjörinu á föstudaginn var. Já, þau eru endalaust skemmtileg Gallup geimin. Ella Dóra var kvödd í vinnunni á föstudagskvöldið með látum eins og Gallupurum er lagið. Ég sakna hennar nú þegar heilan helling! Ég náði að draga liðið á Fjörukránna í Hafnarfirði þar sem Ella var tekin í heiðursvalkyrjutölu og víkingar (alveg ekta) píndu ofan í hana súrmat og brennivín. Algjört ógeð. En það var ekki seinna vænna að gera Elluna að ekta íslendingi áður en hún sleppur til Kaliforníu í sólina og verður að veruleikafirrtri L.A. gellu skautandi um berbrjósta og brún á nýju línuskautunum sínum. Æj, þetta hljómar nú samt alveg ágætlega.

Fórum svo á Hafnarfjarðar-subbupöbbinn A.Hansen eftir matinn þar sem nokkrir góðir Galluparar slógu í gegn í karókí og annarri vitleysu sem verður ekki greint frá hér. Reyndar var stemmingin á Hansen svo hrikalega góð þegar við mættum á staðinn upp úr miðnætti - þá sátu þar 2 sköllóttir kallar að tefla í mestu makindum. Við vorum þó fljót að breyta þeim móral og gerðum Hafnfirðingum bylt við með drykkju og stuði. Ég var í það miklu stuði að ég bæði tók Fame (mig dreymir sko um að verða fræg - veit ekki alveg fyrir hvað ... en alla vega mikilvæg!) og tókst að týna elsku besta selnum mínum sem hafði fylgt mér í gegnum súrt og sætt, svínafyllerí, heitar og kaldar nætur erlendis sem hérlendis. Splitstökkið þurfti þó að bíða betri tíma þar sem ég var fangi í leðurbuxunum mínum en þær bjóða ekki beint upp á mikið annað en hrikalegt sex appíl í kyrrstöðu. Soldið þröngar þessar elskur, en jú jú, beauty is pain.

En já, selskinnsvettlingarnir mínir eru týndir og einhverjum svínslegum alka af Hansen gefnir. Þeir hurfu bara allt í einu, svo það hlýtur einhver að hafa girnst þá og tekið. Sem ég skil vel. Mér líður ennþá illa yfir þessu, líður í alvöru - eins kjánalega og það kann að hljóma - eins og ég hafi um leið týnt hluta af mér og mínum karakter. Var því fljót að meila emergency emaili á Kulusuk og kaupa nýja. Og þeir eru á leiðinni og þá get ég tekið upp karakterinn og gleðina á ný.

Og já - Viggi ætlum að heimsækja Ellu og Atla út til Kaliforníu í apríl. Já, tökum það með stæl og förum í 3 vikna frí. Förum til New York í viku og verðum svo í sólinni í Kaliforníu í 2 vikur. Hef aldrei farið til USA en hef einhvern vegin alltaf ímyndað mér að það sé svona hálfgert Disneyland. Fólkið feik í leik og allt yfirþyrmandi og yfir strikið. En það hlýtur að vera góð tilbreyting frá klakanum. Er hreinlega búin að vera að frjósa hér í kuldakastinu og ekki mikið um að vera svona fyrir utan hefðbundna dagskrá: Éta, sofa, vinna, skíta og glápa á imbann. Ok, ég geri reyndar eitthvað meira en það – eins og syngja í kór, fara í ræktina og saumó... en you know what I mean.
Það verður gott að komast í frí.

Verð að segja að rútínan er hreinlega oft að drepa mig. Ég segi það satt. Ég er bara þessi týpa sem þarf alltaf að vera að gera eitthvað nýtt og skemmtileg. Breyta til. Fæ fljótt leið á hlutum og verð að hafa smá aksjón í kringum mig. Það getur verið ansi erfitt. Vildi stundum að ég væri bara þessi rólega týpa sem sætti sig við rútínuna og þyrfti ekki prógramm til að skemmta sér. Ég bara get það ekki. Enda er ég alltaf á fullu þegar ég pæli í því. Sumir segja að ég sé orkubolti. Ég finn nú ekkert fyrir því. En ég finn hins vegar að ég uni mér ekki í ládeyðu. Það er bara það leiðinlegasta sem til er. Hvers kyns sem er. Hef til dæmis oft reynt að vera þessi týpa sem tekur sér bara bók í hönd og byrjar að lesa og getur ekki hætt. Sæll! Einmitt. Ekki alveg. Ég tolli við lesturinn í korter, er alltaf að kíkja á hvað ég á margar blaðsíður eftir og er búin að lesa síðustu blaðsíðu bókarinnar áður en ég veit af. Jú, þetta er örugglega líka ákveðin óþolinmæði... ég meika ekki einu sinni að bíða eftir strætó hvað þá meira.

En alla vega, dagdraumar mínir þessa dagana eru svakalegir.
hmm.... væri svo til í að aðeins krydda lífið og tilveruna í myrkrinu.
Eitthvað seiðandi og sætt, krúttlegt og klárt, sexí og spennandi. Ómótstæðilega og óþægilega kúl og dularfullt. Sussu susssssss...

Hljómar eins og Robbie Williams eða Brad Pitt.... en þetta hljómar ansi vel!
Svefngalsinn er ná yfirhöndinni svo ég held ég skelli mér bara inn í draumalandið og óski þess að dreyma þetta allt saman í alla nótt.
Vakna svo í fyrramálið fullnægð og fín.

Fimm stelpur punktur com 

Fór í gærkvöldi á Fimm stelpur punktur com. Það var lokaæfing og fólk mátti mæta og fylgjast með. Sýningin var samt alveg tilbúin og gekk eins og í sögu. Og þetta var alveg ágætt. Ég hló helling og svona en hafði þó heyrt alla brandarana áður. Það er orðið eitthvað soldið gamalt og morkið að standa á sviði á Íslandi í dag og tala um konur og karla og samskipti þeirra. Búið að gera eitthvað svo mikið af því undanfarið. Staðalmyndunum hent fram alveg hægri vinstri - þótt ég kannaðist nú við fæst af því sem þær voru að tala um. Hvernig konur pissa, stjórna köllunum sínum, hvernig kallar eru glataðir í rúminu og allt það. Reyndar var eitt fyndið. Þær voru að tala um að kallar finna svo oft ekki snípinn. Svo þær komu með þá hugmynd að skíra snípinn upp á nýtt = Sportbarinn... til að karlar myndu bæði finna hann og nota hann meira! Svo fannst einni erfitt að segja píka og talaði um „skeggjaða sjafnaryndið“ Alveg súrt... jæks!

Ég hefði í alvöru talað verið miklu meira til í að hlusta á Fimm karla punktur com. Aldrei heyrir maður í þeim. Hverjar eru klysjurnar um okkur? Hvað hafa þeir um samskipti kynjanna að segja? Held það hefði verið mun fyndnara. Jú, Hellisbúinn sló í gegn á sínum tíma og þar var karlmaður að tala um þetta. Þá var þetta nýtt og ferskt og ég man að ég dó næstum því úr hlátri. En ég vill heyra meira í karlmönnum þjóðarinnar! Speak out!

mánudagur, febrúar 02, 2004

lýtaaðgerð 

Já, hvort sem þið trúið því eður ei þá er ég búin að fara í eitt stykki lýtaaðgerð síðan ég skrifaði síðast. Habbarekkertannað! Já, fór loks og lét taka fæðingarblett úr andlitinu á mér (vörtuna á nefinu á mér eins og einhverjir myndu nefna þetta fyrirbæri). Stóð mig eins og hetja. Annað en síðast þegar ég fór fyrir 8 árum og lét taka slatta af hættulegum fæðingarblettum, þá kramdi ég hendina á aðstoðarkonunni svo fast að hún emjaði af sársauka. Núna er ég hins vegar eldri og reyndari, búin að ganga í gegnum ýmislegt sko - og stóð mig virkilega vel þótt ég segi sjálf frá. Sko, að liggja þarna inni hjá lýtalækninum með fitusogstækin og sílikonpúðana í kringum sig í massavís er bara furðuleg upplifun. Spurði hann aðeins út í vinnuna og hann er víst mest í því að stækka brjóst þessa dagana og jú jú, soga fitu. En auðvitað vinnur hann líka uppi á spítala við að laga lýti eftir bruna og annars konar slys. Það er auðvitað gjöfult starf. En alla vega, þarna lá ég salla róleg, bara mætt til að láta taka einn aumingjalegan fæðingarblett. Tja, það var nú lítið mál. Sakna reyndar fæðingarblettsins míns all verulega nú þegar, ég meina maður fæddist með þetta - þetta var orðinn hluti af mínum karakter tvímælalaust. En betra er hættulaust ör í andliti en varta á nefi. Eða eitthvað.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker