<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Allt&Ekkert 

Jæja, þá er ég búin að syngja með kórnum í jólaþorpinu fyrir svona 20 hræður í GRENJANDI rigningu. Nylon komu svo á eftir okkur og þá fylltist allt af 5-7 ára litlum stelpum sem sungu og klöppuðu með. Það var tilkynnt að Jón Sig ædolstjarna og lovegúru wannabe með ömurlegustu og klemmdustu rödd í heimi lægi á spítala vegna sýkinga í raddböndum og kæmist því ekki að syngja í jólaþorpinu. Ég hugsaði bara jesssss... meika ekki náungann. Reyna að vera einhver ástarsöngvabídjíslovehommi - er ekki alveg að gera sig. Nóbb. Sýkingin má ná fram yfir jól fyrir mér. Nenni ekki að fá hann í beina í sjónvarpið að kynna nýju coverplötuna sína.

Ég var að fatta rétt í þessu að það er fyrsti í aðventu. Er ekki búin að föndra aðventukransinn ennþá. Bara hreinlega gleymdi því. Það er kannski ekki skrýtið, það er ekki baun jólalegt úti, bara rigning og ekki einu sinni kominn desember. Reyndar fór ég í kaffi í dag til ömmu sem ég frétti eftir á að væri aðventukaffi svo þetta fór alveg framhjá mér. Bara enn einn sunnudagurinn og ég klæði Veru í kjól. Daman fer sko alltaf í kjól á sunnudögum. Oh, hún er svo sæt...

Fór í næstsíðasta jassballet-fyrir-fullorðna tímann áðan og það er alltaf jafn gaman. Reyndar verð ég að viðurkenna að það er rétt núna að verða virkilega gaman. Fyrstu tímarnir fóru bara í pirr. Maður gat ekki neitt og það var svo pirrandi og maður var bara pirraður allan tímann og skemmti sér ekki neitt. Fór svo bara frústreraður heim og allt ómulett. En nú er þetta allt að koma. Ég segi það nú ekki, maður er ekkert eins og ballerína eða sérstaklega léttur á fæti í splittstökkunum en þetta verður æ skárra. Heilinn er að læra að meðtaka og tengja hreyfingu og hux. Dansinn greipist hægt og bítandi í kroppinn = holdgervist í líkamanum. Já, holdgervingar eru spennandi mannfræðilegar pælingar sem ég gæti nú sagt ykkur sitthvað um, en þið hringið bara í mig ef þið hafið áhuga á því. Já, mannfræðin klikkar ekki. En Fame draumurinn verður hálfpartinn að veruleika í þessum jasstímum. Gvuð hvað ég ætlaði mér að fara í svona FAME skóla og verða dansari og söngvari og verða svona flott og brún og mjó með flott hár eins og Coco. Og eiga vin eins og Leroy. Those were the days. Síðasti tíminn er svo á næsta sunnudag og þá verða herlegheitin tekin upp á vídeó. Bara í gamni. Reyndar eru hinar dömurnar í tímunum búnar að banna mér það en ég bara verð. Ég meina, maður verður að hafa eitthvað til að hlæja að þegar maður verður 64.

Svo var James Bond myndin Octopussy að byrja á SkjáEinum. Kannski maður kíki á hana og fái smá ferðanostalgíufíling en þessi mynd gerist á Indlandi. Nánar tiltekið í Udaipur þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti í nokkra daga á ferðalagi okkur um Indland í den. Ég man að Elva Ruth átti afmæli og við eyddum heilum degi í að spila kana uppi á þaki á einhverju hóteli eða veitingastað sem hét Hotel/restaurant Octopussy, en ég held að annar hver staður hafi heitið það. Eftir myndinni að sjálfsögðu. Og svo sýndu allir staðir Octopussy á tveggja tíma fresti. Allt var Octopussy sem samt var ekki neitt. Æj, þeir reyna allt þessar dúllur sem indverjarnir eru. Já, dúllur.

Kannski maður fari einhvern tímann aftur í heimsreisu. En það verður þá allt öðruvísi ferð en sú sem var farin þá. Sú ferð var virkileg budget ferð þar sem við okkur datt ekki í hug að greiða meira en 50 - 80 krónur fyrir tveggja manna hótelherbergi. Og þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig þau hótelherbergi litu út. Man að eitt sinn urðum við að taka hótelherbergi fyrir 300 kall því allt annað í bænum var upptekið (leituðum lengi að rétta verðinu skal ég segja ykkur!) og þá var sjónvarp í herberginu. Þvílík hamingja. Og það sem meira var, það var fótboltaleikur úr ensku deildinni í sjónvarpinu. Darby County - Christal Palace og strákarnir gjörsamlega með standpínu af gleði. Og svo liðu 20 mínútur af þessum æsispennandi leik og þá fór rafmagnið. Of course, hvað annað. Það var alltaf að fara. Og þá var ekki alveg eins gaman í 300 króna rándýra herberginu, ó, nei. Já, ég get nú sagt margar skemmtilegar og furðulegar sögurnar úr þessu ferðalagi en þetta var rosaleg ferð. Upplifðum svo margt. Later.
En ef maður fer aftur í svona massaferð þá náttúrulega verður hún aldrei eins löng og allt öðruvísi þar sem maður er jú orðinn ábyrgt foreldri með barn (í eftirdragi... neeeei bara djók). Þá held ég að maður sé nú til í að borga aðeins meira en fimmtíukall fyrir herbergið. Vonandi einhvern tímann. Jú, ég held ég ákveði það bara hér með, við förum í eina góða ferð áður en Vera byrjar í skóla. Jebb.

Jæja, nú er ég búin að bulla þvert og endilangt um allt og ekkert. Því er kannski ekki úr vegi að enda á því að spyrja hvert þessi heimur er að fara nú þegar Bubbi og Brynja eru hætt saman??
Það er greinilega ekkert endanlegt í neinu.
Það er alveg á hreinu.

En hún mamma er fimmtug í dag - til hamingju með það! Hún eyðir afmælisdeginum á eyjunni Tobago í hita og sól....mmmmmm

föstudagur, nóvember 26, 2004

Elsku kórinn minn 

Jæja, þá er komið að því að auglýsa sig.

Eins og þið kannski vitið er ég í æðislegum kór. Oh, það er svo gaman.

Það verða jólatónleikar hjá kórnum mínum, Kammerkór Hafnarfjarðar miðvikudaginn 8. desember nk. í Hásölum sem er í tónlistarskólanum í Hafnarfirði (við hliðina á Hafnarfjarðarkirkju). Það verður barokksveit og einsöngvari með okkur og þetta verður voðalega hátíðlegt og skemmtilegt. Það kostar eitthvað smotterí inn, en allir sitja til borðs og fá kaffi og konfekt.

En aðalatriðið er nú að við erum að syngja í jólaþorpinu hér í Hafnarfirði á sunnudaginn næsta, 1. í aðventu, kl. 14. Nei, segi svona. Þetta er ekkert aðalatriði, er bara að láta ykkur vita.

Auglýst dagskrá er eftirfarandi:

Nylon
Idolstjarnan Jón Sig
Hinn óviðjafnanlegi Kammerkór Hafnarfjarðar
Grýla og jólasveinarnir

... fyndin samsetning!

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Formaðurinn 

Jæja. Fór á aðalfund starfsmannafélagsins í vinnunni í dag og það endaði ekki betur en svo að ég er hér með orðin formaður starfsmannafélags IMG. Jahá. Jeminn. Ég get svarið það. Það vildi enginn bjóða sig fram í þessu hundrað manna fyrirtæki og allt leit út fyrir að félagið myndi bara detta niður. Hætta. Og ekki er það nú spennandi fyrir félagslífið. Ó nó. Svo ég bara tók þetta að mér.
Sjáum svo til hvernig gengur.
Fyrsta verkefnið er nú reyndar bara á næsta leyti... jólaglögg og jólaball...úff þarf að fara að skipuleggja. Ég er nú ekki ein í þessu heldur dró eina vinkonu mína með mér niður í svaðið. Við tökum þetta á hælinn. Massaði alla vega stjórnarsetuna í Homo á sínum tíma farsællega svo ég er bara jákvæð.

En endilega, ef þið out there hafið einhverjar brill hugmyndir látið mig vita sem fyrst! Anything goes :)

Erla formaður.

Verufréttir 

Getur verið að barnið mitt sé orðið frekja aðeins 4 mánaða gamalt?? Jedúddi. Ég bara spyr. Síðastliðin kvöld hefur hún nefninlega harðneitað að fara að sofa á kvöldin. Segir bara nei mamma, ég ætla frekar að spjalla aðeins og vera svaka hress og æðislega skemmtileg og vaka til svona 12-01. Svona er þetta búið að vera undanfarin kvöld. Áður var hún svaka góð og dugleg að fara að sofa á milli kl. 20 og 21 á kvöldin. Sem var frábært. Ég hélt ég væri alveg að gera réttu hlutina og að barnið mitt væri það þægasta í heimi að fara svona snemma að sofa. Og það var ekkert mál fyrir hana. Bara sofnaði og svaf fram á nótt. Og þá fékk maður "frí" á kvöldin. Það getur nefninlega verið ansi töff og krefjandi að vera til taks ALLTAF allan sólarhringinn. Og ég var svo ánægð með þetta frí á kvöldin...

Núna allt í einu finnst mér Vera vera orðin svo stór. Og vitur. Og fattar allt einhvern veginn. Hún kvartar hástöfum þegar ég legg hana í rúmið til að svæfa og öskrar svo ef hún fær sínu ekki framgengt. Ég hef látið hana vera inni í rúmi og þá er hún aldrei eins hress og getur spjallað í hátt í 2 klukkustundir við einhverja drauga í loftinu. Hlær og skríkir og hjalar og talar. Alveg þvílíkt. Og þetta er náttúrulega alveg sætt og allt það en soldið pirrandi svona á tímum... Bíð þolinmóð eftir að hún hætti þessu. Ég reyndar kann engar svefnformúlur fyrir börn en geri mitt besta.

Annars er Vera 4 mánaða í dag. Orðin svo stór og mikill krakki eitthvað. Hætt að vera þetta baby baby. Hún veit alveg hver er mamma og hver er ekki mamma og finnur einnig mun á mömmu og pabba. Vill sko alls ekki að pabbi svæfi sig. Nei, takk. En hann gefst ekki upp. Hún er orðin smá mannafæla og setur stundum upp skeifu þegar hún er hjá einhverjum öðrum en mömmu. Alveg þvílíkt mömmudæmi í gangi hérna. Finnst það soldið óþægilegt. Undirhakan og kinnaarnar hennar vaxa óðum og ná nú niður á bringu. Voða sætt. Hárið lætur þó eitthvað bíða eftir sér en það sem er á leiðinni er þvílíkt hvítt að lit. Já, ég á ljósku. Maður verður bara að sætta sig við það. Segi svona. Æj, hún er bara þvílíkt krútt prútt.

Læt hér fylgja nokkrar myndir af henni af því ég veit að þið elskið hana eins og ég...



Aha Posted by Hello


Vera með besta vini sínum Posted by Hello


In the getto Posted by Hello


Krútt í kjól Posted by Hello


Sæt í bleiku  Posted by Hello


Og sæt í röndóttu líka  Posted by Hello


Vera sunddrottning Posted by Hello


Varð að láta eina táslumynd fylgja. Oh, þetta er það sætasta! Posted by Hello

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Sjónvarpsleysi gefur gull í munn 

Ég var sjónvarpslaus í gærkvöldi.
Stöð 2 með sínu digitalklúðri og öllu sem því fylgir gerði það að verkum að ég sá bara snjó á skjánum í gær. Og ég sem er komin með nóg af snjó. Já, strax. Hann má hverfa fyrir mér. Ég veit að ég talaði vel um hann hér um daginn en komst svo að því að vagnar og snjóófæra fara ekki vel saman. Var kófsveitt að drösla vagninum út í búð og tilbaka. Þvílíkar torfærur. Svo ég vona að það verði bara rigning í bænum í vetur en snjór í fjöllunum. Vá, það væri góður díll.

En alla vega. Snjórinn á sjónvarpinu. Fyrst varð ég alveg svakalega svekkt og vissi ekkert hvað ég átti til bragðs að taka. En svo sá ég það. Þetta var frábært. Ég saknaði Völu Matt nú ekki svo mikið. Og tíufrétta ekki heldur. Var komin með nóg af fréttum um brunann eníveis. Svo ég tók upp prjónana og kláraði önnur handskjól (já, það er nýjasta tískan ef þið vitið það ekki!) svo tók ég í bók og kjaftaði heillengi í símann. Frábært kvöld! Reyndar vildi Vera ekki fara að sofa en það er annað mál...

Ég er enginn sérstakur sjónvarpsglápari. Eiginlega þvert á móti. Það er kannski ástæðan fyrir því að sjónvarpið hjá mér er staðsett lengst uppi í rjáfri og þarf ansi margar tröppur til að komast þangað upp. Maður þarf því að ákveða að fara að horfa á sjónvarpið. Það er ekki bara kveikt á því og maður fer ósjálfrátt allt í einu að horfa. Og þegar maður er einu sinni kominn upp þá fer maður heldur ekki svo glatt aftur niður fyrr en dagskráin er búin. Það er aldrei bara kveikt á kassanum og enginn að horfa. Ég elska það.

Sjónvarpið er í raun fyrir mér ákveðinn samskiptaþjófur. Um leið og það getur á stundum verið góð afþreying þar sem það bjargar manni frá það að þurfa að hugsa og tala þá stelur það um leið fullt af öðru skemmtilegu sem myndi annars gerast væri slökkt á því. Það stelur frá okkur áhugaverðum samtölum sem annars myndu fara fram og ýmsum áhugamálum sem maður annars myndi sinna, eins og bókalestur, spil, prjón, saumur eða annað dútlerídútl. Eða bara að hafa svona fjölskyldustund. Eins og var á fimmtudögum í gamla daga. Vá, það var aðeins á fimmtudögum sem pabbi nennti að spila veiðimann við mann og segja manni brandara. Bara af því það var ekkert sjónvarp. Það er svo auðvelt að bara kasta sér í klessusófann, grafa sig djúpt niður í púðahafið og liggja eins og slytti. Gærkvöldið hins vegar kenndi mér að kvöldin eru oft betur nýtt í annað skemmtilegra sem bara gerist sé slökkt á því.

Það er nú ekki mitt að vera að prédika hér, en eftir gærkvöldið kæri lesandi, mæli ég hiklaust með því að þú slökkvir á sjónvarpinu í eitt og eitt kvöld og búir til nýjan raunveruleika í þínu lífi í stað þess að matast af raunveruleika og óraunveruleika annarra úti í heimi.
Ó, je.

sunnudagur, nóvember 21, 2004

Vera fer í jólakortið 

Jæja, þá erum við búin að taka jólamyndirnar af Veru. Hún fer á jólakortið í ár. Loksins mun koma almennilegt jólakort frá Erlu og Vigga! Ekki bara mynd af jesú eða snjóhúsi eða Alpafjöllum. Við þurftum að taka um 200 myndir til að fá nokkrar í lagi! Vera er ekki alveg orðin þjálfuð í að brosa eftir pöntun og vera sæt og pósa eins og foreldrarnir vilja. Á endanum voru um 20 sætar myndir og ein af þeim valin... alveg hrikaleg sæt auðvitað. Látið ykkur hlakka til!!

laugardagur, nóvember 20, 2004

Gamalt og gott 

Ég hef alltaf verið hrifin af gömlum hlutum. Hef verslað mér dýrindis antík og gamalt drasl í Kolaportinu frá því ég man eftir mér. Og hirði hluti sem á að henda frá öðrum. Ég er samt enginn drasl safnari, heldur fíla bara mjög oft þetta gamla góða fram yfir nýtt. Á heimilinu er þó blandað saman gömlu og nýju í góðri stílleysu sem samt er minn stíll.

Ég fór að spá í gamla hluti um daginn þegar hún mamma ætlaði að láta laga gamlan leikfangahest frá því hún var lítil. Þetta er s.s. um 50 ára gamall leikfangahestur á hjólum sem öll börn elska að leika sér með. Fara á hestbak og gobbedígobba út um allt. Hesturinn lítur eftir öll árin og leikinn ekki ýkja vel út. Bæði augun eru dottin af, hann er bara með eitt eyra, faxið er horfið og heftiplástur prýðir bakið á honum til að hálmurinn haldist inni. Hann er sem sagt vel tjónaður greyið. Mömmu fannst ómögulegt að hafa hestinn svona útlítandi nú þegar Vera uppáhaldið hennar fer bráðum að leika sér við hann og ákvað því að fara með hann til bólstrara og gefa hoho nýjan feld, fax, augu og eyru.

Síðan ég var lítil hefur þessi hestur litið svona út, verulega tjónaður. En ég elskaði að leika mér við hann svona útlítandi. Svona man ég eftir honum, svona er hann og svona vill ég hafa hann. Ég velti því fyrir mér hvernig það væri ef við myndum alltaf laga allt og gera gamalt að nýju. Þá væri aldrei neitt gamalt. Aldrei neitt gamalt og gott. Allt nýuppgert og nýtt. Engin ummerki um neitt. Í sárum hestsins felst nefinlega svo margt. Góðir tímar, æska, leikur, gleði og saga prýða hestinn og allt þetta mun hverfa við bólstrun.

Mamma var í fyrstu ekki sammála mér. Hún myndi ekki bjóða Veru upp á að leika sér að "ónýtum" hestinum. Ég þrætti á móti og sagði Veru frekar vilja hafa hestinn svona. Hún hafi sagt mér það um daginn. Ef Vera vildi leika sér að nýjum hesti þá myndi ég kaupa einn fjöldaframleiddan og litríkann eins og allir hinir eiga í IKEA. En ég fór samt með hestinn til bólstarans að hennar bón.

Eitt hvað hefur þó ræðan mín um gildi gamals dóts og drasls virkað á múttu því hún setti bólstrunina á hold. Hesturinn fær líklega bara ný augu en fær svo að vera hann sjálfur áfram. Engan IKEA fíling á hann takk. Sem betur fer áttaði mamma sig.

Eins er með hring sem föðursystir mín erfði eftir afa (pabba sinn). Þetta er frímúrarahringurinn hans afa sem hann bara á fingri alla ævi. Og hann lifði þau 87. Hringurinn ber sögu afa vel að mínu mati. Hann er vel markeraður af erfiði og vinnu. Frímúrarastafirnir sjást varla ennþá, eru nánast eyddir upp. Þessi hringur minnir mig alltaf á afa. Og hans ævi og störf. Frænkan hugleiddi að bræða hringinn í hring handa sér. Vissi ekki hvað hún ætti að gera við stóran frímúrarahring föður síns og vildi frekar bræða hann í eitthvað sem hún myndi alltaf vera með. Alltaf vera með pabba sinn hjá sér.

Ég þrætti líka á móti því. Sagði henni mína skoðun sem er að gera nýjan hring úr gömlu frímúraragulli gefi henni ekki neitt. Saga afa og merki gamalla afatíma hverfa með nýju handbragði að mínu mati þótt gullið sé það sama. Og hún hætti við. Í bili alla vega.

Auðvitað þurfa ekki allir að fíla þetta gamla eins og ég. En við megum samt ekki útmá allt gamalt og breyta í nýtt við fyrsta tækifæri. Þá hverfur tíminn og gömul ævi.

Nú er svo verið að tala um að breyta þjóðsöng Íslendinga. Fyrir mér væri það hreinlega eins og að breyta trúnni! Að af því það er erfitt að syngja hann þá þurfum við að henda honum út og fá okkur nýjan. Það er eins og að segja að af því fólk stelur oft þá eigi boðorðið þú skalt ekki stela ekki við ennþá. Bara henda því út. Og þar fram eftir götunum. Það var ástæða fyrir því af hverju þessi þjóðsöngur var valinn á sínum tíma. Það tengist sjálfstæði Íslands og Matthías Jochumsson var virt ljóðskáld. Og það hlýtur að vera gild ástæða enn í dag. Við getum ekki bara alltaf breytt öllu út af nýjum tímum. Að endalaust aðlaga gamalt að nýju virkar bara ekki. Þá væri alltaf allt nýtt.
Þá væri engin saga.
Og þá væri ekkert gaman.

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Gaddur 


Jæja, þá er Vera sofandi úti í 10 stiga frosti. Hvað er maður að pæla?? Vildi maður sjálfur sofa úti í slíkum gaddi? Reyndar er hún þvílíkt dúðuð, í svefnpoka og með sæng í krossaranum eins og sjá má á myndinni. Líður ábyggilega mjög vel en mamman er með gæsahúð inni í húsinu... Vera hefur sofið úti í alls kyns veðrum, þ.á.m. grenjandi snjókomu og stormi. Þá svaf hún heillengi því vagninn hristist svo í rokinu og vaggaði henni endalaust í svefn! Las í Mogganum um daginn að börn á Íslandi hafi byrjað að sofa úti vegna ólofts í torfbæjunum. Það var svo mikill fnykur sem talinn var óhollur fyrir börnin.
Það er nú ekkert sérstaklega mikil fýla hér inni hjá mér en hún Vera sefur bara svo vel úti. Ef hún leggur sig inni þá tekur hún kannski klukkutíma blund, en úti 3-4! Sem er fín pása fyrir mömmuna... jæja, nú er farið að myrkva líka svo best að taka skvísuna inn og knúsa hana. Posted by Hello

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Snjór og jól og jólasnjór... 

Jæja, þá er veturinn kominn. Og alltaf er eins og það komi manni svo svakalega á óvart! Það er á hverjum vetri eins og maður sé búinn að gleyma því að við búum á ÍSlandi. Já, loks fæ ég almennileg not fyrir bleiku loðstígvélin sem ég keypti mér á heitasta degi ársins í sumar. Finally. Er búin að spreyja þau með sílíkoni og er til í tuskið. Við Vera ætlum í göngutúr í fyrsta sinn saman í snjó. Ég ætla að setja Veru á snjóþotu og kenna henni að renna sér á skíðum. Neeeee... en það kemur að því síðar!

Alltaf þegar snjóinn kyngir svona niður eins og í gær þá fæ ég fiðring í magann. Langar bara beint út að leika. Búa til snjókarl (gerði reyndar einn lítinn á veröndinni hjá okkur í gærkvöldi! - Gat bara ekki hamið mig) og engla. Og fara á bretti. Snjórinn er eitthvað svo spennó þó svo hann geti líka verið óþolandi. Eins og þegar hann kyngir svona óvænt niður eins og síðdegis í gær, þá er hann óþolandi. Við vorum á leið í ungbarnasundið sem er í Hafnarfirði innan úr Reykjavík og það tók heilan klukkutíma að skríða 15 mínútna leið. Við rétt náðum að mæta á réttum tíma. Það gekk alveg frábærlega í sundinu og Vera er orðin þvílíkur sundmaður. Fór 4 sinnum í kaf og stóð teinrétt í lófanum á kennaranum þegar hann lyfti henni upp. Og hafði gaman af. En aftur að snjónum og ruglinu á leiðinni. Bílarnir og bílsjórarnir voru allflestir gjörsamlega úti á skíta. Á rennisléttum sumardekkjum keyrandi á hvorn annan samt bara á 10 km hraða, slædandi upp á umferðareyjur, festandi sig og spólandi í brekkum. Algjör vitleysa. Ég á mínum fjallabíl fór að sjálfsögðu létt með þetta en sat föst í snjóvitleysuumferðaöngþveyti í alltof langan tíma. Þá getur snjórin farið í taugarnar á manni. Hins vegar er snjórinn frábær þegar maður kemst á snjóbretti. Mmmmm, við stefnum á nokkrar Akureyrarferðir þegar Hlíðarfjall verður opnað og þá verður skemmt sér í ruglinu þar. Það er svakalega skemmtilegt svæði, bæði troðnu brekkurnar og offródið. Mæli með því. Vera fer svo á bretti við fyrsta tækifæri! Ég sjálf stóð víst á skíðum 2 1/2 árs. Fékk svakalega plastskíði í jólagjöf frá afa og ömmu sem maður smellti á sig í kuldaskónum. Og svo renndi maður sér á jafnsléttu og hafði gaman af.

Þegar ég lít hér út um gluggann þá blasir við mér jólatré í næsta garði og það er svo koverað af snjó að það er aaaalveg að sligast undan. Þetta er allt svo jólalegt eitthvað. Samt er langt frá því að ég sé komin í jólaskap. Ég fer sjaldnast í jólaskap. Meika eiginlega ekki jólin. Og meika alls ekki jólalögin. Ég ætla því að hlusta á Skonrokk fram að jólum því þeir hafa lofað að sleppa jólalögunum með öllu. Ég spila í staðinn bara mína jóladiska þegar ég hef lyst og löngun til. Á reyndar bara einhverja glataða, þarf að redda því. Ég held reyndar að jólin verði skemmtilegri núna en oft áður. Vera er komin í spilið (Vera er komin til að vera!) og það setur öðruvísi fíling í jóladæmið. Sem betur fer.
Litla jólaVeran mín bjargar jólunum .)

mánudagur, nóvember 15, 2004

Heima er best 

Í gær fórum við í heimsókn til vinafólks okkar sem er nýflutt inn í svaka fínt einbýlishús sem þau hafa algjörlega látið gera upp. Enn var allt í kössum og ekki búið að ganga frá hlutum á sinn stað. Stofan var full af "drasli" eins og heimilisfrúin orðaði það. Voru það hlutir sem þau ætluðu að henda eða gefa í Góða Hirðinn. Þessir hlutir voru gamlir hlutir, mest frá húsbóndanum, og höfðu þeir nú runnið sitt æviskeið með heimilisfólkinu.Þeir pössuðu ekki lengur inn á heimilið í nýja húsinu.

Þetta minnti mig á að eitt sinn gerði ég lítið verkefni í kúrs sem hét Notagildi og Fagurfræði í mannfræðinni sem ég nefndi: Heima er best. Þar velti ég fyrir mér hvað það er sem byggir heimili, hvaða hluti fólk velur inn á heimili sitt og af hverju. Eins pældi ég í hvað þessir hlutir segja um heimilisfólkið og af hverju máltækið segir að heima sé best. Ég náði í verkefnið og las og fannst ég ansi góð í pælingum mínum eins og sjá má hér fyrir neðan. Ég reyndar stytti þetta heilan helling og breytti slatta og bætti við til að það verði aðeins læsilegra, eins sleppi leiðinlegum kenningarlegum köflum sem enginn skilur nema mannfræðingar...
Já, maður var eitt sinn frjór og klár...

"Heimili fólks eru eins fjölbreytt og mismunandi og þau eru mörg. Kannski eins og mannfólkið sjálft. Hver maður hefur mismunandi fagurfræðilega sýn á hluti og rými og leggur mismunandi merkingu í hluti. Það sem ég tel að fyrst og fremst byggi heimili, er sjálft fólkið á heimilinu og þeir hlutir sem það velur til að hafa í kringum sig. Eitt sinn fór ég á sýningu á Listasafni Reykjavíkur sem hét "Sófamálverið". Sýningin fjallaði um það sem fólk velur til að setja fyrir ofan sófann hjá sér og sýndi myndir af stofunni og sófanum og því sem fólk setti fyrir ofan sófann. Ég man að mér fannst sýningin ansi innantóm því heimilisfólkið vantaði á myndirnar. Hins vegar var ansi spennandi að sjá hvað fólk velur mismunandi hluti inn til sín og hengir mismunandi myndir upp fyrir ofan sófann hjá sér. Myndirnar fyrir ofan sófann segja kannski meira um fólkið sem setti þær þar, fremur en margir aðrir hlutir á heimilinu, þar sem það rými er yfirleitt ákveðinn aðalfókus í íbúðinni og fólk vandar valið meira en ella. Sjálf var ég eitt sinn í mörg ár með tóman vegginn í stofunni fyrir ofan sófann. Ég átti fullt af myndum og hlutum til að fylla vegginn með en einhvern vegin var mér alls ekki sama hvað færi á þennan tiltekna vegg. Ekki vildi ég heldur hafa hann tóman, því það fannst mér einhvern vegin ekki endurspegla okkur á heimilinu. Ég fann ekkert sem mér líkaði svo ég ákvað einn daginn að prýða vegginn heimatilbúið olíumálverk, sjálfsmynd listamannsins (þó svo ekki margir utan heimilisins hafið nú vitað það!). Það fannst mér bæði persónulegt og fallegt og hitta akkúrat rétt í mark með táknrænt útlit stofunnar sem ég var að leitast eftir.

Hlutir bera ákveðin boð og merkingu um eigendur þeirra. Eignir fólks er oft tákn fyrir fólkið á margan hátt, t.d. stöðutákn og tákn fyrir viðhorf þess til neyslu. Einnig hvort það sé með fjöldaframleidda eða einstaka hluti inni hjá sér. Í raun er hægt að segja að heimili fólks sé ákveðið safn þar sem fólk safnar hlutum til að skapa heimili sem á að sýna sögu þess og sjálfsmynd.

Alltaf þegar ég kem inn á heimili þar sem ég hef ekki komið áður líður mér eins og að koma í spennandi ævintýraheim. Ég geng um heimilið eins og dáleidd, rýni í málverk og myndir sem hanga á veggjum, skoða hluti og króka og kima. Í raun er ég ósjálfrátt að framkvæma hálfgerða rannsókn þar sem ég er að kanna það fólk sem byggir heimilið. Ómeðvitað er ég að kanna hvernig persónuleikar ég tel að fólkið sé, hvort ég telji mig þekkja það rétt. Fólk nefninlega leggur sérstaka merkingu í heimili sitt með hlutum. Það er að skapa umhverfi sitt með ákveðnum hlutum sem eiga að endurspegla sjálfsmynd heimilisins sem svo hlýtur aftur að endurspegla fólkið sjálft sem persónur. Oftar en ekki breytist sýn mín á fólki eftir að ég hef komið inn á heimili þess. Það einhvern veginn flokkast á annan hátt í höfðinu á mér og ég fæ betri mynd af því hvernig ég tel það vera og hvernig ég skynja það sem persónuleika. Ég fæ svo mikið af auka upplýsingum um það út frá því hvernig það býr. Efnisleg menning gefur okkur ákveðnar vísbendingar um heimssýn, heimspeki og hugmyndafræði fólks. Með hlutum skapa menn sjálfa sig veröld sína og því mætti segja hluti heimilisins ákveðna holdgervingu okkar sjálfra. Maður notar sinn smekk og hugvit til að skilgreina sig frá öðrum.

Heimilið getur einnig birst sem ákveðið valdarými þar sem fólk deilir um hvernig á að vera. Mismunandi smekkur fólks gerir það að verkum að oft þarf fólk að semja um hvernig heimilið skuli vera. Eins og hjá þessu vinafólki okkar. Flest af þessu "drasli" var gamalt dót frá húsbóndanum sem húsfrúin vildi losna við. Spurning hvort húsbóndinn sé sammþykkur því? Aðilar sem flytji inn saman og ætla að stofna heimili þurfi oft á tíðum að fórna ýmsum hlutum sem hafa ákveðna táknræna merkingu fyrir það og sem því þykir vænt um. Að sama skapi þurfa þeir einnig að búa með ýmsum hlutum sem það þolir ekki. T.d hefur fólk lýst því sem algjöra martröð að þurfa að búa „með“ teppi sem það hafði ekki valið sér sjálft. Það teppi endurspeglar þá að öllum líkindum ekki þá sjálfsmynd sem það vill koma til skila í gegnum heimilið. Það er að sumu leyti hægt að líta á teppið sem leifar af sjálfsmynd fyrri íbúenda þess heimilis sem var þar áður, en einnig sem eitthvað algjörlega merkingarlaust fyrirbæri með enga táknræna merkingu, þar sem fólk vill helst losa sig við það.

Mér er þá aftur hugsað til sófamálverkssýningarinnar. Þar birtust textar með sófamálverksljósmyndunum sem voru orð heimilisfólksins. Í þeim kemur í ljós að ekki næstum því allir voru ánægðir með þá mynd sem hékk fyrir ofan sófann. Til dæmis gat myndin verið gjöf sem fólk fann þörf til að setja upp af kurteisi einni saman, eða þá það hefði ekkert annað til að hengja upp. Einnig var einhver sem sagðist finnast málverkið fyrir ofan sófann sinn forljótt og í raun ekki skilja af hverju það væri þarna, en makinn hafi keypt myndina og hengt hana upp.

Ljóst er að hugmyndin um heimili er allt annað en einföld. Heimili eru ekki einsleit stöðluð fyrirbæri sem hægt er að fjalla um á einfaldan hátt. Hér að ofan hef ég reynt að gera grein fyrir því hvernig hvert heimili er táknrænt fyrir þá aðila sem það byggja og hvernig heimilið og hlutmenningin er í raun holdgerving fólksins sem skapar hana. Sjálf er ég mikill fagurkeri og legg mikla vinnu í að byggja upp heimili mitt, því um leið finnst mér ég einnig vera að byggja upp ákveðinn persónulegan lífsanda. Þannig verður heimili mitt ég sjálf. Það er hægt að byggja hús, en það verður að rækta heimili og ræktunin er þessi sjálfssköpun. Ég er að skapa mig og mitt líf í gegnum heimilið og hlutmenninguna sem inni á því ríkir. Heimilið er tjáning okkar á því hver við erum og hugmynd mín um heimili samræmist að miklu leyti hugmynd minni um hvernig lífi ég vill lifa.
Aðeins á þennan hátt get ég skilið af hverju „heima er best“"

Jahá! Mig er nú bara farið að langa aftur í skóla!

laugardagur, nóvember 13, 2004

Nóvemberbrúnkan 

Við búum á Íslandi þar sem sólin sjaldan skín. Að viti að minnsta kosti. Á veturna glittir stundum í hana á milli svartra skýja en lítið meira en það. Því er afar áhugavert að sjá ungt fólk á Íslandi kaffibrúnt að lit og það um miðjan nóvember! Sólin skín bara langt frá því nægilega mikið að maður fái bronsaðan sumarlegan hörundslit hér á landi. Tuttugmínútna sól í roki gerir það bara ekki. Ljósabekkir eru jú vinsælir til sólbaða hér á landi og til er fólk sem fer í ljós þrisvar í viku og mætir reglulega sólbrúnt í líkamsrækt. Það fer svo í Hollywood um helgar með mynd af ljósabekknum í vasanum. Nei, ég segi svona. En þetta er alveg met. Að sjá snickersbrúnar ungar dömur um miðjan vetur á Íslandi er hjákátlegt. Ég segi það ekki, það er allt í lagi að líta hraustlega út, hvort sem það kallar á einn eða tvo ljósatíma eða eina umferð af brúnkukremi, en öllu má nú ofgera hér. This aint California.

Horfði á 70 mínútur á PoppTíví í fyrradag og þar fór hann Pétur Jóhann Sigfússon í brúnkuklefa. Var það áskorun á hann sem hann tók. Hann breyttist í stuttu máli úr næpuhvítum venjulega fölum Íslendingi í alltofbrúnan ítaljanó vero. Þeir strákarnir í þættinum, og ég, hlógum svo mikið að þessu því það er auðvitað alveg ga ga að ganga svona langt að transformerast svona gjörsamlega eins og þetta.

En það voru fleiri sem gengu í brúnkudraumagildruna heldur en Pési Jói. Nýja Kastljósdaman steig beint í hana eins og berlega mátti sjá í Kastljóssþættinum í gærkvöldi. Og hún fékk mig til að pæla í þessu brúnkudæmi. Greyið hafði augljóslega farið í brúnkuklefa og látið sprauta á sig gervibrúnku. Hún var svo skringilega gulsvarbrún, og jafn brún í andlitinu og annars staðar. Svo var hárið skjannahvítstrípað og vatnsgreitt aftur til að liturinn fengi nú örugglega að njóta sín. Þetta var alveg fáránlegt við hliðina á skjannahvítum (eins og við eigum að vera!) Sigmari hinum Kastljósspyrlinum. Daginn áður var þessi nýja stelpa Kastljóssins, sem mig minnir að heiti Eyrún, ósköp venjuleg á litin. Svo bara púff... allt í einu gervibrún og kjánaleg. Í alvöru, þetta stakk svo í stúf að ég hló og hló og heyrði lítið um hvað rætt var í þessum Kastljóssþætti. Sjónvarpsmyndavélunum var sjaldan beint að henni nálægri því þetta var bara ekki að gera sig.

Þetta er aðeins farið út í öfgar. Ég viðurkenni það nú samt að ég á eina túpu af brúnkukremi sem ég skelli á mig af og til fyrir einhverja sérstaka viðburði. Er samt viss um að enginn taki eftir þeirri "brúnku" sem myndast af því nema ég sjálf. Auðvitað ber ég þetta á mig til að líta betur út. Að vera glær á veturna með fjólublá landakortalæri er ekki alveg málið. Millivegurinn er hinn gullni vegur í þessu sem og öðru. Nokkrar freknur og temmilega hraustlegt útlit er málið í dag.
Brúnkuklefar fá því falleinkunn hjá mér, og ber ég Pétur Jóhann og Eyrúnubrúnu þess til vitnis.

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Göfgar vinnan manninn? 

Ég held að Íslendingar upp til hópa taki þessu ágæta orðtaki aðeins of alvarlega. Mín skoðun er að við vinnum á heildina litið alltof mikið. Að sjálfsögðu er ótækt að alhæfa algjörlega um það, en það virðist vera einhver svona vinnukeppni í gangi hér á klakanum. Allir að vinna sem mest þeir geta. Gjörsamlega myrkranna á milli. Auðvitað eru alltaf einhverjir inn á milli, með heilbrigða skynsemi og fínan vinnuveitanda, sem vinna skynsamlega mikið/lítið og er það frábært. Ég held í alvöru að það sé alls ekki óalgent að fólk vinni um 10 - 12 tíma á dag að meðaltali, kannski frá kl. 8 - 18 eða 20. Sumir vinna svona mikið til að eiga fyrir skuldunum en aðrir bara vinna svona mikið af því það er svo mikil vinna framundan... alla ævi.... jesús minn, slakiði á!

Alla vega vinnu maðurinn minn of mikið að mínu mati. Já, það er ástæða þessa bloggs. Og það er ekki mikið eftir af deginum þegar hann loks lætur sjá sig heima. Þeir iðnaðarmenn sem ég þekki vinna allir eins og vitleysingar, og þekki ég þó nokkra. Ég veit líka um íslenskan smið sem vinnur sem slíkur úti í Danmörku og vinnur hann frá kl. 7 - 15 = 8 klst. á fínum tíma dagsins. Kominn heim á skikkanlegum tíma þegar eitthvað er eftir af deginum. Hvað er pointið með því að lifa lífinu sívinnandi og missandi af familíulífinu og hversdagslífinu sem gerist fyrir kl. 20 á kvöldin? Á þeim tíma eru allir orðnir þreyttir, börnin farin að sofa og makinn úrvinda eftir úlfatímann með börnunum og eldamennskunni milli kl. 17 og 20.

Já, ef ég ætti eina ósk sem stendur þá myndi ég óska þess að íslenskir smiðir ynnu einnig á þeim tíma. Kommon, þetta er alveg nóg! Spurning um að flytja bara til Danmerkur. Ekkert bull þar í gangi. Nei, í alvöru, maður fær alveg nóg af því að kallinn sé ekki aldrei heima. Missir af öllu og veit lítið hvað er í gangi nema það sem snýr að hamri og nöglum. Ég er viss um að hann langar að vera meira heima og fylgjast með þroska dótturinnar og snúllast meira með hana (og mig!)en nei, "það er ekki í boði" er svarið þegar ég spyr af hverju ekki. Samfélagið leyfir það ekki. Það er bara unnið svona mikið og hana nú. Það þarf alltaf að klára eitthvað og það sem fyrst.

Í svona vinnubrjálæði spyr maður sig um tilgang lífsins. Til hvers erum við hérna? Skapar svona mikil vinna okkur þá lífsfyllingu og hamingju sem við leitumst eftir. Væri ekki nær að vinna bara á lager frá kl. 8-16 og ekkert rugl? Ég meina, ég er ekkert að setja út á lagerstörf hér, frekar að upphefja þau í þessu vinnurugli öllu.

Vinnan göfgar án efa manninn í ákveðnum tilvikum en núna mér finnst hún samt aðallega vera að gleypa hann.

Erla heimavinnandi antivinnukona.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

SundVera 


Verulíus Víglunds fór í sinn fyrsta sundtíma í dag. Hér má sjá hana tilbúna að stinga sér útí, í fína sundbolnum sínum, bleikur með litlum hvítum blómum og auðvitað pilsi og slaufu. Hvað er dömulegra en það? Vera stóð sig eins og hetja og fór meira að segja í kaf í fyrsta tímanum sem var ekkert mál fyrir hana. Þetta er greinilega upprennandi sunddrottning eins og mamman... Posted by Hello


Hér er daman á góðu skriði eins og sjá má, þó í öruggum höndum pabbans. Vera er ekkert smá flott með þetta bleika sundeyrnaband í stíl við sundbolinn, en það er nauðsynlegt út af eyrnabólgunni sem fer þó æ þverrandi :) Posted by Hello

mánudagur, nóvember 08, 2004

Prjónavélin ég... 

...eða þannig. Ég er ekki sérlega góð í að prjóna. Skil uppskriftirnar eins illa og kínversku og hef einhvern veginn ekki komist upp á lagið með þetta í gegnum árin. Hef þó alltaf tekið í prjónana af og til og get stolt sýnt ykkur 2 ullarpeysur þess til sönnunar. Reyndar hjálpaði amma mér heilan helling þar því eins og ég sagði er ég léleg prjónakona.

Mamma, amma og Solla móðursystir hafa séð um þá hlið handverkanna. Þær eru ofurprjónakonur. Prjóna eins og þeim sé borgað fyrir það. Geta ekki horft á sjónvarpið án þess að hafa prjónana í höndunum. Amma og mamma tala um að þær "vanti" eitthvað að prjóna og biðja um að fá að prjóna eitthvað á mig eða á einhvern krakka sem ég þekki. Geta bara ekki ekki prjónað. Þegar ég var yngri var ég alltaf í heimaprjónuðum peysum. Og sokkum. Og vettlingum og húfum og treflum. Svo var ég nú líka í heimasaumuðum Don Cano galla en það er annað mál... Mér finnst reyndar mjög krúttlegt þegar krakkar eru í heimaprjónuðum peysum og svoleiðis. Það er eitthvað spes við það. Og ég hélt auðvitað þegar ég var yngri (og held enn...) að ég yrði að sjálfsögðu eins og langstærstur meirihluti kvennanna í familíunni, s.s. góð prjónakona. Þetta væri bara í genunum. En eitthvað hafa þau gen farið eitthvað annað... ég er nefninlega bæði léleg og löt prjónakona.

Ein góð frænka mín sem er í barneignarfríi eins og ég er nú illilega dottin í prjónabakteríuna. Jesús minn. Bara allt í einu, eins og stungin af prjónamýflugu í hausinn. Hún er í prjónaklúbbi, er áskrifandi að prjónauppskriftum, fer á sérstök prjónakaffihús og getur ekki farið í bæinn án þess að kaupa sér eitthvað garn sem var svo ómótstæðilega fallegt og spes. Öðruvísi en allt annað garn auðvitað. Og svo framleiðir hún sjöl og handskjól og sokka og ég veit ekki hvað eins og brjáluð prjónavél. Já, þessar kellur eru hreinlega prjónavélar. Og ég lít upp til þeirra. Af hverju gerist þetta ekki með mig?

Ég er nú að prjóna handskjól með perlum. Voða fín. Frænka mín smitaði mig og ég ákvað að byrja. En vá hvað það gengur hægt. Svo þarf ég alltaf að rekja slatta upp því ég gleymi alltaf perlumustrinu. Get greinilega bara hugsað eitt í einu þessa dagana. Prjónið er þvílík þolinmæðisþraut. Gott fyrir mig. Það er eins með að prjóna og að lesa þykka bók, mig bara hryllir við að byrja á verkefninu af því það tekur svo langan tíma! Ég er meira svona STRAX manneskja. Sauma frekar og les tímarit því það tekur styttri tíma.

Ég hef sett mér markmið (að ráðleggingu prjónafrænku) að prjóna a.m.k. 12 garða í handskjólunum á dag. Þá klárast þetta einhvern tímann. Og það gerði ég í gær. Prjónaði reyndar ábyggilega 25 af því ég þurfti að rekja svo mikið upp, en garðarnir enduðu í 12 stykkjum takk fyrir. Og þegar handskjólin mín verða tilbúin verða þau voða fín og þá verður kátt í kofanum!

laugardagur, nóvember 06, 2004


Hér er Vera með uppáhaldsfrænda sínum honum Skarphéðni. Eins og sjá má þá elska þau okkur mömmurnar út af lífinu! Posted by Hello


Skellihlæjandi (þetta var fyrir eyrnabólgu sko...) Posted by Hello


Duddan er svo góð... hér er Vera með gott duddufar. Posted by Hello


Vera skemmtir sér í hoppurólu hjá Degi vini sínum. Oh, hún er orðin svo klár daman!Takið eftir hárinu - þetta er allt að koma!  Posted by Hello


Veru finnst best að borða vini sína... Posted by Hello

Lasin mús 

Vera er komin með eyrnabólgu. Æj, þessi elska. Ég vorkenni henni svo. Getur ekki tjáð sig og er án efa með verk í eyrunum. Þessi litla mús. Hún er komin á sýklalyf og alles. Og nú veit ég hvernig mömmum með óvær börn líður. Þreyttar, sárar í hjartanu að hlusta á grátinn, líður eins og skömmi að geta ekki huggað barnið sitt svo vel. Og það sem meira er. Ég er orðin þolinmóð og róleg. Ég bara verð að vera það til að ná að hugga Veru og láta henni líða vel. Já, að hugsa sér! Erla þolinmóða. Það rímar bara ágætlega, er það ekki?

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Mónarnir 

Ég hef verið tekin yfirráðum. Ég ræð mér ekki sjálf.
Lífi mínu er stjórnað af hormónum! bööööööööööööööööööööööö...

Ég er að missa hárið. Það dettur af í bunkum. Ég er hreinlega hætt að þora að greiða mér eða þvo á mér hárið því þá dettur svo mikið af því af. Ég stíflaði niðurfallið í World Class í gær... shit, er í sjokki yfir þessu. Hárið á manni er svo dýrmætt og heilagt eitthvað. Neeeeeeeeeeeiiii, ég vill ekki verða sköllótt. Úff. En kannski það verði bara afleiðing þess að vera svo heppin að geta haft barnið sitt á brjósti. Hormónaklikk. Þvílíkt klikk. Ætla hið snarasta út í Heilsuhús að kaupa mér hárkúr. Ekki láta ykkur bregða samt ef ég verð komin með há kollvik eða skallabletti þegar ég hitti ykkur næst. Ég verð ennþá sama manneskjan... æi.

Svo er ég gleymin eins og versta gamalmenni. Ég er varla með minni. Fann líka fyrir þessu á meðgöngunni, mundi ekkert. Ekkert. Setti allt í reminderinn á símanum mínum og þarf að gera enn: "Taka út þvottavélinni", "mjólk", "Vera" - nei, djók, gleymi henni nú aldrei! Svo núna er ég með nýjan síma og kann ekki á reminderinn og þá er allt í rugli. Gleymi öllu. Þarf að fara að lesa símamanjúalinn. Það er á hreinu. Ég fór á Þjóðminjasafnið um daginn og keypti nokkra hluti í verslun þar inni og gleymdi því öllu. Tók bara kortið mitt eftir að hafa greitt, þakkaði pent og fór. Án pokans. Eins gleymdi ég nýjustu PUMAskónum mínum á Loftleiðum eftir gæseríið um daginn. Fór bara í spariskónna eftir sturtu og sjæningu og skildi hina eftir. Er ekki ennþá búin að ná í þá því ég gleymi því alltaf! Já, þetta er ástand.

Svo er ég auðvitað extra viðkvæm eins og allar mömmur. Er nú frekar mikil grenjuskjóða fyrir og því má litlu ofan á bæta til að þetta verði nú aðeins einum of. Grét auðvitað í brúðkaupsathöfninni síðstu helgi, hún var svo falleg. Grét líka aðallega yfir því af hverju ég er enn ógift...(ein bara að hugsa um sjálfa sig...) grét svo yfir öllum ræðunum í veislunni og svo fer ég næstum alltaf að gráta þegar Vera fer að gráta. Ég þori varla að segja það en ég hef líka grátið yfir Landsbankaauglýsingu. Hvað er þetta, þetta var ekkert smá falleg auglýsing!

Brjóstin á mér eru aðalmálið þessa dagana. Gat varla dansað í brúðkaupinu út af þeim. Þvílíkir tittsarar maður. Maður er þreifandi á þeim daginn út og inn til að finna hvernig þeim líður. Þuklandi á sér úti á götu, inni í búð, í kirkju og hvar sem er. En það er leyfilegt og alls ekki dónó. Ekki fyrir mjólkandi hormónamömmur. Hormónarnir láta mig passa það sem skiptir mestu máli. Brjóstin og Veru.

Það eina sem er stabílt í mínu lífi þessa dagana og mánuðina er Vera. Ekki einu sinni Viggi. Hann er ýmist skemmtilegasti maður á jörðinni eða sá hundleiðinlegasti. Og aumingja hann veit ekki hvort hann er fyrr en ég opna munninn á mér. En við vitum bæði að þetta er ekki alveg ekta ég. Sérstaklega ekki þegar ég er leiðinleg. Þetta eru mónarnir.

Ég er hormónasúkkulaðikleina.

mánudagur, nóvember 01, 2004

Ballerínan ég 

Ég hélt að ég væri góður dansari. Í alvöru. Ég var í jazzballet frá því ég var 7 - 9 ára. Það kom meira að segja mynd af mér í Fjarðarpóstinum og allt í þessari þvílíku jazzballet stellingu. Fjarðarpósturinn var aðalblaðið þá sko. Minnir mig. Ég æfði í Þrekmiðstöðinni sem var fyrsta almennilega líkamsræktarstöðin á Íslandi. Þrekó. Ívar Webster æfði sig þar að skjóta á körfur og fór svo alsber í sameiginlega gufu á eftir. Það var kannski þess vegna sem konur alls staðar af höfuðborgarsvæðinu flykktust alla leið inn í Hafnarfjörð í Þrekó í gufu.

Ég komst hins vegar að því í gærkvöldi að ég er ekki eins góður dansari og ég hélt. Mig minnti í alvöru að ég væri svakaleg og með svingið og jazzmúvin á hreinu frá því í gamla daga. Ég hef alla vega hingað til haft gaman að því að hrista mig og twista á dansstöðum borgarinnar með kokteil í annarri og grúv í hinni. En vá, hvað ég hafði rangt fyrir mér.

Í bjartsýniskasti með glampa í augum og jazzaðan spenning í kroppnum skráði ég mig í jazzballet fyrir fullorðna. Tók nokkur spor og stellingar fyrir framan spegilinn áður en ég skráði mig til að vera nú örugglega sannfærð um að ég væri sko tilbúin í að byrja að æfa jazz aftur. Jú, ég var tilbúin! Spegillinn sagði mér það. Fyrsti tíminn var svo í gærkvöldi og jeeeedúddi! Ég var eins og spýtukerling. Með akkúrat ekkert jazzsving í gangi. Nada. Zero. Niente. Auk þess var eins og heilinn á mér hefði ákveðið að taka sér frí. Ég gat hreinlega ekki munað sporin. Endurtekningarnar voru ábyggilega hundrað en alltaf klúðraði maður einhverju sporinu í dansinum. Minnislaus með öllu. Á meðan litli netti og lauflétti jazzballetkennarinn sveif um speglasalinn í þvílíku grúvi eins og dúkkulísuballerína í Disney mynd var ég eins stíf og ryðgaður beyglaður nagli. Það bara brakaði í mér og ég er meira að segja viss um að ég hafi tognað í einu balletatriðinu. Það fól í sér að rétta úr fætinum upp í loftið sitjandi á stól. Það var eitt atriðið í dansinum sem við æfðum. Ég var einu sinni liðug, hvað gerðist eiginlega? Ok, jú, jú, síðan eru liðin hellings mörg ár. Þrekó er löngu farin á hausinn og Ívar Webster er orðinn lúser. Hvort hann sé ekki bara flúinn klakann líka af óvinsældum, heyrði það einhvern tímann. Möööörg ár. Danshæfileikar gærdagsins báru þess afar skýr merki.

Ég skemmti mér hins vegar konunglega og svitnaði góðum svita. Hlakka svo til næsta jazzballetsunnudags. Hinar stelpurnar voru nefninlega í nákvæmlega sömu stöðu og ég.
Gamlar bjartsýnar ballerínur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker