<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, september 28, 2005

Klukkið 

Það gengur einhver leikur á bloggum að klukka annan bloggara sem á þá að koma með fimm tilgangslausar staðreyndir um sig sem hann telur aðra ekki vita. Og ég var klukkuð bæði af vinkonu og litla frænda í Ameríku svo here goes.

Úff hvað ég þarf samt að huxa mig um...

1. Ég ætlaði að verða söngkona þegar ég var lítil. Og dreymir enn um það. Helst fræg.
2. Mig kveið fyrir nánast hverri einustu helgi frá ca. 7-12 ára aldurs.
3. Þegar ég var lítil lamaðist ég öðru megin í andlitinu. Það var víst kraftaverk að það lagaðist aftur.
4. Ég er hrædd við orma
5. Eitt það besta sem ég veit er að láta klóra mér lengi út um allt bak, fast með nöglunum.

Wow - I´m on the go! Spurning um að halda bara áfram!

6. Ég hef grátið yfir Landsbankaauglýsingu
7. Ég hata símastaurafæturna sem ég fékk í fæðingargjöf
8. Ég þarf alltaf að fá mér kókópuffs áður en ég fer að sofa eftir fyllerí og djamm
9. Ég hef einu sinni verið í lífshættu, en það var í jökulá
10. Ég er nýorðin smeyk í lyftum
11. Ég fæ fljótt leið á hlutum, þarf alltaf að vera að breyta og bæta, kaupa nýjan bíl og ný föt, raða hlutum upp á nýtt og skipta út hlutum.
12. Ég man engin leikaranöfn, nöfn á bíómyndum og hvað þá atriði úr myndum.
13. Ég vann ljóðasamkeppni í 10. bekk með hallærislegasta ljóði í heimi:

Lífið er hringur
og hringur hefur engan enda
Trú
von
kærleikur
Tilveran
er skrýtið form.

14. Mig kveið meira fyrir því í den að horfa á bróður minn keppa í sundi heldur en þegar ég sjálf var að keppa
15. Þegar ég elda eða baka er allt út um allt í eldhúsinu, ég vill matreiða hratt með allt í steik sem hægt er að laga eftir á
16. Ég þreifst illa í ládeyðu áður fyrr, en þrái hana oft núna
17. Ég hef sofið úti í eyðimörk með risamaurum
18. Ég var svo tileygð þegar ég var lítil að það var næstum því búið að senda mig í aðgerð
19. Ég fór eitt sinn að grenja þegar ég fékk bara 9,5 á líffræðiprófi í grunnskóla
20. Mig langar í tattoo

Þar hafiði það. Ég gæti án efa fundið hundrað atriði en læt staðar numið í bili.
Kannski kom þetta ykkur ekkert á óvart, ég er fyrir sumum eins og opin bók. En allir eiga sín leyndarmál...

Ég klukka hér með bloggarana sem ég er með link á hér uppi vinstra megin... - og ekki þykjast ekki vera að lesa þetta! Klukk!

þriðjudagur, september 27, 2005

Amsterdaman ég 


8 Gallupgellur að gellast í Amster Posted by Picasa

Ég fór til Amster um helgina. Farin og komin. Og það var svona líka svakalega gaman. Þetta er beisikklí fyrsta stelpuútlandaferðin sem ég fer í á ævinni. Tók engar útskriftarferðir eða neitt slíkt á sínum tíma sökum báglegrar fjárhagsstöðu. En svo loks var komið að mér og ferðin um helgina var sko stelpuferð í lagi. Meira lagi. Enda Gallupgellurnar engar venjulegar stelpur. Við versluðum af okkur rassgatið og þá meina ég að mín fékk sko góða strengi í bíseppana eftir pokaburð um alla borg. H&M var alveg að gera sig. Og WE og HEMA og og og... Önnur af okkur fékk vöðvabólgu og enn önnur þurfti að kaupa nýja ferðatösku undir góssið. Þið getið rétt ímyndað ykkur fjörið! Mitt nýja æðislega fína dót rétt komst fyrir í þeim töskum sem ég tók með, en ég tók sko eina aukatösku fyrir nýjan varning. Ég fataði Veruna upp frá toppi til táar, allt frá samfellum upp í vetrarúlpu. Já, svona er þetta með blessuð börnin á þessum aldri, þau bara stækka allt í einu upp úr einni stærð og þá þarf hreinlega að fata upp á alla línuna með þeirri næstu. Ekki leiðinlegt! Og svo þarf mamman kanínupels á 3000 kall og ný stígvél á skidogingenting og pabbinn skyrtu og bindi, boli og skó. Og hagsýna húsmóðirin ég keypti allar jólagjafirnar handa börnum stórfjölskyldunnar sem eru jú ekki fá. Jú víst, þetta er allt bráðnauðsynlegt dót! Fyrir líkama og sál.

Annað sem stóð upp úr var að við öskruðum úr okkur lífið í draugahúsinu í Madame Tussaud þar sem lifandi leikarar í gervi vaxbrúða hræddu okkur upp úr skónum. Ég var svo paranojd þegar ég kom út að ég hélt áfram að öskra á safngesti sem ég hélt að væru vaxmyndir og hreyfðu sig í áttina að mér. Frekar fyndið. Greyið fólkið! Svo tjillaði ég heilmikið og drakk slatta af bjór og víni, en veðrið lék við okkur. Þetta var dágóð framlenging á sumrinu fyrir okkur því það var 20 stiga hiti og sól nánast allan tímann. Og ég get svarið það að sólin skein meira að segja líka inni í búðunum! Alla vega í hausnum á mér. Ég ætlaði á Van Gogh safnið en röðin var of löng fyrir mína þolinmæði, svo ég lét nægja að kaupa mér bara plakat með mynd eftir hann. Æðislega fínt í nýja húsið mitt. Svo tjillaði ég á flóamarkaði með einni vinkonunni, skil ekkert í því að enginn önnur hafi ekki haft á huga á því! Ég elska flóamarkaði. Og hreinlega alla markaði. Mér finnst þeir líka yfirleitt gefa dágóða vísbendingu um menningu þess staðar sem þeir eru á. Allt að gerast á mörkuðum, hvort sem er í Laos eða Amster. Þar fann ég m.a. marjúanasleikipinna og fiðrildasokkabuxur. Við röltum um bæinn og kíktum á kaffihús þar sem matseðillinn var í öðru formi en ég er vön. Tælenskt gras eða svartan afgan? Rauða hverfið var frekar sofandi miðað við fyrir 10 árum þegar ég og Viggi töltum þar um á bakpokaferðalagi, en hórurnar hljóta bara að hafa það betra og vinna í búð eða eitthvað núna. Ég veit það ekki, þær voru jú all margar en ég fékk það samt á tilfinninguna að hverfið væri minna og alls ekki eins bissí, og samt vorum við staddar þar á föstudagskvöldi. Æj, ég vorkenndi þeim svolítið. Nenni samt eiginlega ekki að byrja hér á hórupælingum. Þær eru efni í bók. Segi samt að ég held að enginn verði eða þurfi að selja sig. Það sé á endanum þegar búið er að taka allt annað í burtu ekkert annað en ákveðin græðgi og sálarsjálfsvíg um leið. En ekki meira um það hér.

Ég var stödd í götóttu landi, sbr. Holland = Hollow land, og því ekki úr vegi að kanna síkin milli húsa og hverfa á siglingu. Húsin halla vel fram eða aftur og til hliðanna sökum þess hversu ónýtar undirstöður húsanna eru vegna raka. Einhvern tímann kannski fellur Amsterdam eins og spilaborg, hver veit. Ef þetta heldur áfram að gerast. En húsin eru krúttleg og flott. Líka þau sem ”byggð” eru á síkjunum. Bátahúsin. Alveg merkilega ósmekklegt og ljótt og ég skil ekki hvernig nokkur maður hafi áhuga á að búa í slíku híbýli. En það er eitthvað sjarmerandi við það bara af því þetta er í Amsterdam. Ryðgaðir dallar fullir af fnyk eftir efnahvörfin sem eiga sér stað þegar vatnið étur stálið. Úff. Á siglingunni var það eina sem ég heyrði af leiðsögninni, að í Amsterdam eru helmingur íbúanna sem býr aleinn, s.s. heimili sem telur aðeins einn. Pínu skrýtið og einmannalegt finnst mér.

Í Amster var eins og ég væri í öðru lífi en því sem ég lifi núna. Engin Vera. Enginn Viggi. Bara stelpur og sjopping. Í hollenskri sól á ísköldu íslensku hausti. Svolítið eins og að vera sautján. Engar höftur, ekkert til að hafa áhyggjur af. Frekar skrýtið. Ég saknaði Verunnar að sjálfsögðu en hugsaði samt ekki mikið um það. Naut stundarinnar því ég vissi að hún biði mín heima. Og heima ljómaði ljósið mitt þegar mamman kom aftur heim í lífið á H6. Hún spriklaði og brosti og faðmaði mig heillengi eftir að ég kom. Og jesús minn hvað það var gott. Næstum því eins frábær tilfinning og þegar ég fékk hana fyrst í hendurnar. Og reyndar fæ ég þessa tilfinningu að einhverju leyti eftir aðskilnað næturinnar á hverjum einasta morgni þegar ég sé Veru nývaknaða og sæta. Ég gerði að sjálfsögðu nákvæmlega það sama þegar ég kom aftur heim og ég gerði eitt sinn grín að, stökk fyrst á barnið og knúsaði og kyssti það á meðan pabbinn þurfti að bíða lengi eftir því að fá svo mikið sem ”nei, hæ!” Já, mömmulífið er bara svona.

Amsterdam kom á óvart. Stelpurnar áttu þátt í því. Þetta er lítil stórborg sem ég kann vel við. Ódýr með góðan bjór og góðan mat. Skemmtilegum görðum og hverfum. Ég gerði ágætlega margt og mikið á þessum þremur dögum, en það sem á endanum stóð upp úr var hversu vel við Gallupgellurnar náðum vel saman sem hópur. Við vinnum jú saman og kjöftum saman í saumó en þetta var pínu öðruvísi. Það komu ekki upp nein leiðinleg stelpuissue eins og er svo algengt að gerist hjá stelpum. Við smullum saman og það gekk allt upp. Fyrir einhverja kann þetta að hljóma ekkert merkilegt highlite. Og það er jú ábyggilega rétt að það hefði verið jafn gaman hjá okkur í Þórshöfn í Færeyjum (þ.e.a.s.ef það eru einhverjar búðir þar!) en Amsterferðin verður samt ógleymanleg fyrir það sem hún var og gaf.

Hér eru nokkrar vel ritskoðaðar myndir frá Amster, en vonandi fyrirgefa vinkonurnar mér að sýna þær útúrfreðnar í sexsjoppum og á sexsjóum...hehe

miðvikudagur, september 21, 2005

Amsterdam tadadadammm....! 

Jebb. Ég er farin til Amster frá og með fyrramálinu og kem aftur á sunndagseftirmiðdag. Við stelpurnar í vinnunni erum að fara í pæjuferð þar sem mottóið verður meðal annars "Shop until you drop"...

Þetta stendur í góðri bók um Amster:

We know what youre thinking: Amsterdam is where people go to smoke dope. You´re grinning, aren´t you? We want you to. Or maybe you´re thinking that Amsterdam is where hooker temp from red-lit windows, where magic mushrooms are sold as freely as green beans, or where gays and lesbians can enjoy wedded bliss. It´s all true. Yet none of it is the reason we love this city.

Ok, það er margt annað hægt að gera þarna heldur en að fá sér hóru og í haus. Ferðin er plönuð í þaula hjá okkur, búið að panta borð á fínum veitingastöðum, skanna bestu verslanirnar og plana skoðunar- og menningarferð. Oh, þetta verður ekta!
Bless í bili!

Ferðakveðja,
Erla Amsterdama

Zelma 


Selma pössupæja og Vera.

Hún Selma, eða Zelma, eins og hún kallar sig stundum, er algjör lifesaver. Hún kom inn í líf okkar Veru fyrir um 3 mánuðum og það var algjör draumur. Selma og Vera fara saman út í göngutúr og leika bæði úti og inni. Selma elskar að passa Veru og Vera ljómar öll upp þegar Selma birtist. Jú, mamman er alveg dugleg að leika en Selma er svakalega dugleg að leika við Veru! Og passa hana þegar mamman þarf frið... :) Posted by Picasa

Úlfur er kominn! 


Vera og Úlfur við uppáhalds"leikfangið sitt - rullu mömmunnar (já, mamman er alltaf að rulla allt...eh)

Úlfur flutti bara aftur heim frá Danmörku eftir um mánaðardvöl. Honum fannst bara leiðinlegt og vildi fara heim. Og hingað er hann kominn ásamt mömmu og pabba. Við Vera erum auðvitað svakalega ánægðar með það. Að fá þau aftur heim til OKKAR og fá þá í kaffi til OKKAR og að leika við OKKUR :) Til hvers að hanga í útlöndum þegar það er miklu skemmtilegra heima - hjá OKKUR?? ;)". Posted by Picasa

þriðjudagur, september 20, 2005

Hversu blindir... 

...geta karlmenn verið?
Ég fór í hárlitun í hádeginu í dag og kom tilbaka algjörlega appelsínugulhærð, með glænýjan hennalit í hárinu. Alveg shiny and new. Og ég sit á svona stjörnuborði með þremur karlmönnum sem tóku ekki eftir neinu! Greinilega gjörsamlega blindir á bjútí. Spurning um að fara að mæta í stuttu pilsi og magabol til að þeir kommenti á hvað maður sé sætur. Iss. Svo þegar ég benti þeim á þetta þá kepptust þeir við að hrósa nýju klippingunni minni. Og ég sem lét ekki einu sinni særa...
Æ, krúttin samt. Vildu geðveikt bæta upp fyrir að hafa ekki tekið eftir the new me.

Svo fóru þeir eitthvað að röfla um hvort ég væri nú ekki ekta rauðhaus og eitthvað bull. Auðvitað!!! Þarf ég að sanna það eða? Sko, alveg eins og með litlu fyrrverandi ljóskurnar með ljósu strípurnar, þá dökknar hárið á rauðhausum með árunum, og núna er hárið á mér orðið frekar dullrauðbrúnt að lit og ég vel að halda rauðkunni við með því að fá mér náttúrulegt skol á 4 mánaða fresti. Er eitthvað að því, ha??!
Við erum 4 rauðhærð í vinnunni, í Rauðhærðafélaginu. Ég og 3 strákar. Menn fengu inngöngu eftir að hafa opinberað lit skapaháranna...

Barnalán 


Skjúsmí, en er ég sæt eða hvað??! Posted by Picasa


Silja Björk frænka er á 8. ári og elskar að leika við/með Veru - og Vera fílar það að sjálfsögðu mjög vel :) Posted by Picasa


Í bílaleik í stofunni, Axel Kristján frændi, Vera og Silja Björk frænka. Litlu sætu rauðhærðu frændsystkinin okkar. Skil ekki enn af hverju Vera fékk ekki rauða hárið! Posted by Picasa


Við fórum í heimsókn um daginn til Gabríels Snæs Emblu og Gunnasonar vinar okkar, en hann er um 4 mánuðum yngri en Vera, s.s. um 10 mánaða. Posted by Picasa


Vera er orðinn Stubbaaðdáandi nr. 1. Er búin að skrá sig í aðdáendaklúbb á netinu og safnar öllu er viðkemur Stubbunum. Nei, án gríns er þetta komið aðeins út í öfgar hjá henni finnst mömmunni. Þetta er orðið eins og trúarbrögð! Kemst ekkert annað að eftir dagmömmurnar. Ég leyfi henni að horfa á Stubbana kannski 2-3 í viku og þá bara korter í senn, en Vera tengir samt eldhúsið og stólinn sinn orðið BARA við Stubbana. Hún kemur inn í eldhús og bendir æst á sjónvarpið, reynir að príla upp í stólinn sinn og segir "Lala, Lala" - sem virðist vera eitthvað heildarnafn yfir Stubbana hjá henni, en fyrir þá sem ekki vita heitir einn Stubburinn einmitt Lala. Eins séð ég dömuna aldrei eins káta og skríkjandi glaða og þegar ég set Stubbana í. Svo situr hún grafkjur á meðan þeir eru í tækinu og það má ekki svo mikið sem yrða á hana því þá verður mín bara pirruð yfir því að vera trufluð! Posted by Picasa


Björk Davíðs kíkti í heimsókn á sunnudaginn og þær Vera brugðu saman á leik. Björk þarf alveg að fara að eignast systkini... Posted by Picasa

mánudagur, september 19, 2005

Helgin skrýtna 

Þetta var vægast sagt skrýtin helgi. Gerði allt og ekki neitt um leið. Hvernig er það hægt? Jú, það skal ég segja ykkur. Með því að gera ekkert sérstakt en vera samt á fullu. Að gera eitthvað sem mann langar ekkert sérlega til að vera að gera. Og það sem maður endar svo á að gera er bara skrýtið.

Vera varð lasin á föstudagskvöldið. Var með hita en var samt tiltölulega spræk. Á laugardagseftirmiðdag hækkaði hitinn allverulega og mér leist lítið á blikuna. Hleypti pabbanum samt á djammið og þóttist höndla ástandið. Pabbinn tók ginflöskuna undir hendi og skundaði á FH djamm. Mamman varð eftir heima með veika Veruna, enda nóg djamm framundan hjá henni jibbí jei! Veru hafði liðið illa allan daginn og var ólík sjálfri sér. Lá bara uppi í rúmi að hvíla sig, með hálfopin augun, eða vældi í hálsakotinu á mér. Vildi bara láta knúsa sig og þetta er sko vera sem vill helst aldrei knúsa. Hún var með 39 stiga hita og átti bágt. Svo kl. 01 um nóttina þá vaknaði ég upp við að hún var grátandi og með hitakrampa, með 40 stiga hita. Þvílíkt sjokk fyrir mömmuna sem hefur aldrei séð neitt þessu líkt. Panikkaði að sjálfsögðu og hringdi í pabbann sem að sjálfsögðu heyrði ekkert í símanum á balli í Krikanum. Þá hringdi ég á læknavaktina sem ráðlagði mér að fá lækni til að kíkja á dömuna. Vera var líka með útbrot um allan líkamann sem hjúkkan í símanum vildi endilega láta kíkja á. Ok, gott og vel. Ég náði í pabbann, sem kom angandi hissa heim, og stuttu síðar kom læknirinn. Sem betur fer var til ópal fyrir pabbann! Lækninum leist ekkert á Veru sem hélt varla haus og þar sem hitalækkandi lyfin voru ekki að gera sig. Hann sendi okkur um hánótt á Bráðamóttöku barna þar sem var tekin blóðprufa til að útiloka þvagfærasýkingu. Þeir gáfu henni einnig meiri lyf til að lækka hitann og það tókst loks. Daman overdósaði og svaf til hádegis næsta dag, enda klukkan orðin 5 um nótt þegar við komum aftur heim. Þetta var þá vírus sem lét svona illa.
Púff.
Í gær var hún svo enn með hita en ekki eins mikinn, og gat varla gengið sökum stirðleika eftir volkið, og jafnvægið var líka ekki upp á marga fiska! Það tekur greinilega á fyrir svona lítinn líkama að fá háan hita. Í dag var hún svo svaka spræk, með nokkrar kommur og naut þess að vera heima með mömmu og leika sér.

Í gær átti svo að arka á Heklu. En því var slaufað á laugardagseftirmiðdegi eftir að ég talaði við veðurfræðing á veðurstofunni. Hann sagði mér að fresta för á fjallið þar sem það yrði grenjandi rigning og rok og snjókoma á Heklu! Ég hefði nú hvort eð er ekki farið eftir næturbröltið og Veru veiku. En stefnan er sett á Heklu á góðum degi í október. Ég er alltaf að bjóða öllum að ganga með mér á þessi blessuðu fjöll en það hefur aldrei neinn áhuga. Skrýtið.

Í gærkvöldi fórum við kærustuparið (!) í leikhús og sáum Woyzeck í Borgarleikhúsinu. Það er sami hópur sem leikur í því og var með Rómeó og Júlíu loftfimleikauppfærsluna. Woyzeck er skrýtið leikrit. Öðruvísi og fyndið á köflum. En fyrst og fremst steikt og súrt. Skrýtið að sjálfsögðu. Átti maður að fatta þetta? Ég veit ekkert um höfundinn eða annað um verkið, en þetta hlýtur að vera hluti af því sem kallast póstmódernismi. Uppfærslan sjálf var auðvitað allt annað en hefðbundin, loftfimleikar, vatn og stillasar voru þar í stóru hlutverki. Leikurinn var góður og tónlistin fín, en hún var sérstaklega samin fyrir verkið af Nick Cave. Eins hafði ég gaman af karlakór sem tók þátt í sýningunni. Stundum fannst mér þó eins og það væri aðeins of mikið verið að REYNA. Reyna svo mikið að gera þetta öðruvísi og kúl að það sást í gegn. Sem mér fannst óþægilegt. Þau voru jú búin að setja upp Rómeó og Júlíu sem tókst svo svakalega vel að það var auðvitað ekki annað hægt en að gera þetta eins "öðruvísi". Æj, veit ekki. Hafði gaman af því að sjá þetta, þó kannski aðallega af því að komast úr húsi og það að fara í leikhús yfir höfuð sem er alltaf svo gaman. Ég var þó ansi þreytt í leikhúsinu eftir tvær svefnlausar nætur. Teygaði kók fyrir sýningu til að poppa mig upp.
Og ég sem drekk ekki einu sinni kók.
Já, það var margt skrýtið við þessa helgi.

fimmtudagur, september 15, 2005

Trallalí 

Elskulegi kórinn minn hefur aftur hafið starfsemi eftir sumarfrí. Alltof langt frí. Ég saknaði hans. Og þess að syngja eitthvað annað en litlu andarungana og dansi dansi dúkkan mín. Jú, og uppáhaldslagið hennar Veru, upp upp upp á fjall. Dagskrá vetrarins er spennandi. Mozart kallinn hefði víst orðið 250 ára hefði hann lifað (!) og því er stefnan tekin á tónleika með hans verkum. Svo eru jú auðvitað jólatónleikar og það á að syngja inn á disk og sitthvað fleira. Svo gaman! Röddin í mér í kvöld var nú alls ekki upp á sitt besta eftir hálsbólguna endalausu en ég fékk samt fílinginn.

Sumum bregður þegar ég segi þeim að ég sé í kór. Finnst ég ekki vera týpan í það. Well, þeir þekkja mig þá ekki svo ýkja vel. Ég er og verð alltaf kórnörd eins og bróðir minn kallar það. Elska kóra og auðvitað sérstaklega að syngja með þeim. Og sérstaklega minn eigin kór. Já, MINN! Félagsskapurinn er fínn, fullt af hrikalega kláru tónlistarfólki og svo skemmtilegir sauðir eins og ég inn á milli sem les nóturnar eftir eyranu.

Og ég er aaalveg að fara að hringja í hana Andreu Gylfa vinkonu mína...

miðvikudagur, september 14, 2005

Esjan 

Ég gekk á Esjuna í gærkvöldi með nokkrum vinnufélögum. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað að ég var rosalega stolt af mér! Ætlaði fyrst ekki að fara sökum hálsbólgu sem er búin að vera að hrjá mig í rúmlega viku, en fann hana svo allt í einu sjatna og tók þá ákvörðun um að bruna upp. Jú, og líka af því hún Þórhildur kind off manaði mig. Eh, eða staulast upp réttara sagt. Að mínu mati er Esjan ekki "bara" Esjan! Hún er drulluerfið, þvílíkt brött og prílið þarna efst getur tekið á þreytta lærvöðvana. En ég massaði þetta að sjálfsögðu og finn ekki fyrir harðsperrum í dag! En kannsi á morgun... Gengum upp í mesta mótvindi í heimi og áttum svo í vandræðum á niðurleið með að húrra hreinlega ekki niður með rokið í bakið. Sáum geggjað sólarlag þótt restin hafi verið gengin í myrkri.
Esjan var upphitun fyrir Heklu sem verður sigruð á sunnudaginn kemur.
Hér eru myndir úr Esjugöngunni fyrir forvitna.

þriðjudagur, september 13, 2005

SvefnVera 

Litla Veran mín hefur alltaf verið dugleg að sofa á næturnar. Það er, hún hefur alltaf sofið vel á næturnar. Eftir að hún hætti að fá næturgjöf rúmlega 5 mánaða gömul svaf hún streit alla nóttina foreldrunum (sérstaklega mömmunni - af hverju ætli mömmur hafi allt í einu miklu betri heyrn heldur en pabbar á nóttunni??) til mikillar ánægju. Vera hefur einnig alltaf sofið í sínu eigin rúmi. Hún vill helst ekki vera knúsuð í svefn uppi í rúmi hjá foreldrunum heldur kýs að sofna og sofa í sínu eigin fleti. Þannig hefur það alltaf verið. Helst samt með mömmu inni hjá sér á meðan hún festir svefn. Sem er fínt. Tekur svona 5 mínútur. Vera elskar pelann sinn en hún fær hann aðeins fyrir svefninn. Hún heldur á honum sjálf og finnst það mjög spennandi. Ef ég segi orðið peli þá leggst hún kylliflöt uppi í rúmi og bíður spennt eftir að fá að súpa á honum.

Vera hefur svo sofið í sínu eigin herbergi undanfarnar 2 nætur. Og það hefur gengið vonum framar. Henni er nákvæmlega sama og sofnar strax og sefur eins og engill alla nóttina. Fyrstu nóttina svaf mamman hins vegar eilítið minna og fór ófáar ferðirnar inn í hennar herbergi um nóttina bara svona til að tékka á henni. Í kvöld var hún svo í pössun hjá ömmu Stefaníu og þá sofnaði hún alveg sjálf í sínu rúmi. Amman lét hana hafa pelann í rúminu sínu og þá hringdi síminn svo amman fór niður og talaði í símann. Þegar hún svo kom aftur og ætlaði að fara að svæfa Veru þá var mín bara sofnuð. Búinn með pelann sinn og búinn að redda sér snuði og svaf á sínu græna.
Svo duuuuuuuuugleg!

Mér finnst svefnherbergið nú samt ansi tómt svona án rúmsins hennar Veru. Og án Veru. Er búin að hafa hana þarna í rúmlega 13 mánuði og sofa með eyrun hálfopin. En hún er orðin svo stór og dugleg núna að þetta var næsta skref í svefnprósessnum. Og það gengur svona líka ljómandi vel. Bæði hjá henni og foreldrunum sem fá einnig sitt frelsi...Ef Vera svo vaknar á undan mér á morgnana þá kallar hún á mömmuna, samt ofurvarlega með svona hvíslröddu eins og hún sé að passa að vekja hana varlega! Alveg krúttlegt. Yfirleitt þarf ég þó að vekja hana því Vera er hin mesta svefnpurrka og getur sofið 13-14 tíma streit ef hún fær tækifæri til þess.


Vera hreyfir sig mikið í svefni og hefur átt margar góðar svefnstellingar. Hér er ein góð í fyrrakvöld!  Posted by Picasa

The story of our lives... 

Já, helgarlífið er ljúft.
Brunch á Hverfó fyrir familíuna hans Vigga sem telur hvorki meira né minna en 24 stykki, heimsóknir, bra bra fóðurferð, fótboltaleikur og annars konar leikur. Allt voða ljúft og skemmtilegt. Hversdagurinn þýtur framhjá á meðan helgarnar lifa lengur...

Annars var ég að horfa á LOST, og ég verð að segja að þetta er sagan endalausa. Ég hélt virkilega að þátturinn í kvöld væri tvöfaldur lokaþáttur og beilaði meira að segja snemma úr saumó til þess að missa nú örugglega ekki af neinu, og svo er ég litlu nær um endinn... Oh. Einn þáttur eftir, eftir viku. Þið sem vitið hvernig þetta endar, ekki voga ykkur...!

Annars stefndi ég á Esjuna á morgun eftir vinnu með Veruna á bakinu, en ég held að þessi #$%&"/$ hálsbólga sem ég er búin að vera með í rúma viku sé að koma í veg fyrir það... Arg. Well, Esjan fer víst ekki neitt. En þetta átti sko að vera upphitun fyrir Heklu sem stefnt er á að sigra næstu helgi.
Allir velkomnir með mér sem vilja!


Vá, hvaða flotta familía er þetta eiginlega? :) Posted by Picasa


Vera FH-ingur fagnaði því á leiknum á sunnudaginn að FH séu orðnir Íslandsmeistarar Posted by Picasa


Vera flippar af gleði þegar hún fer niður á tjörn og sér allar endurnar. Hér gefur hún "ba ba" brauð Posted by Picasa


Vera smakkaði að sjálfsögðu á andarbrauðinu Posted by Picasa


Vera tekur í pensil hjá Axel frænda og Guðrúnu Lind sem voru að festa kaup á nýrri svaka fínni íbúð Posted by Picasa


Á harðahlaupum! Posted by Picasa


Sól, sól skín á mig...! Posted by Picasa


Litli bílstjórinn minn vill alltaf keyra með alla vini sína undir stýri sem getur verið erfitt, en hún þrjóskast við! Jesús minn skapið í dömunni... Posted by Picasa

mánudagur, september 12, 2005

Meira 

Jæja.
Ég á víst ekki bara Össa frænda bloggara heldur líka einn annan lítinn frænda sem heitir Þorsteinn Skúli. Eða hann var einu sinni lítill. Hvað ætli hann sé gamall í dag? Ég þekki hann ekki svo ýkja mikið en hann er jú samt frændi minn og kommentar oft á bloggið mitt. Fyrir það fær hann prik og að sjálfsögðu pláss fyrir bloggsíðuna sína hér til hliðar, en hann er í Ameríku eitthvað að bagsa.
Sjá komment við síðasta blogg!

Meira síðar.
E

föstudagur, september 09, 2005

Nýr linkur 

Ég hef ekkert sérlega gaman af pólitík. Af hverju ekki veit ég ekki. Ég held reyndar að týpa eins og ég (skilgreinist t.d. sem: Frökk, hugsar ekki allt alveg til enda, kann að rífast og rökræða, kraftmikil á köflum, ágætur ræðumaður og skoðanaglöð) gæti alveg orðið góður pólitíkus. Bara hefði maður áhugann á því. En einhvern veginn hef ég ekki náð að kveikja á þessu. Jú, fylgist alveg með og hef skoðanir á ýmsu en gæti held ég aldrei unnið við að láta gagnrýna mig og skjóta mig niður í beinni.

Ég kann vel við suma pólitíkusa og ekki eins vel við aðra, svona eins og gengur og gerist. Þótt mér hafi aldrei líkað neitt sérlega vel við Davíð Oddsson þá einhvern veginn mun ég samt sakna hans úr sviðsljósinu. Hverjum á ég nú að vera á móti?

Þegar fólk fréttir að ég sé náskyld einum umdeildasta stjórnmálamanni Íslands sýpur það yfirleitt hveljur. Veit ekki alveg hvernig það á að vera og klórar sér í hausnum. Verður yfirleitt alveg svakalega hissa og spyr strax hver pabbi minn sé. Sumir halda greinilega að ég sé dóttir hans, rautt hárið mitt og rautt skeggið hans - það matsar alveg. En pabbi minn er hvorki pólitíkus né hvalavinur. Neibb, pabbi minn er venjulegur ópólitískur rafvirki úti í bæ. Og þá heyrist svona: Oó...ok, í fólkinu. Veit ekki alveg hvernig það á að vera. Eins og það verði fyrir vonbrigðum. Æi, já, einmitt, hann Össur á litlar sætar svarthærðar ættleiddar stúlkur, já, einmitt. Jebb, Össi Skarp er frændi minn. Bróðir hans pabba.

Hann er að sjálfsögðu með bloggsíðu, enda með eindæmum málglaður fír þar á ferð. Ég er alls ekki með áróður því þótt hann sé Össi frændi þá er ég honum ekki sammála í mörgum málum. En hann hefur sterkar skoðanir og mér finnst hann skemmtilegur penni, er jafnvel fyndinn á köflum.
Þess vegna fékk Össi Skarp link hér til vinstri á síðunni minni.

sunnudagur, september 04, 2005

VERUleikinn II 

Í mars hugleiddi ég að hætta að blogga, sbr bloggið VERUleikinn. Fannst ég ekki hafa neitt að segja, og finnst það reyndar stundum enn. Þ.e. ekki neitt að segja nema um Veruna mína. Alveg merkilegt hvað allt annað verður eitthvað ómerkilegt.
Svo hér held ég bara áfram í VERUleikanum mínum. Þið verðið bara að þola það hver sem þið eruð out there.

Kíktum í göngutúr í dag með ömmu Gunnu, veðrið var með besta móti (talar maður ekki líka alltaf um veðrið þegar maður hefur ekkert að segja?) og við nutum dagsins á Ægissíðunni og í Nauthólsvíkinni. Eins kíktum við á Úlfhildi litlu frænku, sem er orðin rúmlega 2 mánaða og er auðvitað algjör snúlla. Úlla Snúlla (æ, sorrí gæs!).

Er að fara að horfa á Sahara á DVD. Segi ykkur kannski hvernig mér fannst hún. Þ.e. ef ég sofna ekki yfir henni eins og flestum myndum sem ég geri tilraun til að horfa á þessa dagana...


Í Nauthólsvíkinni að moka Posted by Picasa


Blómastelpa í Nauthólsvíkinni Posted by Picasa


Vera elskar týnd og gjúgg og leikur þann leik við hvert tækifæri! Þarna er það sem sagt "gjúgg" á Ægissíðunni í dag. Posted by Picasa


Með ömmu Gunnu á Ægissíðunni Posted by Picasa


Úlfhildur Unnarsdóttir litla frænka og Vera Víglunds Posted by Picasa


Inn á milli þess sem mamman þeyttist með Veru út um allan bæ í heimsókn og göngutúr (sko búin að fara í sund líka!) náði Vera að "leika sér" í eldhúsinu Posted by Picasa

laugardagur, september 03, 2005

Ég er svo sjarmerandi... 

"You will be successful in business" og "You display the wonderful traits of charm and courtesy". Jább, það er ég. Verð heppin í viðskiptum og geisla alveg af sjarma og kurteisi. Alla vega samkvæmt spákökunum sem ég fékk hjá Nings. Gaman að þessu. Reyndar held ég að það geti seint verið sagt um mig að ég sé ein af þeim kurteisustu þótt ég hafi nú slípast með árunum. Og hvað sjarmann varðar veit ég hreinlega ekki...
En ég skal samt alveg trúa þessu!

Annars er ég varla heil manneskja í dag eftir raunir gærkvöldsins og næturinnar. Ég bara dansaði af mér rassinn og það á háum hælum til að ganga 6 í morgun. Já, Galluparar þurftu auðvitað að fagna því að við vorum að flytja í nýtt húsnæði, og mikið svakalega fagnaði ég vel og lengi. Mér tókst þó (eftir að hafa lagt mig aftur með Veru - en pabbinn gaf mömmunni engan sjéns (skal muna þér þetta!!) og fór í vinnuna kl. 9, akkúrat þegar ég var búin að sofa í tæpa 3 tíma!) að fara í bæinn og hitta vinkonurnar og mömmu, tölta með þeim í sólinni og slæpast í bænum. Og skoða nýjustu frænkuna sem var svo agnarsmá að ég hef aldrei séð minna barn. Samt var Vera 200 g léttari og 3 cm styttri... Maður er fljótur að gleyma.
Fínn dagur eftir fína nótt.
Og því fer þetta laugardagskvöld í slökun, sykurát og smá blogg, en Viggi er farinn á Hansen..., já, lífið er vaktaskipti.


Litla sæta "frænka" Vilborgar og Rúnarsdóttir - og hún er svo miklu minni í raunveruleikanum heldur en þessi mynd sýnir!  Posted by Picasa

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker