<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, mars 30, 2007

Bréf af bökkum Þjórsár 

„Kæri Hafnfirðingur.

Nú stendur fyrir dyrum atkvæðagreiðsla meðal Hafnfirðinga um stækkun álvers í Straumsvík.
Með þessu bréfi viljum við vekja athygli á því, að þau áform eru mjög alvarleg fyrir fleiri en Hafnfirðinga. Við sem skrifum þér nú, búum í sveitinni sem mun leggja til rafmagnið í stækkun ef af verður.

Þær virkjanir sem þegar hafa verið reistar í Þjórsá eru ofan byggðar, en nú er áformað að virkja Þjórsá sisvona í túnfætinum hjá okkur. Landslagi í og við Þjórsá yrði umturnað frá Gaukshöfða og langleiðina til sjávar. Fimm stór uppistöðulón yrðu þá í einu sveitarfélagi. Urriðafoss, Hestfoss og Búðafoss hyrfu, eyjar sykkju og árfarvegurinn myndi nánast þorna upp á löngum köflum. Aðkoman að Þjórsárdal, eins þekktasta ferðamannsvæðis Íslendinga, myndi sökkva í Hagalón. Margar bújarðir myndu skemmast og lífríki Þjórsár skaðast.

Okkur líður verulega illa við þá tilhugsun að ráðist verði að þessu fagra svæði. Engin rök hníga í þá átt að almenningur stuðningur sé hér í sveitinni við þessa framkvæmd, og undrumst við þann málflutning, enda fremur ólíklegt að nokkur kæri sig um jökullón nánast gutlandi upp á tröppur hjá sér ótilneyddur.

Þess vegna biðjum við þig, kæri Hafnfirðingur, að hugsa til okkar austur í sveitum, og hjálpa okkur við að vernda stolt okkar, hana Þjórsá, skraut hennar, fossa, flúðir, hólma, eyjar og bújarðir þannig að komandi kynslóðir fái notið hennar eins og hinar fyrri.

„Sælir eru hógværir, því þeir munu landið erfa.“

Með einlægri kveðju,
f.h. unnenda Þjórsár

...“
Og undir skrifa 23 aðilar sem búa á bæjum á svæðinu, fyrir hönd allra hinna.

Þetta bréf fengu Hafnfirðingar inn um lúguna hjá sér í gær.

Ég fékk smá sjokk við að lesa þetta hjartnæma bréf. Íbúar þarna á svæðinu eru í raun að grátbiðja okkur bæjar- og borgarbúa að eyðileggja ekki landið þeirra - eitthvað sem hefur farið alltof lítið fyrir í umræðunni.

Þetta álmál er stórt og kemur miklu fleirum við heldur en einungis Hafnfirðingum, og ábyrgð okkar Hafnfirðinga er stór.

Auk þess að hugsa um framtíð barna okkar, mengun og heilsuna og orku framtíðarinnar, megum við ekki gleyma fallega hálendinu, sveitinni og búlöndunum sem fullt af fólki hefur lagt ævivinnu sína í að byggja upp og lifir fyrir.

Þegar ég segi nei á morgun hugsa ég sterkt til fólksins sem skrifaði mér þetta einlæga griðarbréf.

Þið Hafnfirðingar sem hugsið jafnvel jákvætt um stækkun eða eigið eftir að gera málið upp við ykkur, kíkið á Sól í Straumi og skoðið umræðurnar þar.
Sól sól skín á mig.

mánudagur, mars 26, 2007

Ég heiti Helga á helgidögum... 

Jæja já.
Enn önnur helgi liðin. Og þessi var fín eins og þær eru nú flestar.

Íþróttaskólinn er náttúrulega fastur liður og þá er maður í eðalmömmugírnum sínum. Svo er það nýr liður hjá pöbbunum að fara í krakkasundferð á laugardögum. Pabbasund, maður man nú eftir því á sunnudagsmorgnum í gamla daga á meðan mamma steikti kótilettur í raspi og bjó til bernessósu. Nema hvað mamman á þessum bænum var ekki að steikja kótilettur heldur lagði sig bara ahhhh... hvað er þetta, íþróttaskólinn tekur á. Og svo þurfti ég að safna kröftum fyrir kraftmikið kvöldið. Gusgus tónleikar voru það heillin og ég skemmti mér hið besta eftir að hafa fyrst farið í matarboð í miðbænum og labbað í bæinn. Oh, það var nú æðisleg tilfinning. Bara rölta í bæinn (en reyndar taka svo leigara heim fyrir 3000 kall!) á tónleika. Það var svona miðbæjardjammpæjan ég. Ég dansaði af mér rassinn á Nasa og fékk svona tekknó-reif í fótinn flashback frá því ég var ung dama. Og fílaði það. Það var svona unglingurinn ég.

Fermingarveislur með tilheyrandi mæjónesi og marengs sáu svo um þynnkuna og svefnleysið á sunnudaginn. Það var svona gamla frænkan ég þar. Og svo var það útihlaup að sjálfsögðu, loksins, eftir vikulanga hálsbólgu og þvílíkt óveður sem ég lagði ekki út í. En ég lét veisluátið og bjórþambið finna vel fyrir því í gærkvöldi og hljóp í gusgusdansfílingnum frá því kvöldið áður á mettíma, tilbúin í næstu viku. Aha, akkúrat, þið eruð með þetta = hressa og frábæra ég.

Mengun á mengun ofan 

Þessi teiknimynd er ansi beitt.
Virkar ýkt, en sorglega staðreyndin er sú að þetta er satt...

sunnudagur, mars 25, 2007

Veruafmæli 

Í dag er 25. mars og þá eru nákvæmlega 2 ár og 8 mánuðir síðan ég barðist við að koma dömunni í heiminn. Til hamingju með það Erla - takk. Og Vera með aldurinn og þroskann auðvitað.

Vera er auðvitað alltaf jafn æðisleg. Ég dýrka þetta barn, þótt ég kunni nú líka alveg að kveina hátt og lágt yfir ýmsu sem móðurhlutverkinu fylgir. En það er gaman að fylgjast með litla snillingnum mínum. Uppáhaldsleikirnir núna eru hlutverkaleikir. Ég er frænkan og hún er mamman og hún er að fara í vinnuna og kemur með litlu baby born í pössun til mín, frænkunnar. Svo hleður hún utan á sig töskum eins og mamman gerir í alvörunni á hverjum morgni (la.m.k.leikskólataskan, tölvan, íþróttataskan, veskið og Veran) og fer í vinnuna. Svo kemur hún að sækja og spyr hvort litla baby born hafi nú ekki verið góð. Eins er hún oft úlfur eða risaeðla og setur mig í hlutverk einhvers dýrs líka. Svo þarf hún að komast yfir krókódílavatnið og ég veit ekki hvað og hvað. Að fara í feluleik og eltingaleik er líka í uppáhaldi núna. Sem sagt, hún vill láta leika við sig. Er ekki mikið að dunda sér ein þessa dagana eftir leikskólann. Er ætíð að stinga upp á þessum frábæru leikjum við okkur foreldrana og skilur svo ekkert í því þegar ég segist ekki nenna því.

Vera er orðin altalandi og segir náttlega milljón fyndna hluti á dag.
Nokkrir molar sem ég man í fljótu undanfarið eru:

"Heyrðu mamma, ég verð að segja þér soldið, þú ert með svo falleg augu og svo fallegar tásur."
"Bryndís segir alltaf píka og sóllilja pjása og ég segi búbba."
"Pabbi minn er með stórt typpi en anton karl er með lítið typpi."
"Ohhh mamma, þú ert með svo stór brjóst!"

Vera er nú loks aftur orðin duglegri að fara að sofa, en aðeins ef hún fær að sofna inni í rúmi foreldranna. Annað er barátta í 2 tíma og ég ákvað á endanum bara að tapa henni og kaupa mér frið.

Hér má heyra Veruna syngja Abbalabbalá í baði um daginn, og hér lum litla kassa - ég rétt náði smá bútum á vélina, en minnið var fullt. Og þið vitið hvernig youtube virkar - það hökktir oft í fyrstu og þá er um að gera að láta vídjóið bara rúlla einu sinni í gegn á mute á meðan þið gerið eitthvað annað. Svo bara ýta strax aftur á play og þá á þetta að ganga.

Vera í nýja prinsessunáttkjólnum sínum

Vera veit að þegar hún verður 3 ára mun hún þurfa að gefa dýrunum í Húsdýragarðinum og þá sérstaklega selunum allar duddurnar sínar. Hér er daman að undirbúa sig (og móðirin sýpur hveljur við tilhugsunina)

Uppáhaldið hennar Veru er rauð papríka...

Það er ekki hægt að skúra heima án þess að Vera aðstoði okkur ötullega
Þetta eru teikningarnar hennar Veru þessa dagana. Hér á myndinni má sjá snjó (punktarnir) og smá rigningu (krotið) og litla sól. Svo er stór sól utan um þetta allt (lýsing skv. Veru).

Á þessari mynd má samkvæmt Veru sjá græna mömmusól, rauða pabbasól og svo litla Verusól inni í miðjunni.
Go Vera Víglunds.

laugardagur, mars 24, 2007

Kórnördinn ég 

Þá er tónleikahrinan afstaðin.

Tónleikarnir voru vel sóttir og við vorum bezt (og Bardukha í öðru sæti).Hér má sjá tóndæmi af tónleikunum í gærkvöldi. Og annað hér ef þú ert áhugasamur hlustandi sem ég veit að þú ert.

Heimavídeókameran náði því miður ekki betra sjónarhorni en þetta og Youtube myndgæðin eru ekki alveg að rokka sem fyrr - en hljóðið er unaðslegt ;)Þá vitið akkúrat hvaða týpa ég er á miðvikudagskvöldum.
Kórnörd í fíling.
föstudagur, mars 23, 2007

Þetta er viti okkar Hafnfirðinga
- eftir Pétur Örn Friðriksson, listamann.
Já, nú þýðir ekkert annað en að spýta vel í lófana.

miðvikudagur, mars 21, 2007

21. mars 1923 

Amma mín Silla hefði átt afmæli í dag. Það eru að verða 2 ár síðan hún dó. Og ég er enn að berjast við söknuðinn.Ég sakna hennar ótrúlega mikið. Ég fer aldrei upp í kirkjugarð, veit ekki hvað ég á svo sem að gera þar annað en fara að grenja. Ég er reyndar grenjandi núna.... Ég hugsa svo oft um hana við alls konar aðstæður. Alltaf á sunnudögum, þá var yfirleitt ömmumatur. Alla vega kaffi, vöfflur og kókó. Svo heimsótti ég hana oft þegar ég var í háskólanum yfir miðjan daginn, þá sat hún við eldhúsborðið og saumaði út eða réði krossgátur með gömlu flottu skrifstofustafaskriftinni sinni. Með gufuna mjög hátt stillta. Og við ræddum ýmislegt. Rifumst stundum ef við vorum ekki sammála. Amma sagði nefninlega alltaf sína meiningu, jákvæða eða neikvæða, umbúðalaust. Kannski ég hafi fengið það frá henni. Ef maður kom þegar Nágrannar voru í sjónvarpinu fékk maður enga athygli.

Amma var svona hörkukona. Afi dó þegar hún var bara 54 ára og hún var alltaf ein eftir það. Ein í stóra húsinu sínu sem hún og afi byggðu. Sem nú er orðin ópersónulegt og leigt undir fullt af unglingum sem vita ekkert um sögu staðarins. Vita ekkert um öll fjölskyldumatarboðin í borðstofunni, öll áramótin í stofunni, allt kaffið í eldhúsinu, allar gistinæturnar í aukaherberginu og allan galsann og öll grillpartýin í verðlaunagarðinum. Hvað þá um umönnun ömmu í gróðurhúsinu sem nú er í niðurníslu. Það síðasta sem Vera og amma gerðu var high five. Vera sló í lófann á henni og þær léku sér. Þótt amma væri mjög lasin og gæti varla setið upprétt þá samt kættist hún og brosti til Verunnar. Sem var bara pínulítil og fær því miður aldrei að kynnast þessari flottu konu sem amma var. En ég mun segja henni mikið frá ömmu Sillu, hún veit nú þegar að sú amma á heima hjá englunum á himninum.

Það var ekki hægt að gefa ömmu neitt í afmælisgjöf, hún átti allt. Og fussaði og sveijaði svo yfir því ef hún fékk einhvern óþarfa. Það var alltaf afmæliskaffi, amma var alltaf að baka tertur og bollur og brauð. Svakalega myndarleg og dugleg alltaf. Ég sakna hennar svo.

Hún hefði aldrei viljað missa af tónleikunum í kvöld, hún mætti alltaf og skemmti sér vel. Ég veit ekki af hverju en ég saknaði þess extra mikið í kvöld að sjá hana ekki skælbrosandi og stolta af mér á fremsta bekk.

Ég veit og finn að amma er alltaf í kringum mig. Kallið mig ímyndunarveika en ég bara veit það samt. Hún þurfti alltaf að hafa hæst og trana sér fram og skipta sér af öllu svo það bara getur ekki annað verið en að hún sé hér að fylgjast með og stjórna hlutunum. Ég þykist nú samt vita að hún nái ekki að lesa þetta blogg en samt, - til hamingju með daginn elsku besta amma Silla engill hvar sem þú ert.

Hva, af hverju sækir enginn um foreldrastarfið sem ég auglýsti svo girnilega hér fyrir neðan?
Skil ekkert í ykkur.

Skokkarinn ég 

Ég hélt ég væri orðin hlaupari en ætli ég flokkist ekki enn undir skokkara. Svona aðeins softer, hægara og styttra. Ekki orðin pró ennþá, og verð kannski aldrei. Hádegishlaupafélaginn minn tók þátt í hálfmaraþoni síðustu helgi, bara sísvona, no problemo. Við vorum búin að vera að skokka saman í um 2-3 vikur þegar hann bara massar maraþonið eins og ekkert sé. Í snjó og byl meira að segja þótt Vormaraþon ætti að heita. Í tengslum við þetta var ég að hugsa hvað það er merkilegt hvað karlmenn virðast vera miklu fljótari að koma sér í form. Eða er ég kannski bara svona lengi? Ég meina, ég er búin að skokka síðan miðjan október og rétt byrjuð að bifast áfram hehe. Þeir karlmenn sem ég er með í huga eru reyndar allir fótbolta eða handboltastrákar sem hafa hlaupið on&off alla sína tíð svo kannski er það ekki réttur samanburður við mig sundstelpuna sem kunni ekki að hlaupa hleypur enn kiðfætt eins og kjéddling. Auðvitað eru ekki allir strákar fljótir í form. Er samt viss um að t.d. Viggi gæti tekið hálft maraþon núna án þess að æfa sérstaklega fyrir það. Hann hljóp 10 km nýstiginn upp úr ælupest og joggaði þetta með mér á lallhraða, voða almennilegur. Sömuleiðis er hádegishlaupafélaginn voða næs að taka létta skokkið inn á milli hörðu æfinganna með mér. Ég er orðin hvíldin hans!

Tilgátan um karlmennina og formið var alveg að verða að kenningu hjá mér þegar ég sá svo tvær fréttir í gær sem báðar fjölluðu um konur og hlaup. Önnur hljóp hálft maraþon í þessu sama Vormaraþoni og hlaupafélaginn, en þá voru aðeins 10 vikur liðnar frá því hún átti barn! Hún var víst í þrusuformi þegar hún varð ólétt og hljóp með kúluna fram á 8. mánuð! Sjáiði þetta fyrir ykkur?? Og svo fæðist krakkinn og allt dótið þarna niðri og brjóstin og allt í tilheyrandi steik eftir það - en þessi fór bara og hljóp hálft maraþon með tveggja og hálfsmánaða gamalt kríli. Hin fréttin sagði svo frá konu á besta aldri sem hljóp heilt maraþon aðeins 6 mánuðum eftir hevví krabbameinsmeðferð! Svo GO konur - ég hlýt að geta þetta líka.

Tími er kannski það helsta sem mig vantar núna, til að geta æft mig betur. Til að geta einhvern tímann transformerast úr skokkara í hlaupara. Það gerist vonandi í sumar með maraþoninu, en bara tilhugsunin um slíka vegalengd er ennþá eins og ferð til tunglsins.
Hva, allt í lagi að setja sér markmið...

þriðjudagur, mars 20, 2007

Atvinnutilboð! 

Starfstitill: Foreldri, mamma, pabbi, faðir, móðir.

STARFSLÝSING: Langtíma starf, krefst mikils liðsanda vegna ögrandi frambúðarstarfs í oft afar kaotísku umhverfi. Aðili verður að hafa yfir að ráða framúrskarandi samskipta- og skipulagshæfni og vera tilbúinn að vinna afar sveigjanlegan vinnutíma, sem innifelur kvöld og helgar og vakt 24 tíma sólarhrings. Mun einnig fela í sér ferðalög næturlangt, t.d. í útilegur við frumstæð skilyrði yfir vætusamar helgar og endalausar íþróttaferðir til fjarlægra bæja. Ferðakostnaður er ekki endurgreiddur. Aðili verður líka að vera tilbúinn í sendlastarf.

ÁBYRGÐARSVIÐ: Það sem eftir er ævinnar. Aðili verður að vera tilbúinn til að vera hataður, a.m.k. tímabundið, þar til einhver þarf á smá vasapeningi að halda. Verður að vera tilbúinn til að bíta í tunguna á sér, oft. Verður einnig að hafa úthald á við burðardýr og geta slegið hraðamet blettatígurs þegar óhljóðin úr garðinum virðast, aldrei þessu vant, ekki vera „úlfur úlfur“. Aðili verður að vera tilbúinn að kljást við tæknilegar áskoranir, t.d. við viðgerð ýmissa smáhluta, vinna bug á þrjóskum rennilásum eða stíflulosa klósett vegna óþekktra hluta sem hafa einhverra hluta vegna lent þar ofan í. Víðtæk símavarsla er á ábyrgð aðilinas ásamt stórtækum skipulagsaðgerðum vegna samkundna og skólaverkefna. Verður að vera tilbúinn til að vera ómissandi eina mínútuna, en algjör hneisa þá næstu. Verður að geta tekist á við gæðaprófun og samsetningu mörg þúsunda ódýrra plastleikfanga og rafhlöðuknúna leiktækja. Verður að sjá um alls konar ræstitækni og húsvarðahlutverks sem inn í starfssviðið fellur. Verður alltaf að geta vonast eftir því besta en geta gert ráð fyrir því versta. Verður að axla algjörlega alla ábyrgð á endanlegri útkomu afurðarinnar sem um ræðir.

MÖGULEIKAR Á STÖÐUHÆKKUN/LAUNAHÆKKUN: Nánast engir. Starfið er á svipuðum nótum svo árum skiptir og þýðir lítið að reyna að koma fram með mótbárur. Á þessum tíma verður aðili að vera stanslaust tilbúinn til endurmenntunar og endurhæfingar, til þess eins að afurðin taki einn daginn fram úr viðkomandi.

FYRRI STARFSREYNSLA: Engin, því miður. Þetta er lærir-þegar-á-staðinn-er-komið vinnuumhverfi, sem tekur aldrei enda.

LAUN OG BÆTUR: Spáðu í þessu... Þú borgar afurðinni. Býður oft alls konar laun og launahækkanir. Í lokin risastór greiðsla þegar kemur að því að mennta afurðina (svo afurðin geti átt áhyggjulaust líf og verði loks fjárhagslega sjálfstæð eining). Þegar þú svo deyrð, þá gefurðu afurðinni allt sem þú átt eftir. Það furðulegast við þetta allt saman er við þetta rangsælis-launafyrirkomulag, að þá nýturðu þess út í ystu æsar og óskar þess að þú gætir hafa gefið meira.

FRÍÐINDI: Þó að þessu starfi fylgi engin heilbrigðistrygging, enginn lífeyrir, engin endurgreiðsla á skólagjöldum, engin launuð frí né hlutabréfaeign, þá fylgir þessu starfi ótæmandi möguleikar á persónulegum þroska og ókeypis faðmlagi það sem eftir lifir ævinnar… ef þú heldur rétt á spilunum þ.e.a.s.

Fékk þetta sent í tölvupósti og fannst sniðug og fyndin lýsing á hlutverki okkar foreldra.
En ekki misskilja mig - ég er sko ekki að kvarta. Bara aðeins að kvabba. Eða tuða. Eða bara skrifa.

mánudagur, mars 19, 2007

Hjartans mál 

Ég er einstaklega ánægð, þokkalega hneyksluð, svaka spennt og virkilega fegin í dag.

Ánægð yfir því að heyra að frumvarp um breytingu á skattaumhverfi Alcan hafi ekki verið afgreitt af Alþingi. Þá eru þessar milljón billjónir sem gráðugir álreiðir álkallar og kjéddlingar sjá sem fjárhagslegan ávinning fyrir Hafnarfjörð fokin út í veður og vind. Æjæj, æðislegt. Álhræðsluáróðurinn heldur samt áfram af Alcan og þeir gera sitt besta með því að fara frjálslega með mengunartölur og segjast hugsanlega kannski vera til í að splæsa í vothreinsibúnað. Já, einmitt. Ég verð heitari og heitari í þessu máli. Og hvað þá þegar ég uppgötvaði að þeir ætla að taka framtíðarútivistarsvæði Hafnfirðinga og allra borgarbúa undir álversmegnun. Ég sem hélt að motocrossbrautin hafi verið komin á deiliskipulag.

Samtökin Framtíðarlandið eru að koma sterk inn og á hárréttum tíma í umræðunni og ég er orðin bjartsýn yfir því að stækkuninni verði hafnað. Ég vona að ég sé ekki orðin rugluð þegar ég las úr viðtalinu við Ingibjörgu Sólrúnu í Kastljósinu í kvöld að hún væri mótfallin stækkun álversins. Það er náttlega bannað að segja það beint sem formaður og allt það en gerist það stórslys að stækkun verði samþykkt af Hafnfirðingum skyldist mér að fröken formaður ætlaði að leita annarra leiða til að stöðva batteríið. Komast að samkomulagi og leita samninga eins og hún orðaði það svo pólitískt rétt. Þið getið skrifað undir sáttmála Framtíðarlandsins hér og lagt ykkar af mörkum við að bjarga bænum mínum og borginni ykkar.

Framtíðarlandið bendir á að ef áfram heldur sem horfir að þá klárum við alla raforkuna innan fáeinna ára og ekkert verður eftir handa næstu kynslóðum. Og pæliði í því að ef það kemur t.d. einhvern tímann nægilega öflug internettengin við landið og eitthvað flott tölvufyrirtæki vill koma og vera með e-s konar data starfsemi hér þá mun það ekki eftir að vera mögulegt vegna þess að það verður ekki til nægt rafmagn til þess. Allt út af (k)álhausunum. Svo ef við tölum um peninga þá benti ein vinkonan mér á það að við erum í raun að gefa raforkuna svo ódýr er hún, miðað við að geta selt hana eftir 15-20 ár á margfalt hærra verði. Næstu kynslóðir eiga rétt á því að njóta þess.

Já, já og sei sei. Svo er ég líka hneyksluð. Hneyksluð móðir. Jordan var valin móðir ársins og ekki ég! Af því henni tókst svo vel að höndla frægðina og vera góð við börnin sín um leið. Vá, þvílíkur árangur. Og af því hún er með svo stór brjóst og smá silla í vörunum líka og nær að halda sér svona frægri fyrir ekki neitt. Frábær mamma. Það er náttlega svakaleg vinna að vera mamma og líta vel út, það vita allar flottar mæður. En hvað með mig... búúhúú... Ég er ekkert smá flott og frábær mamma og mig langar líka í verðlaun! (æj, hættaðvæla kerling).
Reyndar finnst mér að allar mömmur ættu að fá verðlaun á hverjum degi fyrir að höndla litlu ormana sína. Og pabbar líka. Og leikskólakennarar. En samt sérstaklega ég. Vera er á klikkuðu ákveðnis-frekjuskeiði. Að hennar mati tek ég tannburstann vitlaust upp úr skúffunni, opna tannkremstúpuna alls ekki rétt, set tannkremið kolrangt ofan á tannburstann og auðvitað er ekki að ræða það að ég fái að bursta. Svo má ég ekki klæða hana, hún vill ekki klæða sig sjálf, grenjar og vælir yfir því að ég meiði hana þegar ég svo treð henni í fötin á morgnanna og vill gera allt sjálf. En samt ekki. Svolítið erfitt frekjudósalíf þessa dagana fyrir músina. Og mömmuna. Og mig langar í VEEEEERÐLAUN!

Ég er líka spennt. Spennt fyrir komandi tónleikum með mér og Bardukha. Og svo gusgus um helgina. Svo er ég líka mjög spennt fyrir mæjónesbrauðtertum og marsipanbombum í fermingunum á sunnudaginn.

En mest er ég samt fegin. Fegin því að hafa fengið staðfestingu á því að ég sé með gott hjarta.

Samkvæmt Hjartavernd er ég í feiknagóðu formi og með einstaklega gott, hlýtt, sterkt og fallegt hjarta. Ég leitaði til þeirra í rannsókn eftir að hafa upplifað nánast stöðugar hjartsláttatruflanir og aukaslög síðan í desember. Niðurstaðan er að hjartað er í lagi, en það er víst eitthvað aðeins að ruglast af því ég er komin í svo feiknalega gott form. Þá hægist á púlsinum og hjartað er ekki alveg að ná því ennþá og kemur með back-up planið frá vararafstöðinni og gefur þessi líka flottu aukaslög sem svo rugla allt af því að það misreiknar hægan púlsinn. Hann hefur jú hægt eitthvað á sér eftir að ég byrjaði að hlaupa eins og gengur og gerist. Maður hefur náttlega ekki hreyft sig neitt af ráði sl. 4 ár vegna óléttu og barnastúss og svo er hjartað víst ekki búið að meðtaka það að mín ætlar að vera í formi. En það hlýtur að fara að læra. Kannski, sagði læknirinn. Ég finn bara fyrir þessu í kyrrstöðu en ekki við áreynslu því þá er púlsinn hraður og hjartað ekkert að skipta sér af. Það er svolítið óþolandi að vera alltaf meðvitaður um hjartsláttinn í sér og finna þetta en fyrst ég er fullfrísk ætla ég sko ekki að kvarta yfir þessu flotta hjarta (vá, tókuð þið eftir flotta ríminu?).

sunnudagur, mars 18, 2007

Helgarsagan 

Á meðan mamman rífst yfir hápólitískum málum í blöðunum gengur lífið sinn vanagang hjá litlum verum sem bara elska helgarfríið sitt og njóta lífsins áhyggjulaus um mengað álverslíf í framtíðinni. Sem betur fer. Mömmur eru víst til þess að berjast fyrir börnin sín. Einn í vinnunni spurði mig eftir lestur pistilsins í Fréttablaðinu hvort ég væri í alvörunni ekki framfarasinnuð ung kona. Ég spurði viðkomandi hvort hann byggi í Hafnarfirði. Þá sagði hann: "Eh... nei, æ, ekki hlusta á mig, ég hef ekki rétt á því að rífast um þetta". Ég er reyndar ekki sammála honum, finnst mikilvægt að allir tjái sig um málið, en svo lengi sem þú munt ekki búa við mengunina, sjón- og loftmengunina þá getur þetta ekki verið það algjörlega hjartans mál sem það er okkur hinum sem munum búa við þetta í framtíðinni.
Bakþankarnir hans Davíðs Þórs voru unaðslegir í Fréttablaðinu í morgun - kíkið á það. Segir allt sem mig langar til að segja um málið til viðbótar.
Látum ekki ljúga hausinn á okkur fulla af bulli!
En nóg um álreiði og út í helgargleðina :)
Vera tilkynnti okkur í dag að kanínan Karen Rósa ætti afmæli. Það þurfti að bjóða í kaffi og syngja afmælissönginn og allt...

Frændsystkini Veru Silja Björk og Axel Kristján eru í miklu uppáhaldi og komu í vöfflupartý í dag ásamt restinni af fjölskyldunni - allir rauðhærðir í þessari fjölskyldu nema Veran!

Amma Gunna og Vera í familíumatarboði á laugardagskvöldið


Þetta er fjölskyldan mín! Axel Bró, Stelpa, mamma og Vera

Vera að gefa Stelpu "lambakjúkling"

Vera í píanótíma hjá ömmu

Þetta er í húsdýragarðinum í dag... við gerðum okkur sérstaka ferð þangað til að fylgjast með kindunum fara í klippingu. Það heitir víst að rýja. Rúningur. Já okok, ég var alla vega jafn spennt og öll börnin og var eins og versta borgarbarn gapandi yfir fimlegum klipparanum og flottri kindinni og smellti af eins og brjáluð kona!


Vera fékk ull af kindinni

og þessi kona spann band úr henni handa Veru - allt voðalega flott og frábært og eins og sjá má er Vera afar sæl með handbragðiðSnjókarl no. 2 í vetur

föstudagur, mars 16, 2007

Eþbanja í þól&þumri 

Þótt það sé snjór og krap úti er ég þokkalega farin að hugsa til sumarsins. Þegar það er loksins opið í Bláfjöllum nennir maður ekki og hugsar bara um sól og tjill á strönd. Og sumargrillgardenpartý og fjallgöngur en ég er strax byrjuð að raða niður íventum sumarsins og kítlar í magann við tilhugsunina. Ég finn það á mér að næsta sumar verði næs, bara finn það. En kannski er ég bara í einhverju bjartsýniskasti yfir því að hafa verið aldrei eins snemma í því og bókað sumarfíið okkar til Spánar rétt í þessu. Já, hvorki meira né minna en 3 vikur á Spáni í sumar því þar er svo gott að djamma og djúsa.

Nú svo er búið að plana árlegt sumargrillgellupartý og nokkrar fjallgöngur. Þeir sem vilja bóka mig hafi samband eigi síðar en núna!

fimmtudagur, mars 15, 2007

V fyrir píkur 

Píka. Djöfulsins píka.
Það má sérstaklega segja píka í dag og þykir sérlega kúl, af því í dag er íslenski píkudagurinn. Allir þeir sem eru með píkur hljóta að hafa vitað af því - hva, sagði píkan þín þér ekki frá því? Djöfulsins píka er hún. Píkusögur eru samt orðnar dálítið þreyttar, svona svipað og typpatal. Það eiga allir annað hvort og þekkja sitt og jafnvel fleiri píkur eða typpi og varla svo fyndið lengur að heyra konur tala um búið sitt þarna niðri sem sjálfstæða manneskju. En tilgangurinn er Vissulega góður, að mótmæla ofbeldi á konum í hvaða mynd sem það birtist. Nei við nauðgun á hvaða degi sem er.

Ppppppíka. Ég segi eiginlega aldrei píka nema í neikvæðu og finnst það í raun svolítið erfitt. Finnst það dónó. Þess vegna skrifa ég það bara milljón sinnum hér á þessum síðum í staðinn. Fá smá píkuútrás í tilefni dagsins og í takt við þemað. Ég þekki mömmur sem nota þetta píkulega orð um kynfæri dætra sinna, segja píka oft á dag, bara eins og að drekka vatn. Og ekkert að því. Á Hjalla er líka talað um píkur, bara blátt áfram, ekkert undir rós neitt. En ég hlýt að vera svona vel (eða illa) upp alin, get ekki vanið mig á píkutalið nema í neikvæðu. Ég er þessi feimna tilbaka píkutýpa sem tala þá frekar um pjöllur, pjásur, buddur, búbbur og blóm.

Hvenær er svo eiginlega typpa-drjóla-tilla-skaufa-tittlinga-typpalinga-hólka- lilladagurinn?
(jiminneini, afsakið orðbragðið...)

Miðvikutónlistardagur 

Fyrst blúsaði ég með Miss Andreu Gylfa með nýju tennurnar og fór svo á kóræfingu með Bardukha, en við kórinn ætlum einmitt að troða upp (iiii gaman að segja troða upp!) með þeim í næstu viku á miðviku- og fimmtudag.
Bardukha spilar svokallaða balzamertónlist en hún á rætur sínar að rekja til austur-evrópskrar, arabískrar og persneskrar þjóðlagahefðar auk sígaunatónlistar. Þeir eru svakalega klárir og hafa jafnan vakið mikla athygli á tónleikum með túlkun sinni á tónleikum. Úllalla hvernig verður þetta þá með okkur líka...
Það er alla vega virkilega gaman að æfa með þeim, þótt tékkneskan og albanískan sé aðeins að vefjast um tunguna á okkur. En þetta verður fjör. Býst auðvitað við að þið fjölmennið í Hafnarborg eins og vanalega :)


miðvikudagur, mars 14, 2007

Vera forseti 

Við fórum í foreldraviðtal á Hjalla í fyrsta sinn núna í vikunni.
Þar ræddi kennarinn hennar Veru um hvað hún væri mikill snillingur. Sagði okkur svo sem ekkert nýtt, en það var gaman að heyra frá henni hvað Vera er að standa sig vel. Hún sagðist kalla Veruna litla forsetann sinn enda gott efni í forseta hún væri svo sniðug og dugleg. Væri alltaf með allt á hreinu, ákveðin en samt mjúk, lærði lög og vísur á nóinu, góð við litlu börnin og dugleg að aðstoða kennarana. Vissi þetta svo sem líka :)

Eftir viðtalið áttaði ég mig á því (reyndar löööngu búin að átta mig á því, það bara rifjaðist mjög sterklega upp) hvað þessi leikskóli er frábær með sína einstöku aðferðafræði og hvað ég er ánægð með leikskólakennarann hennar Veru. Mig langaði bara til að detta í Hjallapakkann og segja henni hvað hún er með falleg augu, hvað mér þykir gott að sjá hana á hverjum degi. Knúsa hana fast og segja henni hvað mér finnst frábært hvað hún leggur á sig og metnaði í að ala dóttur mína upp. Að hún hafi þetta svakalega passjon fyrir því að dóttur minni líði alltaf vel og elski hana bæði þegar hún hlær og grætur.

Eftir viðtalið langaði mig bara til að gefa henni blóm, í leikhús og senda hana í nudd og spa og og og... og segja henni hvað þetta er okkur svakalega mikils virði.
Ég held ég geri það barasta og láti eins og eitt gjafabréf í Laugar fylgja með.


Ljónavinkonur

Tónlistartími með tónlistarkennaranum


Dansað á sparifatadegi

Táslunudd

Vera nuddar Sóllilju vinkonu sína
Sóllilja nuddar Veru

Popp-partý

Einbeitt í leirkrók
Nálægðaræfing
Vera massar einhvern krakka hehe

mánudagur, mars 12, 2007

TÍU 

Ég elska tíur, fékk allmargar í grunnskóla og nokkrar í menntó. Enga í HÍ, en samt næstum því. Já, maður reynir svona að vera upp á tíu, standa sig, tíu er svona tala sem maður elskar. En samt er enginn ekta tía.

Nema kannski í 10 kílómetrum, það er meira ekta en margt annað.
Já, nóg af bullinu, ég er s.s. að monta mig af því að mér tókst að hlaupa heila 10 km ÚTI í fyrsta sinn í gærkvöldi. Monti monti mont. Takk fyrir, takk, takk. Minn ektamaður dró mig áfram, frá Álfaskeiðinu, framhjá heilsugæslunni Sólvangi og framhjá læknum, meðfram sjónum og upp á Garðaholt - og tilbaka. Rétt rúmir tíu, allt löglega mælt á bílnum áður en lagt var af stað. Hlaupaúrið er nebblega ekki enn orðið að veruleika. TÍU. Með nýju gusgus plötuna og nýju BOSE headsettin mín í gat þetta bara ekki klikkað, þau saman komu mér alla vega hálfa leið.

54 mínútur upp og niður, í rigningu, sól, hagli, hríð, roki í allar áttir með og á móti, sudda og hamagangi. Og ég elskaði það, ahh...
Ég gef sjálfri mér alveg 10 fyrir þetta.

sunnudagur, mars 11, 2007

Blessuð börnin 

Í sumarbústaðnum hjá ömmu og afa í Elífsdalnum Halla Dís, Úlfhildur, Vera og Helga DóraVera ánæð með Irenu vinkonu sína (Óskar- og Hilmarsdóttur)Anton Karl 4 ára frændi kom í pössun um daginn

Emil og Vera í klessubílaleik í Gallupkids-mömmu-hittingi
Guðný Eva á trommum, Emil og Dagur á gítar - Vera syngur heheBaðdrottningin VeraThis page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker