<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, september 29, 2006

Erla perla fer á deit 

Ég er að fara á deit í kvöld. Ég ætla að klæða mig upp og vera voða fín og hress. Fyrsta formlega vinnudjammið er sem sagt á eftir. Það er árlegt og heitir Stefnumót. Spennandi!
Læt ykkur vita hvernig gekk.
Góða skemmtun. Takk.

fimmtudagur, september 28, 2006

Ó hýri Hafnarfjörður 

Ég ætlaði að mæta snemma í vinnuna í dag. Stakk af áður en músin vaknaði (sem er soldið sárt) og ætlaði að bruna í vinnuna. Bruna já. En nei, nei það er ekki sjéns. Ég rétt silaðist áfram í umferðinni og það tók mig 20 mínútur að komast bara úr Hafnarfirði og yfir í Garðabæ. Sem þýðir að ég var jafn lengi á leiðinni að leggja af stað klukkan 8 og ef ég myndi leggja af stað kl. 8:30 - í báðum tilvikum er ég komin kl. 8:40 (og mér tekst ómögulega að vera tilbúin til brottfarar fyrr!). Eins og það er næs að vera Hafnfirðingur þá verð ég að segja að þetta er stór ókostur. Hvað ef maður þyrfti skyndilega að fæða barn klukkan 8 á morgnanna eða fengi hjartsláttartruflanir og þyrfti að fara í skyndi á spítalann? Ekki hægt. Nema skreppa til Keflavíkur kannski. Eða fæða í bílnum og fá hjartaáfall.

mánudagur, september 25, 2006

Vera og sá 25. 

Í dag er sá 25. og Vera á sitt mánaðarlega afmæli. Alltaf hollt að halda upp á litlu sigrana ásamt því sem þetta gefur mér tilefni til að skrifa aðeins update á dömunni (það er ekki eins og ég tali mikið um hana fyrir!)

Þá er Vera orðin 2 ára og 2 mánaða. Spræk sem aldrei fyrr. Og líka orðin ansi frek. Eða ég ætla að ákveða að kalla þetta ákveðni, þoldi ekki þegar ég var kölluð frek þegar ég var lítil. Ég var bara rosalega ákveðin. Svo er hún líka stríðin og sniðug, söngelsk og sjónvarpsfíkill. Fær samt bara að horfa á ákveðinn skammt, aðallega þegar mamman þarf að taka til eða gera eitthvað mjög mikilvægt í friði fyrir henni. Vera situr nefninlega grafkyrr fyrir framan næstum því allt barnaefni - jafnvel þótt spólan væri 4 tímar. Hún er farin að syngja fyrir sjálfa sig af og til þegar hún er að leika sér og einnig heyri ég stundum í henni uppi í rúmi þegar hún á að fara að sofa. Þá syngur hún yfirleitt t.d. Allir krakkar, Litlu andarungarnir, fyrsta erindið í Sofðu unga ástin mín, Dansi dansi dúkkan mín, Bí bí og blaka, lagið um fingurna og Kalla litla kónguló.

Vera er komin með svaka mikinn orðaforða, kann langflesta litina og telur upp að 20. Hún er líka forvitin því ef einhver hringir verður hún að fá að vita hver það var. Þegar ég sótti Veru á leikskólann í dag sagði hún við mig voðalega sár: Mamma, ég meiddi mig. Bríet Dalla meiddi mig. Ég gráta mikið - og benti á klór á kinninni á sér. Mamman kyssti á meiddið og þá sagði mín frekar reið: Ég líka meiða Bríet Döllu.
Fyrsta alvöru girlfightið er s.s. komið. Þegar ég spurði leikskólakennarann út í þetta orðaði hún það þannig að stúlkurnar væru bara aðeins að prófa sig áfram...

Aðrir molar sem ég man frá Veru undanfarið eru t.d.:

- Mamma, leika mig (mamma leiktu við mig)
- Ég leira á mig (Vera var að leira og það klíndist leir á hana).
- Nóttin er þarna (og bendir á dimmt herbergið sitt) en ekki þarna (og bendir fram í birtuna - tengingin við myrkrið og nóttina s.s. komin (o, ó, hvað segi ég í vetur!)
- Mamman: Vera, komdu að borða matinn þinn. Vera: Nei, takk mamma mín.
- Pabbinn: Nú ætlar pabbi að fara í sturtu. Vera mótmælti og vildi fá hann að leika og sagði því ákveðnum tón - Nei, takk pabbi minn!
- Ef Vera er vælandi inni í rúmi og vill ekki fara að sofa, segir hún yfirleitt voða aum þegar ég kem inn: Vera gráta miki mamma mín.
- Vera var að telja puttana og sagði svo: Þessi mamman (benti á þumalinn), þessi pabbinn (benti á vísifingurinn) og þessi bróðirinn (og benti á hina fingurna). Jahérna, eitt er víst hver ræður á því heimilinu hehe!


Seata stridnispukabrosid


Tvaer toff


Vera leikur ser med felogunum a medan foreldrarnir leika ser a hjolinu


Vera var adeins ad skreyta sig tharna


Vera sjonvarpsglapari - svona horfir hun, med puda fyrir bakid og puda ofan a ser - og hefur sko ekki tima til ad lita fra sjonvarpinu!


Vera ad lesa


Vera saeta


Uti ad rola (thad er s.s. i uppahaldi nuna thar sem thad eru engar rolur a Hjalla...)


Vera a leid ut ad djamma


Vera med flottu kisutoskuna


Med fullt fangid - Vera er toskufrik


Timi fyrir is

sunnudagur, september 24, 2006

þreytuþankar 

Helgar hafa upphaflega verið búnar til býst ég við til að fólk gæti hvílt sig og safnað krafti fyrir komandi vinnuviku. Ok, þetta er líka eitthvað trúarlegt en snertir hvíld á einhvern hátt. Ég hvíli mig hins vegar einhvern veginn aldrei mikið um helgar. Og akkúrat núna er ég dauðþreytt og þvert á móti úthvíld. Frekar útkeyrð. En glöð og sæl með afrakstur helgarinnar. Mér finnst nefninlega gaman að nota helgarnar í eitthvað skemmtilegt, hvort sem er með fjölskyldunni eða fyrir egóið mitt.

Þessi helgi var mjög bissí eins og þær eru langflestar. Vinkonumatarboð sem fylgdi kærkomin óléttutilkynning, sveitabrúðkaup hjá Gallupvinkonu og motocross þess á milli. Og god hvað það tekur á, kannski þess vegna bara sem ég er alveg búin á því, en áfengi fór ekki inn fyrir mínar varir þessa helgina frekar en þær tvær á undan þar sem það er orðið svo nauðsynlegt að vera í formi daginn eftir á hjólinu! Ég myndi ekki bjóða í timburmenn í brautinni...úff. Þá líka stendur maður sig bara svo illa og er súr og svekktur með árangurinn.

En motocrossið já. Ég verð hægt og rólega betri og betri. Er svona að ná einhverri beisik tækni og fíla hjólið mjög vel. Er búin að lesa handbók motocrossarans í þaula og horfa á hvernig ég keyri á vídeó. Ég stekk pínu á pöllunum og get orðið sleppt höndum...nei, nú er ég að bulla í ykkur hehe.. ég reyni að hjóla með heilann rétt skrúfaðan á þótt ég sé einnig að keppast við mitt persónulega besta í tíma og tækni. Ég vildi að dagarnir væru lengri til að komast lengur eftir vinnu og skil ekki af hverju einhver ríkur vill ekki sponsa flóðlýsingu á brautirnar fyrir veturinn!

miðvikudagur, september 20, 2006

Þolinmóða og alveg ágæta kórstelpan ég 

Fyrir þá sem ennþá efast þá er það hér með staðfest að ég er víst þolinmóð manneskja. Jú, víst hef ég nokkrum sinnum rokið út úr leiðinlegum tímum hvort sem er í skóla eða danskennslu, en á miðvikudagskvöldum sit ég þolinmóð og þæg á kóræfingu í 2 klukkutíma. Og nýt þess. Bíðandi eftir að bassinn tóni rétt, altinn nái nótunum og tenórinn takti. Þá bíður sópraninn ég sallaróleg og hlustar á misflottar tónæfingarnar. Bíður eftir að það komi að sér. Svo þarf að æfa sópraninn alveg eins vel og allt hitt og það tekur líka tíma. Það tekur allt voðalega mikinn tíma á kóræfingum. En ég get svo sagt ykkur það að þegar allt smellur saman....aaahhhh... þá fær maður alvöru gæsahúð og lítið fullnægingarkítl í magann. Af gleði yfir því hversu vel tókst til, hvað þetta hljómar undursamlega, yfir því hvað ég er í æðislega flottum kór. Ég segi það satt að við erum ekkert smá góð og það eru forréttindi fyrir mig að fá að syngja með þeim. Kann enga tónfræði, hef aldrei lært á hljóðfæri og veit ekki hvað fís er frekar en sís. En ég hef fullt af áhuga, er með heila og eyru og nokkuð tónviss þegar ég sit með góðum söngvara við hlið mér svo þetta gengur mjög vel.

Ég komst að því í kvöld að ég kom raddlega séð alveg sæmilega undan sumarfríinu enda búin að syngja óendanlega mikið með Veru meðal annars um Siggu litlu systur og dansandi dúkkuna mína sem Vera kann reyndar orðið að syngja alveg sjálf. Kannski upprennandi þolinmóð kórstelpa þar á ferð :)

mánudagur, september 18, 2006

Krossarinn er kominn 

Þvílíka stuðið, ó je.


Vera og Úlfhildur testa nýju hjálmana fyrir okkur


Djö var eg ad fíla þetta og djö var ég góð. Get ekki beðið eftir næsta skipti sem verður vonandi í vikunni. Ég er sko skælbrosandi þarna undir hjálminum!


Nýja hjólið var alveg að gera sig - Viggi er hér á hjólinu og Unni fylgist vel með


Við fórum upp í Bolöldu og ég er þessi litli depill þarna sem er á þvílíku krúsi


Nestistími í góðu skjóli í skottinu á bílnum


Vera fylgdist vel með og var mjög spennt yfir öllum mótorhjólunum

laugardagur, september 16, 2006

Dagurinn í dag 

Ég ætla að blogga núna á þessu fína laugardagskvöldi klukkan ellefu til að sanna að ég sé heima hjá mér, sem sagt langt frá því að vera djammandi.

Ég ligg hér uppi í sófa í heimagallanum eftir mjög effektívan dag en í dag var framkvæmdardagur hér í höllinni. Æ, þið vitið þessir litlu hlutir eins og sökklar undir eldhúsinnréttingu, og smá púss þar og málning hér og svona sem vantaði upp á þegar maður drífur sig að flytja inn aðeins of snemma. Agalega fínt fyrir heimilið og sálina. Allt annað (þótt enginn taki eftir því nema maður sjálfur). Smiðurinn minn gerði náttlega eiginlega allt en ég gat nú samt aðeins tekið í sandpappír og mundað pensilinn. Svo ég er sátt og skemmti mér nú afar vel horfandi á gamla Fóstbræðraþætti í sjónvarpinu bara með kex og mjólk og hafandi það kósí. Og þannig var það líka í gærkvöldi. Agalega næs. Næstu helgar verða nebblega vel bissí, brúðkaup, vinnudjamm og enn eitt skemmtilega þrítugsafmælið eru í vændum. Ég vil samt taka það fram að Viggi er úti að fagna í kvöld... Svona virka víst vaktaskiptin.

Já, ég vil ég óska FH-ingum og sjálfri mér til hamingju með Íslandsmeisaratitilinn í fótbolta. Þótt fótbolti sé nú ekki endilega uppáhaldsíþróttin mín þá þykir mér vænt um sigrana og styð minn mág í blíðu og stríðu. Svo var bara næs á vellinum í dag í sólinni og blíðunni. Ég fylgdist náttlega ekkert með leiknum og missti af öllum fjórum mörkunum, en ég græt það nú ekkert sérlega lengi. Ég var bara leikandi við Veruna mína og fleiri börn á svæðinu sem voru algjörlega on their own þarna á meðan foreldrarnir voru límdir við leikinn. Ég er sko bara svona góð í mér. Get ekkert að því gert.

Hér má sjá nokkrar myndir frá þessum dýrðardegi.


The Family a urslitaleiknum i ar


The family a urslitaleiknum i fyrra


Kosi stemmning a leiknum


Saetasti FH-ingurinn


Nei, vid Vera vorum sko ekkert ad fylgjast med leiknum a vellinum


Vera og Bjork Davids


Kruttin!


Audun Gauti Audunsson og Vera fadmast og fagna titlinum


Eftir leikinn heimsottum vid Irenu minnstu vinkonu okkar og bordudum saman, Vera var eins og engill og syndi flottu mommutaktana sina er hun strauk og huggadi Irenu allan timann eins og hun vaeri ein af dukkunum hennar

föstudagur, september 15, 2006

Líkamsræktartröllið ég 

Ég er stundum óþægilega minnt á hvað þolinmæði mín er agnarlítil á köflum. Ég vil samt byrja á að segja það að eftir að Vera fæddist hefur þó teygst úr henni allverulega... get meira að segja beðið heillengi eftir strætó í dag ef ég þarf. Í rigningu og roki og allt. Okokok...

Nú er ég sko byrjuð að æfa af kappi í Klassaranum (get bara ekki sagt Laugar því það er eitthvað svo ömmulegt, þótt það sé sætt...) og þar sem ég er svolítið föst í því að gera það sama og ég hef gert sl. 10 ár - s.s. fara í step-tíma til Dísu þá ákvað ég að prófa eitthvað nýtt í dag. Valdi mér tíma sem hélt Salsa og þóttist nú ætla að massa það. Mætti svo aðeins og seint í tímann og náði ekki einu spori í rútínunni sem var komin vel á veg. Ég var aftast, sá varla kennarann og stóð eiginlega bara kyrr, eins og áttavilltur fuglsungi nýdottinn úr trénu - eða eitthvað! Það sauð á mér í nokkrar mínútur áður en ég gekk út. Gafst upp. Auminginn ég. Ákvað svo að þetta þýddi ekki og fór aftur inn. Það var stuð salsa tónlist í gangi og svitinn byrjaður að sprautast út um allt af duglega fólkinu sem þarna var að dansa og bara allt að gerast. Og ég reyndi aftur... en nei, gekk aftur út! Bara náði þessu ekki. Eigum við ekki bara að segja að ég hafi ekki verið í Salsastuðinu mínu þetta föstudagshádegið. Ég meina, stundum er maður bara ekki í svona salsastuði. Samt er ég sko drullugóður salsadansari - en víst bara eftir nokkur stór hvítvínsglös I guess.

Svo ég fór á Cross-training vélina. Horfði á sekúnduteljarann læðast hægt áfram á meðan ég hamaðist. Þetta gekk eitthvað svakalega hægt í dag. Ég hafði ekki þolinmæði í þetta, fannst þetta svo rosalega leiðinlegt maður. Mér finnst reyndar alltaf leiðinlegt að hlaupa og djöflast á svona vélum, en læt mig hafa það með herkjum. Kannski þess vegna sem ég hef haldið mig við tímana hjá Dísu, en þar missir maður sig í brjálæðislegri rútínu (sem hefur verið eins í 10 ár og maður þarf bara réééétt svo að hugsa) við dúndrandi tónlist og samtakamátt. Það felst ákveðinn kraftur í því að sjá alla gera svona kúl múv í takt í speglinum!

En ég er s.s. búin að komast að því að ég get bara hlaupið í WC ef það er eitthvað spennandi í sjónvarpinu til að horfa á. Góð tónlist í eyrum og ekkert að horfa á virkar ekki fyrir mig. Þá horfa augun bara á sekúnduteljarann ganga löturhægt áfram...og hlaupið verður endalaust lengi þær 30 mínútur sem ég dugi. Og það er heldur ekki hvaða sjónarpsþáttur sem er sem virkar. Ég komst að því í vikunni þegar ég hljóp og krosstreinaði í næstum því klukkutíma að það er sko að sjálfsögðu Oprah og Dr. Phil sem halda mér gangandi! Endursýndir Friendsþættir eru náttúrulega guðdómleg björgun líka og Séð og Heyrt blaðið virkar eitthvað í algjörri neyð. Ég er nú meira trassið maður. Þetta er alveg kreisí ég veit... en það er greinilega þannig að ef hugurinn er til staðar fylgir líkaminn með!

Það er erfitt að byrja aftur í ræktinni og ég bara viðurkenni það hnarreist að Dr. Phil er að koma sterkur þar inn hehe.

fimmtudagur, september 14, 2006

Sofandi sæt 


Tásur og puttar


Hversu sætur getur maður verið sofandi? Vera heimtaði að sofa með brabrakodda og fílasæng sem er bara sætt. Hundurinn Óskar gægist þarna upp úr sænginni.

miðvikudagur, september 13, 2006

Rokkarinn ég 

Ég er búin að ákveða það að vera í vinnu hjá sjálfri mér við að þrífa í stað þess að kaupa einhvern til þess eins og var á planinu. Ég nenni ekki að þrífa en ætla samt að gera það og spara mér péninginn.

Og....tatatatammm...kaupa motocrosshjól í staðinn (hlaut að búa eitthvað að baki hehe). Jamm, um helgina lendir s.s. eitt stykki mótorhjól í skúrnum hjá okkur, sjóðandi heitt frá USA. Nema hvað við eigum ekki skúr ennþá, það verður þá bara úti í garði, eða í skúrnum hjá Unna litla bró og Helgu Hlín annáluðum mótorhjólatsöfurum sem smituðu okkur. Nú þarf ég bara að finna rokkarann í mér og skrúfa af mér heilann og stökkva af stað. Fá mér tattú og raka svo af mér hárið. Nei, bara grín (sko þetta með hárið). Ég ætla að fara varlega í þetta en ég veit að ég verð drullugóð. Bara finn það. Ég meina maður æfði ekki sund for nothing í 9 ár hehe - einstaklingsíþrótt, agi og harka. Og kannski smá rokk í bland. Segi svona. Núna er ég sem sagt farin að bíða eftir að Rockstar byrji og ég geti hætt að bulla og haldið áfram að rokka.

En hjólið er komið og ég get strikað það út af löngum óskalista lífs míns.

Magni er að byrja, best að ná áttum.
En ég held samt með Toby gúmmítöffara.
EVS....

mánudagur, september 11, 2006

HjallaVeran mín 

Leikskólastýrurnar á Hjalla setja reglulega inn myndir af börnunum á Hjalla á lokað svæði á heimasíðu leikskólans og hér má sjá nokkrar myndir af Veru að njóta sín í leikskólanum. Henni líður mjög vel og er spennt á hverjum morgni að fara á Hjalla að leika. Við foreldrarnir erum líka í skýjunum yfir leikskólanum því við finnum svo sterkt hvað Vera er ánægð.

Leikskólastýrurnar skrifa dagskrá dagsins niður eftir daginn og þar má sjá margt skemmtilegt og öðruvísi sem börnin gera eins og m.a.: Sulla inni í sullhorninu, dansa trylltan dans við háværa tónlist, knús og kítl, kubba með trékubba, vinkonuæfing, kurteisisæfing og kjarkæfing.


ListaVeran


Svefntimi


Sofandi saman


Sullutimi


Leirad af list


Rusinur uti med nesti


I prinsessuleik - vafdar inn i teppakjol


Ithrottatimi


Brosandi ut ad eyrum

Einmitt það já 

Ég fékk 74 tölvupósta á föstudaginn sem hlýtur að segja til um almennar vinsældir mínar.
Ég horfði á spennu-hryllings-tryllinn Wolf Creek í gærkvöldi og þorði ekki ein niður í þvottahús eftir það.
Ég fékk að vita hjá frægum spákonu-uppistandara í gæsapartýi um helgina að ég eigi að drífa mig í nám og eignast fleiri börn. Jahérna, þvílík sannindi.
Ég var edrú alla helgina þrátt fyrir gæsapartý og þrítugsafmæli, og no no no - ég er ekki ólétt.
Mig dreymdi í nótt að ég leit í spegil og sá mig spikfeita í framan. Var mikið að spá í því og kleip í feitar kinnar - hvað ætli það þýði?
Ég er alla vega farin í ræktina.

fimmtudagur, september 07, 2006

Ástralíubúarnir okkar 

Þórhildur vinkona kom í heimsókn alla leið frá Ástralíu í fyrradag. Hún kom með hálfs árs gamlan frumburðinn með sér, hann Arinze Tómas krútt með meiru. Við smelltum nokkrum myndum af sætu börnunum okkar saman þar sem það er ekki líklegt að þau hittist aftur í bráð. Ástralía er svo langt í burtu og maður skreppur víst ekki svo einfaldlega heim til Íslands þaðan.

Vera er búinn að tala mikið um Arinze Tómas síðan hann var í heimsókn. Þegar hún kom heim af leikskólanum í dag var hún mikið að ræða heimsóknina og sagði m.a.: "Mamma, einu sinni Tómas. Tómas krulla hár. Tómas kann ekki labba. Tómas litla baddnið. Tómas kann ekki tala, neeeeiiii. Tómas súpa brjóstið mömmu sín. Vera alveg hissa!"


Arinze Tómas og Vera uppstillt fyrir myndatöku


Horfst i augu


híhí

miðvikudagur, september 06, 2006

Menningarsjokk 

Ég fór á landsleikinn í fótbolta í kvöld. Sá Dani rúlla okkur upp. Þetta var minn fyrsti landsleikur í fótbolta og jafnvel sá eini. Ég fékk frímiða og ákvað að nýta þetta tækifæri til að upplifa eitthvað nýtt. Ég hafði smá væntingar um góða stemmningu og sá mig fyrir mér veifandi fána og öskrandi á dómarana. Stemnmningin var sæmileg en samt ekkert miðaði við það sem maður sér á útlenskum leikjum í sjónvarpinu. Og nei, ég hélt mig til hlés, eiginlega var ég alveg frosin og það ekki úr kulda. Ég vissi að það væri ákveðin stemmning á svona fótboltaleikjum en ég var greinilega samt ekki alveg tilbúin í þetta. Menningin á fótboltavellinum var alveg ný fyrir mér og ég þarf greinilega meira en einn leik til aðlögunar.

Maðurinn fyrir framan mig lét dómarana heyra það fyrir mig og ég bara kunni ekki við það að púa á Danina fyrir ekki neitt. Þegar áhorfendurnir í kringum mig misstu sig í brjálæðinu og stóðu upp til að skammast og mótmæla, tja eða fagna þegar þeir héldu að boltinn hefði legið inni, var ég ekki nógu fljót og sat eftir. Frosin.
Mér fannst leikurinn annars fara fram ofurhægt svona life miðað við í sjónvarpinu og ég sá einhvern veginn voða lítið þrátt fyrir að sitja samt á fínum stað í nýju flottu stúkunni (sem ég reyndar hélt fyrst að væri sú gamla...). Það var engin nærmynd af Eiði Smára og ég sá bara alls ekki hvað hann er sætur. Ég sá engin sveitt og sexí fótboltalæri því stuttbuxurnar voru svo síðar - ég vil fá seventísSTUTTbuxnatískuna aftur takk. Mér fannst alls ekki svo leiðinlegt á leiknum en ég var heldur ekki að skemmta mér neitt sérlega vel. Þetta bara svona leið hjá og ég hafði meira gaman af því að fylgjast með fólkinu í kringum með heldur en sjálfum leiknum. Hver hópur af fólki söng áfram Ísland og klappaði í sínu horni svo fullkomlega í ótakt að ég gat ómögulega tekið undir. Svo var ég alltaf að missa þráðinn í leiknum, ætli það megi kannski ekki bara skrifast á almennt áhugaleysi á fótbolta yfir höfuð. Ég vildi að það hefði verði risaskjár sem endursýndi mikilvæg atvik eins og alls kyns brot og færi, þá hefði ég alla vega séð þau. Ég missti alltaf af einhverju sem gerðist, hreinlega bara náði því ekki og gat ekki spurt einn né neinn því samstarfskona mín sem sat við hliðina á mér var á sama fótboltastiginu og ég. Í miðjum leik stóðum við okkur að því að vera farnar að tala um barnahúsgögn og verð á þeim. Það er náttlega mjög spennandi umræðuefni.

Pizzan með pepperóníinu og kókið í hléinu var ágætt en mér varð samt bumbult af því í seinni hálfleik af spenningi því mér var alls ekki sama um að tapa. Ég nagaði stöngina á íslenska fánanum af stressi og vonaði að við myndum skora. En gafst svo upp þegar 10 mínútur voru eftir af ævintýrinu og fór heim með snert af vægu menningarsjokki.

mánudagur, september 04, 2006

Helgason Family 

Helgason family dagurinn mikli var á laugardaginn. Þá komu saman systkinin sex og makar þeirra og áttu glaðan og fjörugan dag. Ég og Viggi unnum Amazing race, sem var þessi dúndur ratleikur um Hafnarfjörð og það á reiðhjólum og komum langfyrst og spræk í mark á meðan hinir týndust, eyðilögðu hjólin sín og komu ælandi þreytt í mark. Já, svona er bara frábært að bera af, vera bæði gáfaðastur og fljótastur. Þess má geta að ég vann svo líka stólaleikinn síðar um kvöldið eftir gríðarlega baráttu. Eftir sigurinn mikla tók við pikknikk í blíðunni úti í Hafnfirskri náttúru og þar á eftir meiri hjólatúr um bæinn þar sem systkinin rifjuðu upp æskuminningar með trega en þó aðallega gleðitárum. Þegar hér er komið við sögu voru þátttakendur búnir að staupa sig allmikið en tókst þó að sprikla næstu tvo tímana í fimleikum, skotbolta, klifra og djöflast á trampólíni. Nokkrir tóku magnaðar gólfæfingar sem slóu flestu öðru við þennan dag. Hin pakistanska Shabana kom svo heim í höllina og eldaði ofan í okkur dýrindis kvöldmáltíð sem lífgaði þreyttan mannskapinn aftur við eftir kappsaman dag. Við tóku leikir og skemmtiatriði sem seint gleymast og fjörið lifði lengur en ég man...

Ég sé þarna hvað það er mikil blessun að eiga stóra fjölskyldu. Þau eru sex og þótt þau kannski fíli hvort annað ekkert alltaf í botn og hvert systkin eigi sitt uppáhald (þótt enginn vilji viðurkenna það) þá er alltaf einhver til taks. Og þegar allir koma saman verður til einhver ólýsanlegur skemmtilegur kraftur sem tekur aðra með sér og lifir lengi á eftir.

Ég á einn bróður og við hittumst ekki mikið. Ætli við séum ekki þau ólíkustu á jörðinni, eða svona næstum því gæti ég trúað. Fyrir utan hæðina og að vera kórnörd eigum við lítið sameiginlegt, enda alin upp á sitthvorum staðnum mest okkar líf. Ég á líka eina hálfsystur sem ég gleymi að ég eigi því ég hitti hana aldrei. Helgasynir og dætur eru ómetanleg viðbót við mína litlu skrítnu fjölskyldu. Jú, jú, þau eru líka skrýtin á sinn hátt svona eins og gengur og gerist en það er eitthvað sem fjöldanum tekst að skapa sem er erfitt að lýsa. Ég lít á þau sem mína fjölskyldu enda næstum búin að þekkja þau jafn lengi og ekki - og þá er ég líka að tala um þá eðalmaka sem þeim (ótrúlegt en satt!) hefur tekist að ná sér í.

Eftir svona daga langar mig að eignast ekki færri en svona 10 börn. En um leið get ég ekki hugsað mér það vegna einhvers sem gæti kallast egó eða þreyta eða veraldleg lífsgæði eða bara bull og vitleysa. Ég á eina góða Veru sem er eðalviðbót í Helgason fjölskylduna og hvað gerist næst er óráðið. Tvö eða tíu já hmmmm...

En alla vega, ég skal droppa mér aftur úr væmnagírnum og vera almennileg. Þið verðið að prófa svona stólaleik eftir nokkur glös og finna kikkið þegar þið vinnið leikinn - gleðin leikur um mann eins og lítið barn í fimm ára afmæli aaaaahhhhhhhhhhhhhhh....


Helgasynir, daetur og makar

föstudagur, september 01, 2006

Úffpúff 

Ég er að hlusta á Anthony & The Johnsons og það er alveg heart breaking. Svo falleg tónlist. Ég verð alveg pínu trist að hlusta á þetta en samt get ég ekki hætt að hlusta, úff úff. Lætur manni líða vel-illa. Þessi tónlist minnir mig á að elsku kórinn minn fer brátt aftur að starfa og ég hlakka mikið til að fá að þenja raddböndin og finna máttinn og rónna í fallegum kórsöng (og allir að tárast núna!)

Annars er mikið á dagskránni. Óvissudagur Helgasona, dætra og maka er á morgun og ég búin að plana daginn í þaula. Það verður stíf dagskrá frá hádegi á laugardegi fram að hádegi á sunnudegi sem einkennist af bræðralagi, keppni, staupi og fíbblaskapi á háu stigi...úffí!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker