<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Mömmuparanoja 

Við skruppum í bíó í gær. Amman sem er á landinu um þessar mundir tók glöð að sér að passa Veru á meðan. Sáum Bourne Supremacy (hvað sem það nú þýðir?!) í átta bíó með nokkrum vinum. Ég verð að segja að ég naut myndarinnar ekki ýkja mikið. Ok, hún var hundleiðinleg þar sem ég er alls ekki góð í svona myndum með flóknu plotti þar sem þarf að fatta mikið. Bíómyndafattarinn minn er mjög stuttur. Og óþolinmóður. Vill bara fá að vita strax hvert plottið er (af hverju þarf það að vera svona flókið??!). Það er án efa þess vegna sem ég meika ekki Hringadróttinssögu-myndirnar. Það tók Fróða þrjár 4 tíma bíómyndir að fara einhverja leið með einhvern hring (eða var það ekki? Sofnaði haldandi fyrir eyrun á fyrstu myndinni og sá hinar að sjálfsögðu ekki). Það eina sem ég man úr myndinni er: "Where is Frodo?" og "Oh, where is the ring?"... en það er önnur saga.

Bíóið í gær já. Fékk sting í mömmuhjartað þegar við renndum úr hlaði skiljandi hana eftir "eina" og án okkar (erum við annars ekki ómissandi?). Fyrstu 15 mínúturnar af bíómyndinni fóru svo í að einbeita mér að því að þurrka myndina af Veru úr hausnum á mér. Ég var bara að hugsa um hana! Alveg bilað. Eða hvað? Eins og ég sagði var myndin ekki að mínu skapi sem gerði það án efa erfiðara fyrir mig að sleppa Verutilfinningunni alveg í þessa rúma tvo tíma sem myndin tók.

Svo bannaði mamma mér að hringja heim í hléi. Sem gerði þetta verulega erfitt. Þurfti alveg að halda í mér. Setti símann djúpt í vasann til að ég myndi ekki óvart taka hann upp og hringja (óvart að sjálfsögðu). Keypti mér þess í stað fullt af nammi og ís og gúffaði í mig sem mest ég mátti og ræddi við félagana. Var að reyna að taka hugann af Verunni. Sömuleiðis eftir bíóið sagði ég Vigga að gefa í þar sem ég var komin með VERUleg fráhvarfseinkenni.

Áður en ég átti Veru sór ég þess heit að verða ekki þessi óþolandi paranojd mamma sem getur ekki farið frá barninu sínu. Hélt það yrði nú lítið mál þar sem ég er töffari (að eigin sögn) og var búin að ákveða að vera töffaramamma með litlar áhyggjur af barnalífinu og tilverunni. Bara taka þetta á hælinn. Og ok, ég er að taka þetta á hælinn en mömmuhjartað mitt vex með hverjum deginum. Sem gerir það æ erfiðara að fara frá henni...

En ég skal og ég ætla.
Er nú þegar búin að plana kaffihús og djamm á næstunni...
Koma svo.

föstudagur, ágúst 27, 2004

16 marka bros :) 


Vera var mæld á þriðjudaginn var og var þá orðin 3880 g eða tæpar 16 merkur! Svaka stór stelpa :) Posted by Hello


Og svo er Vera rétt að byrja að brosa :))) Sjáið þið ekki annars smávægilegt smæl eins og ég?! Þetta er allt að koma. Posted by Hello

mánudagur, ágúst 23, 2004

Vera 

Litla snúllan mín var skírð í gær. Hún heitir Vera. Vera Víglunds it is :) Verður ábyggilega listakona eða forseti eða eitthvað með þetta ryþmamikla nafn! Segi svona. Hún má verða ruslakall fyrir mér verði hún hamingjusöm þessi elska.

Í skírnina mættu hellingur af fólki eða um 50-60 manns. Ótrúlegt hvað maður þekkir marga "nána". Sorrý ef þú komst ekki í skírnina en það voru þvílíkar kræsingar á borðum!


Vera í skírnarkjólnum sem systir mömmu prjónaði á mig þegar ég var skírð Posted by Hello


 Posted by Hello


 Posted by Hello

föstudagur, ágúst 20, 2004

Músin mín 


Varð bara að setja inn nokkrar myndir af músinni, hún er svo hrikalega sæt! Posted by Hello


Á leið í afmæli í fyrsta sinn og í kjól í fyrsta sinn!  Posted by Hello

Klausturlíf 

Eins og ég hef sagt þá krefjast hinar minnstu athafnir þvílíkrar skipulagningar með svona kríli á brjósti. Maður verður alveg að "nýta tækifærið" til að lauma sér í sturtu á meðan krílið sefur. Ef maður fer eitthvað út þarf það að vera útpælt hvenær hún drakk, svaf og um það bil hvenær hún muni vakna næst sársvöng.

Það gerðist svo í gær að mamman misreiknaði sig. Eða þá að daman hafi bara breytt út af vananum í gamni. Ég og mamma vorum á gangi um bæinn og fórum upp í Karmelklaustrið hér í Hafnarfirði og keyptum skírnarkerti (já, það verður skírt á sunnudaginn.... - og hvað á barnið að heita...?????? dadadadammmm). Þegar við komum aftur út og búnar að gera góð kaup við nunnurnar var daman öskrandi úti í vagni. Og hún var sársvöng. Svo nýja mamman fletti upp klæðum á miðjum klausturtröppunum og gaf dömunni brjóst.
Þvílíkt þægindi að hafa þetta svona framan á bringunni á sér.

Eins gott að Karmelnunnurnar mega ekki fara út - þær hefðu fengið áfall!
En svona er nútíminn :)

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Meiri brjóst - meira vítamín... 

Ég held að ég eigi aldrei eftir að geta litið á brjóstin á mér ever again sem kyntákn. Þau eru tæki fyrir barnið mitt til að lifa. Já, eins og ég skrifaði um hér í ofanverðu bloggi gera þau mig að mjólkurstöð.

Og svo núna er svo í pottinn búið að annað brjóstið tók upp á því að stíflast. Áts. Frekar sárt og alveg ekki sexí thing. Reyndar er ekkert what so ever sexí við brjóstin á mér (alla vega að mínu mati..!) þessa dagana. Sérstaklega verð ég að segja að það sem rak lokahnykkinn á þessa tilfinningu var í gær þegar ég þurfti að fara upp á kvennadeild út af brjóstastíflunni (stífla... - hljómar eins og eitthvað á Kárahnjúkum sem á að fara að virkja...!). Þá fór ég inn í sérstakt "brjóstaherbergi" fyrir "brjóstakonur" með "brjóstastíflur". Þá kom "brjóstaráðgjafi" og ræddi við mig um "brjóstavandamálið". Þá lagðist ég í Lazy-boy og tók ráðgjafinn við að nudda á mér brjóstið og pota í það til að reyna að losa stífluna. Gekk það svo í um hálftíma og verð ég að segja það ansi fríkað að liggja þarna með brjóstin út í loftið og ókunnuga manneskju nuddandi á manni tittsarana. Það er voða lítið sex appíl eftir við brjóstin eftir þetta!
Alla vega í bili!

En mér líður betur í dag og brjóstið virðist vera að lagast þótt það sé ansi aumt eftir átökin í gær (eins og brjóstið sé sjálfstætt og hafi lent í slag eða eitthvað!!).

Þá vitiði það...

föstudagur, ágúst 13, 2004

Mamma mjólkurstöð 

Mamma mjólkurstöð. Það er ég þessa dagana. Og víst næstu mánuðina líka. Já, þetta er hlutverk manns um þessar mundir. Að framleiða mjólk sem lífsviðurværi litlu dömunnar. Að gefa dömunni brjóst, að vera illt í brjóstunum, vera illt í geirvörtunum, að stoppa leka úr brjóstunum og bera á sárar geirurnar eru praktikklí það eina sem ég geri þessa dagana. Mjólkurstöðin ég. Maður er stöðugt að. Satt best að segja gerði ég mér enga grein fyrir því hvað brjóstagjöfin væri stór og mikilvægur þáttur í barnauppeldinu. Call me stupid en ég bara reiknaði ekki með öllum þessum tíma sem fer í þetta. Ég geri ekkert annað! Brjóstagjöfin er jú voða kósí og næs móment milli okkar mæðgna og mér finnst svo sárt að Viggi missi af slíkri nánd sem skapast við brjóstagjöfina. Hann hefur þó tekið að sér að nudda dömuna í staðinn og þau bonda þannig. En hei - ef maður ætlar sér að t.d. skreppa í sturtu (sem ég geri stundum) eða út í búð þarfnast slíkar athafnir þvílíkar úthugsunar. Hvenær drakka daman síðast? Hvenær má áætla að hún vakni? Er nægur tími? Og nú erum við orðnar tvær í kotinu á daginn því Viggi er farinn aftur að vinna í bili svo þetta er enn flóknara en það var áður þegar annað okkar gat verið með dömuna ef eitthvað þyrfti að gera.

Ég þarf t.d. nauðsynlega að fara að komast í Fjarðarkaup og kaupa í matinn þar sem kotið er orðið matarlaust með öllu. En hvernig fer ég að því ein með dömuna? Jú, get sett bílstólinn í innkaupakerruna - en þá er ekkert pláss fyrir matvöruna...! Er þetta í alvörunni svona mikill höfuðverkur? You moms out there... hvernig fer maður að þessu?

Einvoðavitlaus...

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Þvílík læti 


Oh, það eru svo mikil læti hér... Frekar fyndin sofustelling! Varð bara að deila þessu með ykkur. Músin er jú það eina sem ég sé þessa dagana... :)  Posted by Hello

sunnudagur, ágúst 08, 2004

2 vikna 

Í dag hefði daman átt að fæðast hefði hún farið eftir útreikningum sónarsins og fræðanna. En sem betur fer er hún löngu komin og er 2 vikna í dag. Til hamingju!

Fyrsti göngutúrinn var farinn í gær - á Gay Pride. Þýðir ekkert minna fyrir dömuna! Hún fílaði sig vel og svaf þetta af sér allan tímann. Sjáið stolta móðurina! Eru ekki allir að horfa á mig?? dodododo...

 Posted by Hello

laugardagur, ágúst 07, 2004

Snuðið... 

Við litla fjölskyldan viljum byrja á því að þakka öllum þeim sem hafa fært okkur hamingjuóskir og gjafir og hvaðeina. Takk, takk. Takk æðislega. We love you. Í alvöru.

Ég er hrædd um að næstu bloggpóstar eigi ekki eftir að fjalla um annað en fjölskyldulífið og hvernig sú stutta hefur það! Það er eiginlega það eina sem kemst að þessa dagana. Og ábyggilega þá marga næstu líka. Svo þið verðið bara að þola það! Hún er svo æðisleg að það getur nú varla verið erfitt :) Stefni líka að því að vera dugleg að setja inn myndir af dömunni.

En jæja. Þá er búið að troða snuði upp í litlu dömuna! Þær segja það mæðurnar og feðurnir að það borgi sig til lengri tíma litið. Það að geta kæft grátur og kvart og kvein með gómlaga gúmmítúttu er víst alveg málið. Svo ég lagði í það. Mér leið reyndar eins og smá svindlara að vera að þessu þar sem litla daman hefur ekki svo mikið sem kvartað einu sinni með grenjukasti hvað þá meira. En eigum við ekki bara að segja að ég hafi verið að fyrirbyggja komandi læti. Og litla daman fílar dudduna alveg ágætlega eins og sjá má á meðfylgjandi mynd!


 Posted by Hello

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Líkar? 


 Posted by Hello


Líkar?
 Posted by Hello

sunnudagur, ágúst 01, 2004

Hún er fædd! 

Í síðasta bloggi (föstudaginn 23. júlí) bauð ég kúlubúanum að koma í heiminn þar sem nú væri allt klárt. Hann tók mig þokkalega á orðinu. Ég reyndar bað hann sérstaklega um að bíða fram yfir helgi þar sem ég væri upptekin um helgina í brúðkaupi hjá Kjartani bróður Vigga og henni Svövu. En kúlan fór sko sínar eigin leiðir...

Ég vann minn síðasta vinnudag í bili í Gallup þann föstudag og fór heim sæl og glöð tilbúin að fara nú að hvíla mig og undirbúa komu kúlunnar í heiminn. Ég var búin að vera á góðu spani undanfarið, m..a. veislustjóri í öðru brúðkaupi og að redda hinu og þessu fyrir komu kúlubúans. Ég segi nú ekki að ég hafi ekki haft flest allt nú þegar tilbúið, en ég átti þó nokkuð eftir að gera þó sem ég ætlaði að dúlla mér í, í þeirri löngu (og leiðinlegu skv. mæðrum...!) bið eftir nýja meðlimnum.

Ég þurfti þó ekki að bíða lengi. Á laugardeginum 24. júlí, sjálfum brúðkaupsdeginum Kjartans bróður Vigga og Svövu gerðist það. Ég var hin hressasta og við Viggi buðum systkinum hans, mökum og börnum í brunch til að ná upp stemmningu fyrir brúðkaupið og æfa atriði sem þau systkinin ætluðu að flytja í veislunni. Það gekk vel. Ég bakaði muffins og milljón pönnukökur ofan í liðið og allt fór fram með sóma. Fólkið fór svo heim og ég ætlaði að leggja mig fyrir kvöldið.
Þá ákvað svokallaður slímtappi að losna....en það er fyrsta stig fæðingar.
Ég hafði lesið að þótt slímtappinn færi gæti verið allt upp í viku í fæðingu. Ég var ekki með neina verki svo ég lagði mig sæl og glöð yfir þessum góða fyrirvara kúlubúans. Ég hafði ekki legið lengur en í 10 mínútur þegar ég heyrði hávært „crack“ koma innan úr mér og legvatnið flaut um allt rúm. Jahá! Fæðingin var þokkalega komin af stað. Og ekki hjá því komist að setja sig í gírinn og fara upp á fæðingardeild í skoðun.
Ég byrjaði reyndar á því að taka nett grátkast yfir því að ég væri búin að eyðileggja daginn fyrir Vigga þar sem hann myndi missa af brúðkaupi bróður síns... en hei - hormónarnir tóku alveg völdin á þessum tímapunkti... æts!

Við brunuðum upp á fæðingardeild. Klukkan var 15. Brúðkaupið átti að vera kl. 18:15. Ég var enn ekki með neina verki svo ég eygði von um að komast þrátt fyrir allt í brúðkaupið. Ég vildi ekki „eyðileggja“ daginn fyrir Vigga! Rassblaut og stressuð vorum við látin bíða frammi fyrir utan fæðingardeildina í á hálfan annan tíma sökum anna. Það ákváðu víst mun fleiri börn að koma í heiminn þennan fallega dag heldur en ljósmæðravaktin hafði gert ráð fyrir. Allar stofur voru fullar og ekki einu sinni pláss til að skoða mig fyrr en eftir dúk og disk. Að lokum var ég þó skoðuð og var ég þá byrjuð að finna fyrir byrjunarstigi hríðanna. Mónitorinn sagði hjartslátt barnsins í góðu lagi og hríðarnar jukust jafnt og þétt. Mér leið vel en var þó að keppast við klukkuna þar sem ég ætlaði mér í brúðkaupið hvað sem á dundi. Ljósurnar gáfu mér brottfararleyfi upp á eigin ábyrgð með loforði um að koma svo strax aftur eftir kirkjuathöfnina upp á deild. Í framhjáhlaupi sagði ein þeirra mér að taka með mér teppi því ef barnið myndi skyndilega fæðast væri langmikilvægast að halda á því hita... á þeim tímapunkti spurði ég sjálfa mig hvort ég væri hreinlega biluð. Og Viggi líka....!

Við brunuðum heim og sturtuðum okkur og sjænuðum á mettíma. Verkirnir voru bærilegir og Viggi aðstoðaði mig við baðið og að klæða mig.

Við rétt náðum í kirkjuna á þeytispani áður en Svava brúðir gekk inn kirkjugólfið. Það var yndisleg stund. Ég byrjaði strax að væla. Það var bara of mikið að gerast á einum degi! Páll Óskar og Monika spiluðu undurfögur lög og nálægð dýrðar og gleði (og jú jú...hormóna og stress...!) var svo þrungin og mikil að ég þurfti ansi marga snýtuklúta til að komast í gegnum þetta. Hríðarnar ágerðust í kirkjunni. Það voru komnar um 2 og hálf mínúta á milli hríða og ég taldi niður á milli og undirbjó mig æ fyrir þá næstu. Þá lokaði ég augunum og reyndi að nota Palla til slökunar. Það gekk bærilega. Ég man reyndar ekki ýkja mikið eftir athöfninni sem slíkri þar sem ég var meira upptekin við að díla við verkina og að bæla þá niður með skældu brosi á vör. Ég missti meira að segja af kossinum. En hei - hann er víst til á vídeó svo....!

Eftir athöfnina stóð ég upp í keng. Kvaddi liðið sem óskaði okkur góðs gengis. Og aftur brunuðum við upp á fæðingardeild. Kolla læknir vinkona var einnig brunandi til okkar frá Snæfellsnesi þar sem hún hafði ætlaði sér að vera í útilegu umrædda helgi. Kolla ætlaði nefnilega að taka á móti krílinu. Hún hafði hringt í mig á hádegi til að athuga hvort hún fengi ekki örugglega brottfararleyfi út úr bænum, þ.e. hvort eitthvað væri að gerast með mig og ég sagði henni endilega að fara þar sem ég finndi alls ekki fyrir neinu og það væri sko akkúrat ekkert að gerast! Klukkutíma síðar fór svo umræddur slímtappi og ballið byrjaði.

Kolla var mætt upp úr klukkan 20 og baráttan við hríðarnar hófst fyrir alvöru. Ég skiptist á að kremja og klípa hendurnar á Vigga og Kollu sem gáfu mér ómældan stuðning þegar verkirnir komu. Ég var í banastuði og þvílíkt tilbúin að massa þessar hríðar. Þær skyldu ekki fá að buga mig. Og það tókst bærilega. Allt til klukkan 2 um nóttina þegar sóttin var orðin verulega hörð og engin pása á milli verkja. Úff. Ég ætla nú að leyfa mér að blóta [varúð]: ÞVÍLÍKT HELVÍTI ÞESSAR HRÍÐAR. Shit. Ég held það verði aldrei neitt á ævinni vont eftir að hafa upplifað þetta. En alla vega... ég var þvílíkt að massa þetta og allt var í gangi. Útvíkkunin orðin fín og allt að gerast. Þegar við fáum þær fréttir eftir skoðun ljósmóðurinnar að barnið sé sitjandi!

Bíddu, bíddu... - ha - what - say it again. Neeeeeeeeeeeeeeeeeeiiii, ég trúði því ekki! Tvær ljósmæður í mæðraverndinni í Hafnarfirði höfðu staðfest að barnið væri með höfuðið skorðað í grindinni, ásamt tveimur uppi á fæðingardeild. Í þessari skoðun kl. 2 snerti ljósan svo allt í einu litla rassaskoru í staðinn fyrir koll þegar hún var að tékka á stöðunni. Jahá. Það var ekkert annað. Fæðingarlæknir var kallaður til sem staðfesti að um sitjandi barn væri að ræða og kallaði hann til skurðarjúnitið fyrir bráðakeisara.

Mín fyrstu viðbrögð voru vonbrigði. Vonbrigði með fagleg vinnubrögð þess fólks sem taldi krílið skorðað. Vonbrigði yfir því að hafa þurft að ganga í gegnum hríðarnar svona langt og vonbrigði með að fá ekki að fæða barnið mitt „eðlilega“ í þennan heim.

Mér var trillað inn á skurðstofu og mænurótardeyfingin virkaði sem heróin (ekki að ég hafi nú samt prófað heróín... - en get ímyndað mér áhrifin... ahhh!). Vonbrigðin hurfu eins og dögg fyrir sólu. Kolla segist aldrei munu gleyma smælinu sem lagðist yfir andlitið á mér þegar mænurótardeyfingin byrjaði að virka. Ó, ljúfa líf. Ég var virkilega búin að gleyma því hvernig verkjalaust líf væri. Þvílík sæla! Ahhhhhhh..... Þetta var ekki lengur í mínum höndum, heldur grænna geimverulækna með hanska og grímur.

Nokkrum mínútum síðar, eða kl. 02.23 þann 25. júlí, kom undurfagurt barn í heiminn. Dóttir mín. Ég tárast ennþá þegar ég hugsa um þessa stund. Þetta var magnað. Við grétum af gleði og létti. Hún var heilbrigð og fín. Þandi lungun fyrstu mínúturnar í hinum alvöru heimi sem mest hún gat en róaðist strax þegar hún fékk að koma til okkar. Ég trúði ekki eigin augum þegar ég sá hana fyrst. Þetta gat ekki verið mitt barn, hún var alltof falleg til þess! Það var ekki eitt stingandi rautt hár á kolli hennar þótt vel væri leitað! Hún var slétt og fín og agnarsmá, tæpar 12 merkur og 47,5 cm (ath. Komma fimm!), enda kom hún rúmum 2 vikum fyrir settan tíma. Snemma í því eins og mamma sín er alltaf. Að flýta sér. Ég virkilega bjóst við rauðhærðri, þrútinni risastórri bollu með bólur og bauga... ekki að það hefði orðið neitt verra...!

Við mæðgur dvöldum svo næstu 5 daga á Sængurkvennadeildinni þar sem ég jafnaði mig á keisaraskurðinum. Ég vissi ekki mikið um keisaraskurði áður en ég upplifði hann sjálf, en maður er alveg ristur á hol sem gerir mann ansi lamaðan og fatlaðan í nokkra daga á eftir. Það er vont að hreyfa sig og lífsins ómögulegt að hósta, hnerra og hlæja fyrstu dagana á eftir! Nú eru mestu verkirnir í skurðinum farnir og ég farin að geta hlegið á ný :) Er satt best að segja eiginlega búin að vera í hláturskasti síðan ég kom aftur heim og var á tímabili að spá í því að hringja upp á deild til að tékka á því hvort eitthvað væri til sem kallaðist „sængurkvennaHLÁTUR“!! En það var búið að vera mann við þeim fræga sængurkvennagráti sem konur lenda oft í þegar heim er komið vegna hormónarússíbana. En hlátur var það heillin. Sem betur fer :)

Þrátt fyrir þessa furðulegu fæðingarsögu hef ég mjög jákvæða upplifun af öllu þessu ferli.
Ég á yndislega dóttur sem er heilbrigð, vær og góð og auðvitað sú fallegasta sem finnst í heimi hér.

Við misstum af brúðkaupsævintýrinu en upplifðum annað og betra ævintýri sem varir að eilífu.
Framtíðin er okkar.


Skvísan dagsgömul.


Hér er daman 6 daga gömul. Posted by Hello
Posted by Hello

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker