<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, október 31, 2006

Hversdagslega ég 

Það er svona hversdagshrollur í mér núna. Svona hrollur sem segir alltaf það sama alltaf það sama...

Ég fékk samt agalega skemmtilegar dömur í mat um daginn. Lagði í tilraunaeldhús og allt fyrir þær sem tókst vel. Þær eru mannfræðingar eins og ég og við ræddum um hvað við erum meiriháttar og merkilegar, atvinnutækifæri, langanir og skólamál, hvað við eigum mikla möguleika og hvað framtíðin er þokkalega okkar. Eftir það kvöld fékk ég bjartsýniskast. Elska svona bjartsýnisköst, þau fleyta manni vel áfram næstu daga á eftir og þá daga var ég extra bein í baki og bar höfuðið hærra en vanalega.

Svo þverraði bjartsýnina eilítið þegar Vera fékk gubbupest og helgin fór í það. Og svo fékk ég gubbupest og lá sveitt heima með ælu í hárinu, æðislega sexí, og missti af langþráðum saumaklúbbi sem átti að koma mér aðeins úr hversdeginum.

Hversdagstilfinningin já.
Hún fylgir kannski myrkrinu og kuldanum? Kannski maður sé að skríða í skel eins og mörg dýr gera þegar kólnar. Kannski ég sé bara þannig padda. Nei, ekki misskilja, ég er í sæmilegu stuði svona eins og mér almennt er lagið en ég þori bara að segja það upphátt að stundum er hversdagurinn bara hundleiðinlegur. Venjulegt verður bara of venjulegt og vanabundið fyrir mig. Ég þarf að gera eitthvað í þessu! Ég reyndi meðvitað að koma mér úr þessari tilfinningu í dag þegar ég ákvað að elda eitthvað óvenjulegt í kvöldmatinn. Mér fannst ég taka frábæra ákvörðun úti í Nóatúni þegar ég setti stolt dós af ORA fiskibollum ofan í körfuna. Ég hringdi spennt í mömmu til að fá "uppskrift" að bleikri sósu og fann smá spennandi tilfinningu blossa upp. Alltaf gaman að upplifa eitthvað nýtt, en þetta hef ég aldrei "eldað" áður. Og það tekur bara 5 mínútur og er ógislega flott á litin! Ég gerði sósuna eins skærbleika og ég gat! Ef það þarf ekki meira en bollur í bleikri til að gleðja mig þá getur þetta hversdagssyndrome varla verið svo alvarlegt.

Reyndar neituðu báðir hinir fjölskyldumeðlimirnir að borða matinn en ég át hann með beztu lyzt og líka með bros á vör og sé sko ekki eftir þessari frábæru hversdagslegu tilbreytingu í hversdagsleikann minn.
Go ORA.

mánudagur, október 30, 2006

Frænkufans 

Úlfhildur Unnarsdóttir litla frænka okkar er tæpu ári yngri en Vera. Hún er fyndin týpa, mjög auðvelt barn á allan hátt, skítsama týpan, tekur engu of alvarlega, kvartar varla og dýrkar stóru frænku sína. Úlla kom í heimsókn um daginn og Vera passaði hana í smá tíma úti á róló. Vera tók hlutverki sínu sem stóra frænka mjög alvarlega og minnti mig oft á það að hún væri stóra frænka. Hún fann til mikillar ábyrgðar og leiddi Úlfhildi litlu frænku og passaði allan tímann. Þær eru alveg að fara að geta leikið vel saman, svo sætar og æðislegar, þótt ólíkar týpur séu.
Rólóferð sunnudagsins er hér í myndum og ekki kalla á barnaverndarnefnd strax því myrku myndirnar eru teknar klukkan aðeins nákvæmlega 17:37. Það er kominn V E T U R !


Ulla og Vera


Throngt megar sattar sitja


Roli roli roli


Saman a hestbaki


Rambi rambi rambi


veeeeeiiii


viiii


Kisu klappad af kappi


Rolad a maganum


Vera ad passa Ullu


Mokad af modi uti i gardi


Vera stora fraenka passar Ulu litlu fraenku vel i kerrunni

sunnudagur, október 29, 2006

Persónuleikinn ég 

Loksins er búið að greina persónuleikann mig. Ég er ekki alveg eins frek og fljúgandi og ég virðist vera. Ég er ekki skitsó og ég er ekki sjúk. Smá skrýtin kannski en að sjálfsögðu aðallega frábær, æðisleg og meiriháttar. Á mínum forsendum!

Ég tók merkilegt persónuleikapróf um daginn sem kallast Myers-Briggs en það mælir og metur hvernig við kjósum að beina athygli okkar, hegðun og hugsun. Það mælir EKKI hvernig við hegðum okkur heldur hvernig við myndum helst vilja hafa okkur í frjálsu umhverfi. En hei, hvenær er maður svo sem í algerlega frjálsu umhverfi? I wish.

Ég komst að því að ég er ENFP.
Fyrir áhugasama þá stendur ENFP fyrir Úthverft innsæi ásamt tilfinningu:
Extrovertion: (Ytra). Breiðara áhugasvið. Viðkomandi fær kraft og orku frá umhverfinu með því að taka þátt, gera og með því að vera í samskiptum við umhverfið og aðra. Þeir sem eru úthverfir beina athygli sinni helst að fólki og fyrirbærum í ytra umhverfi. Úhverft fólk sækir orku í atburði umheimsins og hneigist til að beina eigin orku þangað. Þeir kjósa oft að tjá sig í ræðu heldur en riti. Það hefur þörf fyrir að upplifa heiminn til að skilja hann og kjósa því athafnir og tilbreytingu. Andstæðan við Extrovertion er þá Introvertion (einbeitt áhugasvið).

Ég mótmæli ekki að þetta ER ég. Langar oft upplifa atburði og annað á sem ítrastan hátt. Sjúga í mig fólk og hugmyndir. Enda fékk ég hátt skor í þessari vídd. Ef ég væri alveg frjáls þá myndi ég pottþétt éta heiminn. Samt í mörgum litlum misjafnlega löguðum bitum og smjatta vel á milli.


Intuition (innsæi - óáþreifanlegra/falið/ópraktískt).
Athyglin beinist að mynstri og tengslum á milli staðreynda, frekar en staðreyndunum sjálfum. Meiri áhugi fyrir því sem gæti verið heldur en því sem er, hugmyndum, samhengi og möguleikum. Fólk sem treystir á innsæið sér heildarmyndina og reynir að koma auga á víðara samhengi hluta. Það leggur mikið upp úr hugmyndaflugi og innblæstri. Andstæðan við Intuition er Sensing (skynjun - praktístk og raunverulegt).

Er þetta ekki fiðrildið ég? Langar mest að fljúga og ferðast um eftir veðri og vindum. Samt verð ég að vita og passa að liturinn á vængjunum dofni ekki á leiðinni og alls ekki að ég blotni of mikið ef það er rigning. Svo þar kemur kannski praktíkin mín inn í. En það er rétt, sé heildarmyndina og lokatakmarkið án þess að missa mig í smáatriðum hvernig ég geri það. Ég bara geri það. Oft einhvern veginn...úps.

Feeling (tilfinning - heitt).
Kýs að taka ákvarðanir með því að setja sig vel inn í aðstæður. Við töku ákvarðana veltir hann fyrir sér hvaða áhrif ákvörðunin hefur á hann sjálfan og aðra. Leitar eftir samræmi með því að meta mismunandi gildismat þeirra sem eiga í hlut. Þeir sem eru tilfinningaríkir hafa gaman af því að vera innan um annað fólk og verða oft skilningsríkir, háttvísir og eftirtektarsamir gagnvart öðrum. Þeir leggja áherslu á samstarfsanda og vinna sjálfir að því að skapa hann. Andstæðan við Feeling er þá Thinking (hugsun - kalt - rétt/rangt - staðfastar reglur).

Já, það þarf enginn að segja mér að Erla perla sé people person. Aðrir skipta mig miklu máli og ég finn oft þörf fyrir að poppa upp stuðið (tja, eða "samstarfsandann" í hvers kyns hópum sem ég er hluti af. Eins er sanngirni er skrifað á ennið á mér með rauðu.

Perceiving (opin - "kreistarar" (tannkremstúpan!).
Kýs að vera opin fyrir nýjum möguleikum og upplýsingum. Kýs að lifa lífinu á sveigjanlegan hátt og finnst gaman að taka ávarðanir með stuttum fyrirvara. Finnst áætlanir skipta minna máli og kýs að gera það sem er mikilvægt þá stundina. Þeir vilja frekar öðlast skilning á lífinu en hafa stjórn á því. Þeir kjósa að vera opnir gagnvart nýrri reynslu því þeir njóta og treysta á hæfni sína til að aðlagast nýjum aðstæðum. Andstæðan er þá Judging (lokað - "rúllarar" (tannkremstúpan aftur!).

Þetta er skvettan ég. Slash! Hvatvísa Erla perla sem talar áður en hún hugsar. Stelpan sem elskar óvæntar uppákomur og nýja reynslu og leiðir og gerir oft alltof mikið til að reyna að skapa sér þær aðstæður. Mig langar kannski helst að rúlla tannkremstúpunni og byrja kannski á því en... svo er hún bara öll útötuð í tannkremi og krumpuð, og það er fínt.

Þessi lýsing hér að ofan er í raun ekki lýsing á mér heldur þeim eiginleikum sem hver vídd hefur að geyma. Svo fékk maður misjafnlega hátt skor í hverri vídd og svona, en þetta er meginniðurstaðan. Þetta eru eðlislægir eiginleikar mínir sem láta mér líða eðlilega og vel, gefa mér sjálfsöryggi og orku.
Sjúff, er búin að vera í bullandi sjálfsskoðun! Skil ruglið í mér svo mikið betur og vonandi þið líka!

Frekari niðurstaða um hver ég aksjúlí er, er eftirfarandi lýsing á ENFP týpunni mér sem prófið segir:
Hlýlegur og áhugasamur, kátur, snjall og hugmyndaríkur. Nýjungagjarnir og fjölhæfir einstaklingar. Getur gert næstum hvað sem hann hefur áhuga á. Fljótur að finna lausn á hverju vandamáli og reiðubúinn að hjálpa hverjum sem er með vandamál sitt. Treystir oft á hæfni sína til að leika af fingrum fram í stað þess að undirbúa sig. Getur yfirleitt stutt óskir sínar með góðum og gildum rökum. Hefur mikið innsæi og ómælt þrek til þess að athuga nýjar aðferðir og möguleika

Já, takk!
Hvað þetta svo gagnast mér og hefur áhrif á líf mitt á eftir að koma í ljós. Það var hins vegar niðurstaða út af fyrir sig að deildin sem ég vinn í er ágætlega samsett og við skiljum hugsanlega hvort annað betur heldur en áður. Að þótt markaðsstjórinn sé að springa úr áhugasemi og baðandi höndunum á fundum og hönnuðurinn hljóður og eins og hann diggi mann ekki ... þá er það ekki endilega svo skrýtið eða slæmt. Eða þá þegar ég tala of mikið og flýg aðeins af stað án þess að rýni í smáatriðin. Hei, svona erum við bara.

Og þá vitið þið það og ég veit að þið takið ómælt tillit til mín næst þegar eitthvað eitthvað eitthvað truflar ykkur við mig... Þetta próf stuðlar að afstæði og fordómaleysi. Og smá egóbústi hehe.

Kveðja,
Erla
- Nokkuð Flott Perla.

laugardagur, október 28, 2006

Vera 2,3 

Vera varð 2,3 ára þann 25. og er auðvitað allt önnur og eldri Vera en fyrir mánuði síðan. Því er óneitanlega kominn tími til að fara yfir helstu afrek og áhugamál.

Vera er engill.
Hún er samt með skap og er þrjósk og allt það svona eins og tveggja ára börn eiga að vera. Í brjálaðri sjálfstæðisbaráttu. Ef Vera neitar eða er með stæla, þrjósku eða læti þá skamma ég hana og reyni auðvitað að fá hana með mjúkum leiðum til að haga sér (hvað sem það nú þýðir). Vera hefur þróað mjög skemmtilega leið til að höndla þrjóskuna í sér. Eftir að mamman er búin að segja henni að "látiggisona" þá líður smá tími þar til mín segir með sætan grettulegan prakkarasvip í andlitinu: "Ég var bara að grínast!" Og allt fallið í ljúfa löð eftir það. Aha, hún var bara að grínast. Ahbú. Sem er auðvitað frábært. Stundum spyr ég hana hvort hún sé ekki bara að grínast og þá lætur hún strax af stælunum og segir: "Júuuuuuú mamma, Vera bara grínast!" Alveg sætt, og flott leið hjá minni!

Eitt aðaláhugamál Veru í dag er að lesa bækur. Hún les mikið sjálf ásamt því sem við foreldrarnir grípum af og til í bók fyrir hana. Auðvitað er alltaf lesið fyrir svefninn. Disney bækur eru almennt í uppáhaldi núna. Frílsi og Gúri og félagar. Þið þekkið þetta. Agalegt stuð. Uppáhaldsbókin fyrir svefninn er hins vegar án efa Vísnabókin. Vera elskar að syngja og er sísyngjandi hin og þessi lögin og við syngjum mikið saman. Í Vísnabókinni þekkir hún hvaða lög eiga við hvaða myndir. Það á að syngja ALLA bókina og getur það tekið dágóða stund fyrir háttinn. Ef mamman nennir ekki að syngja þá syngur hún bara sjálf. Kann orðið eiginlega öll lögin í bókinni og nokkur í viðbót sem hún lærir á Hjalla og reynir að kenna mér. Eitt lag söng hún til dæmis í dag sem fjallaði um að eiga tungu og tvö lungu og eitthvað meira sem ég reyndar skildi ekki, og reyndi hún mikið til að fá mig til að læra lagið. Það tókst ekki. Ég þarf að kaupa Hjallageisladiskinn með öllum Hjallalögunum, þetta gengur náttúrulega ekki, daman er upprennandi stórsöngkona! Það á reyndar eftir að koma betur í ljós hvort hún haldi lagi eða ekki en stórsöngkona er hún í dag eigi að síður.

Ef ég ætti að nefna uppáhaldslag núna þá er það kannski einna helst Gamli Nói, af því hann er alveg sérstaklega fyndinn þegar hann er að strumpa strump (duppa dupp), kyssa frú sem hann lætur pissa og renna og láta bossann brenna. Þegar hún syngur þessi lög grípur mín fyrir munninn í bakföllum af hlátri og segir "Ég trúi því ekki!" Vera syngur einhvern sjálfsaminn FH söng einnig mikið. Er raulandi fyrir munni sér í tíma og ótíma: "eeeeefffffff háááááá" og við foreldrarnir vitum ekkert hvar hún lærði þetta því víst er að fh-ingurinn pabbinn syngur ekki og mamman ekki mikið að fylgjast með fótbolta. Leikskólinn?!
Reyndar fór Vera á 2 FH leiki í sumar en varla náði hún þessu þar. Hún er augljóslega bara sannur FH-ingur. Þegar pabbinn er að horfa á enska eða kínverska boltann þá spyr Vera alltaf frekar áhugasöm: "FH?" - og horfir jafnvel á fótbolta í dágóðan tíma með pabba sínum. Enda með mikinn áhuga á sjónvarpi og hvers kyns sjónvarpsefni eins og ég hef áður getið um.

Veru finnst gaman að ryksuga og á orðið sína eigin ryksugu. Eftir að hafa farið í heimsókn til lítils vinar sem átti ryksugu og ryksugað þar gólf og veggi í nokkra klukkutíma var að sjálfsögðu keypt dótaryksuga á heimilið. Hún ryksugar í alvörunni og það fylgdi sko drulla með og allt. Litlar hvítar kúlur út um allt... En mín er ötul við að ryksuga sem er ábyggilega bara jákvætt :S Eins hugsar hún enn mikið um dúkkurnar sínar og dettur mikið í það að setja alls konar dót í þær mörgu alls kyns töskur sem hún á. Já, hún er dundari af bestu gerð. Af og til heyrist þó: "Mamma, hjáppa mér að leika"... og ef ég segist ekki nenna því þá leikur hún bara sjálf :)

Vera fór í fyrsta sinn í bíó um síðustu helgi. Við fjölskyldan fórum að sjá Disney myndina Óbyggðirnar. Vera sat stjörf allan tímann, alveg kyrr og rétt náði að setja eitt og eitt poppkort upp í sig og taka nokkra sopa af svala, hún var svo einbeitt að horfa. Af og til heyrðist í henni upphátt: "Pabb´ans leita að Rabba", "Græni kassinn er þaaaaaarrrna"!! (Rabbi var sko í græna kassanum). Já, hún lifði sig inn í myndina og er enn að tala um bíóið. Svo á hún bókina og rifjar því bíóferðina reglulega upp þegar hún les hana. Næst á dagskrá er svo að fara í leikhús með dömuna. Veit að hún á eftir að elska það.

Vera talar mikið og vel og auðvitað er margt fyndið sem dettur upp úr henni. Það sem ég man í fljótu er t.d.

- Vera talar mikið um vini og vinkonur. Greinilega eitthvað sem verið er að æfa eða ræða um á leikskólanum. Ef einhver er að koma í heimsókn eða það er verið að tala um einhvern þá segir Vera: "Hún vinkona mín. Líka mömmu og líka pabba". Allir vinkonur!" Svo segir hún oft: "Mamma vinkona mín. Pabbi vinur minn. Vera vinkona mömmu. Vera vinkona pabba. Allir vinkonur!"

- Vera virðist hafa fengið alla vega hluta af forvitnisgeninu móður sinnar. Þegar síminn hringir segir mín undantekningarlaust: "Hver var þetta?" Mamman: "Þetta var Sigga." Vera: "Jaaaá, Sigga vinkona mín". Hehe.

- á morgnanna þegar Vera vaknar og það er að birta til segir Vera: Sólin er að vakna (aaahhhh alveg krúttlegt). Núna þegar það er ennþá dimmt þegar við förum út á morgnanna spurði Vera um daginn mjög hissa hvort sólin ætlaði ekki að vakna...

- Vera er athugul á veðrið og segir mér iðulega þegar það er rigning úti eða mikið rok. Svo þegar það fer að dimma seinnipartinn segir hún hissa á innsoginu: "Koma nóttin". Þetta er alveg daglegt brauð. Veðurfarið og birtuskil er henni greinilega hugleikið.

- Vera er voða ljúf og kurteis og segir oft á dag: "Oooó, fyjigefu mamma mín", ef henni finnst hún hafa gert eitthvað á minn hlut, hvort sem er að óhlýðnast eða snerta mig aðeins of harkalega. Eins segir hún þetta ef hún ruglast, hvort sem er á orðum eða ef ég leiðrétti hana á einhvern hátt. Ji, þetta er svo sætt.

- Ég keypti nýjar nærbuxur á hana um daginn og sagði henni frá því. Var að fara að sýna henni þær þegar mín segir svaka spennt: "Vá, Vera fá spædimann nærbuxur"! ...neeei, ekki alveg, það var bara lítil stjarna á þeim. Mín var alveg sátt en greinilega aðeins að smitast af spædermannsýkinni í Úlfi vini okkar, sem er með hana á háu stigi.

- talandi um föt þá á Vera "töffa(ra)buxur" sem eru gallabuxur. Eitt sinn þegar hún var komin í töffarabuxurnar sínar sagði hún: "Mamma, Vera kúl" - hmmmm...!

- Vera telur mikið upp vini sína og vinkonur með nafni, stúlkurnar á Hjalla og svo Auðun Gauta og Úlf. Úlfur og Auðun Gauti eru í íþróttaskólanum og eftir það er mikið talað um þá. Einnig talar hún um Skarpa frænda oft upp úr þurru og segir þá iðulega: "Mamma, Skarpi sætur" hehe. Jú, jú, hann er auðvitað extra sætur svona langt í burtu :)

- Vera sagði mér um daginn að stór börn nota bara duddu þegar þau fara að sofa. Litlu börnin nota bara duddu því ef maður tekur hana þá fara þau að gráta. Mikil speki á bakvið þetta hjá minni og eitthvað verið að spá í hver er stór og hver er lítill ásamt því hver er með duddu og hver ekki. Sjálf notar Vera dudduna bara þegar hún leggur sig, á daginn og á kvöldin. Hefur alltaf minni og minni þörf fyrir hana. Ætla meira að segja að prófa á næstunni að athuga hvort hún fatti að hún sé ekki með snuð þegar hún fer að sofa. Maður má vera bjartsýn!

-Vera elskar að láta kítla sig og ærslast í sér og það gerum við oft og iðulega. Mín er svolítið fyrir að stjórna leikjunum samt og ákveður harðri hendi hver á að kítla hvern næst og hvar og hvort það sé kítla eða puðra núna og hvar og allt það. Alls ekki sama hvernig þetta er gert sko. "Núna, mamma - purra mallann, - neeeeii, ekki tásluna, mallann!"

- Einn skemmtilegur "leikur" sem Veru finnst gaman að fara í og stingur oft upp á að við leikum (og sem ég reyndar neita oft að fara í og skil ekki hvernig varð til) er: "Mamma, rífast! - Vera segja já og mamma nei" eða "Vera segja nei og mamma víst"... ætli maður hafi ekki mótmælt henni oft og hún lært þetta af því, en henni finnst þetta voða gaman. Gaman að óhlýðnast hehe. Foreldrarnir reyna alla vega að rífast ekki fyrir framan dömuna!

Og þetta var helst í fréttum um Veru 2,3 ára.
Hún er algjört æði.


Vera Viglunds 2,3 ara gjoridi svo vel - jeminn hun er svo mikil snulla - og ordin eitthvad svo fullordinsleg litla barnid mitt...


Uti a verond eftir helgarblund


Mamman Vera - buid ad breida vel ofan a barnid


Vera mundar ryksuguna sina


Thetta er thad skemmtilegasta vid badferdina


Nyvoknud og sael a settinu!

þriðjudagur, október 24, 2006

Brjóstgóða ég 

Ég var sérstaklega brjóstgóð í dag. Alveg aðeins meira en venjulega og hefst þá kjánasaga dagsins!

Hádegishléið mitt fer í ræktina þessa dagana. Ég er óskiljanlega dugleg og er að fíla það (og mig!) ferlega vel. Allt er þrítugum þrusufært. Ég hef reyndar verið viðloðandi ræktina síðan í menntaskóla en misjafnlega mikið og vel eins og gefur að skilja. Eitt sinn lagði ég það á mig að taka strætó á hverjum degi eftir skóladaginn í menntó, í snjó og slabbi með bæði níðþunga skólatösku og íþróttatöskuna. Ég naut strætóferðarinnar því ég hef gaman að skrýtnu fólki. Það stytti mér iðulega ferðina með skringilegu skrafi. Svo var ég tvo tíma að taka á því, lyfta eins og vitleysingur og jafnvel fara í pallatíma á eftir. Svo labbaði ég í matvörubúðina á eftir og verslaði. Rogaðist þá með þreyttan kroppinn, skóladótið, íþróttadótið og þunga pokana aftur í stræó heim. Og eldaði falskan héra eða steiktan fisk. Svona líka þvílíkt heimilisleg strax á ungaárum! Að nenna þessu! En ég legg nú líka ýmislegt á mig í dag til að geta mætt. Bóka t.d. enga fundi nálægt hádeginu, keyri í hvaða veðri sem er í 3 mínútur og svoleiðis erfið athæfi, úff.

Á sínum tíma valdi ég mér stærstu líkamsræktarstöðina til að æfa í og hef haldið tryggð við hana. Ástæðan er einföld. Þótt ég sé athyglissjúk með öllu og æðislegur kroppur þá finnst mér gott að falla inn í hópinn. Týnast inni á milli gamlingjanna í ellileikfiminni, fitubollanna hans Gauja litla, unglinganna í jazzballettinum og fegurðarkroppadrottninganna og kónganna í kjötkeppnum Íslands. Ekki það að rauðhausinn ég sjáist ekki úr fjarlægð en það eru samt svo margir jafn flottir og ég svo ég kemst upp með alls konar hluti sem ég myndi án efa ekki gera annars staðar. Man reyndar núna að ég prófaði eitt sinn löngu áður en ég byrjaði að æfa í Laugum að fara í litla stöð sem þá var staðsett í Skeifunni. Þar var maður til dæmis að lyfta eða taka sporin með íþróttaálfi nútímans og ókunnugir naglar farnir að hvetja mann áfram: Koma svo stelpa!, Þú getur þetta! Taka á því! Hjálpa manni í bekknum og glápandi grimmum augum á hvað maður hljóp hægt á brettinu. Þá finnst Erlu perlu athyglissjúku þó betra að vera prívat með sína pínu.

Í dag lenti ég nefninlega í pínlegu athæfi í ræktinni sem ég er ekki einu sinni viss um að fjölmennið hafi náð að kovera fyrir mig. Ég er nokkuð viss um að allamargir hlauparar hafi tekið eftir þessu, þótt enginn hafi verið að segja mér frá því, nei, nei! Ég segi bara thank god að enginn sætur sem ég þekki hafi ákveðið að heilsa á þessu mómenti. Það er nefninlega alls ekki nógu kúl að segja fólki þegar buxnaklaufin er opin eða þegar það er óafvitandi með hor út á kinn. En mín er sem sagt í gírnum, í spandexhlaupagallanum og til í slaginn. Spandexhlaupagalli dagsins samanstóð af þröhöngum buxum eins og vanalega og svo gömlum nike topp að ofan sem er einn af fyrsta íþróttadótinu sem ég eignaðist. Sem sagt margra ára gamall. Hann passar ágætlega ennþá og ég var að enduruppgötva gripinn. Hann er hjálfrenndur að framan alveg upp í háls. Hins vegar er hann óþægilega þröngur í hálsmálinu svo ég renndi ekki alla leið upp. Nei, nei, það var engin brjóstaskora eða þannig sem sást (enda slíkt bara til í mínum draumum!) heldur bara smá bringa. Ég var barasta hæstánægð með hvað ég var flott hott í þessu outfitti.

Og svo byrjaði ég að hlaupa. Og hljóp og hljóp allar mínúturnar, ekkert mál. Hlustaði á Justin og ímyndaði mér að ég væri jafnsexí og hann. En svo finn ég þegar ég er alveg að ljúka við hádegismaraþonið mitt hvað það gustar óþægilega mikið og vel um bringuna á mér í gegnum svitann og mér verður litið niður. Datt næstum því sjónina sem blasti við mér því rennilásinn á gömla nýja nikebolnum hafði ákveðið að rennast niður, bara alveg sjálfur, og hann nær sko hálfpartinn niður á maga. Þarna var ég sem sagt á fleygiferð hálfber með brjóstin beint út í loftið. Og tútturnar auðvitað alveg í takt við allt hitt. Á fleygiferð. Jú lítil brjóst hreyfast líka í takt, það sannaðist þarna. Skil ekki enn af hverju ég datt ekki. Ég var sem sagt ekki í íþróttatopp heldur bara í venjulegum brjóstahaldara, soldið ljótum meira að segja enda ætlaður einungis í ræktina, og hann blasti bara við öllum hinum kúl duglegu hlaupurunum. Æiiiii... Mér tókst að stoppa og renna upp, leit náttúrulega vandræðalega í kringum mig hálfhlæjandi skælandi vælandi vandræðaleg. Þið þekkið þetta. Svona eins og þegar maður dettur í stiga á fjölförnum stað og meiðir sig svakalega en fer að hlæja af píningi. Þetta var þannig píningur í dag. Reyndar hef ég alveg séð fólk þarna detta og brenna sig á bretti, flækja sig all verulega í snúrunni á heyrnartólunum sínum og prumpa í bekk... en ég og brjóstin á mér áttum þetta samt ekki skilið! Við erum svo duglegar!

En mín hélt kúlinu. Bara af því að ég er svo kjúl. Kláraði dæmið. Tók magaæfingarnar með rennt upp í háls, alveg að kafna, teygði stuttlega úti í horni og fór svo í gufu þar sem ég gat roðnað í friði.
Það verða allir búnir að gleyma þessu á morgun þegar ég mæti aftur. Þótt ég mæti nú aldrei aftur í þessum blessaða bol.
Og þökk sé risastórustöðinni minni með milljón öðrum brjóstum til að horfa á og hlæja að.
Hí á þau!

mánudagur, október 23, 2006

Ég á mánudegi 

Sumar helgar eru bara meira næs en aðrar. Af mörgum ástæðum.
Ég get til dæmis sagt ykkur að ég vann úti á landi og lærði ýmislegt sem ég ekki vissi áður, sá norðurljósin dansa í ljósastauralausri sveitinni, hitti æðislega vini, tók nokkur vel (eða frekar kannski illa!) valin dansspor og fór bæði í 3 ára og 25 ára afmæli. Þvílíkt stuð í báðum! Aðeins meira samt hjá Ubba "litla" FOX...sushi og ekta systkinastuð. Og auðvitað singstar þegar allir eru farnir!

Það er fátt sem getur bjargað mánudögunum mínum eftir erfiða (=skemmtilega) helgi. Vekjaraklukkan er aldrei eins óvinsæl - snooze. Aftur snooze og aaaaðeins meira snooze. ÞEGIÐU! Morgnarnir eru aldrei eins myrkir og birtan frá náttborðslampanum aldrei eins skær og skerandi. SLÖKKTU! Umferðin er aldrei eins úrill og þolinmæðin aldrei eins þreklítil. ÁFRAM! Svo eru vinnufélagarnir flestir í sama gír og ég; með ekta mánudagsmooooooooood. Eins er ræktin aldrei eins erfið og á mánudögum, úff. Mínúturnar voru mun lengri að líða á hlaupabrettinu í dag heldur en oft áður. Líkaminn er að afeitrast og hegna mér um leið...hiti sviti. TÁR! Lítur út eins og maður sé alveg að springa á limminu, sem ég viðurkenni að ég var að gera. Eins gott að ég hitti enga sæta stráka þarna sem þekkja mig. Hádegistekknóið mitt getur ekki einu sinni bjargað mér á mánudögum.

En ég þrjóskast við á mánudögunum, leyfi þeim ekki að ná mér. Mánudagar pánudagar. Mánudagar pánudagar spmánudagar.
Er í of mikilli sæluvímu eftir flotta helgina.


Thad donsudu fleiri en eg


Unni 25 i afmaelisgir


Þetta er kjáninn ég um helgar. Einmitt - dansspor - sagði ég það ekki?!

fimmtudagur, október 19, 2006

Myndarlegt 

Smá augnakonfekt gjörið svo vel!

Kv,
Erla myndarlega


Thessi mynd faer ad sjalfsogdu ad vera fyrst - o je


Daman s.s. er alveg ad fylla ut i rumid sitt...


Vera for i afmaeli til Olafs Floka 2 ara vinar okkar og var ansi hrifin af strakadotinu!


Thetta er nyjasta skemmtunin


Vera ponnukaka


Vera er ordin spennusjuk og vill setja thaer sjalf i harid..


Bjork Davids og Vera


Vera laerir hokki


Vera og Ulfur i ithrottaskolanum, her synir hun okkur ithrottanammi/gurku sem er algjorlega naudsynlegt eftir atokin


Vera buin ad breida yfir dyrin, enda komin nott

miðvikudagur, október 18, 2006

Íþróttastelpan ég 

Ég er íþróttastelpa.
Kannski ekki eins áköf og í gamla daga og heldur alls ekki eins góð. Og hvað þá eins flott. En hei, ég er bara sæmilega sæt sveitt í spandexhlaupagallanum og miðað við mig í dag þá er ég alveg ágæt bara. Þokkalega ánægð miðað við að hafa lítinn tíma, hafa æ minni áhuga á líkamsræktarstöðvum per se og að ég sé árangurinn sjaldnast í kílóafjölda. Reyndar er eitt farið en mér sýnist ég ekki sjá það á rassinum þar sem ég vildi helst heldur frekar á æ minnkandi brjóstmáli og spurning hvað það má missa mörg kíló (eða kannski frekar grömm!) þar.

En í dag var íþróttastelpan ég í stuði.
Það voru bæði átök og árangur. Og gaman líka. Ég setti persónulegt met í hlaupabrettahlaupi, en það er sérstök íþróttagrein sem ég stunda nokkrum sinnum í viku. Ég sem gat aldrei hlaupið, enda með alltof langa skanka sem ég réði illa við - nema kannski í sundlauginni á sínum tíma. Að hlaupa á hlaupabretti er það helsta sem ég geri svona þær mínútur sem ég eyði í ræktinni. Og svo smá magi og teygjur. Brjáluðu tímarnir hennar Dísu eru í hvíld hjá mér, en ég fæ svoldið illt í bakið af öllu þessu pallabrölti. Og núna vil ég sem sagt tilkynna það fyrir áhugasömum að í dag hljóp ég þrjá og hálfan kílómeter á innan við 20 mínútum sem gerir hvorki meira né minna en hraða upp á 11 kílómetra á klukkustund. Og þetta er algjört persónulegt met á hlaupabrettinu - og ég þakka hrósin. Ég skal ekki fullyrða um hvað ég gæti á malbiki úti í kulda og roki enda er það kannski ekki markmiðið (hmmm hvert er annars markmiðið?!) en ég finn að þetta er allt að koma. Ég var í hlaupastuði og teknótónlistin sem ég var með í eyrunum var allt í einu uppáhaldstónlistin mín. Gaf mér kraft og ég bara hljóp eins og vitleysingur. Miðað við mig sko ;)

Svo var komið að enn meira gamani. Eins og veðrið er búið að vera undanfarið þá var bara ekki hægt að sleppa því að skella sér í smá hjólatúr eftir vinnu í dag. Ég náði að leika mér í um klukkustund sem jafngildir nokkrum góðum hringjum í Sólbrekkubrautinni. Það er einbeiting, átak og skemmtun allt í senn. Það voru nokkrir hálf frosnir pollar í brautinni sem mér fannst skemmtilegast að tæta í gegnum. Ég varð hundblaut því ég kann víst ekki ennþá að prjóna í gegnum pollana eins og "á að gera" hehe. Efast nú reyndar um að ég prjóni nokkurn tímann á þessu hjóli eða öðru. Ég næ ekki að verða alveg hauslaus á þessu. Hef aldrei dottið (sem er víst soldið glatað í motocross :S) og fer enn löturhægt í beygjurnar þrátt fyrir að geta gefið vel í inn á milli. Ég er farin að lyfta báðum dekkjum upp af nokkrum pöllunum og fara létt yfir úpsurnar. Svo fæ ég kikk út úr því að reisa við einhvern þótt hann sé miklu betri en ég. Elta hann og keppast við hraðann. Keppnismanneskjan ég fæ sem sagt aðeins meiri útrás í brautinni heldur en á brettinu þótt ég efist um að ég eigi nokkurn tímann eftir að keppa i motocross. Eins og Vigginn ætlar að gera í fyrsta sinn á laugardaginn kemur, gúbb.

þriðjudagur, október 17, 2006

D&G og Gorbi 

Gleymdi að bókfæra það að ég sá bæði gulllitaðan D&G gsm síma og Gorbachev á sama degi fyrir helgi. Það hljóta allir að sjá að þetta er auðvitað mjög merkilegt. Hef hvorugt séð áður og mun jafnvel aldrei sjá aftur. Gorbachev var eldgamall og alls ekkert líkur þeim myndum sem notaðar eru enn í dag, af honum ungum og einbeittum með fingurinn á lofti segjandi eitthvað merkilegt. Síminn hins vegar var allt það sem ég vænti af D&G og ábyggilega draumaaukahlutur flestra kvenna þótt ég skilji ekki hverjir hafa efni eða áhuga á að eyða í það.

sunnudagur, október 15, 2006

Þriggja ára 

Ég vil byrja á því að þakka velunnurum síðunnar fyrir ötulan lestur og skemmtileg komment svona rétt áður en ég óska síðunni til hamingju með þriggja ára afmælið. Takk, takk. Ef ég gat blaðrað allt þetta á þremur árum þá hlýt ég að ná alla vega þremur til viðbótar. Þetta er blogg nr. 1081. Hversu merkilegt eða skemmtilegt blaðrið verður skal ég þó ekki fjölyrða mikið um.

Glöggir lesendur fatta vonandi að margt sem hér á þessari síðu fer fram er ýktur raunveruleiki og Erla perla að leika sér á lyklaborðinu frekar en segja heilagan sannleikann from the bottom of the heart. Til dæmis fannst mér gærkvöldið í raun yndislegt svona í bland við alls konar öðruvísi kósí tilfinningar sem poppa upp þegar maður er einn heima á laugardagskvöldi, ég ein með sjálfri mér og í rólegheitunum. Ok, oft er ég er náttúrulega alveg aaaalgjör og allt það og ég lýg engu til, no no, en smá krydd í tilveruna og poppöpp á sannleikann er alveg leyfilegur hér. Hvernig sem þetta hljómar þá er ég samt sæmilega hreinskilin en kannski fyrst og fremst að létta sjálfri mér lundina með skrifunum og kannski segja og ræða um hluti sem maður gerir ekki alla jafna í venjubundnum samtölum við samferðafólk sitt. Ég er líka feimin inn við beinið í ákveðnum aðstæðum sko!

Ég er ekki frá því að þessi Kæra dagbók sé á við nokkra sálfræðitíma í mánuði og að ég tali eitthvað minna fyrir vikið, blörra þessu bara út hér á síðum netsins. Verið fegin hehe!

Kæru vinir
ég elska ykkur (hef ég til dæmis sagt þetta þannig að þið "heyrið" það frá mér??? En þetta er samt það sem mig langar að segja og er alveg dagsatt :) )

Kv,
Erla perla þriggja ára.

Ég og Nýherjarnir 

Þó svo að ég hafi verið einmanna húsmóðir undir teppi í gærkvöldi þá var ég það alls ekki á föstudagskvöldið. Ég fór í fyrsta partýið með markaðsdeildarfólkinu mínu sem var þessi þvílíkt listalega matreiddi matur a la markaðsstýran yndislega. Makarnir fylgdu með og þetta rann eins og vel smurð vél. Eins og allir hefðu hist áður. Alla vega var allt í einu komin keppni í því að segja vandræðalegar sögur af sjálfum sér (sem mér finnst aaalls ekkert leiðinlegt, á þó nokkrar til...!) og allir grenjandi úr hlátri. Fyrr en varði var svo búið að taka upp gítarinn og útilegu stemmning komin í hópinn í miðjum Fossvoginum. Ég man að ég tók alla vega Tvær úr tungunum en ekki spyrja mig út í það lagaval. Ég komst að því að fólkið og makarnir vissu margt um mig og mína þar sem þeir vissu af þessari síðu...frændi eins þekkti konu mágs vinar frænku minnar...þið vitið hvernig litla Ísland er. Ég fékk smá sting í magann og vona að þeir kynnist svo bara minni innri konu einnig með tímanum til að skilja samhengið (Les = ég er ekki svona kex...!).

Svo þessi helgi var þvert á móti djammlaus. Erum nú á leið á annað djamm, 2 ára afmæli og skírn hjá sama fólkinu. Dugnaðurinn þar jesús minn. Það verður held ég frekar að ég fermi um leið og ég skíri næst...

laugardagur, október 14, 2006

Laugardagskvöldið mitt 

Hver hefði trúað því að ÉG hafi rétt í þessu verið að koma heim úr IKEA?! Það er laugardagskvöld og ég var í IKEA. I fyrir illilega K fyrir klikkaða E fyrir Erla og A fyrir Areyououtofyourfuckingmind?! Skemmtilegt eða sorglegt? Fer eftir aðstæðum býst ég við. Ikea var jú að opna nýja risaverslun rétt hjá heimili mínu og ekkert annað betra í boði á þessu laugardagskvöldi. Það bauð mér enginn í mat og hvað þá partý svo ég fór í IKEA á laugardagskvöldi, keypti bráðnauðsynlegan jólapappír í október, borðaði sænskar kjötbollur með brúnni sósu og títuberjasultu í kvöldmat fyrir 490 krónur og keyrði svo heim á mínum Volvo.

Núna ligg ég svo alein uppi í sófa á meðan Viggi er úti að drekka bjór. Ég er með kókópuffs í stað hvítvíns og spjalla við aðra einmanna húsmóður á msn. Ég er svo í þann mund að fara að horfa á sjálfa mig (eða er það Juliette Moore?) í Laws of Attraction, mynd sem ég hef séð nokkrum sinnum en er alltaf gaman að horfa á af og til. Flott leikkona sem leikur heillandi rauðhærðan metnaðarfullan lögfræðing sem lendir í spennandi og flóknu ástarævintýri með hot gæja... svona draumur hverrar gellu sem liggur gjörsamlega afgelluð ein undir teppi á laugardagskvöldi. Hvaða hvaða, dagdraumar eru bara hollir!

fimmtudagur, október 12, 2006

Tækninördinn ég 

Eða þannig.
Ég var að koma af vettvangi í vinnunni. Þvílík rannsóknarvinna í gangi og spennandi.
Samt skildi ekki næstum því ekki neitt, enda það ekki beint markmiðið.

Hér er dæmi af sölufundi á Blade (nú, hva, vitið þið ekki hvað Blade er eða?!) sem ég sat áðan, en við komum hér einhvers staðar inni í miðja söluræðu:

"...þeir eru með svona loftgöt á hliðunum, það er 15% betra loftflæði í gegnum sexköntuð göt í stað kringlóttra gata. Algjörlega redundant mál. Sumar lausnir sem maður hefur skoðað í gegnum árin hafa verið með 6-100 viftur þarna aftan á, þær bila og taka rafmagn, en hér er hægt að keyra þetta í 3 ár, þetta er svo reduntat.

Svo eru 4 hólf fyrir power. Er með midplanin tvö sem er inni í blade centerinu og ég set power supplæið hér og hér og þetta er power domain eitt og þetta tvö. Þeir skiptast þannig að power domainið hér sér um blað 1-14, þau eru 8 kílóvatt í heildina. Þið vitið kannski hvernig intel snappaði á tímabili í power consumpsjon... þannig að á þessum tímapuntki þá fór powerið upp úr þakinu. Geitið sem kveikir on off transistorarnir eru orðnir 9 adóma þykkt og það lekur í gegn og þess vegna er allt þetta dual dót komið.

Generation 4, framtíðin á intel fór úr xx og performaði verr heldur en single xxx örgjörvinn, sem er algjört grín hehe... svo kom aðeins hærri dual core hérna en samt ekki skárra og þessi er bestur, er með shared cards, þeir eru að shippa þessu núna. Tveir kjarnar með sama chippi en sér kassi..."


Viðskiptavinirnir fylgdust með fullir af áhuga og virtust skilja lingóið.

Já, velkomin í nýja tækniheiminn minn!

miðvikudagur, október 11, 2006

Miðvikudagskvöldin mín 

Ég er búin að komast að því að kóræfingar eru mitt jóga. Ég hef aldrei farið í jóga og mun ábyggilega aldrei gera af því ég myndi alltaf frekar velja brjálæðislegan svitinn í ræktinni. En veit að það snýst eitthvað um að láta sér líða vel. Um að styrkja og endurnæra á rólegan og andlegan hátt. Að líkaminn sé musteri sálarinnar og þá hlýtur það að eiga við um röddina líka. Rödd lífsins. Rödd eilífðarinnar. Röddina mína. Kóræfingar gefa mér heilmikið. Taka úr mér spennuna, róa mig og rugga, næra mig og hugga. Úff hvað maður er ljóðrænn eftir svona kóræfingar! Samt snúast verkin öll núna um ave mariur og gloriur og in exelsis deo. Gleðileg jól.

Eftir kóræfingu kem ég svo heim og horfi á allar flottu beibsin í Americas next top model, thank god fyrir SkjáEinn plús, og svo L Word sem er náttlega bara sexí þáttur, and don´t get me wrong...

Og eftir kvöldið hef ég bæði öðlast innri ró og styrk auk þess sem ég hef dósað upp sexappílið í hæfilegu magni til að takast á við restina af vikunni ;)

þriðjudagur, október 10, 2006

BíóferðIN mín 

Nú skal ég segja ykkur dálítið markvert.
Ég var að koma úr bíó. Jahérna.
Já, maður er ekki alveg gróinn við sófann, ha? Ó, nei. Skellti mér í bíó í fyrsta sinn síðan ég man ekki hvenær. Ég var að reyna að fletta því upp hér á blogginu hvenær ég fór síðast í bíó en ég finn það ekki, svo langt er síðan. Bíóferð er orðin svo merkilegur þáttur í lífi manns að það þarf að skrá hana sérstaklega! Ég man að þegar Vera var nýfædd fór ég á Oceans 11 og mundi ekkert þegar ég kom út sökum brjóstaþoku og mömmuparanoju, og svo eitt kvöld fyrir langalöngu ákváðum við Viggi að hressa upp á andann og skella okkur í bíó. Við völdum einmitt þá ofurhressandi mynd Der Untergang, sem fjallaði um Hitler og hans geðheilsu. Ég man ekki hvenær þetta var en ég man að ég kom ekkert sérlega hress úr bíó og geðheilsan var verri ef eitthvað var.

Eins fastar í prógramminu og bíóferðir voru þegar maður var barnlaus þá eru þær nú næstum með öllu horfnar. Reyndar fer Viggi oftar en ég, ég hef einhvern veginn ekki fundið þörfina. Eða nennt að redda pössun fyrir svona lítið dæmi. Það er reyndar líka annað í þessu, mér finnst flestar myndir leiðinlegar og það er jú dálítill galli ef maður ætlar í bíó. Finn sjaldan eitthvað sem mig langar að sjá.

Ég man þegar ég var yngri og heyrði í fólki sem sagðist ekki hafa farið í mörg ár í bíó. Út af börnunum, enginn tími, vesen og allt það. Man að þannig ætlaði ég ekki að vera. Það var ákveðinn mælikvarði að vera hreinlega dottinn úr umferð, gamall og þreyttur.

En ekki ég - neineineinei, í kvöld fór ég nebblega í bíó. Kvikmyndahús. Það jafnaðist næstum á við að fara út að dansa, svona á venjulegu grámyglulegu þriðjudagskvöldi. Munið sem sagt að bjóða mér í bíó reglulega, en ég má velja myndina takk.

Heyrumst,
sjáumst,
elskumst,
í bíó,
E

mánudagur, október 09, 2006

Dans, dans, dans 

Viltu dansa?
Mig langar að fara út að dansa núna. Og það er grámyglulegt mánudagskvöld. Já, ég var að enda við að horfa á So you think you can dance og ég er með Fame-fílinginn í mér. Vá hvað þau eru góð. Og sexí. Og bara alveg hræðilega flott. Ég er alveg næstum því líka svona góð, og stundum jafnvel smá sexí líka. Þið ættuð bara að sjá mig á Vegamótum um helgar dansandi við Justin. Frístæl náttúrulega, með hvítvín í annarri og vinina í hinni sem er ekki verra. Þessi þáttur endist mér alveg fram að næsta giggi en þá get ég loks látið ljós mitt skína.

sunnudagur, október 08, 2006

Rauðhærða afturgangan ég 

Þegar ég var lítil var ég rauðhærð sem nú. Ok, þó nokkuð rauðhærðari, ég viðurkenni hárskolið í dag. Ég var líka frekar hávaxin miðað við aldur og voða grönn og slánaleg. Svo var ég hvít, með freknur og frekjuskarð. Svona volítið eins og lukkutröll eða tröllabarn, eftir því hvernig á það er litið. En alla vega, svona um 9-10 ára aldur var ég uppnefnd nafni sem ég man að mér fannst ekkert sérlega frábært. Ég var Rauðhærða afturgangan! Æðislega gaman að vera afturganga og hvað þá rauðhærð líka. Ég man að ég tók þetta dálítið nærri mér en var samt ágætur töffari og litaði ekkert á mér hárið og fór í ljós eða neitt þannig. Ég bara man hvað mér fannst þetta glatað. Hélt ég væri í alvöru það hvít og ljót og draugaleg að ég væri eins og afturganga - og svo væri rauða hárið bara til að bæta gráu ofan á svart.

Svo bara gleymdist þetta einhvern veginn og uppnefnið hvarf með tímanum. En ég hef nú samt aldrei gleymt því. Við erum ekki að tala um neinn eineltispakka hér (kannski í dag væri það kallað það...) eða þannig, heldur svona stríðni sem maður hafði ekki svar við og lét sem vind um eyru þjóta.

Alla vega,
Svo var ég í brúðkaupi um daginn. Ég var í nýjum rauðum gömlum æðislega flottum kjól sem ég keypti notaðan í second hand búð hér í bæ. Og svo var ég auðvitað með rauða hárið svona eins og vanalega og rauðan sparivaralit. Og þá segir ein vinkona mín við mig eftir að hafa horft rannsakandi hugsandi stríðnispúkaaugum á mig: Jaaaaáá, núna veit ég hvern þú minnir mig á - Rauðhærðu afturgönguna...

Þvílíka hrósið hehe. Mér hefur oft verið líkt við einhvern tvífara sem ég á í Breiðholtinu, Bree í Despó og Julianne Moore sem eru svo la la hrós en þessi samlíking kom verulega á óvart.

Rauðhærða afturgangan var þá til eftir allt. Þetta var karakter í mynd. Íslenskri Draugasögu sem greinilega langflestir hafa séð nema ég. Ég var uppnefnd eftir ákveðnum karakter, og án efa bara af því hún var rauðhærð. Ég var í raun uppnefnd eftir bíómyndastjörnu og ekki er það nú slæmt, ha? Ég fattaði á þessu augnabliki að kannski hafi ég þá ekki verið svona glötuð og ljót á þessu tímabili. Ekki frekar en sá Kalli sem var uppnefndur kanína eða Andrés sem kallaður var önd. Ekki að ég sé búin að velta þessu neitt sérstaklega fyrir mér eftir 10 ára aldurinn, sálfræðitímarnir hafa bara verið í eðlilegu magni og töflurnar sem ég bryð eru alls ekki út af þessu heldur öðru sko ;) En þetta var víst léleg mynd með eindæmum og það er mér pínku huggun. Verð samt að verða mér út um þessa mynd til að fatta dæmið til enda.

Rauðhærða kynslóðin á undan var víst uppnefnd Rauðskalli Brennivínsson og mamma lenti til að mynda í því. Varla er það skárra. Ég á hins vegar 15 ára rauðhærða frænku í dag og spurði hana fyrir nokkru út í þetta, hvort hún hafi einhvern tímann verið uppnefnd út af rauða hárinu og hún vissi ekki hvað ég var að tala um.

En lífsgáta mín leystis þarna á augnabliki.

þriðjudagur, október 03, 2006

Mannfræðistelpan ég 

Ég fékk svona back to school tilfinningu í dag, enda var mannfræðipían ég uppi í HÍ að ræða málin með glænýjum mannfræðinemum. Skólafélagi sem kennir eitt fag fékk mig til að segja þeim hvernig mannfræðin hefur nýst mér í starfi. Ég gerði það að sjálfsögðu með glæsibrag og gæti svo haldið aðra góða ræðu um hvernig mannfræðin hefur átt þátt í að ala mig upp og hvaða áhrif mannfræðin hafði á mig sem persónu. Hvar væri ég eiginlega án mannfræðinnar minnar? Ábyggilega í ræsinu. Tja, eða að græða peninga sem svakalögfræðingur úti í bæ.

En ég trúi því nú samt að þeir sem útskrifast með gráðu í mannfræði hafi pálmann í hendi sér atvinnulega séð – bara ef þeir vilja. Vissulega göngum við ekki sjálfkrafa inn í eitthvað eitt starf eins og kannski læknar eða lögfræðingar eða málarar en það er okkar að selja okkur í starfið og segja hvað við höfum lært og hvað við erum frábær.

Þótt við séum ekki að nota kúrsa beint eins og Þróunarlönd eða Líkami og samfélag, hvað þá Sjónræna mannfræði eða Kenningar í mannfræði þá er þetta allt mikilvægt input í heildarmyndina sem snýst um mannleg gildi, félagslegar pælingar mannsins frá öllum hliðum. Það er hægt að staðfæra allt sem við lærum í raunveruleikann sem við lifum í.

Flestir þarna úti vita ekkert um mannfræðina. Þótt hún einblíni mikið á fólk í útlöndum, í öðruvísi heimi þá lærum við að í grunninn eru það sömu mannlegu gildin alls staðar. Að þeir og við erum það sama. Að þar og hér skiptir ekki öllu máli.

Mannfræðin kemur víða við, kennir og boðar góð mannleg gildi, öðruvísi sýn og hlið á málum, greina niðurstöður og mál, skrifa texta, eigindlega tækni sem er í raun mannleg tækni á samskiptum um leið og það er í vinnu – atvinnumarkaðurinn er augljóslega mannfræðinganna!

Grey nemarnir hljóta að hafa verði ánægð með valið sitt eftir að hafa hlustað á mig. En ég man nú skýrt eftir því að á þessum tímapunkti í náminu þegar ég var nýbyrjuð og gat ómögulega útskýrt mannfræðinámið fyrir forvitnum ættingjum sem voru að spyrja út í hana, að maður var nú ekki alveg viss hvort valið hafði verið rétt... en ég sé alls ekki eftir þessu námi. Hygg þó að framhaldsnámið verði vafalaust eitthvað eilítið praktískara...

Nýtt- nýtt! 

Helgarnar hjá mér núna einkennast af djammi, smá hausverk, sem samt lagast fljótt þegar ég fer upp í sveit að hjóla og leika við Veruna. Það var samt nokkuð nýtt sem gerðist þessa helgi og það var að Vera fór í fyrsta sinn í Íþróttaskóla FH og sagði allt í einu buxur í stað þess að segja bukus. Svo fór mamman sinn fyrsta endurohring á hjólinu, fór á 250 manna deit og stýrði því með glæsibrag.
Svei mér þá, jahérna og ég er svo hissa.


Astin eg


Prud og frjalsleg i fasi...


I ithrottaskolanum med Auduni Gauta fraenda


Frabaer hjoladagur a sunnudaginn


Vera lek ser i moldinni og foreldrarnir a motorhjolum

mánudagur, október 02, 2006


I 30 ara afmaeli BEX (thessi svakalega unglega og saeta i rauda dressinu)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker