<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, apríl 30, 2005

Tilkynning - tilkynning!! 

Ástkær móðir mín, Guðrún Axelsdóttir, er komin með vinnu á Íslandi!!! Jibbí jei og hallelúja amen! Hún flytur þá loks hingað heim til Íslands í lok júní og byrjar að vinna 1. júlí á nýja vinnustaðnum sínum Bluebird Cargo :)
Glæsilegt og til hamingju! Það má sko líka óska mér til hamingju með þetta þar sem ég hef agiterað fyrir þessu í langan tíma og beðið í alltof mörg ár eftir kellu!

Nú fær Vera að kynnast ömmu Gunnu almennilega og ég fæ þessa þvílíkt áhugasama pössukonu. Og vinkonu. Og mömmu til að dúlla mér með.
Ah, loksins :)

Sæta þreytta Veran mín 


Við fórum í ungbarnasund í morgun og Vera tók greinilega á því þar því hún sofnaði yfir hádegismatnum! Bara alveg búin á því, hún hallaði sér aftur með brauðbita í munninum og sofnaði þannig á augabragði!! Hrikalega fyndið!  Posted by Hello


Vera í kirkjugarðinu hjá ömmu Sillu í morgun Posted by Hello


Mmmmm hvað franskar eru góðar! Posted by Hello


Vera sumarleg og sæt Posted by Hello

föstudagur, apríl 29, 2005

Til hinstu hvílu 

Amma Silla verður jörðuð í dag.
Ég skrifaði minningargrein um hana sem birtist í Mogganum og hér kemur hún fyrir þá sem ekki eru áskrifendur eins og ég:

Hún amma Silla var frábær kona. Það er hreinlega enginn eins og hún var. Amma Silla var svakalega hress, virk og klár kerling allt fram til þessa skyndilega dauðadags.

Hún veiktist með afar erfiða og sjaldgæfa tegund af lungnabólgu fyrir rétt um 3 vikum og náði sér aldrei á strik eftir það. Ótrúlegt, því hún harkaði hreinlega allt af sér, sama hvað það var. Þetta gerðist svo hratt. Allt í einu var hún komin í öndunarvél og barðist fyrir lífi sínu. Hetjan sú. Reyndar var amma aldrei veik og sagðist geta talið skiptin sem hún hafði tekið verkjalyf. Það var ábyggilega satt. Þetta var hin hressasta kona og var hún heppin á lífsleiðinni með sitt heilsuhreysti sem var henni svo mikilvægt. Hún stundaði grimmt bæði leikfimi og sund en hún synti að jafnaði 600 metra hvern einasta dag fram að veikindunum og skildi ekkert í mér, fyrrverandi sunddrottningunni, að synda ekki eins og hún amma sín til að halda sér í formi. Eins var hún á fullu í að stunda leikhúsin, sinfóníuna, skátana og nokkra sauma- og matarklúbba og yfirleitt var það þannig að amma var upptekin fleiri kvöld í viku hverri heldur en ég sjálf ung konan. Þess á milli sem hún stundaði félagslífið í Hafnarfirði sat hún heima við hannyrðir en amma var handavinnusnillingur. Verst að ég erfði ekki þetta handavinnugen frá henni. Hún prjónaði hraðar og betur en prjónavél og heklaði og saumaði út dúka og fleira fallegt. Hún reyndi að kenna mér snilldina sína og það kom mér á óvart hvað amma var góður kennari. Mér tókst með hennar aðstoð að klára fyrstu og einu prjónapeysuna eftir sjálfa mig. Ég á nokkuð mikið af handavinnulistaverkum eftir hana og mun handbragð hennar lifa lengi.

Amma Silla var lífsþyrst og stundaði lífið af kappi fram á hinsta dag. Og naut þess í botn. Þrátt fyrir árin 82 var hún sífellt að plana framtíðina og til marks um það hóf hún t.d. spænskunám áttræð. Hún var reyndar eini gamlinginn í kúrsinum en fannst það lítið mál. Henni fannst hún verða að geta bjargað sér lítillega þegar hún færi til Kanarí! Amma ferðaðist mikið og hafði komið heimshornanna á milli. Þegar ég þóttist vera að uppgötva heiminn í heimsreisu sem ég fór í fyrir nokkrum árum komst ég að því að hún amma hafði fyrir löngu kannað langflestar heimsálfurnar á lífsleiðinni. Hún hafði komið út um allan heim! Fyrir henni var lífið alltaf jafn gott og hún alltaf jafn ung og tilbúin í allt. Hún tileinkaði sér nýjungar og var nýbyrjuð að lesa bloggsíðuna mína í tölvunni sinni þar sem hana langaði að fylgjast með og sjá myndir af langömmubarninu sínu sem hún hafði svo gaman að. Ég á eftir að segja Veru dóttur minni síðar frá þessari hressustu langömmu bæjarins sem hún getur tekið sér til fyrirmyndar í svo mörgu. Amma var einnig nýbúin að kaupa sér nýjan bíl, áætlaði búferlaflutning að sumri loknu og ætlaði að skreppa til útlanda í sumar. Eftirfarandi orðatiltæki sem ég sá einhvers staðar um daginn er eins og samið um ömmu Sillu: "Jafnvel þótt ég vissi að heimsendir myndi koma á morgun, myndi ég samt planta eplatrénu mínu". Framtíðin var hennar þrátt fyrir aldurinn. Hún var ekki tilbúin að fara. Við vorum ekki tilbúin að missa hana strax.

Ég trúi því þess vegna ekki enn að hún sé dáin. Það virkar of óraunverulegt fyrir þessa súperömmu. Mér finnst bara eins og hún sé í saumaklúbbi alveg rétt ókomin heim eða þá að hún sé alveg að koma í kaffi til mín með heimabakaðar flatkökur í farteskinu. Að síminn eigi eftir að hringja og hávær skellandi röddin í ömmu sé í símanum sem spyrji mig hvar ég sé nú eiginlega búin að vera, ég hafi bara ekkert látið heyra í mér í heilan dag! Mikið á ég eftir að sakna þessarar orkumiklu konu sem var svo fyrirferðamikil í lífi mínu. Amma Silla var þannig karakter að maður fann fyrir nærveru hennar hvar sem var. Hún talaði hátt og passaði vel upp á fólkið sitt með því að bjóða því reglulega í kókó og vöfflur og lambalæri.
Og því er tilveran ansi tóm nú án hennar.

Húsið hennar ömmu var samkomustaður fjölskyldunnar og það er erfitt til þess að hugsa að fallega heimilið hennar muni hverfa okkur. Það var fyrir mig ákveðið skjól og kjölfesta í lífinu. Fastur punktur sem ég á á erfitt með að ímynda mér lífið án.
Ég á eftir að sakna þess eins og hennar.

Vorið minnir mig á ömmu. Ilmurinn og blómin. Grasið og trén. Amma Silla var mikil garðáhugamanneskja og elskaði blómin sín og ræktaði garðinn sinn af miklum metnaði. Jörðin var ekki fyrr þiðin að vori þegar amma var komin á fjóra fætur að róta í beðum og saga tré. Jafnvel með handsög ef þess þurfti. Og allt gerði hún sjálf, það mátti helst enginn annar krukka í garðinum hennar, það var aldrei nógu vel gert. Hún átti því ein heiðurinn af blómahafinu og ævintýraheiminum á sumrin sem garðurinn hennar svo sannarlega var. Hún hengdi stolt upp á vegg viðurkenningarskjal fyrir verðlaunagarðinn sinn svo allir gátu séð hvað garðurinn var henni mikils virði. Við grilluðum stundum á sumrin hjá ömmu og borðuðum oft úti í garði eða inni í gróðurhúsi og það var sannarlega sumarleg og ömmuleg upplifun sem ég gleymi aldrei.

Ég vil muna ömmu Sillu glaða í garðinum. Talandi hátt við matarborðið. Tínandi blóm handa mér. Leikandi við Veru barnabarnabarnið sitt. Syngjandi með útvarpinu. Færandi mér flatkökur og bollur. Og ekki síst stæla sig brosandi glöð af fólkinu sínu sem var best í öllu. Sem er jú auðvitað rétt. Ég er stolt af því að heita í höfuðið á slíkri kjarnakonu sem hún amma var svo sannarlega.

Nú eru krókusarnir komnir upp og nokkrir túlípanar blómstrandi rauðir og gulir í garðinum hennar ömmu. En engin er amma Silla til að dást af dýrðinni. Og engin amma Silla til að klippa blóm og gefa mér. Orkan í vorinu minnir mig á ömmu og gefur mér von um að henni líði vel. Amma Silla er nú komin til afa Axels og hvar sem þau eru, þá sitja þau vafalaust saman í sólinni, í gróðurhúsi Guðs, umvafin hamingju og blómadýrð. Og englum.

Góður Guð geymi þig elsku amma mín.
Ég mun aldrei gleyma þér.

Þín,
Erla Sigurlaug

Heyr, himna smiður,
hvers skáldið biður,
komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Því heit eg á þig,
þú hefur skaptan mig,
ég er þrællinn þinn,
þú ert Drottinn minn.

Guð, heit eg á þig,
að græðir mig,
minnst, mildingur, mín,
mest þurfum þín.
Ryð þú, röðla gramur,
ríklyndur og framur,
hölds hverri sorg
úr hjartaborg.

Gæt, mildingur, mín,
mest þurfum þín
helzt hverja stund
á hölda grund.
Set, meyjar mögur,
máls efni fögur,
öll er hjálp af þér,
í hjarta mér.

(Kolbeinn Tumason
Þorkell Sigurbjörnsson)

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Tískufríkin ég 

Jæja. Þá er maður aftur kominn í tísku. Eða ég vona það alla vega. Eftir gallabuxna- og skókaup dagsins hlýtur maður hreinlega að vera í tísku. Mér líður alla vega svakalega vel með kaupin þótt ekki hafi þau verið þau hagstæðustu í bænum. Ég virðist eiga voðalega erfitt með að passa í gallabuxur, það hefur alltaf verið þannig. Og ef ég rata á einar (eftir að hafa mátað milljón) þá kemur ekkert annað til greina en að kaupa þær. Ef þær passa yfir lærin og mjaðmirnar þá eru þær of víðar í mittið og afar algengt er að þær séu alltof stuttar. Ég er nú ekki svo stór og feit - hvað er að gerast? Það eru ekki bara litlar títlumjónukonur á Íslandi í dag. Mér finnst ég ekki ýkja afbrigðileg í vextinum en samt virðast buxur eiga erfitt með að passa á mig. Ég reyndar heyri þetta líka frá litlum konum sem og í millistærð, svo kannski er þetta ekki einungis bundið við risakonur eins og mig. Alla vega, ég þræddi Kringluna með vinkonu minni sem var með sama tískuleysisvandamálið og ég og við mátuðum gallabuxur eins og óðar konur. Hverjar á fætur annarri. Í alvöru mátaði ég ábyggilega 25 buxur. Og passaði kannski svo vel sé í 5 stykki. Við fengum fína þjónustu þar sem sölukonurnar báru í okkur buxurnar á fati. Þær hafa séð glampann í augunum á okkur. Við ÆTLUÐUM að finna okkur gallabuxur!! En það gekk ekki vel framan af. Svo eftir í og úr og í og úr og í og úr alltof oft, smellpössuðu einar buxur allt í einu. Og auðvitað voru það flottustu buxur í heimi! Og þær dýrustu líka að sjálfsögðu, en í desperationkasti yfir tískuleysinu varð peningaleysi og budgetproblem eftir húsmæðraorlofið allt í einu ekkert sérstakt vandamál. Gallabuxnaleysið var alvarlegra.

Tvenn skópör fylltu einnig innkaupapoka dagsins, bæði geggjuð og svo ólík og skemmtilega sumarleg og æðisleg. Og ekki svo dýr. Svo það lagaði samviskukastið oggupons. Og svo var þetta líka afmælisgjöfin frá mér til mín. Eða eitthvað svoleiðis. Ég alla vega er sátt og Vigginn líka svo þetta var bara bjúdífúl.

Ég hvarf á einu augabragði frá því að vera tískumistök yfir í að vera tískufrík. Ahhhhh.
Í jákvæðum skilningi :)

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Vera 9 mánaða! 

Vera varð 9 mánaða á mánudaginn var, 25. apríl. Litla skvísan er orðin svo stór. Hún er farin að færa sig um á rassinum, ekkert á fullu spítti ennþá, en samt. Fer út um allt, þangað sem hún vill fara. Mjakar sér einhvern veginn áfram með því að hreyfa fætur og nota hendurnar. Hún fer stundum upp á 4 fætur en líst greinilega ekki eins vel á þann ferðamáta. Vera er án gríns alltaf í góðu skapi og getur dundað sér heillengi ein á gólfinu að spá í dótið sitt. Þvílíkur lúxus fyrir foreldrana! Vera talar þvílíkt mikið við sjálfa sig og okkur pabbann (það kemur líklega frá mér þá...)og það getur verið mjög fyndið, eins og hún sé í alvörunni að segja eitthvað svakalega merkilegt. Hún kann að klappa og klappar nú við hvert tækifæri. Eins vinkar hún bless þegar það á við. Er eiginlega orðin þessi þvílíka hermikráka og gerir allt eins og mamman gerir! Hún er komin í aðlögun til dagmammanna og það gengur framar vonum. Hún rétti t.d. fram hendurnar til dagmömmunnar í morgun þegar ég fór með hana. Vildi bara fara til hennar og leika við krakkana tíu. Vera byrjar svo allan daginn hjá þeim eftir helgi. Ég verð reyndar að vinna 80% vinnu fram að hausti svo við Vera getum spókað okkur í sumrinu frá kl. 14:30 alla daga! Þvílíkur lúxus þar á bæ. Mér finnst við bara verða að njóta þessa tíma saman, á meðan hún er lítil.
Það verður næs.


Vera sumarlega með sólhatt Posted by Hello


Mamman þarf greinilega að sauma bönd á nýja sumarhattinn...hann tollir ekki lengi á í einu! Posted by Hello


Vera í göngutúr með mömmu úti á Álftanesi - Vera sofnaði reyndar síðar meir í göngubakpokanum, svo þægilegur var þessi ferðamáti! Posted by Hello

mánudagur, apríl 25, 2005

Amma mín Silla 

Amma mín hún Silla dó í gær.

Hún veiktist með afar erfiða og sjaldgæfa tegund af lungnabólgu fyrir rétt um 3 vikum og náði sér aldrei á strik eftir það. Ótrúlegt, því hún amma Silla harkaði hreinlega allt af sér, sama hvað það var. Þetta gerðist svo hratt. Bara allt í einu var hún komin í öndunarvél og barðist um líf sitt. Hetjan sú. Ég veit að hún var ekki tilbúin að fara. Og við hin vorum ekki tilbúin að missa hana strax. Hún var enn svo lífsglöð og hafði fullt að gefa.

Ég trúi því þess vegna ekki enn að hún sé dáin. Það virkar of óraunverulegt fyrir þessa súperömmu. Og því er tilveran ansi tóm nú án hennar. Hún var áberandi í mínu lífi og ég í hennar. Ég á eftir að sakna hennar mikið.

Ég vil muna hana glaða í garðinum. Talandi hátt við matarborðið. Tínandi blóm handa mér. Leikandi við Veru barnabarnabarn sitt. Syngjandi með útvarpinu. Færandi mér flatkökur. Og ekki síst monta sig af fólkinu sínu sem var best í öllu. Sem er auðvitað rétt. Ég er stolt af því að heita í höfuðið á slíkri kjarnakonu sem amma var svo sannarlega.

Nú er vorið komið, uppáhaldstíminn hennar ömmu. Krókusarnir eru komnir upp og nokkrir túlípanar blómstrandi rauðir og gulir í garðinum. Þeir minna mig á ömmu. En engin er amma Silla til að dást af dýrðinni. Og engin amma Silla til að slíta blóm og gefa mér. Orkan í vorinu gefur mér von um að ömmu líði vel. Amma Silla er nú komin til afa Axels og hvar sem þau eru þá sitja þau vafalaust saman úti í sólinni, umvafin hamingju og blómadýrð.

Þannig ætla ég að muna ömmu mína Sillu.


Sigurlaug Arnórsdóttir - amma Silla Posted by Hello

sunnudagur, apríl 24, 2005

Svo lítil... 

Ég fann þessar myndir á vef hjá vini mínum frá því við vorum í kveðjugardenpartýi hjá honum þegar Vera var 3 vikna. Já, hún fór sko í fyrsta partýið 3 vikna! Og svaf úti í vagni mest allan tímann í góðum fíling. Svo vaknaði hún og ég þurfti að gefa henni og knúsa hana og þá voru þessar myndir teknar. Man að það var frekar svalt þetta kvöld og ég fékk einmitt brjóstastífluna miklu í kjölfarið...ái. En partýið var gott og Vera eins og þið sjáið í góðum gír!

Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá þessar myndir var "Vá, hvað hún er lítil..!!" Enda var hún lítil! Og þvílíka krúttið. Og er enn þótt hún sé að verða 9 mánaða á morgun...


 Posted by Hello


 Posted by Hello


 Posted by Hello

laugardagur, apríl 23, 2005

Tískumistökin ég 

Ég klæddi mig einu sinni eins og skreytt jólatré. Eða hippi. Eða hreinlega einhvers konar frík. Saumaði mér útvíðar buxur úr gömlu appelsínugulu gardínuefni og gekk í fötum af ömmu. Og reyndar afa líka. Mér hefur alltaf fundist öðruvísi föt (hvað sem það nú þýðir í dag) vera aðlaðandi og hef t.d. átt erfitt með að klæða mig í svart. Ég verð að hafa liti og helst eitthvað smá extra meira en normalt.

Með tímanum hefur smekkurinn svo skánað. Ætli það heiti ekki að þroskast. Ég get klætt mig eins og klassísk frú án þess að líða illa. Reyndar er það aldrei alveg the true me en samt. Í dag er fataskápurinn minn heldur rýr. Eftir meðgönguna og nokkur aukakíló (sem samt sjást ekki - nema á vigtinni og gallabuxunum mínum...) þá allt í einu er allt svo ljótt sem ég á. Eða of lítið. Eða bara úrelt og gamalt og leiðinlegt. Ég þarf tótallí að endurnýja fataherbergið mitt. Ég byrjaði smá úti í Stokkhólmi í H&M og gæti sjálfsagt haldið endalaust áfram, en takmarkað fjármagn eftir tekjusnautt orlof setur smá skorður í þann reikning. Snökt og aumingja ég. Mig langar að vera svona töffara og tískumamma í nýjasta nýju!

Fór aðeins í Kringluna í dag. Var bara í gömlum gallabuxum (einar af tvennum sem ég passa vel í...) og strigaskóm. Reyndar var ég í nýrri sætri mussu og megatöffaraleðurjakkanum mínum, en mér leið samt eins og gamalli þreyttri kellingu sem væri ekki í takt við tískuna. Ég meina, ég ætla mér ekki að verða þræll tískunnar en ég finn allt í einu þessa hrikalega sterku pæjuþörf. Sérstaklega fyrir að fá mér nýjar Diesel gallabuxur og svona 2-3 ný skópör. Þá trúi ég því að mér muni líða skár!(ódýrara en sálfræðimeðferð!) Verst að slíkar gallabuxur kosta held ég 15 þúsund seðla og nokkur skópör þeim mun meira. Eins gott að ég á ammali alveg rétt bráðum og gjafirnar streyma til mín!
(Þetta er s.s. hint elskurnar = Mig langar í föt í ammalisgjöf!)

föstudagur, apríl 22, 2005

Ó, elsku Hvannó minn 

Ég var að gafra í gömlum myndum hér á tölvunni í vinnunni og fann m.a. þessar hér fyrir neðan. Enjoy!


Held að þetta sé klikkaðasta mynd sem ég hef tekið! Hún er tekin ofan af toppi Hvannadalshnúks og þetta var bara súrrealískt flott dæmi eins og þið sjáið! Posted by Hello


Á uppleið - með brettið á bakinu Posted by Hello


Komin upp fyrir skýin við Dyrhamar Posted by Hello


Já, einu sinni var maður fitt og fjörugur... þessar myndir eru teknar sumarið 2002 uppi á toppi Hvannadalshnúks, en við Viggi gengum þar ásamt fleiri félögum, upp Virkisjökulsleiðina. Þetta var erfitt en það tókst. Svo var krúsað niður á brettinu. Já, those were the days. Eða hvað. Ég held ég gæti ekki gengið á Hvannó í dag þótt mér væri borguð milljón fyrir. EN, örvæntið eigi, mamman stefnir á að taka nokkra tinda í sumar þ.á.m. Móskarðshnjúka, Heklu og Snæfellsjökul (í þriðja sinn þá). Þetta keeeeeemur. Posted by Hello

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Sumarið er komið... 

...og sól í heiði skín. Eða, alla vega skín hún í hjarta ef ekki á heiði.

Síðasti dagur vetrar var kvaddur með látum í góðu partýi í gærkvöldi. Mamman og pabbinn slepptu af sér beislinu og drukku og djömmuðu fram á rauða nótt. Það var þvílíkur matur á boðstólum og Little Miss Fun sá um skemmtiatriðin. Trúiði því að ég hafi verið kosin Ungrú Fjör?! Jahérna, þvílíkur heiður. Reyndar fengum við allar stig í öllum kjörunum og þá líka á Ungfrú Fliss, Ungfrú Hjálpsöm, Ungfrú Sólskin og Ungfrú óþekk. Sem segir bara hvað við erum allar æðislegar :) Reyndar langaði fólki víst meira að kjósa mig Herra Háværan en það voru víst bara karlmenn gjaldgengir í þá herramanns kosningu. Ég fékk þrátt fyrir það heil 3 atkvæði. Soldið móðgandi, en jú doldið fyndið. Hvað get ég gert að því þótt mér liggi hátt rómur? AHeeeemmm. Þetta kemur beint úr móðurættinni og lítið við því að gera! Partýið leystist upp í vitleysu upp úr miðnætti í Singstar keppni þar sem enginn slapp við að spreyta sig. Þetta var helvíti fyndið og skemmtilegt þótt ég geti með engu móti munað hversu mörg þúsund stig ég náði mest. Þetta var jú allt í þágu liðsins. Man heldur ekki hvort mitt lið hafi unnið, enda var það aukaatriði borið saman við taktana og vel falska tóna eftir dágott bjór- og rauðvínssull.

Það voru tvær Gallupdömur sem tilkynntu óléttur í gærkvöldi, en í þessum félagsskap er það er orðinn árlegur siður að tilkynna slíkt. Til hamingju elskurnar! Ég fékk gæsahúð og tár í augun. Og smá pínu oggu ponsu abbótilfinningu. Hvað er eiginlega að manni? Maður á draumabarnið sem er alveg að gera sig hérna en langar mann samt í meira eða hvað er að gerast? Þvílík græðgi! Reyndar hefur mig langaði í margar svona litlar Verur allt frá því ég fékk hana fyrst í hendurnar. Það er bara svo erfitt eitthvað að skipuleggja framhaldslífið og fleiri börn þar með þegar allt er svo ljúft eins og það er. Á maður að hafa stutt á milli eða 4-5 ár? Ég meina, maður er ekki að byrja á þessu bara til að eignast eitt stykki. Ó, nó. Það liggur við að ég væri til bara right here right now, en um leið finnst mér eins og ég þurfi að "njóta" Verunnar einnar aðeins lengur. Og svo er ég að fara í þrítugsafmælisferð aldarinnar sumarið 2006 með THE girls svo þetta fellur um sjálft sig... ji, hvað lífið er allt í einu flókið!

Vera var sem sagt í næturpössun í fyrsta sinn síðastliðna nótt á meðan við djævuðum. Að vanta 5 daga í 9 mánuði, þvílík hetja þessi litla snúlla. Hún gisti hjá tengdó sem hefur jú reynsluna eftir 6 börn og 10 barnabörn. Það var ansi skrýtin tilfinning að skilja hana þarna eftir vitandi það að ég myndi ekki sjá hana aftur fyrr en daginn eftir. En mamman duldi tárin og drekkti bara sorgunum í rauðvíni. Ég var svo harðákveðin í að sofa út í morgun og njóta þess að þurfa "bara" að knúsa pabbann og finna mitt innra sjálf í þynnkunni og leggja móðureðlið til hliðar í nokkra klukkutíma en...það tókst í stuttu máli ekki. Ég var vöknuð kl. 8 og bylti mér og kuðlaðist í sænginni til að ganga 9 þegar ég skipaði Vigga að hringa í foreldra sína til að athuga með Veru. Sem hann og gerði. Og auðvitað var allt frábært og meiriháttar þar á bæ. En þá gátum við ekki beðið lengur, spruttum á fætur og í bakaríið að ná í þynnkugúmmelaði. Og það voru skemmtilegir endurfundir við Veruna. Hún setti upp grettubrosið og klappaði stöðugt af gleði. En var þó ansi sátt að vera að leika við afann á gólfinu í símaleik, en það er mjög spennandi leikur nú á dögum sem snýst um að Vera og leikfélaginn þykjast tala í símann. Já, sumt er bara skemmtilegra en annað!

Foreldrarnir voru þó ekki slappari en það að þeir héldu þetta líka skemmtilega Sumarkaffiboð á Hverfó í dag til að fagna sumardeginum fyrsta. Að hugsa sér að þetta er í alvörunnin sumardagurinn FYRSTI fyrir Veru! Það var fullt hús á tímabili og mikið sumarstuð. Boðið var upp á vöfflur from skrats og meððí og bleikar sumarmuffins. Það er svo gaman að hitta fólkið sitt svona og eta, drekka og tala um daginn og veginn. Ekkert uppstrílað eða formlegt, bara sommer sommer kúlheit og gleði.
Love it.
Gleðilegt sumar elskurnar mínar :)

Erla Sumarstúlka Blogspot.com

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Síðasti vetrardagur... 

...er í dag. Eins gott að sumarið verði komið á morgun!
Við erum að fara á árshátíð saumaklúbbsins í Gallup í kvöld. Makar með að sjálfsögðu en þeir hafa verið að bonda mjög vel. Það vel að við erum að fara með 2 pörum úr vinnunni til Krítar. Gott mál. Þetta er haldið heima hjá einni í saumóinum en við fáum einhvern kokk til að undirbúa matinn svo þetta verður án efa frábært. Svo er Erla perla búin að vera í skemmtinefnd ásamt annarri og sjá um skemmtiatriði kvöldsins. Geri ráð fyrir að við munum brillera of course. Svo var einhver að tala um Singstar...ég hef nú aldrei farið í það. Sem er kannski skrýtið þar sem ég er sígaulandi. Meira að segja Viggi (of all humans) hefur sungið í Singstar í einhverju pungapartýi. Fékk reyndar bara 400 stig minnir mig af þúsundum mögulegum en það er jú aðalatriðið að taka þátt, er það ekki?!

Á morgun er svo smá Sumarkaffi á Hverfó fyrir gesti og gangandi. Endilega kíkið í kaffi í sumarskapi nú þegar daginn birtir og ljómann glæðir yfir snjólaus dansandi fjöllin og rjóðan vangann með sól í hjarta og bros á vör...

Ah, sumarið er greinilega komið hjá mér!

P.s. munið krúttlegu könnunina hér til hliðar...verður tekin út von bráðar!

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Og við skulum klappa fyrir því... 


Ég kann að klappa!! Mamman er búin að syngja og klappa "klappa saman lófunum" í þó nokkuð langan tíma og Vera tók allt í einu við sér í dag og klappaði sjálf saman lófunum! Þvílíkt breakthrough :) Posted by Hello


Þvílíkt klapp! Glæsilegt!  Posted by Hello


Vera og Úlfur í sólinni í dag Posted by Hello


Knús frá Úlfi Posted by Hello


Líkar? Posted by Hello


Sparibrosið!
P.s. takið eftir dýrindis bútasaumsteppi sem móðirin dundaði sér við að sauma á óléttunni (tók reyndar bara eitt kvöld og það sést þegar betur er rýnt...) Posted by Hello


Vera "í tölvunni" í tilvonandi herberginu sínu sem enn hýsir töskusafn móðurinnar...stendur til bóta í sumar.  Posted by Hello

Dagmömmurnar og ömmurnar 

Vera fór til dagömmanna í fyrsta sinn í gær. Er mamma í fleirtölu og eignarfalli með greini annars ekki mömmanna? Íslenskan alltaf jafn skrýtin og skemmtileg. Alla vega, Vera fór í gær og var með pabbanum í hálftíma að leika hjá dagmömmunum. Það gekk auðvitað súper trúper og ekki gekk það síður í morgun þegar hún hreinlega vinkaði pabbanum bless í faðmi annarrar dagmömmunnar. Hún er þá félagsVera eftir allt :)

Mér líst vel á þessar dagmömmur. Búnar að vera í bransanum í 12-15 ár og kunna til verka. Þær eru með sérstakt húsnæði undir starfsemina, sín 10 börn sem þar eru í dagvistun. Vinkona mín hér í vinnunni er með annað barnið sitt hjá þeim og sagði þeim góða söguna svo það voru nægileg meðmæli fyrir mig. Ég ætla að reyna eins og ég get að vera kúl áðí og treysta þeim fyrir englinum mínum...en lofa samt ekki að ég verði fyrst um sinn með spurningalistaflóð dauðans á þær eftir daginn. Ég meina, ætli mér finnist ekki erfiðara að slíta mig svona frá henni heldur en Veru finnst að fara frá mér... Á meðan hún er í kringum krakka og fær að leika með dót þá er hún sátt! Einfalt og gott líf :)

Það er 15 stiga hiti í Reykjavík og maður að komast í sumarfíling. Enda sumardagurinn fyrsti á næsta leiti. Maður kemst í svo sérstakt skap í svona sumar&sól vorfíling. Langar að skoppa á Esjuna og grilla pUlsur.

Annars eru þær fréttir helstar að amma Silla er lítt betri en þó eitthvað segja læknarnir sem samt eiga erfitt með að sjá í hvað stefnir. Alla vega er hún ekki verri þótt hún sé enn á gjörgæslu í lífshættu. Hin amman, amma Vala var hins vegar að greinast með lungnakrabba svo ekki er útlitið gott þar á bæ. Aumingja ömmurnar mínar. Vonandi að vorið og sumarið hressi þær við eins og mig.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Sunnudagur ömmudagur 

Í mörg ár hafa sunnudagar verið hálfgerðir ömmudagar. Ég hef ábyggilega ekki sleppt mörgum sunnudagsheimsóknum til ömmu Sillu um ævina. Annað hvort til að fá mér vöfflur og kókó eða kvöldmat. Jah, eða bara til að tékka á gömlu konunni og aðeins að spjalla eins og gerðist meira nú í seinni tíð. Sunnudagurinn rann upp og ég hreinlega varð að fara til ömmu Sillu einhvern tímann yfir daginn. Annars væri þetta ekki alvöru ekta sunnudagur fyrir mér.

Í dag er svo sunnudagur. Og engin amma til að heimsækja. Ekki nema upp á spítala þar sem hún liggur í djúpum svefni og háir tvísýna baráttu um lífið. Það liggur við að ég skelli í vöfflur og malli heitt kókó bara upp á sunndagsstemmninguna. En finnst það um leið ekki passa. Kannski óviðeigandi án ömmu. Ég veit það ekki. Ég veit bara það að í þessu millibilsástandi er maður svo tómur. Veit ekki hvað maður á að halda. Get ekki grátið því hún lifir, get ekki glaðst því enginn er batinn hjá henni.

En í staðinn fyrir að drekkja sér í sunnudagsvolæði og vitleysu fórum við Vera í heimsókn þar sem við hittumst nokkrar mömmur úr Gallup með börnin okkar. Og þvílík dýrð og læti og krúttlegheit! Vera elskar að vera innan um börn, eiginlega þangað til einhver er aðeins of harðhentur við hana eða rífur af henni dót. Þá er ekki alveg eins gaman. En hún þarf að venjast daman því alvara lífs hennar hefst á morgun. Aðlögun hjá dagmömmunum! Pabbinn ætlar að sjá um það og höfum við litlar áhyggjur af félagsVerunni okkar. Ok, það örlar á pínuponsu magapínu hjá mömmunni, en ætli það sé ekki frekar bara allt jukkið sem á át í mömmuhittingnum áðan.
Segjum það bara.

Ég sé að 38 manns hafa kosið í krúttlegu könnuninni sem ég setti upp hér til hliðar. Um leið veit ég og hef talað við þó nokkra sem hafa enn ekki kosið. Hvað á það að þýða elskurnar?? Á ekki að nýta atkvæðisrétt sinn hér sem annars staðar í mikilvægum málum? Ég meina, þetta er mikilvægt fyrir forvitnar pennapíur eins og mig! Ég veit að mun fleiri en þeir 38 sem hafa tekið þátt eru að lesa síðuna því nú hef ég skráð síðuna inn á www.statcounter.com sem telur allar flettingar yfir sólarhring og greinir niður nýjar flettingar og endurteknar flettingar. Segir mér meira að segja hvaðan flettingar á síðuna koma! Svo ég get farið að spæja um ykkur....Það kom mér til dæmis verulega á óvart þegar ég sá að á föstudaginn voru á heildina litið 126 flettingar á síðuna frá 80 mismunandi aðilum! Ekki að ég þekki 80 manns að ég held, en gaman að því að vita þetta!
Án gríns. Takið upp músina og klikkið á könnunina og látið ykkar skoðun í ljós!! Ok, þessi fyrsta könnun er kannski ekki sú allra merkilegasta en hver veit hvað ég set inn næst!
EN bara ef þið verðið dugleg :)

laugardagur, apríl 16, 2005

The morning after 

Ég var hreinlega búin að gleyma því hversu myglaður maður er eftir gott fyllerí. Já, mig langar núna mest til að leggja mig en það er víst ekki í boði með Veru þvílíkt spræka og káta. Höfuðverkur, magapína, síþreyta, lystarleysi og ljósfælni er það sem morguninn bar í skauti sér fyrir mig. Og það að þurfa að fara í ungbarnasund með ungann á heimilinu...var sko búin að gleyma því í gærkvöldi, sem betur fer!

Þetta fór nú allt vel fram, en bjórinn var góður og rauðvínið ekki síðra. Ég lenti ekki í blackouti og dansaði ekki upp á borðum. Ég man kvöldið þokkalega vel, enda ekki ennþá 17 ára að teygja ölið með röri til að finna áhrifin betur. Það er liðin tíð. Ég er móðir núna...Mér fannst gaman framan af, fórum á Thorvaldsen sem er víst inn í dag og þar sátum við og kjöftuðum og sötruðum. Svo þegar við fórum að dansa var greinilega eitthvað farið að renna af mér eða eitthvað, því allt í einu leið mér eins og ég væri komin á skólaball í menntó eða eitthvað álíka! Ég kannski bara kann ekki lengur að dansa. Eða djamma. Ég veit það ekki...en ég gat með engu móti fílað mig í takt við diskóremixið og syrpurnar. Reyndar virtist meðalaldurinn á Thorvaldsen vera í kringum 45 ár svo þetta var kannski meira eins og að vera á reunioni með mömmu eða eitthvað. Æ, veit það ekki, ég bara meikaði þetta ekki. Svo við röltum eitthvað um bæinn, kíktum á snobbstaðinn Rex og tókum pylsu með öllu (nema lítið af hráum og lítið af sinnepi) á Bæjarins bestu. Held í alvöru að það hafi bjargað kvöldinu svona undir lokin. Þá var tími til kominn að halda heim á leið í rándýrum taxa, en ég þurfti að taka á honum stóra mínum til að lognast ekki út af í honum á leiðinni heim. Það hefði verið frekar dapur endir á góðu kvöldi: "leigubílstjórinn bar mig upp að dyrum og viggi tók við mér, bar mig upp, háttaði mig og þreif upp æluna á gólfinu..."...kannski samt meira krassandi...! Þetta kemur hjá mér!

Þegar leið á kvöldið fann ég hvernig brjóstin uxu upp úr haldaranum með hverjum sopanum og á endanum var komin dágóður hjartsláttur í annað þeirra. Vera fékk svo áfengisblandaða brjóstamjólk í morgunsárið mömmunni til mikils léttis. Hún er svo hin sprækasta í dag eins og vanalega svo ég trúi því að ég hafi nú ekki gert henni neitt svakalega illt með þessu. Henni þykir sopinn góður eins og mömmunni!

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Að fara á gott fyllerí 

Strætó er merkilegt fyrirbæri. Ég hef verið að taka strætó undanfarna morgna í vinnuna og oftar en ekk orðið vitni að ansi kómískum samræðum. Í morgun voru það 18 ára MR-píur að ræða ball gærkvöldsins. Og vá hvað það var fyndið að hlusta á þær...ekta menntóeftirdjammruglsamræður. Þetta var í þessum hérna anda: "Váááá hvað ég var full í gær mar, þúst, ég man bara ekkert", "Já, þú varst alveg gegt rugluð mar, varst að flassa og öskra og þvílík læti í þér mar", "Já, ég man sko ekkert...alveg bilað, Stína var að setja mér hvernig ég var!!".

Já, man maður þessa daga. Maður fór í partý, sötraði bjórinn með röri til að finna áhrifin sem fyrst, drakk Southern Comfort í Sprite af því það smakkaðist eins og grænn frostpinni, slammaði tekíla, flassaði og fílaði unglingalífið. Je. Maður á nokkrar nákvæmlega svona eftiráballminningar frá þessum árum.
Those were the days.
Gaman að því.
Je. Beibe.

Á morgun er Gallupdjamm og mamman hyggst taka þátt í því. Vera er orðin svo klár á pelann og pabbann að það er bara komið að því að mamman fari á gott djamm. Ég lofa engu um að ég muni ekki eiga samræður í takt við ofangreint dæmi þar sem áfengi hefur ekki runnið í æðum mínum um dágóða hríð. God, það væri nú alveg að lenda bara í blackouti og skandalísera.
Reportera um það síðar.
Later.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Veran 

Það er svo sem ekkert nýtt títt nema að Vera er komin með 2 svaka fínar og þvílíkt beittar tennur og er aðeins farin að færa sig úr stað.

Helstu fréttir af mömmunni er að hún er búin að vera þvílíkt erfið í húðinni, eins og versti unglingur á ýkt, mega, mongó sjitt gegt miklu gelgjuskeiði (eða tala þeir ekki einhvern veginn svona??) Hormónarnir eru greinilega eitthvað að rugla nú þegar brjóstagjöfin hefur minnkað til muna. Ég er án gríns búin að vera hraunuð í framan og hreinlega illt í húðinni. Finnst þetta kannski aðeins vera að hjaðna, vonandi. Ég er BÚIN að ganga í gegnum eitt stykki gott gelgjuskeið í den þar sem ég fékk dágóðan bólu -og hormónaflöktsskammt svo kommon.

En njótið myndanna af Veru krúttu sem mamman er svo stolt af...

- og ekki gleyma að kjósa í krúttlegu könnuninni hér til hliðar!


Sætasta Veran í öllum heiminum geiminum! Posted by Hello


Sæta grettubrosið hennar Veru! Sjáiði tvær sætu tennurnar :) Posted by Hello


Vera er aðeins farin að hreyfa sig meira, stundum á rassinum og stundum á maganum. Þegar hún er á maganum þá bakkar hún eins og brjálæðingur út um alla stofu og endar oftar en ekki í sjálfheldu undir stól! Og þá kallar hún á hjálp því hún kann ekki ennþá að fara áfram...Hrikalega fyndið! Posted by Hello

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker