<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, september 30, 2004

Við viljum Vilko! 

Jesús minn! Vilko er brunnið til kaldra kola. Ok, þetta eru kannski aðeins of mikil viðbrögð hjá mér en mér virkilega brá þegar ég sá þetta í fréttum. Hver man ekki eftir Vilko súpum og nú nýjasta nýtt frá Vilko: Tilbúið vöffludeig fyrir uppteknar eldabuskur? Við viljum Vilko, við viljum Vilko!! Já, það er þá liðin tíð. En sorglegt.

Það eru alls konar svona hlutir í samfélaginu sem maður kannski tekur ekkert sérstaklega eftir en þegar þeir eru farnir vantar þá! Eins og Vilko. Ég hef nú reyndar ekki borðað Vilko súpu sl. 20 ár býst ég við (ef ég hef þá einhvern tímann smakkað þær...) en það er sama. Ég laumast til að nota vöffludegið af og til. Og það var virkilega gott. Eiginlega betra en mín eigin vöffluuppskrift. Og ég sakna Vilko strax. Vilko var einhvern veginn orðið hluti af íslenskri menningu svo greipt er það orðið í samfélagið. Þarna má því segja að um verulegan menningarlegan missi sé að ræða. Bara eins og Gunnars mayones myndi hverfa eða Þykkvabæjar. Það bara má ekki! Já, svona er vörumerkjavitundin sterk. Þetta er allt hluti af menningunni. En maður lifir þetta nú af. Tekur bara tíma að jafna sig. Og hvað þá fyrir íbúa Blönduóss sem örugglega unnu allir í verksmiðjunni! OG nú þarf ég að fara að kaupa erlent tilbúið vöffludeig svo það verður ekkert Íslenskt já takk þar. Því miður.

miðvikudagur, september 29, 2004

WC og ull 

Við Vera erum byrjaðar aftur í World Class Laugum. Jú, jú, það var á to do listanum hjá mér... Við erum mjög ánægðar þarna, Vera sefur í barnagæslunni á meðan mamman djöflast til að ná af sér aukakílóunum. Það er svo gott að æfa þarna finnst mér. Bjart og gott loft ásamt því sem maður er jú heimavanur í WC. Mig minnir að ég hafi byrjað að æfa í WC ´96. Og alltaf jafn ánægð. Reyndar kostar helmingi meira nú orðið að vera þarna en í öðrum stöðum en það náði samt sem áður ekki að hrekja mig frá. Lúxus er lífið.

Svo í gærkvöldi urðu 3 stk. ullarlistaverk til eftir sjálfa mig svo það gengur á þennan blessaða lista! Allt í einu finnst mér ég ekki vera í tótallí brjóstaþoku heldur hafa smá orku og löngun í að gera eitthvað skapandi og skemmtilegt :) Sjúkket. Ég dett þá ekki í þunglyndi á meðan. Við Vera förum oft í göngutúr og að stússast hingað og þangað í reddingar. Svo skreppur maður í heimsókn til ömmu/langömmu gömlu og spókar sig um í borginni. Bókaskrif og gítarspil sem voru líka á þessum fræga lista fá þó að bíða ellinnar í bili held ég barasta.

laugardagur, september 25, 2004

Vera 2 mánaða 


Vera er 2 mánaða í dag! Merkilegt hvað tíminn líður hratt. Eins og sjá má dafnar skvísan vel, er komin með bollukinnar og undirhöku :) Vera er voðalega ljúft barn. Hún veit þó alveg hvað hún vill og er ákveðin hvort sem hún er að drekka, kúka, er vakandi að spóka sig eða að fara að sofa (þetta er eiginlega það eina sem hún kann sko...!). Hún sefur ennþá mikið sem gefur mömmunni inn á milli smá tíma fyrir sig, þó aðallega til að þvo þvott og taka til. En heimilislífið blómstrar og Vera Víglunds virðist vera hæstánægð með lífið :) Posted by Hello

föstudagur, september 24, 2004

Dávaldurinn 

Okkur var boðið á Dávaldinn á Broadway í gær. Spúkí.
Ég hafði nú enga sérstaka trú á svona dáleiðslum áður en ég fór þarna í gær en þar sá ég svart á hvítu að það er hægt að dáleiða fólk. Og gera það að fíbblí um leið. Dávaldurinn mikli sem ég man ekki lengur hvað heitir segir að fólk dáleiði sig sjálft með því að slaka algjörlega á og fylgja því sem hann segir. Með algjörri afslöppun fari hugurinn að hlýða skipunum hans. Hann segir að fólkið sé meðvitað um hvað það sé að gera allan tímann en geti samt ekki ráðið við það sem það gerir.

Í gær stýrði hann hugum fólksins sem gaf sig fram sem sjálfboðaliðar og lét það gera alls konar rugl. Setja það í alls kyns aðstæður. Sbr. sagði hann frá því að skip hefði sokkið og að viðkomandi (hver og einn sem var dáleiddur) hefði bjargað öllum um borð. Fréttastöð væri að reyna að komast að því hvernig björgunin fór fram og hver hefði nú bjargað liðinu á bátnum. Það væri svo alltaf einhver annar sem væri að taka kreditið fyrir björguninni. Dávaldurinn spurði svo dáleidda fólkið hvernig björgunin hefði farið fram og sögðust allir hafa bjargað fólkinu með því að kalla á hjálp og henda út björgunarbátnum og spunnu upp sögur um hvernig það fór fram. Sumir urðu reiðir yfir því að einhver annar væri að taka heiðurinn fyrir björguninni því HANN hefði gert þetta en ekki hinn. Sumir fóru beinlínis að rífast um þetta. Og þetta var ekkert smá fyndið. Þetta fólk hefur að sjálfsögðu aldrei bjargað neinum eða neinn bátur sokkið heldur er þetta dæmi að sjálfsögðu uppspuni. Hugur þeirra var bara staðsettur í einhverju svona situasjóni, dáleiddur, gerandi eigendur heilans að atlægi.

Svo var auðvitað farið út í klúrari hluti eins og að láta konurnar hrista á sér barminn og karlana tala við typpið á hvorum öðrum! Meira ruglið - en þetta var drullu fyndið og alveg ótrúlegt að sjá. Að þetta sé hægt! Og þetta var bara venjulegt fólk úr krádinu. Greyin.

Vera var í pössun hjá tengdó. Þau voru svaka spennt að passa hana í fyrsta sinn. Hún hagaði sér auðvitað bara vel en var emjandi úr hungri þegar mamman kom heim með fullan barminn af mjólk...

Reyndar er það nú svo að Vera er barnabarn númer 10 hjá tengdó og maður þarf að fara að panta tíma hjá þeim ef maður á að fá pössun...!

þriðjudagur, september 21, 2004

Landinn 

Þá er Landinn kominn í hlaðið! Já, það varð úr að við splæstum í kaggann. Alveg svakalega gæjalegur Landrover Discovery 2000 árgerð á 35" :) Það er ekkert annað! Oh, gott að vera komin aftur á svona tæki.

Fórum til Akureyrar um helgina og sóttum gripinn. Þar gistum við í góðu yfirlæti hjá vinum okkar Gunnari og Hörpu en þau búa á besta stað í bænum með útsýni yfir allan fjörðinn. Það fyndna er að þegar Landinn var okkar varð Gunnar alveg sjúkur (er reyndar jeppasjúkur alla daga - ekki bara þennan sunnudag...) og keypti sér líka jeppa! Voðalega krúttlegan ´91 árgerð af Pajero. Svo það er jeppafílingur in the air. Stofnaður verður jeppaklúbbur fyrir þá félaga okkar sem eiga jeppa og vilja fara í alls konar skemmtilegar jeppaferðir á fjöll og jökla og útumallt. Nafnið JEPPALÚÐARNIR hefur komið sterklega til greina...


Landinn í aksjón!  Posted by Hello


Vera fór í sína fyrstu jeppaferð í gær. Fórum rétt fyrir utan Hafnarfjörð hjá Kaldárseli og Helgafelli í þvílíkar ófærur. Góð upphitun fyrir það sem koma skal upp á fjöll og jökla og útumallt! Íha. Posted by Hello

Annars hefur Vera það fínt. Hún er að leggja sig núna litla krúsin. Það er svo erfitt að vaka lengur en í einn og hálfan tíma í einu svo hún bara varð aðeins að sofna aftur. Hún er alltaf jafn mikil músí krúsí lús (ok, mamman að missa sig hér...) og er með krúttlegustu táslur í heimi eins og sjá má :)


Táslurnar Posted by Hello

miðvikudagur, september 15, 2004

To do listinn 

Vinkona mín sem er einnig í barneignarfríi tjáði mér um daginn að henni gengi bara vel með "to do listann" sem hún gerði fyrir orlofið. Hún væri búin að flokka digital myndir eftir ákveðnu voða flottu forriti, búin að græja ákveðinn hlut í eldhúsinu hjá sér og fleira jákvætt sem hægt var að strika út af listanum.

Það minnti mig á minn eigin aðgerðarlista. Áður en Vera fæddist var ég virkilgea svo græn að ég hélt í alvöru að barneignarfrí væru FRÍ. Ég hafði mestar áhyggjur af því að leiðast og hafa ekkert að gera í þessu laaaaaanga FRÍI. Svo ég bjó til to do lista dauðans til þess að grotna nú örugglega ekki upp og deyja úr leiðindum.

Listinn er eftirfarandi:

- Læra á gítar til að vera stuðhæf í partýjum
- Taka viðtöl við ættingja og fleira fólk og skrifa bók um hann afa minn sem var merkilegur karl
- Þæfa ullarlistaverk fram í rauðan dauðann
- Prjóna á krílið (sem felur í sér að læra almennilega að prjóna)
- Fara í líkamsrækt og taka af mér vömbina og styrkja mig andlega og líkamlega
- Láta teppaleggja stigann upp í ris með sísalteppi til að hann verði aaaaðeins minna hættulegur
- Heimsækja þá sem ég hef lengi trassað að heimsækja

Jahá!
Og nú eru 7 1/2 vika liðin og ekki eitt atriði dottið út af listanum.
En ég hef litlar áhyggjur af þessum blessaða lista nú þegar ég veit að þetta umrædda barneignarFRÍ er ekki frí heldur vinna. Var að fatta að Ríkið er ekki að borga manni fyrir þetta nema af því þetta er vinna. En þetta er skemmtileg vinna og ég er að njóta hvers dags með Veru. Knúsa hana og kynnast henni betur með hverjum deginum sem líður.

Svo ég hef ákveðið að gefa þennan blessaða to do lista minn upp á bátinn. Búa frekar til nýjan sem hefur það að markmiði að njóta tímans með músinni sem best ég get án þess að hafa áhyggjur af ómerkilegum aðgerðum sem bíða.

mánudagur, september 13, 2004

Jess! 

Þetta er yndislegur dagur.

Frétt dagsins er án efa sú að hún Fanney vinkona í Kína (sjá link á bloggið hennar hér til hliðar) sem er nýbökuð mamma, kom vel undan erfiðri aðgerð sem á henni varð gerð í andliti. Húrra fyrir því! Maður er búinn að vera þvílíkt stressaður hér með þessi skyndilegu veikindi hennar og hún og familían svona langt í burtu. Alveg var það hrikalegt. En það lýtur allt til betri vegar og það er von á þeim heim áður en langt um líður. Þá getum við Fanney farið að mömmast saman.

Önnur góð frétt er sú að bílasalinn á Akureyri hringdi í mig í dag og tjáði mér að forríki stífi erfiði tannsinn á magnaða Landrover Discovery-inum sem ég sýndi ykkur um daginn hefði séð að sér og væri til í að taka tilboðinu sem ég gerði honum í síðustu viku. Ég sagði bara ok baby - Akureyri here I come! Svo litla fjölskyldan heldur í sitt fyrsta ferðalag saman og brunar á Borunni til Akureyrar næstu helgi til að bítta á bílum. Sláum þrjár flugur í einu höggi í þeirri ferð: 1. Nýr bíll, 2. heimsækja vini sem eru nýflutt norður og 3. fara á úrslitaleik FH-KA. Áfram FH!!

Nú svo er auðvitað búið að vera frábært veður í dag og mamman búin að labba bæinn þveran og endilangan með músina.

Svo er Vera frábær og Viggi líka...

föstudagur, september 10, 2004

This&That 

Góðan og blessaðan allir sem einn.

Er að bíða eftir að Vera vakni og ákvað að skrifa nokkrar línur á meðan. Hún er svo mikil svefnpurrka þessi elska (sjö níu þrettán)... Ætla nú ekki að kvarta yfir því!

Elskulegi kórinn minn, Kammerkór Hafnarfjarðar (Kammerkór= lítill/fámennur kór) er byrjaður aftur að æfa. Fór á fyrstu kóræfingu vetrarins á miðvikudagskvöldið og það var alveg gott að vera mættur aftur og raula nokkrar nótur. Verkefni vetrarins eru líka þvílíkt spennandi og fjölbreytt. Jóladagskrá með kantötum og módettum (wow, ekki spyrja mig um hvað það þýðir = lög til að syngja!) bæði a capella (= bara raddir - tónlistarmálið er allt að koma hjá mér!) og með lítilli barrokksveit (hvað er það aftur??). Í febrúar verður svo flutt JAZZverk eftir Duke Ellington (sem er víst voða frægur jazz dude) og um páskana tökum við þátt í Blúshátíð Reykjavíkur og syngjum negrasálmaprógramm með heimsfrægri jazzsöngkonu. Jahá! Þvílíkt spennandi og skemmtilegt prógramm.

Annars erum við hætt við að kaupa Landann sem ég sýndi ykkur í síðasta bloggi. Hann var alltof dýr og kallinn (einhver forríkur tannski að norðan) vildi ekki hagga verðinu neitt svo það er út úr myndinni. En þá er bara að finna sér annan Landa, óbreyttan og ódýrari og láta breyta honum sjálfur. Kemur betur út.
Sjáum hvað setur, en að eiga jeppa í vetur, kitlar heldur betur...

Vá, var búin að gleyma hvað ég er góð í að ríma...

þriðjudagur, september 07, 2004

EndurfjárMAGNAÐUR Landrover 

Hef verið að velta því fyrir mér (líklega eins og hálf þjóðin) hvort það sé sniðugt að nýta sér þessi nýju húsnæðislán bankanna. Stærsti plúsinn við þau er auðvitað að greiðslubyrði á mánuði lækkar til muna. Ég reiknaði dæmið til enda fyrir okkur og kofann hér á Hverfó og munaði rúmlega 20 þúsund kalli á afborgunum á mánuði. Einnig er heildarendurgreiðsla mun minni (náttlega út af lægri vöxtum). Well, ég veit ekki hvað skal gjöra. Hvað finnst ykkur? Eiga einhverjir major ókostir við þetta eftir að koma í ljós á næstu mánuðum? You never know. Þegar maður nebblega hugsar um þennan 20 þúsund kall á mánuði sem maður myndir GRÆÐA (já, ég virkilega lít á það þannig!) þá sprettur allt í einu upp óslökkvandi löngun til að kaupa nýjan kagga! Já, kaupa kaupa kaupa kaupa....

Þannig eru málavextir nebblega að þegar torfærukerran/vagninn hennar Veru er kominn í skottið á Borunni er akkúrat ekkert annað sem kemst þar fyrir. Nada. Zero. Og þá verður ekki mikið um ferðalög fyrir familíuna. Jah, alla vega ekki lengra en í borgina (við erum sko í sveitinni). Án alls farangurs.

Og meira að segja er ég búin að finna draumabílinn. Landrover Discovery (þið verðið að kíkja á hann maður), upphækkaður þvílíkur doggari á 35". Frekar flottur og fullt af plássi. Svo kemst maður óhindraður inn í Þórsmörk og nánast út um allt sem kitlar þvílíkt! En þetta er dýr doggari. 3 mills settar á hann sem er aaaaaaaaaaaðeins of mikið fyrir okkur. Ekki nema maður myndi fara í að breyta húsnæðislánunum. Þá stemmir þetta ágætlega og greiðslubyrði á mánuði yrði sú sama með mun betri bíl. Ég myndi segja að ég væri verulega heit fyrir þessari endurfjármögnun (nýjasta tískuorðið í dag!).
Hvað segið þið?

mánudagur, september 06, 2004

Brosmilda Veran 

Vera varð 6 vikna í gær og sýndi sínar bestu brosmildu hliðar af tilefninu :)


 Posted by Hello


 Posted by Hello


 Posted by Hello

laugardagur, september 04, 2004

Mamma að djamma 

Mamman fór á smá djamm í gær. Og það gekk bara súper trúper. Vera í lagi, brjóstin í lagi, pabbinn í lagi = 100% árangur :)

Mamma er nú farin aftur heim til sín til Þýskalands. Verð að segja að mér finnst ansi leiðinlegt að Vera fái ekki að kynnast ömmu sinni eins vel og hún myndi gera væri hún hér á Íslandi. En svona er lífið. Hver veit nema Vera sé hvati á ömmu Gunnu til að flytja loks bara HEIM where she belongs...? Vonandi.

fimmtudagur, september 02, 2004

Gallup geim 

Jæja. Þá er komið að því. Á morgun verður tekið létt djamm og djús. Að sjálfsögðu er partý í Gallup en Galluparar eru einstaklega góðir í því að skemmta sér. Svo ég ætla ekki að láta mitt eftir liggja enda ennþá sannur Gallupari þótt í orlofi sé.

Gvöð hvað ég hlakka til að láta ljúft rauðvínið flæða um líkama minn... hljómar vel er það ekki??! Ok, hljómar kannski eins og ég sé bytta, en hei - það er ansi langt síðan það slapp inn fyrir mínar varir síðast. Svo ég mun sötra eitt, tvö, (tuttugu) glös.

Pabbinn ætlar að æfa sig á pelagjöf í kvöld og takist það vel er ekkert því til fyrirstöðu að móðirin skreppi létt úr á lífið :)

Sjáumst á tjúttinu!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker