<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júlí 31, 2007

Framtíð Nicaragua 

Posted by Picasa
Posted by Picasa
Posted by Picasa

mánudagur, júlí 30, 2007

Ég og Kían 

Ég er orðin bíleigandi hér í Nicaragua.
Eftir nokkra daga athugun á markaði notaðra bíla hér út um alla borg með bílstjóra sendiráðsins er ég nokkru nær. Til dæmis veit ég að Yaris er vinsæll hér eins og heima, nema hér er hann með skotti. Algjör krútti. Pallbílar eru ekki eins ódýrir og ég hélt enda langvinsælastir, þú kemur jú heilu stjórfjölskyldunni aftan á pallinn sem getur jú verið afar hentugt. Hér er líka vinsælt eins og heima á Íslandi að flytja inn bíla frá Bandaríkjunum, nema í flestum tilfellum eru það tjónabílar sem gerðir eru upp hér og seldir aftur. Rauðir bílar eru sjaldgæfir og víst ekki sérlega kúl að mati Nicabúa, rautt er því ódýrasta lakkið þegar sprauta á tjónabíl frá USA að nýju eftir viðgerð, flestir bílasalar eru svindlarar og það er erfitt að þurfa að efast um hvern einasta hlut í viðskiptum. Eða það finnst mér. Efast um að tryggingin sé í lagi, efast um að það sé ekki búið að fikta í km fjöldanum í mælaborðinu, efast um að bílasalan sé lögleg, efast um að bíllinn sé ekki tjónabíll sem var keyrður í þvílíka steik og klessu að flest í honum sé illa fengnir varahlutir og úr heimatilbúnu brotajárni.

En mér tókst að kaupa mér bíl þótt ferlið hafi tekið heilan dag. HEILAN DAG. Ég fór út í gærmorgun kl. 8:30 til að ná í pening og var komin heim kl. 19 - en þá með kaggann! Fyrir utan það að þurfa að sparka í öll dekkinn á bílunum sem ég skoðaði tíu sinnum og með báðum fótum (efast muniði) og horfa og hlusta á bílstjórann vin minn rökræða og díla og skvíla við sveitta bílasalasvikarana í þeim tón eins og þeir væru að fara að bretta upp ermarnar og taka í hvorn annan, þá var pappírsvinnan þegar ég loksins landaði draumabílnum upplifun út af fyrir sig. Feiti bílasalinn minn var með þykka gullkeðju um hálsinn og nokkra hringa og velmegunarbumbu sem lafði langt niður fyrir strenginn á gallabuxunum hans. Hann þurrkaði sér oft með svitaklútnum sínum og hann sleikti yfirvaraskeggið sitt reglulega í samningaviðræðunum af stressi og þegar hann var að sannfæra mig um að hann væri honest guy. Hann talaði pínu ensku og ég tók þátt í samningaviðræðunum af miklum móð og hafði gaman af. Þetta var alvöru.

Skrifræði og pappírsvinna hvers kyns er í hávegum höfð hér í Nicaragua. Þegar ritari bílasalans tók upp eldgamla kúluritvél til að vélrita samninginn á löggildan pappír brosti ég innra með mér. Hún pikkaði einbeitt með einum putta. Minnti mig á þegar mamma vann í gamla daga við að vélrita upp illa handskrifaðar ritgerðir fyrir háskólanema. Þá sofnaði ég iðulega við þetta sama hljóð og heyrðist í vélinni á bílasölunni. Mamma var aftur á móti svakalega fljót að vélrita og yfirleitt langt á undan ritvélinni sem var ennþá að hamast á meðan mamma fékk sér kaffisopa á milli blaðsíðna. Þetta var fyrir 25 árum eða svo. Og líka í Nica í gær.

Já, þá er ég orðin stoltur eigandi af rauðum töffaralegum (töffaralegur fer sko eftir því við hvað maður miðar) Kia Sportage! Með svörtum sólrúðum og samlæsingu. Já, nú get ég líka verið þekkt fyrir það að hafa átt ekta slyddujeppa. Og ég veit að margir sem ég þekki munu hlæja... sé sérstaklega fyrir mér bróður minn og Helgu Hlín bílatöffara fá kastið. En ég er hæstánægð með bæði dílinn og bílinn og hlakka til að krúsa á honum um landið.

Fann svo loks bílstól fyrir Veruna í dag og þá á ég bara eftir að kaupa rúm áður en dömurnar mæta á svæðið á föstudaginn. Og jú, tryggja bílinn, fara með hann að láta skrá hann, í mengunarmælingu... og god, man ekki hvað allt hitt var, en það voru nokkrir staðir í viðbót sem ég þarf að fara á til að keyra löglega á Kíunni minni. Jebb, skrifræðið muniði. EN ég er svo sniðug og Níka svo frábært að ég ætla að ráða til mín mann fyrir lítið til að sjá um þetta fyrir mig takk. Og allir græða.

Þá er bara að kaupa sér sólgleraugu í stíl eins og Gerður megapæja (líka á rauðum bíl sko) benti mér réttilega á.

sunnudagur, júlí 29, 2007

Costa Caribe - fegurð og fátækt 

Það má í rauninni segja að Nicaragua skiptist algjörlega í tvo hluta.
Landfræðilega og menningarlega.

Ég hef ekki ennþá fjallað um sögulegar og landfræðilegar staðreyndir um Nicaragua og ætti í raun að byrja á byrjuninni og ræða um landið í heild sinni, en eftir ferðina á föstudaginn til Bluefields verð ég aðeins að segja ykkur frá þessum hluta landsins; Costa Caribe, Miskito Coast eða hreinlega Atlantshafsströndinni á Íslensku (don´t ask me why - Atlantshafið er þarna lengra frá). Costa Caribe er alls ekki dæmigert Nica þótt Nica sé. Hefðir þeirra og tungumál er öðruvísi og í raun hafa þeir lítil samskipti við vesturströnd landsins.

Nicaragua liggur sem sagt að sjó bæði vestan og austan megin og að austan liggur það að Karabískahafinu. Þar skiptist landssvæðið upp í tvö sjálfsstjórnarsvæði sem kallast RAAN og RAAS (Región Autónoma del Atlántico Norte/Sur). Þetta landssvæði er mjög stórt eða rétt tæplega helmingurinn af landinu öllu þrátt fyrir að aðeins um 10% þjóðarinnar búi þar. Í stuttu máli er þessi hluti Nicaragua allt annar heimur heldur en sá sem snýr að Kyrrahafinu og 90% þjóðarinnar býr. Margir segja Costa Caribe sem eins og annað land inni í Nicaragua og heimamenn þar með taldir. Costa Caribe er sá hluti Mið-Ameríku sem gleymist oft að sé til.


Á Costa Caribe er fátt fólk og það á sér sögulegan uppruna héðan og þaðan úr heiminum.
Spánverjar náðu ekki að leggja þennan hluta Nicaragua undir sig á nýlendutímanum, eins og hinn helming landsins og einmitt þess vegna er þetta annar heimur. Bretar vörðu landssvæðið fyrir Spánverjum með stuðningi innfæddra og vegna sambandsins við Breta og áður fyrr samgangi við breskar nýlendueyjar tala margir blöndu af ensku og þeirra eigin upprunalega tungumáli. Kreól kallast það. Reyndar eru mjög mörg tungumál í gangi, alls konar kreól og indjánamál ásamt spænsku og einhverjir tala ensku.
Að mestu leyti byggja umrædd svæði Miskito indjánar sem eiga uppruna sinn í Latnesku Ameríku og etnísku hóparnir Sumus og Ramas, en uppruni þeirra er að hluta til indjánar og að hluta til frá Afríku. Svartir eru einnig um 5% íbúanna, en afrískir innflytjendur sem villtust af leið á sínum tíma eða strönduðu settust þarna að ásamt þeim þrælum sem höfðu sloppið úr prísund eða hafði verið sleppt. Breskir, þýskir, franskir og hollenskir sjóræningjar sem með tímanum blönduðust einnig þjóðinni útskýra þau bláau augu og ljósu húð sem finnast þótt sjaldgæft sé. Í kringum 1800 var svo flutt inn vinnuafl úr ýmsum áttum í löndum í kring til að vinna á kókos og bananaökrum svo víst er að blandan er margbrotin.
En kokkteillinn er vel hristur og eftir nokkur hundruð ár í sátt og samlyndi getur útkoman ekki verið önnur en undursamlega fallegt og yndælt fólk - og sem ég get ekki ímyndað mér að kannist svo mikið sem við hugtakið rasisma!

Náttúra Atlantshafsstrandarinnar er er einnig af allt öðrum toga en þeim megin landsins sem ég bý. Þéttur og illgreiðfær frumskógur í takt við Amazon gerir landið afar erfitt yfirferðar og aðal-samgöngumátinn er á ám í gegnum frumskóginn á litlum bátum - og á fæti þess á milli. Erfiðar samgöngur gera það einmitt að verkum að til dæmis mæðra- og ungbarnadauði er gríðarlega hár á svæðinu. Það eru engir vegir á milli bæja og þorpa og mikið af fólki vel einangrað á sínum stað.

Óhætt er að fullyrða að þessi sérstaki landshluti Nicaragua sé undirorpið gríðarlegri fátækt.
Í fátæktinni kristallast svo slæm staða félagslegra og hagrænna þátta sem og afar lág lífsgæði á heildina litið.

Heimili fólks í RAAN og RAAS eru fæst með rafmagn, eða aðeins um 21% í RAAN og 28% í RAAS. Mjög algengt er að margar fjölskyldur búi saman aðþrengdar í pínulitlum heimagerðum húsum og rennandi drykkjarvatn er aðeins að finna í höfuðborgum svæðanna tveggja, Bilwi og Bluefields. Í fæstum tilfellum myndi það þó tæpast kallast öruggt drykkjarhæft vatn. Aðrir ná í vatn í ám og lækjum. Heilsufarsvandamál eru stór og ólæsi, ásamt menntun yfir höfuð, er einnig útbreytt vandamál. Þótt skólinn sé orðinn ókeypis með nýrri ríkisstjórn býr fólk það afskekkt að aðstæður til að komast til og frá skóla eru erfiðar, ef ekki ómögulegar, fyrir langflesta utan höfuðborganna. Langflestir búa það mikið út úr og langt frá alfaraleið að það er enga þjónustu, hvað svo sem hún gæti kallast, að fá.
Mig dauðlangar að ferðast um svæðið og vonandi fæ ég tækifæri til að fara eitthvað lengra heldur en bara til Bluefields. Þetta er svona ekta ósnortið og orginal svæði sem bakpokaferðalangann mig klægjar í að kanna. Að ferðast í marga klukkutíma í smábát á Río Grande með Veru er samt varla í boði. Kannski stutt vinnuferð, hver veit.

Já, vissulega fallegt og heillandi en líka fjötrað í fátækt.
Við erum að vinna í þessu.

laugardagur, júlí 28, 2007

Aguacate 

Ég er akkúrat núna að borða glænýtt nýtýnt og ferskt avókadó úr garðinum í Sendiráðinu.
Namm.


Hér má sjá Curzio bílstjóra og Ernesto garðyrkjumeistara tína avókadóið
Ég fékk þó nokkuð af uppskerunni með mér heim mmmmm...Hluti Sendiráðsgarðsins
Hvað ætli grænmetið okkar og ávextirnir sé gamalt og eitrað þegar við kaupum það heima á Íslandi?
Posted by Picasa

föstudagur, júlí 27, 2007

Afmælisdagurinn 


Amma Gunna hélt smá afmæli handa Veru í gær á afmælinu hennar

Blásið á fyrstu þrjú kertin (af 9 - þrjú afmæli maður!)þórarinn Búi frændi 4 ára kíkti í afmælið


Afmælisveisla no. 2 er svo á laugardaginn og súperpabbinn nú þegar byrjaður að baka skilst mér...
En nú ætla ég að skríða undir moskítónetið mitt inni í velkælda svefnherberginu mínu, en loftkælingin nýja virkar wonders ahhhh! - og láta mig dreyma um hoppandi flugferð í pínulítilli flugvél til Bluefields hér hinu megin í Nicaragua á Costa Caribe, en þangað er einmitt ferðinni heitið eldsnemma í fyrramálið.
Posted by Picasa

fimmtudagur, júlí 26, 2007

Húshjálpin mín 

Draumur minn hefur ræst!

Í íslenska hraðanum og velmeguninni er æ algengara að fjölskyldur kaupi sér utanaðkomandi aðstoð til að þrífa heimili sín kannski tvisvar til þrisvar í mánuði. Ég hef alltaf sagt að ef ég mætti velja á milli þess að láta einhvern þrífa hjá mér eða eiga möguleikann á að fá mér eldabusku myndi ég hiklaust velja það síðarnefnda. Helst bæði samt, en það að fá tilbúinn mat án þess að þurfa svo mikið sem hugsa út í það glorhungraður og þreyttur á hundavaði, er draumur.

Á Íslandi hef ég hingað til ekki tímt að greiða húshjálp sérstaklega fyrir heimilisstörfin og frekar ákveðið að launa sjálfri mér á einhvern hátt fyrir vel unnin störf. En ég sé það núna að ég er nískupúki. Virðið í aðstoðinni er svo margfalt peninganna! Mér finnst óhemjuleiðinlegt að taka til en vil samt hafa hreint og fínt í kringum mig, þoli ekki drasl. Ég fer ekki að sofa án þess að þvotturinn sé samanbrotinn og húsið í nokkuð góðu ásigkomulagi. Það þýðir að kvöldin hafa farið meira og minna í tiltekt og slíkt, því ekki tímir maður dýrmætum tímanum eftir vinnu í þessa hundleiðinlegu iðju. Þá er maður líka að bagsa við að koma mat á borð sem kostar nú heilmikla vinnu með þriggja ára áhugasama og athyglisþurfandi dömu hangandi í lærinu á sér. Tja, tja og sei sei, víst er að blessuð bústörfin taka sinn toll og mér finnst allt í lagi að kvarta yfir því og hana nú! Draumurinn væri að sleppa við þetta.

En ég kvarta eigi meir. Ég er komin með MAID í vinnu hjá mér. Alvöru lifandi ótrúlega duglega og hard working húshjálp. Hjálp er nefninlega rétta orðið yfir þetta. Hús-hjálp. Hvað með að kalla hana líka sálu-hjálp, þæginda-þörf, dekur-dömu, undra-undur eða hreinlega bjargvætt. Draumadís passar samt kannski best.

Þessi nýja heimilisást heitir Euniser og vinnur hjá mér 3 x í viku. Hún tekur til, þrífur hólf og gólf hátt og lágt, drepur skordýr, býr um rúm, brýtur saman þvott, skrúbbar klósett, raðar í skúffur og - haldið ykkur - eldar handa mér mat. Mín bíður tilbúin fullútilátin dýrindis níka máltíð þrisvar í viku og hún eldar nægilega mikið til að eiga daginn eftir líka. Já, ég sagði draumur.

Ég lifi lúxus lífi. Ég er jafnvel orðin svolítið svona "heima-löt". Ég vaska ekki upp, setti seríósdiskinn minn ekki í vaskinn í morgun og tók ekki hárin úr sturtubotninum eftir morgunsturtuna heldur. Draumur. Orkan mín fer algjörlega í mig og tíminn líka. Hvort sem ég vil lesa, horfa á Grey´s, hanga eða dansa þarf ég ekki svo mikið sem hugsa um heimilið eða mat. Euniser sér bara um þetta, sér um að hafa mig ilmandi glaða og sadda með fullt hús matar alla daga.

Og sorrí þið hin heima sem eigið ykkur einmitt svona draum um draumalíf. Ég veit þið hljótið að öfundast út í mig, en svona virkar systemið hér. Og ég fíla það! Ég á pening og ég skaffa atvinnu. Ég Á í raun að hafa vinnukonu, og 3 x í viku er lítið, flestir eru með eina slíka alla virka daga, plús það að hafa fulltime pössupíu. Ég er að reyna að fullvissa mig um það á hverjum degi að ég eigi þetta skilið því víst er þetta dulítið skrýtið. Að vera húsbóndi og eiga hjú. Aftur til fortíðar en samt til framtíðar. Ég reyni að hugsa ekki um að mér finnist Euniser ekki endilega eiga þetta skilið, en hún er jú líka hæst ánægð með nýju vinnuna sína. Að fá meðmæli frá útlendingi fyrir vel unnin störf virkar wonders fyrir hennar framtíð.

Ég stefni ótrauð á að innleiða þetta þægindakerfi inn í íslenskan veruleika þegar ég kem aftur heim, því varla verður aftur snúið svo einfalt verði...

miðvikudagur, júlí 25, 2007

Afmælisstelpan mín 
Fékk þessar símamyndir sendar af afmælisstelpunni minni sætustu. Þau feðginin tóku sér frí í dag og fóru í Húsdýragarðinn að gera sér glaðan dag :)

Þriggja ára! Elsku Vera mín á afmæli í dag.

Hún er orðin 3 ára litla músin. Það eru þrjú heil ár síðan ég átti dömuna næstum því í giftingu i Garðakirkju. Jiminn, það var magnað.

Ég hef svo sem ekki miklar fréttir af dömunni síðan á síðasta mánaðarafmæli nema hvað hún er alltaf dugleg og sniðug. Skýr og klár. Og hræðilega sæt - sjáiði?!
Maður er jú búinn að vera fjarri góðu gamni og ég hef einungis talað við hana þrisvar í símann. Viggi segir mér að það gangi mjög vel og hann skilji núna hvernig sé að vera einstætt foreldri. Já, það er án efa ekkert grín þótt að daman sé algjört ljós.

Hér má sjá og heyra dömuna taka lagið með stæl að vana.

Amma Gunna ætlar að hafa smá afmæli í dag miðvikudag en svo heldur pabbinn alvöru veislu á laugardaginn kemur. Það eru að sjálfsögðu allir búnir að bjóðast til að elda og baka fyrir kallinn þar sem myndarlegi helmingurinn er fjarri góðu gamni. Því miður, ég vildi að ég gæti tekið þátt. En þess í stað er búið að plana annað afmæli í Níka og með bangsímonköku og hlaupahjóli og allt - hva, ég varð að gera allt til að reyna að toppa Ísland... ussuss....

Það eru bara 9 dagar þar til ég fæ að knúsa dömuna og ég get ekki beðið.
Það er komið alveg nóg af þessu mömmufríi í bili takk fyrir. En djö erum við samt að standa okkur vel!

Til hamingju litla sæta mús.
Posted by Picasa


Vera og Beta eiga sama afmælisdag - til hamingju Beta! - og þær eiga eftir að vera góðar vinkonur í Níka þrátt fyrir 27 ára aldursmun. Fyrir þá sem ekki vita er Beta vinkona á leiðinni hingað út með dömuna í heimsókn - sem aupair! Algjör bjargvættur.
Posted by Picasa

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Hér á ég heima 

Þá er loksins búið að tengja internetið heim, það gerðist fyrir löngu helgina. Ég er því komin í samband og hætt að stunda mollið í bili og satt best að segja ansi fegin. Það er svolítið sorglegt að hanga alein í molli öll kvöld japlandi á salati hehe. Þetta er líka nokkuð sorglegt moll, hálftómt þar sem búðirnar fara jafn óðum á hausinn og þær opna. Ríka fína fólkið, já eins og ég, kemur spariklætt og sýnir sig og leyfir börnunum að leika í peningaleiktækjum og jafnvel spilasölum sérhönnuðum fyrir börn. Trúbadorar syngja um bergmálandi ást og glæsibúðirnar eru tómar fyrir utan vopnaðan vörðinn.

Ég horfði á Sex&City áðan og So you think you can dance í gær. Og svo lauma ég Grey´s inn á milli í tölvunni þegar ég man að hlaða hana í rafmagnsskortinum. Ég leyfi mér samt ekki að svindla um of og tek reglulega eina og eina vel dubbaða mynd inn á milli fyrir utan suður amerísku sápurnar sem eru samt alveg í það dramatískasta fyrir minn smekk. Ég lagði svo loks í að prófa þvottavélina um helgina og tókst það þrátt fyrir að skilja ekki bæklinginn sem fylgdi með. Ég hafði verið að forðast þetta fornaldarlega monster síðan ég mætti á staðinn en sá svo síðan þegar ég fór að tékka á þessu að það var um fernt að velja 1) kalt/volgt 2) kalt/kalt 3) lítill þvottur 4) mikill þvottur. Og ON. Og það tókst og ég ilma nú eins og amerískt eitrað þvottaefni. Hér dugar ekkert Neutral eins og heima, hér verður að þvo (tja, eða skola eins og vélin virðist gera) með ekta eitri og slatta af því til að fá þvottinn hreinan.

Svo ég er sem sagt komin í gott samband við umheiminn og líður undursamlega með það - þrátt fyrir kjánalegan tímamismun á milli Nicaragua og Íslands. Ég mæli eindregið með því að þið sænið ykkur á msn síðla nætur bara fyrir mig. Ég heyrði í fyrsta sinn í Veru&Vigga á Skype í dag og hjartað tók kipp. Það vantar í raun bara fjölskylduna til að fullkomna dæmið. Og jú, smá rafmagn og dass af vatni á köflum, en það er ótrúlegt hvað maður aðlagast! Ég dansaði enn einn salsadansinn í myrkri áðan og svitinn er þornaður á mér núna. Rafmagnið og vatnið kemur á klukkan tíu ef allt er eins og vanalega. Ég er farin að læra á þetta. Ég stefni svo á að kaupa eitt stykki bíl og bílstól í vikunni ásamt rúmi fyrir Betu. Ég veit mér tekst það en samstarfsfélagarnir eru líka allir að vilja gerðir og stjana í kringum mig með að redda öllu sem þarf, hvort sem það er bíll eða bara græja þvottasnúrur eins og um helgina. Nei, það er ekki til þurrkgrind í Managua, búin að tékka alls staðar.

Já, ég fer að verða heimavön og ég held að þetta sé tímapunkturinn þar sem það er fyrir alvöru að verða mér ljóst að ég er hér ekki eingöngu í fríi. Hér á ég heima. Ég er farin að kaupa mér snarl af götusölufólki, vakna við fuglasöng í stað vekjaraklukku á morgnanna, farin að rata heim hvaðan sem er úr borginni og farin að geta sagt leigubílstjórum reiprennandi leiðarlýsinguna hvar ég bý, í stað þess að hafa áður þegjandi rétt þeim miða með lýsingunni, og borga þar af leiðandi helmingi minna fyrir farið.

Já, mér líkar vel hér heima.

mánudagur, júlí 23, 2007

Hipica í Nandaime 

Ég var skyndilega stödd í kúrekavestra í gær.

Ég fór á hátíð í Nandaime, um klukkutíma frá Managua, sem kallast Hipica. Það þýðir víst að fara á hestbak. Hipica er mikill gleðidagur í Nandaime þar sem Santa Ana, dýrlingur bæjarins, er hyllt. Þá fara allir kúrekar í bænum og reyndar alls staðar af landinu, í sitt allra fínasta kúrekapúss og ríða í langri skrúðgöngu um bæinn á sínum glæsifák. Sumir ríða rándýrum verðlaunahestum en aðrir fátækari á ómerkilegri grip. En það skiptir ekki máli á degi sem þessum, það eru allir kúrekar og það taka allir þátt.

Það var ótrúlega flott upplifun að vera umkringd dansandi klárum, kúrekahöttum og hafsjó af kögri, því þetta var algjörlega ekta. Kögur er kúl - og því meira því betra! Mér var milljón sinnum boðið á bak en afþakkaði pent og bar myndavélina fyrir mig sem afsökun. Þið smellið bara á myndirnar til að sjá þær stærri, þeir eru margir hverjir ansi vel múnderaðir. Langflestir eru mjög þyrstir í Romm og Wiskey í klaka á degi sem þessum og ég laumaði mér í burtu seinnipartinn áður en húllumhæið yrði einum of fyrir gervikúrekastelpuna mig.


P.s.
Ég fór vel dressuð í kúrektaþemapartý heima ekki fyrir alls löngu og þar hlógu allir að múnderingunni minni...Posted by Picasa
Posted by PicasaPosted by Picasa

Posted by Picasa

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker