<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, desember 31, 2004

Uppgjör 

Nú árið er liðið í aldanna skaut og ekki út vegi að rifja aðeins upp hvað gerðist á því herrans ári 2004.
Árið var í heildina mjög gott. Við fórum í svaka fínt Ameríkufrí og eignuðumst dóttur! Geri aðrir betur :)

Janúar: Komin stutt á leið en leið mjög vel og djöflaðist í nokkur skipti á snjóbretti í ágætu færi. Fór í sónar og sá kraftaverkið í fyrsta sinn. Það er ógleymanleg upplifun!

Febrúar: Sagði vinkonunum í vinnunni frá óléttunni og þær trúðu mér ekki: "Ha, ha, fyndin - þú? Eeeeemmmett! Jæja, haltu áfram með söguna... Nei, í alvöru - ertu ekki að djóka? Ó, fyrirgefðu... til hamingju elskan!" Jebb, ég var greinilega ekki grunuð hjá þeim! Tókst að leika á þær og fela þetta svona vel - svo kannski hafa þær ekki séð mig sem þetta dæmigerðu mömmutýpu - veit ekki. En alla vega, þær trúðu mér á endanum eftir soldið moj. Eftirminnilega fyndið móment!

Mars: Árshátíð IMG á Akureyri stendur upp úr í mars. Það var fínt edrú djamm og tókst mér óléttri dömunni að fara með þeim síðustu í bælið upp úr kl. 8 um morguninn. Ein besta snjóbrettalausa Akureyrarferð sem ég hef farið í. Já, það var helsta afrek marsmánaðar.

Apríl: Ameríkuferð aldarinnar var farin í apríl. Vorum í rúmar 3 vikur í New York og Californiu. Var í fyrsta sinn í USA og varð ekki fyrir vonbrigðum. Gleymdi öllu um stríð og vesen á meðan ég var þar og var bara í góðum ameríkufíling með rúllandi erri! Steig 4 sinnum upp í flugvél í ferðinni og læknaðist ágætlega af flughræðslunni. Kominn tími til. Afi Skarpi fór upp til himna. Blessuð sé minning hans.

Maí: Mín 28 ára. Maí er alltaf góður mánuður. Vorið er komið og komið ágætt veður og svona. Ég man nú ekki eftir neinu sérstöku í maí nema bara komin 6 mánuði á leið og leið ágætlega. Kúlan var svona að springa út þarna.

Júní: Óvænt brúðkaup hjá Elvu og Torfa - já, þau laumuðust til að gifta sig í skírn sonar síns - í lopapeysum og gúmmískóm í þokkabót og ég grét af gleði (og hormónasjokki). Kolla og Aron útskrifuðust sem læknir og verkfræðingur - ágætis parasamsetning þar á bæ! Mývatnsferð með kórnum mínum var frábær og ber þar hæst í minningunni afar spes hljómsveitarstjóri...

Júlí: Harpa og Gunni giftu sig 10. júlí og ég stýrði stuðinu í partýinu. Það var rosa gaman. Slædaði mér svo á kúlunni þegar ég brussaðist um að reyna að grípa brúðarvöndinn. Og ég greip hann!! En ekkert bónorð ennþá. Kjartan bróðir Vigga og konan hans giftu sig svo 24. júlí. Við vorum á leiðinni í brúðkaupið þegar ballið byrjaði. Já, Vera var tilbúin að koma í heiminn. Og hún kom þann 25. júlí. Ólýsanleg stund með öllu. Getið lesið nánar um fæðingarsöguna hér. (skrifuð 1.ágúst).

Ágúst: Fyrsti mánuðurinn sem mamma og það gekk eins og í sögu. Smá brjóstastíflur og þreyta en hei - ljúfasta barnið var mitt! Vera var skírð 22. ágúst og buðum við í 50 manna veislu heima á Hverfó sem var svo skemmtilegt! Elska að halda veislur.

September: Vera fór í fyrsta sinn til Akureyrar. Við heimsóttum vini okkar þangað og skiptum á Borunni og THE JEEP - Discoveryinn er þvílíkt að standa sig. FH urðu Íslandsmeistarar og haldiði að það sé ekki bara mynd af mínum manni á leiknum í bókinni "Risinn er vaknaður" (FH bók sem kom út um jólin).

Október: Halldóra frænka sem býr í Sverige (með sænskum hreim) og Skarphéðinn sonur hennar sem er 2 vikum eldri en Vera komu til Íslands í heimsókn. Það var æðislegur hang-out mömmutjill tími. Frábært að hafa frænku sína í sömu sporum og geta mömmast með henni. Ég grét þegar þau fóru aftur heim. Snökt. Vera byrjaði í ungbarnasundi og það er frábært! Bara vonandi að börnin skemmti sér eins vel og foreldrarnir!

Nóvember: Ég neydd viljug í Starfsmannafélag IMG. Gott að byrja að virkja heilabúið aðeins aftur. Mamma varð fimmtug.

Desember: Ég naut jólaundirbúningsins aftur í fyrsta sinn í langan tíma. Dedúaði við heimilið og föndraði fyndið jólakort (að mínu mati alla vega!) Skipulagði IMG jólaglögg sem tókst svaka vel og jólaball fyrir börnin sem þeim fannst skemmtilegt. Mamma kom heim og jólin voru svaka fín. Gamlárs er svo í kvöld og ég þarf að fara að undirbúa 15 manna matarboðið okkar...

Ég er ábyggilega að gleyma einhverju svakalega skemmtilegu og eftirminnilegu - en ég kenni brjóstaþokunni bara um það.
Ég vill bara þakka öllum þeim sem hafa lagt í púkk í að gera árið 2004 gott fyrir mig. Ábyggilega þar með talið þér sem ert að lesa þetta.
Love you gæs.
E

mánudagur, desember 27, 2004

Jólaflóð 

Við lifum í allsnægtum hér á Íslandi. Í þvílíkum munaði að menn muna ekki annað eins. Fólk splæsir í amerískum trukkajeppum með 6 dekkjum og einbýlum með sundlaug og tilheyrandi eins auðveldlega og að kaupa sér mjólk og snúð. Setjum þetta bara á Visa. Eða nei,... Júró í þetta sinn.

Og ég líka. Ég er hluti af þessum pakka. Á hús og bíl sem ég á ekkert í. Eins og hinir af minni kynslóð. Við erum skuldakynslóðin. Amma skilur þetta ekki þegar ég bið hana um að ábyrgjast lánin og hefur þvílíkar áhyggjur af því að við förum brátt á hausinn. Hún skuldar auðvitað ekki neitt. Á 400 fm húsið sitt og bílinn skuldlaust. Ég hef samt ekki minnstu áhyggjur af lífinu. Svona er þetta bara. Hefur alltaf verið. Það er einhvern veginn ekki eins og maður eigi seðilinn undir kodda fyrir því sem þarf að kaupa. Jebb, við nefninlega ÞURFUM þetta allt alveg lífsnauðsynlega. Án gríns. Á Íslandi alla vega.

Maður missti sig að sjálfsögðu í gjöfunum þessi jólin sem önnur og hafði gaman af. Annars er þetta ekkert skemmtilegt. Viðurkennum það bara að það er lítið fútt í að gefa kerti og spil í jólagjöf í dag, jafnvel þótt það sé krúttlegur hugur á bakvið það. Það yrðu góð vonbrigði á þeim bænum. Eins og maðurinn sem ég þekki sem gaf konunni sinni bumbubanann... góð og kærleiksrík skilaboð það í anda jólanna! Hann varð ekkert sérlega vinsæll þau jólin. Eða annar góður karl sem keypti brauðrist handa sinni spúsu.... kommon... er ekki að virka! Jú, það vantaði brauðrist á heimilið en konan hefði pottþétt frekar vilja borða frosið og gamalt brauð næsta árið í stað þess að fá þessa ristavél til að rista það í frá manninum sínum. Var ekki að gera sig. Jólin eru fyrir löngu orðin að ég myndi segja frekar ópersónulegri hópgjafasvallhátíð. Og mér finnst það hrikalega gaman, þótt ég reyni eins og ég get að vera persónuleg í gjöfunum.

Vera fékk massann allan af gjöfum og kunnum við þeim sem gáfu henni jólagjöf bestu þakkir fyrir. Veru mun ekki skorta föt eða dót næsta árið og er það vel. Mamman hefur hins vegar aldrei fengið eins fáar gjafir áður og ég viðurkenni að mér fannst það soldið svona hehemm. Nei, segi bara svona. Fannst í raun mun skemmtilegra að opna gjafirnar hennar Veru heldur en mínar, en hún var svo spennt yfir þessu öllu að hún bara sofnaði á meðan þessi gjafaopinberun fór fram.

Þegar ég sit hér og hugsa um hvað við höfum það fínt, þrátt fyrir einstaka peningaáhyggju um mánaðarmót og dimmt og kalt skítaveður verður mér hugsað til heimildamyndaþáttar sem ég sá rétt fyrir jólin í sjónvarpinu. Í honum var fátæku íslensku fólki fylgt eftir. Þetta var alvöru venjulegt fólk sem þarf að hugsa um hvern einasta hundraðkall sem það eyðir. Úff. Maður gleymir í allsnægarpartýinu að það er nokkuð um fátækt hér á landi. Ég hélt í fávisku minni að fátækt fólk á Íslandi væru aðallega rónar, klikkhausar og letingjar sem nenntu ekki að vinna, en ó nei. Þarna var rætt við klárar konur og menn sem einhvern veginn hafa lent svona í því að eiga varla í sig og á. Ég fékk nú bara tárin í augun. Ég sat þarna að pakka inn jólagjöfum fyrir þúsundir króna á meðan fátæka konan í sjónvarpinu þurfti að fara til mæðrastyrksnefndar að betla sér jólamat. Alveg hrikalegt fyrir sjálfsvirðinguna og móralinn. Þetta er svo fjarlægt manni um leið og þetta er kannski konan í næsta húsi. Hún leit út fyrir að vera eins og þú og ég, nema hafði ekki getað klárað skóla á sínum tíma, átti 3 börn og skildi við manninn sinn. Það þarf ekki meira til.

Eins verður mér hugsað til nýyfirstaðinna hamfara úti í heimi. Þetta er líka svo fjarlægt manni. Maður er ennþá bara með jólabrosið frosið fast á feisinu og er svo tilfinningalaus þegar maður les slíkar fréttir utan út heimi. Endalausar stríðsfréttir hafa líka einhvern veginn gert mann dofinn fyrir svona fréttum. Maður skilur varla hvað það þýðir þegar 30 þúsund manns farast í einu. Bara kvissbang. Því miður. Nema í þetta sinn fékk ég í magann. Því ég hef verði á þessum slóðum og gat lítillega tengt mig fréttinni. Og fékk kökk í hálsinn. Þetta er án efa hrikalegra en nokkur maður hér á Íslandi getur ímyndað sér. Við í lifanda lífi hér í dag höfum aldrei upplifað slíkan harmleik að við getum samsamað okkur svona atburðum. Kannski einhvern tímann skellur flóðbylgja á okkur eftir jarðskjálfta á Reykjanesskaga eins og Nostradamus spáði fyrir og þá munum við kannski fá að vita það. En vonandi ekki.

Áður en ég verð svartsýn og bölsýn og niðurdregin og leiðinleg ætla ég að hætta. Jólaflóðið er yfirstaðið, bæði hér á Íslandi og vonandi í Asíu líka. Ég sendi þeim eins góða strauma og ég get en verð að halda áfram mínu striki sem ríkur íslendingur, bæði í huga og vasa, og fer til vina minna að spila.
Það toppar jólin mín þótt hlutirnir spilist því miður öðruvísi hjá mörgum öðrum.

laugardagur, desember 25, 2004

Vera 5 mánaða í dag! 


Vera er orðin 5 mánaða! Jahérna hér og jahá. Skvísan er orðin stór. Er farin að grípa í táslurnar á sér, snúa sér eins og ormur á gólfinu og leika sér að snuðinu sínu. Jebb, hún er ekki lengur baby baby heldur orðin að krakka! Vera er algjör músla. Er alltaf ánægð og brosandi og kát eins og sjá má á myndunum :) (ok, viðurkenni að maður þarf stundum að búa til ansi gott grettufeis og hljóð með til að brosi komi svona innilega - en það kemur alltaf á endanum!)kissí kissí Posted by Hello


Á afmælisdaginn í kjól sem amma langamma Silla prjónaði Posted by Hello


5 mánaða afmælisstelpan og mamí Posted by Hello


Fín í jólakjólnum Posted by Hello


Vera á aðfangadag í pakkaflóði Posted by Hello

þriðjudagur, desember 21, 2004

Bakarameistarinn ég 

Ég er bakarameistari. Komst að því um helgina. Þá tókum við Kolla vinkona okkur til og bökuðum fyrir jólin eins og brjálaðar konur. Skinkuhorn, jólabrauð, sörur, Ömmu Völukökur, piparkökur og lakkrísmarengstoppar voru afrakstur dagsins. Jú, þetta tók okkur heilan dag en þetta var frábær dagur. Við vorum ýkt óskipulagðar til að byrja með en svo bara small þetta og við röðuðum kökunum í ofninn. Og knúsuðum Veru inn á milli. Þvílíkur og annar eins bakstur hefur ekki sést á þessu heimili. Við spiluðum jólatónlist undir látunum og komum okkur í jólafíling. Og það tókst bærilega. Ég alla vega hlakka alveg þokkalega til jólanna, tók innpökkun á þúsund gjöfum í gær sem bætti enn meira í stemmninguna. Mamma kemur svo á morgun frá Þýskalandi til að vera með okkur yfir jólin og þá held ég bara að stuðið sé komið.
Já, ég er bara bjartsýn fyrir þessi jól, aldrei þessu vant. Jólin hreint og beint eyðilögðust fyrir mér þegar ég var 13 ára og mamma og pabbi skildu. Eftir það voru þau bara vesen og leiðindi.
En ég verð að segja að ég er barasta orðin þokkaleg jólastelpa eftir allt saman. Komst að því að þetta er nefninlega spurning um mindsett. Og svo vill ég líka að fyrstu jólin hennar Veru verði góð, jafnvel þótt hún hafi ekki hundsvit á því. En gott að setja tóninn snemma. Og reyna svo að halda honum út.
Ég segi bara gleðileg jól allir sem einn og þakka allt liðið bæði á síðum þessa forláta vefs og annars staðar.
Heyrumst eftir jólin.
Erla jólastelpa.

laugardagur, desember 18, 2004

18. desember 2004 

Í dag er 18. desember. Já, sá dagur rennur upp á hverju ári eins og aðrir. En mér finnst hann smá pínu merkilegri en aðrir fyrir þær sakir að í dag eru nákvæmlega 12 ár síðan ég kynntist Vigganum. Ég endurtek, 12 ár. 18. desember 1992. Já, til hamingju, við eigum 12 ára ammæli í dag. Við reyndar byrjuðum saman stuttu síðar, eftir áramótin, en það er sama, 18. desember er dagurinn er við hittumst allra fyrst. Við höfðum þó ábyggilega sést á vappinu í Hafnarfirði fyrir þann dag án þess að hafa veitt hvort öðru athygli. Ég vissi samt hver Viggi var, en það var bara af því Auðun var bróðir hans og Auðun var í 10. bekk þegar ég var í 7. og gvuð hvað hann Auðun var sætur. Ég kaus hann Herra Víðó og allt á sínum tíma. Auðun og Viggi eru ekki svo ólíkir! Hei, ekki misskilja mig samt, þetta var þegar ég var 13 ára og hafði ekki enn hitt Vigga in person!

Alla vega, ég hef áður á síðum þessa bloggs (18. desember í fyrra) sagt frá því hvernig örlögin leiddu okkur Vigga saman á þessum degi. Það voru ýmsar tilviljanir sem gerðu það að verkum að við vorum á sama stað á sama tíma. Við vorum bæði á Hótel Íslandi tjúttandi við Sálina á jólaballi HSÍ.

Þessi tími er skýr í minningunni. Ég var svo skotin í Vigganum eftir að við hittumst þarna fyrst að ég gerði hvað sem er til að hitta hann aftur. Tróð mér í ýmis Hafnarfjarðarpartý þar sem ég vissi að hann myndi vera, fór að mæta á FH handboltaleiki upp úr þurru öskrandi úr mér lungun að styðja rétta liðið og vildi helst gista hjá Elvu vinkonu á Flókagötunni í Hafnarfirði í stað heima í Eskihlíðinni í Reykjavík, þar sem það var nær því sem Viggi bjó. Já, ég held að segja megi að ég hafi við fystu kynni orðið alveg snarbiluð af ást! Vigginn var aðeins rólegri í tíðinni með þetta. Fannst ég óþroskuð gelgja sem var að æfa sund en ekki handbolta sem var ekki alveg nógu kúl. Ég var rauðhærð og stór – stærri en hann (og miklu stærri á hælum!), gekk í heimasaumuðum hippafötum og var með stóran lokk í nefinu. Neeeeeeei, hann var ekki alveg sjor með þessa ofvöxnu athyglissjúku gelgju.

Ó, well. Ég var 16 og hálfs og var að byrja að verða töffari. Samt smá enn að æfa sund svo maður var svona að staðsetja sig. Var farin að skrópa á einni og einni æfingu til að geta laumast í partý og svona. Nú, ég fór heim með Vigga eftir ballið á Hótel Íslandi. Ég man að ég var klædd í heimasaumaðar hippabuxur úr gömlu appelsínugulu og brúnu gardínuefni, leðurvesti, og kanínuskinnsjakka. Ég man það því ég svaf í öllum fötunum uppi í rúmi hjá honum. Var að kafna en vá, þorði sko ekki fyrir mitt litla líf úr fötunum strax með þessum gæja. Hann var soldið hættulegur í mínum augum! Með sítt rokkað hár, í leðurbuxum og með hringi í báðum eyrum. Alveg hrikalegur töffari. Fæ bara í magann að hugsa um það núna!

Eftir þetta kvöld lét ég hann finna fyrir mér. Ég samdi ljóð handa honum og fór með til hans. Alveg blinduð af ást. Fór með ljóðið til hans in person (já, hef alltaf verið svona væmin!) og litli bróðir Vigga tók við því þar sem kauði var ekki heima. Ég er núna viss um að hann hafi hlegið sig máttlausan yfir því! Hlýtur að vera því það meikaði engan sens! Þarf að ræða þetta við Vigga! Eins gerði ég allt til að komast inn á skemmtistaðina sem ég vissi að hann og Hafnarfjarðarpungarnir stunduðu, Hressó og Rósinbergkjallarann. Ég gerði hvað sem er. Eitt kvöldið tók ég mig sérstaklega til og ætlaði mér að hitta Viggann. Þetta var rétt eftir áramót og það var 10 stiga gaddur úti. Ég var í stuttum þröngum stuttbuxum sem voru svo stuttar að sást í rassaslepjurnar, nælonsokkabuxum og háhæluðum hnéháum stígvélum. Og auðvitað kanínuskinnsjakkanum. Ég gerði mig eins pæjulega og fullorðinslega og ég gat því dyraverðirnir yrðu að trúa því að ég væri 20 ára. Ég var búin að týna falsaði skírteininu mínu svo þetta bara yrði að ganga. En nei. Það tókst ekki þetta umrædda kvöld. Ég alveg brjáluð og hljóp því bakvið hús þar sem Hótel Borg er, klifraði þar á þrjóskunni upp á eitthvað grindverk og upp á þak. Tiplaði á þakinu yfir hús og hýbýli þar til ég kom að Hressógarðinum. Þar hoppaði ég niður, orðin vel tætt, í rifnum sokkabuxum og hárlausum kanínujakka, og tróð mér inn um lítinn glugga. Þar lenti ég svo öfug beint á dansgólfinu í miðju Deep Jimi and the Zep Creams eðahvaðþeirnúhétu lagi (ó mæ god, muniði eftir þeim?? Var sko rokkari í den...!), stóð upp og byrjaði að dansa eins og ekkert væri! Fann svo Vigga og var hæst ánægð með kvöldið! Já, maður var snarbilaður af ást. Og er enn. Eftir þetta hringdi hann í mig og bað mig um að koma að passa með sér. Jahá, passaði töffarinn svo líka börn... ú, rómó! Og þá var það komið!

Ég ætla að baka amerískar pönnslur á morgun í tilefni dagsins og færa Vigganum í rúmið. Eins er ég búin að kaupa heila öskju handa honum af alls konar hjartalöguðu belgísku eðalkonfekti. Já, soldið slísí en skýr skilaboð. Og húmor er öllum 12 ára samböndum góður. Svo er hann Viggi minn þvílíkur súkkulaði(sætur)nammigrís.
Amminamm.

föstudagur, desember 17, 2004

Barnauppeldi 

Hafði ekki beint gert mér grein fyrir kúnstinni að ala upp börn áður en ég átti Veru. Og eiginlega fram til dagsins í dag. Allt í einu finnst mér hún orðin svo stór og vitur (sérstaklega gáfað barn) og þykist vera með heiminn á hreinu að ég þurfi að fara að beita ákveðnum aðferðum á hana við hitt og þetta. Ætli þær kallist ekki uppeldisaðferðir. Býst við því. Vera verður brátt 5 mánaða og verður æ klárari með hverjum deginum sem líður. Mér finnst svo gaman að sjá hana þroskast. Einn daginn hefur hún allt í einu svaka áhuga á tánum á sér og grípur í þær við hvert tækifæri, svaka uppgötvun þessar tær! Ekkert smá sætt. Svo allt í einu er hún farin að uppgötva snuðið sitt. Tekur það lymskulega út úr sér og skoðar og setur aftur upp í sig, svaka hissa - jahá - er það þá þetta sem mér finnst svo gott að sjúga fyrir utan brjóstið á mömmu. Og þar fram eftir götunum. Allt að gerast núna einhvern veginn finnst mér. Og þá poppar orðið uppeldi upp í hugann. Að ala upp. Jesús minn, hvað þýðir það eiginlega? Ég hef ekki lesið staf um uppeldi á ævinni. Á óléttunni las ég ekki um óléttuna, heldur lét þetta bara líða áfram og leyfði mér að komast að því sem var að gerast jafn óðum. Og það sama er með Veru. Já, táslutímabilið er núna já. Aha, hún er á mannfælutímabilinu núna. Og þannig skiljiði. Margar mæður detta í lestur og lesa sér til um hvernig á að gera hlutina, hvað rannsóknir sýna að virki best varðandi hitt og þetta. En ekki ég. Er ég áhugalaus mamma? Ég hef í fyrsta lagi ekki tíma til að lesa og í öðru lagi hef ég aldrei verið góð í að taka skipunum (er frekar meira fyrir að gefa skipanir... hmmm). Svo ég læt þetta bara líða áfram í sínum rólegheitum.

Og svo kom að því fyrir um 10 dögum að Vera vildi ekki fara að sofa. Og alla dagana þar á eftir. Og þegar hún sofnaði vaknaði hún oft og iðulega spræk sem læk(ur) syngjandi glöð og blaðrandi nonstop við sjálfa sig og einhverja drauga í loftinu. Í nokkra klukkutíma. Og stundum fram á miðja nótt.
Og þá voru góð ráð dýr. Hvað skildi gera? Hvað segja fræðingarnir? Gvuð, ég hef ekki hugmynd um það. Við reyndum okkar besta í að svæfa hana aftur og gera okkar thing en ekkert virkaði. Í 10 daga núna og mamman orðin verulega grumpy. Farin að blóta upphátt fyrir framan dömuna kl. 3 á nóttunni og hreyta orðunum í hana í stað þess að tala blíðlega eins og vanalega. Ég bara var ekki að meika þetta í sannleika sagt. Maður reynir og reynir og heldur í smá stund að manni hafi tekist að svæfa hana aftur... og svo líða 2 mínútur og allt var fyrir bí. Það getur verið slítandi.

Ég var næstum því farin á bókasafnið í dag til að kíkja á réttu lausnina. Ákvað þó í staðinn að tala frekar við reyndar mömmur sem ég þekki vel. Sérstaklega eina vinkonu who know it all. Á 2 börn og virðist bara vita allt sem þarf að vita. Ætli hún sé ekki að lesa allt sem þarf að lesa. Svo spyr ég bara og fæ allar nýjustu og bestu upplýsingarnar, bæði fræðilega og reynslulega. Góður díll það! Hún ráðlagði mér að ignora hana og leyfa henni bara að spjalla og láta svona, hún myndi á endanum verða þreytt og sofna. Ég skyldi kaupa mér eyrnartappa og fara sjálf að sofa.

Svo ég splæsti í eyrnartappa í dag og er nú þegar búin að stilla þeim upp við koddann minn. Ahhh. Það verður friður í nótt. Og nú er klukkan 12 á miðnætti og daman búin að sofa eins og draumur í kvöld. Svo kannski þetta sé bara búið. Vonandi. En eyrnartapparnir eru á sínum stað in case if. Ætla að vera útsofin um jólin takk fyrir.
Vonandi er þetta tímabil bara liðið hjá og Vera engill farin að sofa aftur eins og engill. Ég held það hafi einmitt staðið í manúalnum sem fylgdi henni þegar hún fæddist.
Já, einmitt.

fimmtudagur, desember 16, 2004

Marisnobbo 

Ég fór um daginn í búð hér í bæ til að kaupa mér efni í diskamottur. Já, sauma skyldi nýjar diskamottur fyrir þessi jól. Ég er ekki vön að leggja leið mína í þessa búið þar sem hún er svo dýr en þykir svaka gaman að koma þangað vegna þess hversu flott hún er. Já, við erum að tala um Epal.

Ég valdi mér forláta rautt blómaefni sem mér þótti bæði jólalegt og sumarlegt í senn. Og bara sjúklega flott yfir höfuð. Ég bað um 3 metra takk. Ekkert mál. Svo spurði ég konuna í rælni hvort það væri nú ekki betra að þvo efnið áður en ég myndi sauma úr því upp á að það myndi hlaupa eða skekkjast eitthvað. Epalkonan horfði á mig undrunarsnobbaugum og sagði: "Hvað meinarðu, uh, þetta er MARIMEKKO!!!" Ég roðnaði lítið eitt en hélt mínu striki og sagði bara "ó... já, einmitt, Marimekko já". Ég vissi það nú svo sem, en vissi nú samt ekki að þetta væri svona rosalega merkilegt efni að það myndi ekki hlaupa eða togast til í þvotti. Vá, þvílík hönnun!
Nú, þrátt fyrir vitneskjuna um þetta undraverða efni skellti ég efninu í þvottavélina áður en ég saumaði úr því, því það var það dýrt að ég ætlaði sko ekki að taka neinn sjéns.

Svo mældi ég það svakalega samviskusamlega og reif í búta. Og þá byrjaði ballið. Þetta var allt skakkt og skælt! Demit. Marimekko smekko... þetta er bara venjulegt bómullarefni sem skekkist eins og annað! Hefði átt að vita það.
Svo við tók að mæla alla bútana upp á nýtt og klippa. Og mér hreinlega tókst það ekki! Ég var byrjuð að bryðja á mér endajaxlana af pirringi þegar Viggi kom heim mér til bjargar. Ég hugsaði með mér að þrátt fyrir ágætis reynslu í fatasaumi og öðru föndri þá á mér ekki eftir að takast þetta. Ég er ekki nákvæmnismanneksja, feis it. Svo ég spurði Vigga hvernig hann fari nú eiginlega að því að byggja heilu húsin með þráðbeina veggi??! Hann svaraði: "Nú, með því að mæla þá". Arg. Ég var svoleiðis búin að mæla þetta í spað en alltaf var þetta skakkt og bútarnir bara minnkuðu og minnkuðu... sá diskamotturnar hægt og rólega verða að glasabökkum ef ég héldi áfram að díla við þær. Svo smiðurinn tók við og kláraði. Á sinn yfirvegaða hátt. Og klippti fimlega.

Ég saumaði svo úr þessu í gærkvöldi, heil 9 stykki, fóðruð og allt. Og diskamotturnar eru hreint og beint æði!

Komst að því að það er ekki mikill munur á merkjum þegar kemur að gæðum. Mér hefur gengið betur að sauma úr efni úr Rúmfatalagernum en þessu Marisnobbo.
En þetta er samt flottasta efnið!
Svo ég fyrirgef þessu finnska fljóði.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Jólabaksturinn 

Jólabaksturinn minn er ekki hafinn.

Amma mín hringdi í mig í gær og spurði mig hvort ég væri nú ekki búin að baka fyrir jólin. Ég neitaði því. "Nú, af hverju ekki" spurði hún undrandi á þessu framtaksleysi ungu húsmóðurinnar. "Ég bara hef ekki haft neinn tíma til þess. Mér finnst ég bara ekki hafa tíma til þess lags hluta núna..." svaraði unga húsmóðirin þreytulega. "En ertu búin að vera að þrífa húsið þá eða...?" spurði amma. "Neeee... ekki heldur sko. Var að spá í að fá konu í það fyrir jólin". "Ha, nei, það gerirðu ekki kona góð!!!"
Og þá kom ræða frá ömmu. Hún sagði þetta bara ekki hægt. Að ég hlyti að vera svo skipulagslaus (wow, alveg róleg - hún ætti bara að vita skipulagsfríkina í mér!!) og kæmi því engu í verk (smákökubakstrinum). Ég neitaði því, sagðist vera að þvo þvott og ganga frá dóti allan daginn og leika við Veru. Amma gerði lítið úr því að spurði mig að því hvernig ég héldi að það hafi verið í gamle dage þegar hún var með 4 börn og þar af eitt "óþolandi" grenjandi allan sólarhringinn. Það var stutt á milli barna, pabbi þeirra alltaf að vinna (afi) og svo framvegis. Ég stóð á gati. Og þá þurfti sko að sjóða allar bleyjur í potti á eldavélinni, drösla svo pottinum í baðið þar sem var skolað úr þeim. Svo var ALLT straujað (og ekki með gufustraujárni nota bene). Svo þurfti að prjóna buxur utan um bleyjurnar og prjóna ný föt á börnin því það voru engin barnaföt til á Íslandi til kaups... og ég veit ekki hvað og hvað. JESÚS MINN AMMA! HÆTTU AÐ SEGJA MÉR ÞETTA!!

Mér leið eins og aula. Aula húsmóður. Samt veit ég að ég er að gera margt gagnlegt. T.d. að föndra og þæfa ull og sauma og fara í ræktina og hitta aðrar mömmur.... já, maður er að hugsa um sjálfa sig! Bakstur hefur ekki verið hluti af því.

Amma fussaði og sveijaði en kom svo síðar um daginn með fullan poka af smákökum til mín með bros á vör.

Ég lét hana nú ekki slá mig út af laginu, en smákökubakstur er nú samt kominn á skipulag vikunnar og verður lagt í hann um helgina. Og það verða sko hvorki færri né fleiri en 3 sortir teknar í bakaríið.
Og auðvitað fer ég svo með fullan bauk af kökum til ömmu :)
Skák og mát.

mánudagur, desember 13, 2004

Bissí mom 

Já, ég hef verið bissí mom undanfarið og hef því hreinlega ekki haft tíma til að blogga. Ég veit því eiginlega ekki hvar ég á að byrja!
Jú, kannski bara á byrjuninni.

Síðari tónleikar kórsins míns tókust svakalega vel á miðvikudagskvöldið var. Við sungum fyrir fullu húsi og í þetta sinn náði ég að halda tárunum inni. En það var bara af því ég var sérstaklega búin að æfa mig í því! Já, maður er hrifnæmur og væminn eins og ég er búin að viðurkenna hér áður. Samt líka töffari. Sleppi þeim titli ekki svo glatt. Nú er svo frí í kórnum fram yfir áramót og þá hefjast ný verkefni. Jazz og svo blús. Þvílíkt skemmtilegt og spennandi. Vera fór í pössun á meðan mamman söng og pabbinn píndist við að hlusta á hana. Það var í fyrsta sinn sem daman fór svona lengi í pössun í einu, hún var í pössun í heila tvo og hálfan tíma og geri aðrir betur! Ég var viss um að hún myndi standa á öskrinu allan tímann og flýtti mér svo mikið eftir tónleikana að ég rann þvílíkt á rassgatið þegar ég þeysti eins og paranojd mamma út í bíl að sækja aumingja barnið. En þá hafði ekki heyrst múkk í minni. Svo það er kannski bara mamman sem stendur á öskrinu í heilanum á meðan hún er í pössun...

Á fimmtudagskvöldinu var svo hin árlega jólamáltíð matarklúbbsins míns sem heitir Smjatt. Við smjöttum bæði á mat og kjaftasögum. Í þetta sinn var það aðallega matur. Það kom í minn hlut að sjóða hangikjötið og húsið ilmar enn af því. Svo það bætti aðeins meira í jólafílinginn sem ég talaði áður um hér. Reyndar er ég síðan þá búin að fara í Garðheima og missa mig þar í jólalandi dauðans. Keypti bara og keypti eins og brjáluð kona. Aðallega lifandi blóm og greinar. Þetta verða svona lifandi jól hjá mér í ár. Og svo keyptum við jólatréð áðan og jólagjafirnar í gærkvöldi svo þetta er bara hið besta jólamál. Skál! Gvuð hvað ég hlakka til að leyfa Veru að skreyta jólatréð þegar hún fer að hafa vit á því. Ég elska svona hrikalega óstílíseruð jólatré a la börn.

Nú, Smjatti fór vel fram. Við erum 8 stelpur úr MH í þessum klúbbi en þær eru mínar bestu vinkonur í dag. Við stofnuðum matarklúbbinn Smjatt eftir útskrift til að passa að missa ekki sambandið. Og það tókst. Sambandið slitnar aldrei, þrátt fyrir að einhver okkar er alltaf úti í útlöndum. Það er afar sjaldan sem við náum að hittast allar átta. En það kemur ekki þannig að sök. Þær sem vantar eru með í anda og þegar þær koma er eins og þær hafi aldrei farið. Þetta eru mínar bestu vinkonur og án þeirra gæti ég hreinlega ekki lifað! Dagsatt! Við vorum fimm saman á fimmmtudaginn og það var bara yndislegt. Eitthvað hefur þó dalað í drykkjuklúbbnum Sötr undanfarið, en hann lifi þrátt fyrir það. Heyr, heyr. Við berjumst fram í síðasta áfengisdropann. Erum bara bissí núna í öðru sko.

Á föstudaginn hitnaði svo heldur betur í kolunum þar sem jólaglögg IMG fór fram. Júbb, mín var með Stjórninni að skipuleggja það. Og það var þrusu vel heppnað þótt ég segi sjálf frá. Þvílíkt stuð að hætti IMGara. Það er óhætt að segja að þeim finnist gaman að djæva. Sem betur fer! Ekki myndi ég nenna að vinna á geldum og uppþornuðum stað þar sem enginn væri glöggur. Ó, nei. Skemmtiatriði kvöldsins var frumsýning á þeirri stórkostlegu heimildamynd um Homo Sapiens IMGus með Sör Ævari Attenborough. Þrusumynd eftir þrusuhandritahöfunda (maður ætti kannski að leggja þetta fyrir sig?? Hvað ætla ég að verða þegar ég er orðin stór? Tja, tja og sei, sei). Ég þurfti reyndar að fara heim og gefa Veru óþekku sem vildi ekki fara að sofa á milli glöggs og balls, en ég lét það ekki slá mig út af laginu og djævaði fram á nótt. Þetta er allt að koma hjá mömmunni!

Helgin fór svo í eitthvað rugl hjá mér, jólakaupsfyllerí (gott að geta farið á eitthvað fyllerí!). Samt ekki í jólahreingerningu eða tiltekt svo ég veit eiginlega ekki hvað ég var að gera. Dóla mér. Mömmur þurfa stundum að dóla sér þrátt fyrir pakkaða dagskrá. Náði loks að kveikja á aðventukransinum í gærkvöldi og þá voru 3 kerti tendruð í einu. Þvílíkt skipulagsleysi og skömm! Aldrei aftur! Skrifaði svo 50 jólakort og komst að því að ég veit ekki hvar neinn sem ég þekki á heima. Þarf að fletta öllum upp!

Annars er aðalfréttin sú að Kolla og Aron vinir okkar tilkynntu í vikunni fyrirhugað brúðkaup sitt næsta sumar. Og það sem meira er, Erla og Viggi verða veislustjórar! Tökum það hlutverk að okkur með þökkum. Spurning um að fara bara að opna Veislustjóraþjónustu Erlu? Ég sagði þeim að ég skyldi sjá um skipulagið en Viggi um brandarana. Þau voru sátt við það. Þannig erum við. Okkur ógifta parinu hlýtur að takast þetta með sæmd. Kannski að þetta smiti Viggan alla vega örlítið. Ég meina, hversu marga brúðarvendi þarf ég að grípa í viðbót Viggi minn? Ég er orðin þreytt á því að allir séu að uppnefna mig piparjónku og hjónaleysi og svoleiðis. Bara get ekki þolað það lengur. SNÖKT.

Nei, heyrðu mig nú, kveldúlfur er kominn í kerlinguna mína svo ég býð bara góða nótt.

miðvikudagur, desember 08, 2004

Jebb 

Já, ég er svona væmin!
Þetta er ég, sbr. bloggið hér fyrir neðan. Og ég var líka svona áður en Vera fæddist. Ég get svarið það.
Maður fær bara ekki eitt komment á þetta. Skil það kannski, þið farið örugglega bara hjá ykkur við væmnina!

Thats me.

Undir töffaranum og skellibjöllunni leynist lítill rómantískur væmnupúki.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Ljóð í minni sál 

Jæja, þá eru fyrri jólatónleikarnir yfirstaðnir. Verð að segja að við stóðum okkur prýðilega (prýðilega - þetta er eitthvað orð sem amma myndi nota...!). Nei, í alvöru, fyrir utan smávægilegt klúður í einu verkinu þá vorum við alveg prýðileg :) Verðum svo betri á morgun.

Sum lögin sem við syngjum eru svo falleg að það jaðrar við að ég hreinlega fari að gráta. Talandi um viðkvæmni. Já, maður er kannski á extra viðkvæmu stigi í lífinu núna, en ég man nú samt eftir að hafa tárast í einu lagi þegar ég söng með skólakór Menntaskólans við Hamrahlíð í gamle dage. Það lag hét Koparlokkar ef einhver kannast við það. Og er í raun ekki svo sorglegt, það bara snart mig eitthvað svo að ég þurfti aðeins að hætta að syngja og jafna mig.

Það gerðist líka í kvöld. Í rólegu fallegu lagi sem heitir Næturljóð og er alveg svakalega fallegt í flutningi okkar. Ég hef ekkert sérstaklega pælt í því um hvað það er en Þar segir í einu erindinu:

"Ætli hann þekki auðnurós,
innsta mitt leyndarmál,
að þú ert lífs míns vonarljós
og ljóð í minni sál".

Mamman bara meikaði þetta varla í kvöld. Úff.
Tárin spruttu fram þegar ég hugsaði um Veruna mína sem ég elska svo heitt.
Ég gæti ekki sagt þetta betur.
Hún er lífs míns vonarljós
og ljóð í minni sál.

sunnudagur, desember 05, 2004

Aðventufílingur 

Eins og ég hef áður sagt er ég ekki jólastelpa.
Kannski það sé samt smá að breytast því það kominn ogguponsupínulítill aðventufílingur í mig.

Ég klambraði saman einum aðventu"krans" í dag, en það tók mig innan við mínútu að græja hann. Hann s.s. samanstendur af 4 silfurlituðum kubbakertum á hvítum diski og þá er það upptalið. Já, sumum kann að finnast það lítið jólalegt en er ekki minimalisminn að tröllríða öllu núna? Ég meina, maður reynir að fylgja tískunni. Nei... þetta var nú aðallega af því ég átti ekkert meira á hann. Ætla að tína nokkra köngla í garðinum hjá ömmu á morgun og leggja á diskinn. Og svo kannski smá greni líka. "Kransinn" unir sér vel á nýja borðstofuborðinu sem splæst var í í dag. Reyndar fyrir löngu en það var ekki til fyrr en í dag. Ikea stendur fyrir sínu. Við vorum komin með leið á því gamla sem við keyptum okkur fyrir 5 árum í Antikbúðinni og nú fær það aftur að fara þangað, en litli feiti karlinn með yfirvaraskeggið í Antíkbúðinni er svo næs að selja það bara aftur fyrir okkur.

Það hjálpaði til við að ná upp smá stemmningu í stelpuna að vinir okkar komu til okkar í mat í gærkvöldi. Eða þeir komu MEÐ mat. Við fengum símhringingu frá þeim um sex leytið og voru þau að óska eftir fólki sem vildi borða með þeim þessa líka dýrindis nautasteik sem þau áttu í ískápnum hjá sér. Og maður segir nú ekki nei við því. Spáiði í því að eiga svona frábæra vini! Sem bara biðja um að fá að koma til manns með nautasteik og elda hana. Vá, það var æði. Við kjöftuðum fram á nótt eftir að nautið hafði runnið ljúflega niður.

Páll Óskar og Monika settu svo punktinn yfir i-ið í aðventufílingnum (jú, það er eitt i í því...!). Ég var rétt í þessu að koma af jólatónleikum með þeim og þeir voru alveg æðislegir. Ég fíla þau í botn. Palli er svo mikið krútt prútt að það hálfa væri nóg. Hann gefur sig allan í þetta og syngur eins og engill. Túlkunin hjá honum er algjör og hann er hann sjálfur allan tímann. Setur sig aldrei upp á stall eins og hann ætti að vera eitthvað goð eða flottari og betri en aðrir. Hann bara er sá sem hann er og það virkar. Annað en sumir feitir dvergvaxnir tenórar... en vá, förum ekki nánar út í það. Hann er bara í stuttu máli h-á-l-v-i-t-i að mínu mati.
Palli og Monika settu mig smá í gírinn og ég hafði gjörsamlega gleymt stað og stund þegar ég labbaði út í rokið og rigninguna eftir tónleikana. Verð að segja að þá datt stemmingin aaaaðeins niður.

Jólatónleikarnir kórsins míns eru svo 7. og 8. des. nk. (aðaltónleikarnir þann 8. ef þér dettur í hug að mæta) og jólaglögg í vinnunni þann 10.
Það er því nóg jólajóla framundan.
Svo þetta er allt að koma hjá mér.
Hver veit nema ég verði bara jólastelpa í ár eftir allt saman.
Geri mitt besta.

laugardagur, desember 04, 2004

Til hamingju Embla! 

Þá er hún Embla vinkona og Gunni maðurinn hennar orðin mamma og pabbi, en þeim fæddist lítill strákur í morgun. Til hamingju! Þá erum við orðnar tvær í átta stelpna vinkvennahóp úr MH sem höfum lagt í þessa hamingju. Hinar koma á endanum someday. Við bíðum bara rólegar, það er engin pressa (koma svo!).

Annars vorum við að syngja í Hafnarborg á tónleikum sem kallast "syngjandi jól". Þetta tekur víst allan daginn, en það syngja allir kórar í Hafnarfirði einu sinni yfir daginn, byrjar á leikskólakrökkum og endar á gamla liðinu. Við vorum best og unnum. Nú, var þetta ekki keppni?
Mér fannst kór eldri borgara samt bestur. Alla vega krúttlegastur. Þau voru öll eins klædd í svona júníformi einhvern veginn. Röddin breytist auðvitað heilmikið með árunum og þetta hljómaði heldur gamlingjalega (enda gaaaaamalt lið í kórnum), en þetta var svo sætt eitthvað. Ég hugsaði bara með mér að ég ætlaði sko að vera í svona kúl kór þegar ég verð orðin göööömul. Vonandi.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker