<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, janúar 28, 2005

Tuttuguþúsund! 

Það fer að líða að því að tuttuguþúsundasti gestur síðunnar líti dagsins ljós! Já, síðan ég byrjaði að blogga í október 2003 hafa verið 20.000 flettingar á síðunni. Þvílíkur fjöldi! Ég hef tekið eftir því að á degi hverjum eru frá 50 - 120 flettingar á síðuna. Og ekki þekki ég svona marga. Hvað ætli ég þekki marga sem eru að lesa þetta - kannski 30 - 40. Veit það annars ekki.

En þeir sem þekkja mig vita hvað ég er forvitin - og þeir sem eru að lesa þetta og þekkja mig ekki í eigin persónu fá hér með að vita að ég er svakalega forvitin! Ha, hvað, hvenær, hvers vegna, af hverju, hvað segirðu????

Nú er kommentakerfið það eina sem segir manni að maður sé ekki einn í þessum bloggheimi. Ég elska að fá komment og reyni að svara þeim eftir bestu getu. Ef það væri ekki fyrir kommentin þá fengi maður ekkert feeback. Ekki það að maður sé að blaðra hér til að fá feedback, en smá stuðningur, hvatning, vangaveltur og hugmyndir annarra eru alltaf innblástur og jákvætt.

Í tilefni af því að tuttuguþúsundasti gesturinn lesi síðuna og af því ég er svo forvitin og af því þú ert að lesa þetta og ég elska þig - settu endilega inn komment hér fyrir mig og mína forvitni :) Þarft ekki að segja neitt merkilegt, bara hæ og nafnið þitt. Kannski hver þú ert ef ég þekki þig ekki, en ekkert frekar en þú vilt. Eeeeeeeeeendilega krakkar!
Koma svo. Kommenta :)
Takk æðislega!
Erla foooorvitna.

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Vera hálfs árs 

Já, hún Vera á afmæli í dag! Er orðin 6 mánaða = hálfs árs. Jedúddi, maður er bara farinn að telja í árum! Hálfs ÁRS. Ég hlakka mikið til að halda upp á "alvöru" afmælið hennar þegar hún verður eins árs, þvílíkt stuð. Ætla að gera stóra bleika fiðrildaafmælissúkkulaðiköku með banana og vanillukremi, skreytta með nammi handa henni (og okkur hinum...amminamm). Gerði svoleiðis á síðast afmælinu mínu og hún sló í gegn. Já, mig langaði í fiðrildaköku - er eitthvað að því?

Vera er ennþá slöpp. Er veik á afmælinu sínu. Við erum ekkert búnar að fara út í bráðum viku núna og ég er að verða geggjuð af inniveru með Veru (haha). Hún hreinlega verður að vera hitalaus á morgun, annars sæna ég mig sjálf inn á Klepp. Er bara ekki svona innimanneskja endalaust. Veit að Vera er að gera sitt besta í öllum hóstanum og horinu. Hún er farin að líta mig illu auga bara þegar einhvers konar hvítur pappír er nálægur = SNÝTIPAPPÍR. Hún meikar ekki að láta þurrka á sér nefið. Gera það nokkur börn? Held ekki.

Annars er tíminn með veiku Veru búinn að vera ágætur. Pabbinn var veikur líka fyrst um sinn svo hann var heima og ég hjúkraði tveimur sjúklingum (þvílíkt vinsæl). Svo keyptum við okkur áskrift að Stöð2 á föstudaginn til að þurfa ekki enn einu sinni að horfa á Idolið ruglað. Vorum að mygla úr leiðindum hér heima svo við splæstum í áskrift. Er svo að komast að því núna að ég horfi aldrei á neitt af þessu. Sjónvarpið er einhvern veginn ekki það sem ég hangi yfir þótt ég hafi ekkert að gera. Fer frekar í tölvuna eða tek til í kofanum. Já, af nógu er að taka í heimilisstörfunum. Fengum svo heimsókn á laugardagskvöldið og fengum þær frábæru fréttir að Vera mun eignast frænku (go stelpur!) næsta sumar. Frjósemin í Helgasonættinni er að gera sig. Á sunnudaginn var svo pönnukökukaffi fyrir vini sem kíktu og svo í dag komu vinkonur mínar í kaffi í dag, þ.e. þær komu með kaffið sjálfar sem er alltaf svo frábært. Maður bara borðar veitingarnar sem komu í hús og spjallar saddur og sæll. Ein okkar sem býr í Danmörku er á landinu í smá fríi og það var gaman að hitta hana. Merkilegt hvað manni finnst alltaf eins og maður hafi sést í gær þegar við hittumst aftur. Þannig er það held ég bara með ekta vinskap. Skiptir ekki máli hvað þú ert lengi frá, þú getur alltaf komið aftur án þess að það sé stirt eða abó. Bara hæ hvað segirðu og kissí kissí og allt er eins og var.

Svo það hefur verið nóg um að vera hér á H6 og framundan undirbúningur fyrir árshátíð matarklúbbsins Smjatt sem verður haldin hér á laugardaginn. Elska að halda veislur. En viðurkenni að það er þó nokkuð meira mál nú þegar Vera er meðal vor en áður. Tíminn er bara öðruvísi með Veru. T.d. kúkaði hún 6 sinnum í dag, hvað ætli það hafi farið mikill tími í að skipta á henni? Og að gefa henni að borða, þessum litla klaufa, tekur ennþá 40 mínútur í hvert sinn. Og svo brjóst og leika og knúsa og svæfa. Já, tími til annarra hluta en að sinna Verunni er ekki mikill. En mér tekst samt að halda matarboðið. Skal.

Svo er ég ásamt fleirum að plana árshátíð vinnunnar. Geri það svona í hjáverkum. Finnst ágætt að virkja heilann svona dálítið og plana og upphugsa hluti í kringum þetta. Finnst ég vera að gera eitthvað svaka merkilegt. Nefndin með mér er þrusufólk svo þetta á eftir að vera gott djæv. Þemað er þrusugott og hægt að leika sér slatta með það. Má ekki segja... Vildi að ég gæti bara leyft mér að detta ærlega í það og gleyma stað og stund í smá tíma... en litla Veran kemur enn í veg fyrir það. Kann ekki á pela, heldur að hann sé dót og nagar hann bara og leikur sér með hann. Glas, stútkanna, rör, staup virkar heldur ekki svo brjóstið er ennþá málið. Nokkur rauðvínsglös munu samt sem áður án efa renna ljúflega niður. Vera fer södd og sæl að sofa og drekkur ekkert fyrr en daginn eftir svo þetta er ekki svo alvarlegt. Ha, er ég (byttan) að réttlæta þetta fyrir mér?
Sjáum til.


Alla vega -

Hún á afmæli í dag
hún á afmæli í dag
hún á afmæli hún Vera
hún á afmæli í dag

Hún er hálfs árs í dag
Hún er hálfs árs í dag
Hún er hálfs árs hún Vera
Hún er hálfs árs í dag

Veiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii


Vera afmælisstelpa Posted by Hello


Vera (eyrna)stóra Posted by Hello

laugardagur, janúar 22, 2005

Fyrsta flensan 

Vera er veik. Fékk sína fyrstu flensu í gærmorgun, greyið litla múslan. Ég vorkenni henni ekkert smá. Að vera svona lítil og ósjálfbjarga með nærri 40 stiga hita og hósta og kvef...úff. Fyrsta "andvökunóttin" kom í kjölfar flensunnar, sl. nótt og mamman og pabbinn stóðu sig vel þar. Hef aldrei heyrt Veru gráta svona mikið, ekki einu sinni þegar hún fékk í eyrun 3 mánaða gömul. En þetta er svona máttlaus veiklulegur grátur. Veit greinlega ekkert hvað er að gerast, er án efa með beinverki og hita og hausverk eins og maður er sjálfur þegar maður er veikur. Það á ekki að leggja svona á þessi litlu kríli. Æj, maður vill bara gera allt sem maður getur til að henni líði vel. Finnst hún vera aðeins að hressast núna seinnipartinn, er alla vega aðeins að leika sér og brosti til mín áðan og svona. Vonandi batnar henni sem fyrst.

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Líkams- og sálarrækt 

Það var þó nokkuð um líkamsrækt í dag hjá minni. Eftir að hafa fengið dágóða óbeit á líkama mínum ákvað ég að taka málið sæmilega föstum tökum. Samt bara sæmilega sko. Ég og Vera fórum í eins og hálfstíma göngutúr í góða veðrinu í dag. Það var 10 stiga frost en Vera undi sér þvílíkt vel í kerrunni sinni og var sjóðandi heitt. Hún reyndar sofnaði eftir 20 mínútna rölt og missti því af útsýninu af Hamrinum í Hafnarfirði sem sjá má á mynd hér fyrir neðan. Go Hafnarfjörður! Eftir labbið var ég dofin á lærunum af kulda, enda í gallabuxum einum fata að neðan því ég hélt að það væri ekki svona kalt... en túrinn var þess virði.

Eftir labbið skellti mín sér í Pílates. Já, eftir að samstarfs- og vinkona mín sagði mér frá sixpack sem hún væri komin með eftir Pílates var ekki um annað að ræða en að tæma budduna og skrá sig á námskeið. Ég hringdi í kennarann til að athuga með námskeið og þá var akkúrat eitt laust pláss og fyrsti tíminn í kvöld! Þetta voru pottþétt örlögin að taka í taumana = Mér er ætlað að fá sixpack! Jei. Vinkonan tók loforð af mér um að vera ÞOLINMÓÐ í fyrsta tímanum og ekki rjúka út. Mér tókst það. Þrátt fyrir að þetta hafi verið svitaminnsti og rólegasti líkamsræktartími sem ég hef farið í á ævinni tókst mér að haga mér og vera þolinmóð. Einbeitti mér að æfingunum í rólegheitunum og því að gera þær rétt. Þarna var bara verið að kenna okkur æfingarnar og sýna okkur tæknina. Ég var eina unga stelpan innan um kellingar fimmtugt og yfir. Alla vega þrítugt og yfir. En... ég ætla samt! Svo fer maður á framhaldsnámskeið og svona og það verður meira stuð. Þetta er bara byrjunin. Hlakka til framhaldsins.

Þetta var góður dagur, göngutúr í góðu veðri og andlegt átak í Pílatesi. Líkams- og sálarrækt. Dagurinn endaði reyndar með súkkulaði Royal búðingi með rjóma sem ég gúffaði í mig áðan - en við segjum engum frá því...(er líka mjög gott fyrir sálina!) ;)


Á Hamrinum Posted by Hello


Á rúntinum með mömmu Posted by Hello


Klædd fyrir kuldann Posted by Hello


Fína Veran Posted by Hello

mánudagur, janúar 17, 2005

Erla óþolinmóða 

Ég fæddist óþolinmóð. Þetta er í genunum á mér. Nenni ekki að bíða eftir neinu, verð auðveldlega pirruð á einhverju sem gengur illa og gef sjálfri mér síst sjéns hvað það varðar. Ég finn samt hvað ég hef bætt mig með árunum og auknum þroska (vonandi!). Get nú beðið róleg eftir strætó og setið róleg í strætó. Flauta ekki í umferðarteppum og finnst gaman að kenna tregu fólki eitthvað sem ég kann og það ekki. Eftir að Vera kom í heiminn fattaði ég líka að það þýðir ekkert að vera að stressa sig yfir hlutunum og vera óþolinmóður. Með Veru óx þolinmæði mín alla vega um helming.

Eða ég hélt það. Þar til í gærkvöldi. Óþolinmæði mín braust allverulega út í gær á nó tæm. Bara allt í einu. Gaaaaaaaaaaaat bara ekki meira. Þannig var að ég fór svaka ánægð í jassballetttíma en jassinn var að byrja aftur eftir jólafrí. Það var nýr kennari og nýir jassballettnámsmenn - samt bara konur. Leit vel út. Kennarinn var þvílíkt flott pæja og ég hugsaði með mér hvað ég gæti nú lært af þessari svakapíu. Svo byrjaði hún. Og bræðin óx inni í mér. Ég gat EKKERT. Og þó var ég búin með eitt námskeið! Hún var með allt öðruvísi danstakta, eitthvað svona Britney Spears fönkí donkí dæmi. Og vá hvað ég var ekki að fíla það (sko aðallega náttlega af því ég var ekki að ná þessu...) Reyndar var engin okkar að ná þessu og við vorum allar jafn klaufskar að apa eftir Britney. En þolinmæði mín brast og ég glopraði út úr mér frekar hátt "Vááááá... ég er bara ekki að meika þetta!" og hætti að dansa. Fékk mér vatnssopa, ætlaði að vera svaka kúl á því, en óþolinmæðin og pirringurinn sem henni fylgdi rak mig í skóna og úlpuna og ég strunsaði út. Algjör dóni og allt það. En ég bara gat þetta alls ekki! Var farin að kaupa í matinn í Nóatúni og steikja kjúklinginn fyrir matarboðið um kvöldið í huganum meðan ég skrönglaðist við að dansa og var ekki í takt, sem beisikklí sagði mér að dansinn væri ekki alveg að ná til mín.

Ég hringdi í þá sem sér um námskeiðið eftir tímann og afsakaði útstrunsið. Vinkona mín í tímanum sagði mér að hún hafi heldur ekki verið að meika þetta fyrst um sinn en svo hafi verið breytt um dansstíl og dansað meira í stíl við það sem við höfum áður gert. En ekki rauk hún út! God. Þarf að fara að taka mig á. Alla vega varðandi suma hluti. Er góð með Veru. Er sæmileg í strætó. Ágæt í sumri kennslu. En ætli það sé þá ekki upptalið! Veit ekki hvort ég mæti á næsta sunnudag. Spurning um að eyða frekar peningnum í Pílates (til að sleppa við að kaupa ný föt á feitu keisaradömuna moi) sem ég hef heyrt að sé svo einfalt æfingakerfi og þurfi enga þolinmæði í...(og sixpackinn sýnir sig á augabragði).
Þetta kemur.

sunnudagur, janúar 16, 2005

Nýju fötin feita keisarans 

Jæja, þá er Vera farin að skríða... nei, bara djók. Það er alveg nóg að kunna að sitja 5 1/2 mánaða! Ég er svo stolt af stelpunni. Og hún er líka þvílíkt montin af sér svona sitjandi. Allt í einu lítur heimurinn allt öðruvísi út. Hún sér nýja hluti sem hún vill grípa í og vill helst ekki liggja lengur. Þvílíka pæjan.

Alla vega. Ætlaði mér ekkert endilega að skrifa um Veru. Annars fórum við Vera í ungbarnasund í morgun og Vilborg vinkona var staðgengill Vigga sem var að vinna. Það gekk svona líka ljómandi. Þetta var næstsíðasti tíminn og Vera er í alvörunni farin að stinga sér í kaf! Maður heldur henni svona beinni á iljunum og hendir henni bókstaflega upp í loftið og ofan í með hausinn fyrst! Alveg magnað. Get varla beðið eftir að fara svo á framhaldsnámskeiðið næsta sumar.

Alla vega, þetta var heldur ekki það sem ég ætlaði að segja hér. Á námskeiðinu var ein mamma með dóttur sína 7 mánaða í sundi. Og mamman var svo þvengmjó og flott gella að það hálfa væri nóg. Hún var með sixpack og allt!! Ég bara trúði ekki mínum eigin augum. Hvernig fer hún að þessu? Af hverju er ég ekki svona? Ég hélt virkilega í einfeldni minni að ég myndi verða eins og ég var áður en ég varð ólétt mjög stuttu eftir barnsburð. Ég væri bara þannig týpa. En neibb og neibbs. Ekki ég. Lærin eru bara ekki að gefa sig. Og mittið er kassótt. Og ég er komin með síðuspik til að vera. Ok, brjóstin breytast aðeins en ég hef engar áhyggjur af því með push up og svona nútímareddingatól...en öðru máli gegnir um pokann á maganum, hrukkurnar á lærunum og handföngin í mittinu á mér. Ég er komin með svona kellingarlíkama.

Ég þarf deffinettlí að fara að taka Laugar með trompi. Bara nenni því ekki. Hugurinn er bara ekki stilltur inn á það! Ég byrja þegar ég byrja í vinnunni. Hlýt að komast af og til í hádeginu og um helgar. Annars datt mér í hug að kaupa mér svona magarafstuðsbelti sem maður bara fær sixpack af á nó tæm án þess að þurfa að gera magaæfingar. Maður bara sest niður og setur beltið á sig og horfir á sjónvarpið. Very nice líkamsrækt. Ég meina af hverju ekki? Og svo væri hægt að rafstuða lærin í laumi inn á milli. Ég held í alvöru að ég splæsi í svona apparat. Auglýsingarnar sýna þvílíka virkni og varla eru þær photosjoppaðar. Ha, ég orðin klikk... já, kannski. Eða bara löt. Eða bara þreytt á því að passa ekki í gallabuxurnar mínar sem ég elskaði fyrir óléttu. Eða leddararnir mínir.... var nýýýýýbúin að kaupa flottustu leðurbuxurnar í bænum þegar bumban fór að vaxa. Og þá var þeim lagt. Snökt, sakna þeirra. Mátaði þær áðan og ég kem þeim svona upp á mið læri. Næstum því alveg upp með herkjum. Gæti í mesta lagi farið í þeim út í hálftíma kokteilboð þar sem maður þarf ekki að setjast niður. En þá gæti ég ekki sest í bílinn... problem. Spurning um að kaupa bara aðrar númeri stærri. Í alvöru, ég nenni ekki að bíða eftir þessu! Já, ég hef aldrei verið talin sérstaklega þolinmóð.

Ég geri mér auðvitað alveg grein fyrir því að maður verður kannski aldrei alveg eins og áður. Og so what með þá gleði sem Veran gefur mér. Innst inni er maður samt alveg til í að vera flottur og fitt. Ég veit, ég mixa öllum bestu grenningarhugmyndunum saman og athuga hvað gerist á næstu 2 mánuðum. Minnka nammið, einu sinni á diskinn, drekka meira vatn, byrja aftur í Laugum (thats a start!), labba meira úti með Veru og kaupa magarafstuðsbelti fyrir fulltafpeningum. Ef það virkar ekki fram að vori þá kaupi ég ný föt fyrir keisaradömuna mig :) Díll.

föstudagur, janúar 14, 2005

Sitjandi Vera! 

Vera Víglunds er farin að sitja upprétt! Já, 13. janúar (í gær) er dagurinn mikli sem það allt í einu gerðist! Nú er hún officially orðin stór stelpa. Bara situr og leikur sér! Við vorum í svona mömmukaffi/hittingi í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í gær þegar hún bara allt í einu tók upp á því að halda fínu jafnvægi og sitja alveg sjálf. Þvílíkur merkisatburður í lífi mínu! Oh, þetta er svo gaman :)

Hvað kemur næst? Tennur (ok, grátur og andvökunætur en hei... tvær sætar tennur í brosinu hennar bæta það alveg upp!), skríða (og ég að elta - byrgja alla stiga og fjarlægja smádót af gólfi.. no prob), fleiri tennur, standa upp, hár (??!), "mamma", "pabba"...oh, ég á eftir að bráðna þegar það kemur! Já, það er gaman að þessu.

Annars er Stokkhólmur á næsta leiti (oh, man aldrei hvaða "leiti er með ufsiloni og hvaða ekki... og ég sem er/var svo góð í stafsetningu!). Förum í lok febrúar. Verð að segja að ég hafði aldrei svo mikið sem pælt í að fara til Stokkhólms, sú ábyggilega ágæta borg hefur ekki verið á lista yfir spennandi staði til að heimsækja - þar til núna. Köben hefur einhvern veginn alltaf verið fyrir Stokkhólmi. Íslendingar eru jú Köbensjúkir í meira lagi. En eftir að hún Dódó frænka og Skarpi frændi fluttu til Stokkhólms(hann reyndar fæddist þar...) hefur mig langað að fara þangað. Halldóra hefur þvílíkt lofað borgina og er nú þegar búin að plana túristarúnt fyrir okkur um borgina. Hún fer líka að flytja heim blessunin (pressa pressa pressa...) svo hún þarf sjálf að taka túristarúntinn áður en hún hverfur á braut. Reyndar koma Dódó og Skarpi í næstu viku og verða í 2 vikur. Svo eftir það förum við til þeirra.

Fínt að nota þetta orlof (sem styttist eins og óð fluga) til að ferðast aðeins slatta. Brettaferð til Akureyrar með fullt af brettavinum er líka á döfinni very soon. Við FORELDRARNIR (vá, er foreldri!) skiptumst bara á að renna með Veru á snjóþotu. Eða réttara sagt kannski heldur að sitja yfir henni sofandi í vagninum. Eða sitja yfir henni SITJANDI :) Dulea deppa. Maður verður nú að fá að taka eina almennilega brettaferð í snjóþyngsta vetri Akureyrar síðan 1995. Jebb, það var sagt í fréttunum í gær - og ég fékk bara í magann. Þeir sem hafa ekki ennþá rennt sér á bretti fari strax í dag og prófi. Þetta er engu líkt. Fílingurinn er ólýsanlegur og kitlið og kikkið. Og svo er þetta svo auðvelt. Maður lærði þetta á 2 dögum. Reyndar í Sviss í besta færi og veðri sem hægt er að hugsa sér. Bláfjöllin gera þó alveg sitt ef maður er bara bjartsýnn og gefur þeim sjéns. Ég man samt einu sinni þegar við Viggi komum frá Sviss eitt vorið, eftir að hafa unnið í Ölpunum í þónokkurn tíma og rennt okkur eins og vitleysingar við hvert tækifæri, þá fórum við í Bláfjöllin full eftirvæntingar. Eftir eina ferð í stólinn datt mórallinn alveg niður og ég settist niður með tárin í augunum og drakk kakóið mitt snöktandi. Fjöllin eru svo lág! Maður bíður í röð í klukkutíma og rennur sér niður á innan við mínútu. Þetta er ekki sama fúttið og Alparnir en Akureyrarsvæðið fer ansi nálægt því á góðum degi. Svo skellið ykkur þangað.
Sjáumst (SITJANDI!) á Akureyri og í Stokkhólmi!


Í fyrsta sinn sitjandi alveg sjálf í mömmukaffinu í gær. Hún stendur sig stelpan! Posted by Hello


Hér er Vera með Ými Fanneyjarsyni vini sínum í mömmukaffinu. Hann er mánuði yngri en Vera.  Posted by Hello


Sitjandi sæl! Posted by Hello

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Flóð 

Rétt eftir áramót kom ausandi hellidemburigning hér á höfuðborgarsvæðinu. Rigningarvatn flæddi inn í kjallarann á húsinu mínu - bæði í geymsluna og í íbúðina hjá mínum elskulega leigjanda. Það var 2-3 cm lag af vatni yfir öllu! Ohhhhhhh..... slökkviliðið kom og saug upp vatnið og löggan kom og tók skýrslu. Parketið í kjallaraíbúinni er ónýtt og flísarnar á baðinu munu líklegast losna fyrr en síðar út af bleytunni. Og þá voru góð ráð RÁNDÝR! Jólavísareikningurinn var alveg nógu hár að maður þurfi að eyða aur í svona óhapp. Stokkhólmsferð á næsta leyti og ég grét yfir því að geta ekki misst mig í H&M þar úti. Frekar að kaupa nýtt parket. Og flísar. Spennandi eða þannig. Snökt.

Við höfðum samband við Sjóvá þar sem við erum með allar tryggingar í heimi sem hægt er að hafa, en nei, þeir sögðust ekki tryggja tjón sem utanaðkomandi vatn veldur heldur bara það vatn sem kemur úr sprungnum pípum úr húsinu sjálfu! Hvers lags er þetta? Maður heldur að maður sé tryggður í bak og fyrir og borgar þó nokkuð marga peninga fyrir á ári hverju, lendir aldrei í tjóni og svo þegar það gerist á maður ekkert inni. Demit. Eins og maðurinn sem var eins sjúkratryggður og hægt er og fékk heilaæxli vinstra megin í heilann. Tryggingarnar sögðust ekki skulda honum neitt þar sem smáa letrið í dílnum sagði að tryggingin tæki aðeins til heilaæxlis hægra megin. Jahá. NEi, ok, þetta er bullsaga, en það liggur við!

Við höfðum þá samband við Hafnarfjarðarbæ og sögðum hann ábyrgan fyrir flóðinu þar sem það hefur láðst að setja niðurfall fyrir framan geymsluna okkar í hellulögn sem hlaðin var rétt áður en við fluttum í kofann. En nei, lögfræðingurinn þeirra firrti bæinn allri ábyrgð. Svo ég skrifaði bæjarstjóranum bréf og heimtaði að þeir sæju sóma sinn í að taka þátt í kostanaðinum við endurbætur. Bæjarstjórinn var hinn almennilegasti og viðurkenndi að niðurfall vantaði. Næs gæ. Og málið er í athugun.

Ég var þvílíkt reið og leið yfir þessu þegar Sjóvá sló á þráðinn til mín og tjáði mér með bros á vör (ég heyrði það!) að þeir væru ábyrgir eftir allt saman. Við værum tryggð fyrir þessu tjóni. Þann 3. janúar sl. þegar flóðið kom inn til okkar var svokölluð "asahláka" og í slíku veðri eru tryggingafélögin ábyrg ef það flæðir inn til fólks! Jahérna! Asahláka, asahláka, asahláka... I love you! Flott orð. Löggan staðfesti að um asahláku hafu verið að ræða þennan dag og nú koma bara kallar heim til mín með nýtt parket og púsla því saman á no time.
Og það birti aftur yfir Stokkhólmsferðinni minni... ;)
Go Sjóvá!

miðvikudagur, janúar 12, 2005


Ein hress! Posted by Hello

mánudagur, janúar 10, 2005

Vera góða Vera 


Vera er á öskurtímabilinu. Hér tekur hún eitt gott öskur. Þvílíkt sætt! Posted by Hello


Vera að borða táslur Posted by Hello


Vera að æfa sig í að sitja. Þetta er allt að koma Posted by Hello


Vera er byrjuð að borða mat! Hún er orðin svo stór stelpan. Grautur er uppáhaldið hennar og svo kemur gulrótarmaukið næst þar á eftir. Hún hefur sko ekki smakkað neitt annað ennþá! Þetta er á góðri leið eins og þið sjáið! Vera er þvílíkur mathákur og mamman náði varla að skammta nógu hratt ofan í hana svo hún tók til sinna ráða og stýrði skeiðinni sjálf! Posted by Hello


Gulrótarstelpan mín Posted by Hello

sunnudagur, janúar 09, 2005

Meira jepp, afmæli og söknuður 

Fyrir áhugasama jeppakalla og kellingar eru hér myndir á Jeppalúðablogginu okkar úr annarri jeppaferð sem Viggi og fleiri (brósi, Daddi, Unni, Helga, Lena) fóru í á Landanum og Krúsernum um helgina. Sjálf var ég aðeins með í anda...snökt. Naut lífsins í bænum á meðan og knúsaði Veru í spað. Vá hvað maður getur kjassast og knúsast í þessum krílum endalaust. Namminamm.

Annars átti gamli kallinn afmæli þann 7. Æ,æ,æ, þetta fer að styttast hjá honum. Hann fékk margt skemmtilegt í afmælisgjöf t.d. reipi til að draga aðra bíla (neibb, ekki til að láta draga sig... festir sig aldrei) - vei! Og loftdælu til að pumpa í dekkin á kagganum þegar búið er að hleypa úr á snjóugum fjöllunum :/ - Þvílíkar gjafir, en hann var í skýjunum. Ég og Vera vorum á aðeins öðrum nótum og gáfum honum eina tískuflík = bol, eitt útivistardót = (ís)klifurhjálm fyrir námskeiðið sem við gáfum honum í jólagjöf og eitt sem mig langaði sjálfri í (pössum sko í sömu fötin...) = Nike flísbuxur. Við Vera sem sagt slógum í gegn.

Á afmæliskvöldinu fórum við svo í leikhús með fleira fólki og sáum "Þetta er allt að koma" eftir bókinni hans Hallgríms Helga í leikstjórn Baltasars. Fyrir ykkur sem ekki hafið nú þegar séð þetta stykki mæli ég hiklaust með því. Ef þið viljið sjá öðruvísi húmor en maður hefur hingað til séð á leiksviði þá verðið þið að drífa ykkur. Leikritið hélt athyglinni allan tímann og maður hló mikið. Þetta voru miklir orðaleikir eins og Hallgrímur er snillingur í að gera og húmorinn var á köflum súrari en hjá Audda og Sveppa í 70 mínútum. Sem sagt snilld.

Nú er mútta aftur farin í Germaníu og við söknum hennar strax. Fyrir utan hvað var gaman að hafa hana in general þá var amman svo dugleg að passa Veru og við Viggi nýttum okkur það, fórum í bíó og leikhús og heimsókn og alles. Hefur ekki gerst lengi. Höfum alveg verið að fara út, en ekki nema í sitthvoru lagi! Ef einhver býður sig fram til að passa Veruna við tækifæri vinsamlega hringið í síma 555-5555.

laugardagur, janúar 08, 2005

Framhaldsjól 

Það eru ennþá jól hjá mér. Auk þess sem jólatréð stendur enn í allri sinni ljósadýrð í stofunni þá hafa gjafirnar streymt til mín stríðum straumi. Já, ég fékk ekki margar jólagjafir þessi jól en það bjargaðist eftir jól með fyrirbæri sem kallast ÚTSALA! Jebbs, útsala, útsala. Allt er falt og það á 100% afslætti -eða var það á 100% lánum? Skiptir ekki máli. Jólin halda áfram á útsölunum og ég gef sjálfri mér eftirjólagjafir. Svaka sniðugt! Ég keypti ekkert á útsölum í fyrra þar sem ég var ólétt og passaði ekki í neitt svo ég réttlæti þessi kaup með því að mega kaupa helmingi meira en vanalega. Vá, ég heppin!

Með það að leiðarljósi lagði ég í musteri kapítalismans, enn í jólaskapi með kortið á lofti og röntgenaugun á smartheit fyrir mömmuna. Ekki veitti af því að poppa sig aðeins upp eftir að hafa verið í óléttufötum og heimagalla síðastliðið árið. Eitthvað hefur þó komið fyrir mig með mömmutitlinum því ég missti mig alls ekki og keypti bara ekkert mikið. Og engan óþarfa eða furðuföt! Keypti bara jarðarliti og voða praktíska hluti. Fór í þvílíkum gír í forútsölu í GK tilbúin að kaupa mér flotta öðruvísi hönnun með skrautlegu munstri eins og flest þar inni er, en nei, nei, mín kom út með gallabuxur og skyrtu. Hvað gerðist? Hemm. Er ég orðin týpulaus mamma? Er litríka Erlan farin? Ég veit það ekki. Kannski er það veturinn og skammdegið. Vonum það. Reyni betur á sumarútsölunum. Vei, þá koma aftur jól!

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Skjaldbreið 

Discoveryinn fór sína fyrstu alvöru jeppaferð á sunnudaginn var. Þá hélt Viggi á Skjaldbreið í góðra vina hópi. Brjóstin þurftu að vera heima. Fer bara með næst!

mánudagur, janúar 03, 2005

Ræðumaðurinn ég 

Mamma varð fimmtug um daginn. Mér finnst það major áfangi. Samdi smá ræðu af tilefninu sem ég birti hér (sérstaklega þar sem ég frétti að margar af vinkonum mömmu út um allan heim eru að lesa þessi skrif mín...!). Here goes.

"Jæja, þá er hún mamma orðin fimmtug! Jesús minn almáttugur og jedúddamía!! Hvað gerðist? Líður tíminn svona hratt að mamma manns er allt í einu upp úr þurru orðin fimmtug? Hálf hundrað ára. Fimmtíu er nú næstum því hundrað... svona næstum því. Ykkur vinum hennar finnst fimmtugsaldurinn án efa ekki vera neinn aldur. Ég hins vegar sjálf sé þrítugsaldurinn nálgast með hryllingi. Mamma var einu sinni þrítug pæja. Þá var ég 9 ára. Og nú er hún orðin fimmtug – og ég 28. Jahá.

Auðvitað er ég bara að grínast þegar ég segi að fimmtíu sé sama og hundrað. En ég viðurkenni að ég hef aldrei verið sleip í stærðfræði. Fimmtíu er bara smotterí. Alla vega þegar kemur að mömmu. Fyrir mér er mamma tímalaus og aldurslaus með öllu. Hún er sama pæjan og þegar hún var þrítug, og ég get fullyrt það að það sést ekki mikill munur á henni þá og nú. Við erum ennþá iðulega spurðar að því hvort við séum systur og þá brosir mamma breitt! Og svo brosir hún ennþá breiðara þegar ég er spurð hvort ég sé ekki eldri systirin. Hmmm...“Vá hvað mamma þín er ungleg”, “Þetta getur ekki verið mamma þín” hef ég hundrað sinnum heyrt frá vinum mínum. Ó, jú. Þetta er hún mamma. Fimmtug í fínu formi og með færri hrukkur en ég sjálf. Mamma sagði mér eitt sinn þegar ég var unglingur gjörsamlega þakin í unglingabólum á enninu að hún vissi bara ekkert hvað gera skyldi því hún hefði aldrei á ævinni fengið bólu – og hvað þá kreist bólur! Já, húðin í andlitinu á henni er í alvöru mýkri og sléttari heldur en rassinn á dóttur minni.

Þrátt fyrir erfiðan og þreytandi lifrasjúkdóm sem uppgötvaðist fyrir nokkru hjá mömmu er mamma svona hörkukelling. Hún hefur alltaf verið hörkukelling og sá titill fer ekki svo auðveldlega af henni þrátt fyrir veikleikann og lyfjainntöku og slappleika.

Mamma vill helst hafa þúsund milljón hluti á planinu í einu því þannig verður henni mest úr verki. Og hún er ansi góð í að gera milljón hluti í einu á sama tíma – það er lítið mál fyrir hana. Jú, það er kannski af því hversu hröð og ör týpa hún er – sem er kostur – ég þekki þetta sjálf, fékk þetta beint í æði frá henni mömmu og er þakklát fyrir. Skipulagshæfileikar mömmu eru magnaðir. Ef þið þurfið að skipuleggja brúðkaup eða heimsreisu þá myndi ég hringja í mömmu. Hún myndi taka slíkt verkefni á hælinn. Ég sá bara svart á hvítu fyrir þessa veislu hvaðan ég hef fengið skipulagshæfileika mína sem vinkonur mínar gera iðulega grín að – þegar ég sá minnismiðann hennar mömmu – “Taka úr þvottavélinni” – “Borða” – “fara í bað” - neibb, þetta er ekki minnisleysi – þetta er skipulagskonan Gunna að massa hlutina eins og á að gera það! Nei, ok, þetta var nú bara djók, en í alvöru þá spyr mamma mig í júní hvernig við ætlum að hafa jólin og á mánudegi hvað við skyldum hafa í matinn um helgina!

Mamma er líka ævintýrakelling. Afsakið að ég noti orðið kelling, en mér finnst það bara kúl í svona fimmtugsafmæli. Hún hefur ferðast út um allar trissur og eyðir hverri krónu afgangs til þess að ferðast og upplifa eitthvað nýtt. Ganga á fjöll og skoða ný kennileiti. Ég held hreinlega að hún myndi ekki þrífast öðruvísi. Kannski þess vegna hefur hún valið sér að búa miðsvæðis í Evrópu þar sem stutt er í ævintýrarómatíkina. Í Þýskalandi hefur hún dafnað vel eins og sjá má undanfarin ár hjá FORD og ferðast um gjörvalla Evrópu við hvert tækifæri. "Já, ég skrapp til Parísar um helgina", - "Við skruppum til Lux" – "Oh, Strassbourg er æðisleg, við fórum nokkrar og fengum okkur kvöldmat þar"... Já, það er ekki laust við að maður fyllist smávegis öfund við að heyra þetta. Ég hef reynt að segja henni að Ísland sé best í heimi og að Laugavegurinn sé alveg málið og dýrtíðin sé liðin tíð, en allt fyrir ekki. Náttúran togar þó í hana og fjölskyldan eitthvað líka, en það hefur ekki virkað ennþá. Ekki enn. Ég spurði mömmu eitt sinn hvort hún ætlaði sér nú ekki alla vega að flytja heim til Íslands þegar hún verður gömul, ellilífeyrisþegi eða eitthvað og svarið var “nei... veistu ég held bara ekki.”

Mamma, nú ertu officially orðin gömul, það er stutt í ellilífeyrisþegann og ég veit að þú ert að endurskoða þessi mál. Ég veit að allir hér inni myndu án efa vilja fá og hafa gaman af því að fá svona litríka vinkonu eins og þig heim. Ég get líka sagt þetta á þýsku ef þú vilt – KOMM NACH HAUSE MUTTER!

Að öllu gríni slepptu þá langar mig að óska mömmu innilega til hamingju með árin fimmtíu. Ég óska þess að þú eigir önnur fimmtíu ár eftir í þessu lífi – samt vonandi á Íslandi – því þrátt fyrir þennan leiðinlega lifrasjúkdóm máttu vera viss um að þú lifir alla vega 43 ár í viðbót því þú hefur oftar en ekki sagt mér frá spám kvenna sem segja þig verða alla vega 93 ára. Svo við höfum ekki áhyggjur af þessum sjúkdómi. Ég skal halda aðra ræðu á afmælisdaginn þinn þegar þú verður 93, en segi þetta gott í bili.

Mamma lengi lifi eins flott og hún er – húrra, húrra, húrra, húrra!"

Erla.



Mömmuklúbburinn 

Við höfum hist reglulega saman þrjár stelpur úr Gallup sem erum í fæðingarorlofi. Ein átti í maí, ég í júli og sú þriðja í byrjun október. Við höfum hist einu sinni í viku í lönsh heima hjá hvorri annarri eftir að síðasta barnið fæddist og mömmast saman. Sá tími hefur verið frábær. Svo gott að bera saman barnabækur sínar og hitta aðrar mömmur í sem eru að pæla í nákvæmlega sömu hlutum og maður sjálfur. Sú sem átti í maí var að eignast sitt annað barn og veit ALLT sem maður þarf að vita um börn og barnauppeldi og við hinar tvær, frumbyrjurnar, höfum staðið á útopnu við að spyrja hana um hitt og þetta. Sem er frábært. Þessi mömmulönsh hefur staðið frá hádegi og fram eftir degi og það hafa verið fjörugir tímar. Stundum höfum við náð að skrafa saman og kjafta á meðan aðrir mömmudagar hafa farið einungis í að sinna börnunum, skipta á, gefa, út í vagn, leika, hugga og svo framvegis. En það hefur verið jafn gaman að hittast fyrir það. Gott að gera "ekki neitt" saman í stað þess að gera það allar í sitt hvoru horninu.

Nú er ein okkar svo farin að vinna. Mætti í vinnuna aftur í dag eftir orlofið. Úff púff, fæ bara í magann við að hugsa um það! Leyfið búið og pabbinn tekinn við. Brjóstagjöfin hætt og barnið farið að sitja og borða og þarf ekki lengur mömmuna eins nauðsynlega og áður. Soldið sorglegt en um leið ákveðið frelsi get ég ímyndað mér. Við tvær sem eftir erum í klúbbnum höldum áfram að hittast með krílin okkar og uppgötva barnaþroskann og lífið saman einu sinni í viku. Mömmuklúbburinn verður ekki sá sami, en við gerum okkar besta í að halda uppi mömmumóralnum í vetrarmyrkrinu.

sunnudagur, janúar 02, 2005

Gleðilegt ár! 


Áramótamús Posted by Hello

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker