<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, október 25, 2007

Vera 3,3 ára 

SÆTUST




Vera Víglunds er að standa sig vel hér úti. Hún er farin að líka betur á leikskólanum og er hætt að láta það fara í taugarnar á sér að skilja ekki mikið í sænsku eða spænsku, en bæði tungumálin eru notuð á leikskólanum. Mín er náttúrulega perfeksjonisti og vill alls ekki tala íslensku við útlensku krakkana og þegir því meira og minna í leikskólanum en fær þeim mun meiri útrás þegar hún kemur heim. Hún nær jú að tala íslensku við hinn Íslendinginn sem er með henni í skólanum, hann Gest Gerðarson og minnir hann reglulega á að hann eigi að tala íslensku við sig en ekki spænsku. Vera er nú samt farin að pikka upp orðin og notar þau inn á milli í talið sitt sem getur verið frekar fyndið.


Nokkrir nýlegir gullmolar frá Veru:


Mamma, þessi föt eru svo svakalega sucio (skítug)
Vera er skellihlæjandi og segir "Ég er alveg að deyja úr ungri" (meinandi að hún sé alveg að deyja úr hlátri)

Við erum að keyra út úr bænum og Vera kemur auga á kúahjörð á beit út um bílgluggann "mamma og pabbi, ég sé fullt af nautum og kýrum - og hei - þarna er ein frosin!" - en það var hvít stytta af nauti á miðju túninu.

"Mamma mig langar í skó með hælum" og bendir á kúrekastígvél á markaðnum (smituð!!)




Annars finnst henni ennþá skemmtilegast þegar hún er með mikið af verkefnum að vinna og elskar að lesa og púsla. Sagan um Emil í Kattholti er orðin default í bílnum og hún hlær alltaf eins og vitleysingur þegar Emil missir plokkfiskinn á tærnar á pabba sínum. Svo skammar hún öll dýrin sín og dúkkurnar með orðunum: "Kisu-strákskratti"! eða "litlu-babyborn-strákskratti!" Á eftir Emil kemur Kardemommubærinn, en samt bara kaflinn þar sem ræningjarnir þrír eru að ræna Soffíu frænku. Já, mín veit sko hvað henni finnst skemmtilegt og ekki eins skemmtilegt.


Vera er náttúrulega svakalega ákveðin og frek á köflum, svona eins og ég býst við að flestir 3 ára séu. Hún er samt ljúf inn við beinið og fullvissar sig og foreldrana oft á dag um að hún hlýði aaaaaalltaf, "eða sko, núna hlýði ég alltaf" bætir hún svo við. Eftir vinnu hjá mér er hún búin að vera með pabba sínum frá hádegi eftir að leikskólanum lýkur og þá er mamman uppáhalds og við leikum okkur fram að háttatíma. Yfirleitt með Bratz eða dýrin hennar. Ég á að tala fyrir Bratz dúkkurnar en Vera segir mér nákvæmlega hvað ég á að segja, það er víst ekki sama hvað það er. Svo röðum við dýrunum og Vera breytist iðulega í ljón eða hund. Þá fer hún þvílíkt í karakter og öskrar og öskrar og þegar ég bið hana að hafa lægra segir hún auðmjúklega: "já, en ég er Samson og veistu ekki að ljón öskra svona hátt?" (ljónið í Óbyggðunum). Svo passar hún sig á að hreyfa sig eins og ljón og sitja og liggja eins og ljón. Sleikja mig eins og hundar gera og tekur allt upp með munninum. Þvílíkir leiktaktar þar á ferð. Stundum höngum við líka í hengirúminu að spjalla saman, en Vera kemur reglulega til mín og segir "mamma, eigum við að spjalla?" Þá ræðir hún um hvað litla babyborn er orðin stór og dugleg og jafnvel óþekk. Mjög flottar og fyndnar samræður sem við getum átt á spjallinu.


Það er yndislegt að eiga þessa litlu snúllu og sjá hana vaxa og dafna eins vel og raun ber vitni. Hún er lítill snillingur og ég þekki það frá sjálfri mér hvað það getur verið erfitt að vera mikið niðri fyrir og vilja gera ALLT og ALLT Í EINU. Að vera ákafur og áhugasamur, ráðríkur og stjórnsamur. Vera er jú algjörlega að frekjast upp á köflum og við foreldrarnir reynum að taka bara á hverju keisi fyrir sig, með misjöfnum árangri þó. Hún er jú ekki í sínu eðlilega umhverfi hér og veit nákvæmlega hvað hún kemst langt með okkur. Það eru jú bara við og hún. Hún er svo klók. En ég veit líka og finn sterklega að hún er alltaf að gera sitt besta, er svo ljúf, er algjör knúsu og kyssari og með svo gott hjarta :)





Hér má sjá dömuna syngja fyrir sjálfan sig fyrir svefninn en söngbækur eru í uppáhaldi núna - og svo er það eitt voffavídeó frá ströndinni í rigninguni á Costa Rica um helgina.







það er smá plástrasýki í gangi þessa dagana





með regnhlífar í hárinu út af rigningunni (af æðisgengna pina colada foreldranna)




Sollu frænku pilsið er í uppáhaldi þessa dagana








Í mömmó með Masayu og Litlu babyborn



þetta með fæturna í sandinum er alltaf jafn fyndið







Vera mokaði sjálf yfir sig og sagði "sjáiði, ég er hafmeyja"



útrás á ströndinni eftir aksturinn til Costa Rica


"hei, þessi skel er fagurbleik" - elska þegar það koma svona háfleyg orð



Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker