<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, maí 31, 2005

Namaste! 

Indlansforseti er í kurteisisheimsókn á Íslandi. Gott fyrir hann. Og okkur. Hann er alveg hrikalega krúttlegur í útliti með hálfsítt grásprengt hár sleikt að andlitinu. Virðist hógvær en pottþétt klár. Mér finnst virkilega fallegt af Íslendingum, tja, eða Actavis að ætla sér að selja Indverjum alnæmislyf á mun ódýrara verði en gengur og gerist. Aids er víst að breiðast út einna hraðast á Indlandi.

Ég var jú einu sinni á Indlandi. Og það var upplifun í lagi. Við fórum með bakpokana okkar og ferðuðumst eins ódýrt og við mögulega gátum en 5 kall skipti í alvörunni máli! Við fórum frá Dehli, niður með vesturströndinni suður til Kerala og svo upp aftur með austurströndinni þar sem við enduðum svo í Kalkútta. Þetta tók okkur tæpa 3 mánuði og klikkaðri 3 mánuði er ekki hægt að finna í mínu lífi. Í jákvæðri merkingu sko. Fólkið var yndislegt og bar að mér fannst mikla virðingu fyrir okkur útlendingunum. Það var óþægilegt á köflum en lét manni um leið líða vel og bætti í öryggistilfinninguna. Ég man nú að maður fékk í alvörunni vægt menningarsjokk þegar maður lenti um miðja nótt í Delhi. Ég fattaði þá þetta orð "menningarsjokk" því ég fékk vægt sjokk. Fólk svaf út um allt á umferðareyjunum og gangstéttum. Átti hvergi heima nema veginum á. Mannmergðin er þvílík og yfirþyrmandi að það er ólýsanlegt. Hitinn og skíturinn í bland límdist við heilann á manni og það var erfitt að finna almennilegan og öruggan mat annan en hnetur og banana. Ekki nema á spes hótelum sem Lonely Planet biblía ferðalangans mælti með og sem voru orðin vestræn fyrir útlendingana. Þar var maturinn ætur. Annars var allt með sama skítabragðinu. Vatnið er jú rotið og geymsluaðferðirnar á matnum líka. Þrátt fyrir magaverk og pínu langmestan tímann og þrjár spítalavistir í kjölfarið nutum við ferðarinnar í botn. Drukkum í okkur kaosina.

Talandi um menningarsjokk. Fyrstu 3 dagana héldum við okkur án gríns inni á hóteli þar sem mikið af túristum héldu sig. Við fórum að sjálfsögðu eftir því hvað Lonely planet sagði okkur að gista fyrstu næturnar. Þetta var greinilega skjól frá mergðinni en við hreinlega höfðum okkur ekki út fyrir hússins dyr. Sátum og drukkum vatn uppi á þaki og fylgdumst með lífinu úr hæfilegri fjarlægð. Svo manaði maður sig í að fara út og það var æðislegt! Allt í klessu alls staðar. Eða það fannst mér þá. Ltir og læti. Kýr og kaos. Ég aðlagaðst fljótt hitanum og skítnum og það var ekki tiltökumál að breyta matarræðinu og jafnvel drekka löngu útrunnið kók og kex. Ég byrjaði að elska Indland. Klósettpappír hætti að vera nauðsyn og vatn og vinstri hendin varð málið eftir klósettferðir eins og vaninn er á Indlandi. Sem betur fer. Ímyndið ykkur ef allir Indverjar myndu skeina sér með þvílíkum slatta af klósettpappír eins og við gerum hér heima!! Jesús minn.

Þetta var svona smá survivor dæmi. Að vera án beisikklí allra helstu þæginda og bara með nokkrar af þeim nausynjum sem til voru. Við t.d. tókum tannkrem og túrtappa með okkur að heiman því það er erfitt að finna slíkt á Indlandi. Eins þvottaefni og filmur. Já, þær eru misjafnar þessar "nauðsynjar".

Ég var ánægð að komast lifandi frá Indlandi, sérstaklega í ljósi þess hversu erfitt það var að ferðast á milli staða þar. Frétti það sem betur fer eftir á að á Indlandi er hættulegasta lestarkerfi í heimi og ekki er það nú skárra að ferðast með rútunum. Blindfullir bílstjórar þeysast oftar en ekki fram af klettafjöllum og hugsa glatt til betra næsta lífs með góðu karma.

Eftir um 3 mánaða dvöl á Indlandi vorum við farin að hlakka til að komast í burtu frá áreitinu og látunum og komast í aðeins meiri lúxus. Tæland bauð upp á allt það besta og þar eyddum við dágóðum tíma. Það var samt svo skrýtið að eftir mjög stutta stund í Tælandi langaði okkur aftur til Indlands. Maður var feginn að komast þaðan en saknaði þess svo nánast strax, eða um leið og lúxusinn í Tælandi var orðinn daglegt brauð.

Ég vona að ég komi einhvern tímann aftur til Indlands. Indland hefur sama og ekkert breyst síðustu 30-40 árin svo ég efa það að það eigi mikið eftir að breytast á næstu áratugum. Bretarnir skildu illa við það fyrir um 57 árum þegar Indland fékk sjálfstæði frá Bretum og einhvern veginn hefur þeim ekki tekist að komast á gott ról eftir það. Ætli mannfjöldinn og fátæktin komi ekki í veg fyrir það.
Manngæskan og mórallinn í fólkinu bætir skortinn á lúxusnum þó margfalt upp.

Someday.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker