<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, maí 15, 2005

Kleifarvatn og kótilettur 

Kótilettur kvöldsins runnu ljúflega niður. Ahhh, það er formlega komið sumar á Hverfisgötunni, búið að grilla kótilettur og meððí. Sumarstemmningin í hámarki. Vera fékk reyndar krukkumat, var ekki svo spennt fyrir kótilettunum, kannski af því að það eru heilar 4 tennur að ryðjast fram í efri góm hja henni. Þá kannski langar mann ekkert sérstaklega að naga á kótilettum.
Veljum íslenskt lambakjöt á grillið.

Þetta var æðislega fínn dagur. Vera svaf út eftir að hafa pirrast til að ganga 3 í nótt, ábyggilega vegna tannanna sem eru á leiðinni. Þetta tekur á. Greyið múslan. Svo mamman og pabbinn sváfu líka út og hvað það var gott maður lifandi. Æði. Spurning um að halda henni vakandi fram á nótt um helgar til að fá að sofa út daginn eftir...nei, kannski er það ekki svo ýkja barnvænt.

Við byrjuðum daginn á því að fara til ömmu Sillu, eða í húsið þar sem amma bjó, að vökva blómin bæði inni og í gróðurhúsinu. Þar sátum við svo úti í blíðunni og fengum okkur hádegismat. Það er skrýtið að vera þarna án ömmu. En samt vinalegt og ég kvíði fyrir því þegar húsið verður selt og það verður ekki hægt að mæta þarna lengur á sunnudögum. Þá verður þetta allt svo endanlegt eitthvað. Vonandi selst það ekki fyrr en eftir sumarið. Þá getur maður notið blíðunnar í fallega garðinum hennar ömmu.

Eftir hádegið skelltum við okkur rétt út fyrir bæinn eða á Kleifarvatn. Að sjálfsögðu má sjá myndir úr förinni hér fyrir neðan :) Við fórum við vinum okkar sem er með einn lítinn gaur. Vera var í kerrunni en sá litli sullaði í vatninu og lék sér í sandinum. Ég hlakka svo til þegar Vera hefur vit á því að leika sér svona, vera gaur og skíta sig út og sulla og skemmta sér í "sveitinni". Núna horfði hún bara aðdáunaraugum á litla vin sinn sem fór á kostum. Það var blíða til að byrja með en svo komu skýin og allt í einu vorum við að snæða nestið okkar í dágóðu roki og skítakulda með sultardropa á nefinu. Þá var kominn tími á heimferð. Kótilettuát tók við og núna ætla ég að skella mér í ísbúðina og kaupa bragðarefi fyrir okkur hjónaleysin. Ekta ísbíltúr væri óskandi en það er víst liðin tíð í bili, músin er komin í draumaheiminn...

Hvað gerðist annars á Hvítasunnudag?
Æts, ein léleg í kristinfræðinni!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker