<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, maí 25, 2005

Búúhú... 

Dagurinn í dag er búinn að vera skrýtinn.
Eða er ég kannski bara skrýtin?

Vinnan er alltaf ágæt svo sem og ekkert merkilegt þaðan að segja. Fékk leikara til að stýra rýnihópum sem voru á dagskrá en þeir voru löngu planaðir. Ég gat jú ekki stýrt þeim af því ég þurfti óvænt að fara í kistulagningu hjá ömmu Völu. Já, enn ein kistulagningin var í dag. Ég sá ömmu Völu í síðasta sinn. Og felldi þó nokkur tár þar. Þetta var bæði sorglegt og fallegt. Og áhrifamikið eitthvað. Tekur á.

Ég trúi því ekki að ég eigi enga ömmu og engan afa lengur. Þessir stólpar í lífi manns eru bara farnir og maður finnur þvílíkt fyrir því. Ég beisikklí þekki engan gamlan lengur. Engan eldri en tengdapabba og hann er 63 ára! Sorglegt. Gamla fólkið talar allt öðruvísi en það unga og um allt aðra hluti sem maður hefur svo gott af því að hlusta á. Mér fannst alltaf gaman að tala við ömmurnar og afann um daginn og veginn og heyra hvað þau voru að spá, sem oftar en ekki var svo fjarlægt því sem ég unga konan var að pæla í. Að tala við og umgangast gamalt fólk einhvern veginn gerir mann svo góðan og sáttan.

Miðvikudagskvöld eru svo sem endranær frátekin fyrir kóræfingar og kvöldið í kvöld var engin undantekning. Ég söng eins og ég gat þrátt fyrir dágóða hálsbólgu og pínu depurð og þróttleysi eftir daginn. Kórstjórinn skammaði mig fyrir að segja að mér fyndist eitt lag sem við erum að syngja leiðinlegt. Mér finnst það leiðinlegt. En hefði kannski getað haldið KJ. Eða orðað það öðruvísi. Annar kórfélagi opnaði umræðuna um að lagið væri of flatt og hægt sungið og ég tók undir. Og ég bætti við að mér þætti það hreinlega leiðinlegt. Og það fór auðvitað yfir strikið. Greyið kórstjórinn er að gera sitt allra besta og stendur sig frábærlega í starfinu, hefur þvílíkan metnað og húmor í lagi, og svo skítur maður bara yfir eitt lag sem hann er búinn að velja fyrir okkur. Þvílíkur glataður mórall í mér. Ég hefði líklega allt eins getað sagt að mér þætti lagið "flatt" eða notað annað orð heldur en leiðinlegt en ætli ég sé ekki bara of beinskeytt eða hreinskilin fyrir suma. Aldrei lærir maður. Ég hágrenjaði inni í mér af móral og baðst strax afsökunar og svo aftur eftir æfinguna. Stjórinn átti þó erfitt með að horfa í augun á mér eftir þetta og var augljóslega særður og reiður og þótti mér það leiðinlegt. Ég skil það vel (en hvað er ég núna oft búin að skrifa orðið "leiðinlegt"? Þetta fer að verða leiðinlegt hér...). Oh, ég nenni ekki að vera týpan sem skemmir fyrir heilum kór.
Not my style.

Ég fór svo að grenja í alvörunni á miðri kóræfingu í lagi sem heitir Mitt Faðir vor, en ljóðið er eftir Kristján frá Djúpalæk. Búúhú. Allt í einu bara missti ég það. Saug sífellt upp í nefið og þerraði tárin þegar þau streymdu niður kinnarnar. Hefði þurft að snýta mér en vildi ekki tótallí eyðileggja meira fyrir kórnum, þau voru jú að syngja sitt besta í miðju lagi. Þetta bara snerti mig bara beint í hjartað og mér varð hugsað til ömmu Völu og athafnarinnar í dag sem var svo falleg. Ætli kórstjórinn hafi ekki haldið að ég væri að grenja út af viðbrögðunum sem ég fékk frá honum um "leiðinlega" lagið. En það gat ekki verið lengra frá raunveruleikanum. Var BARA að hugsa um sjálfa mig og hvað aumingja ég ætti nú bágt að eiga enga gamlingjaömmur og afa í mínu lífi lengur sem mér þótti svo vænt um.

Ég er svo svona að ná mér niður hérna á blogginu. Alltaf gott að blogga bara hlutina í burtu. Koma þeim út. Ahhh.

Þetta var skrýtinn dagur fyrir skrýtna stelpu.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker