<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, nóvember 15, 2004

Heima er best 

Í gær fórum við í heimsókn til vinafólks okkar sem er nýflutt inn í svaka fínt einbýlishús sem þau hafa algjörlega látið gera upp. Enn var allt í kössum og ekki búið að ganga frá hlutum á sinn stað. Stofan var full af "drasli" eins og heimilisfrúin orðaði það. Voru það hlutir sem þau ætluðu að henda eða gefa í Góða Hirðinn. Þessir hlutir voru gamlir hlutir, mest frá húsbóndanum, og höfðu þeir nú runnið sitt æviskeið með heimilisfólkinu.Þeir pössuðu ekki lengur inn á heimilið í nýja húsinu.

Þetta minnti mig á að eitt sinn gerði ég lítið verkefni í kúrs sem hét Notagildi og Fagurfræði í mannfræðinni sem ég nefndi: Heima er best. Þar velti ég fyrir mér hvað það er sem byggir heimili, hvaða hluti fólk velur inn á heimili sitt og af hverju. Eins pældi ég í hvað þessir hlutir segja um heimilisfólkið og af hverju máltækið segir að heima sé best. Ég náði í verkefnið og las og fannst ég ansi góð í pælingum mínum eins og sjá má hér fyrir neðan. Ég reyndar stytti þetta heilan helling og breytti slatta og bætti við til að það verði aðeins læsilegra, eins sleppi leiðinlegum kenningarlegum köflum sem enginn skilur nema mannfræðingar...
Já, maður var eitt sinn frjór og klár...

"Heimili fólks eru eins fjölbreytt og mismunandi og þau eru mörg. Kannski eins og mannfólkið sjálft. Hver maður hefur mismunandi fagurfræðilega sýn á hluti og rými og leggur mismunandi merkingu í hluti. Það sem ég tel að fyrst og fremst byggi heimili, er sjálft fólkið á heimilinu og þeir hlutir sem það velur til að hafa í kringum sig. Eitt sinn fór ég á sýningu á Listasafni Reykjavíkur sem hét "Sófamálverið". Sýningin fjallaði um það sem fólk velur til að setja fyrir ofan sófann hjá sér og sýndi myndir af stofunni og sófanum og því sem fólk setti fyrir ofan sófann. Ég man að mér fannst sýningin ansi innantóm því heimilisfólkið vantaði á myndirnar. Hins vegar var ansi spennandi að sjá hvað fólk velur mismunandi hluti inn til sín og hengir mismunandi myndir upp fyrir ofan sófann hjá sér. Myndirnar fyrir ofan sófann segja kannski meira um fólkið sem setti þær þar, fremur en margir aðrir hlutir á heimilinu, þar sem það rými er yfirleitt ákveðinn aðalfókus í íbúðinni og fólk vandar valið meira en ella. Sjálf var ég eitt sinn í mörg ár með tóman vegginn í stofunni fyrir ofan sófann. Ég átti fullt af myndum og hlutum til að fylla vegginn með en einhvern vegin var mér alls ekki sama hvað færi á þennan tiltekna vegg. Ekki vildi ég heldur hafa hann tóman, því það fannst mér einhvern vegin ekki endurspegla okkur á heimilinu. Ég fann ekkert sem mér líkaði svo ég ákvað einn daginn að prýða vegginn heimatilbúið olíumálverk, sjálfsmynd listamannsins (þó svo ekki margir utan heimilisins hafið nú vitað það!). Það fannst mér bæði persónulegt og fallegt og hitta akkúrat rétt í mark með táknrænt útlit stofunnar sem ég var að leitast eftir.

Hlutir bera ákveðin boð og merkingu um eigendur þeirra. Eignir fólks er oft tákn fyrir fólkið á margan hátt, t.d. stöðutákn og tákn fyrir viðhorf þess til neyslu. Einnig hvort það sé með fjöldaframleidda eða einstaka hluti inni hjá sér. Í raun er hægt að segja að heimili fólks sé ákveðið safn þar sem fólk safnar hlutum til að skapa heimili sem á að sýna sögu þess og sjálfsmynd.

Alltaf þegar ég kem inn á heimili þar sem ég hef ekki komið áður líður mér eins og að koma í spennandi ævintýraheim. Ég geng um heimilið eins og dáleidd, rýni í málverk og myndir sem hanga á veggjum, skoða hluti og króka og kima. Í raun er ég ósjálfrátt að framkvæma hálfgerða rannsókn þar sem ég er að kanna það fólk sem byggir heimilið. Ómeðvitað er ég að kanna hvernig persónuleikar ég tel að fólkið sé, hvort ég telji mig þekkja það rétt. Fólk nefninlega leggur sérstaka merkingu í heimili sitt með hlutum. Það er að skapa umhverfi sitt með ákveðnum hlutum sem eiga að endurspegla sjálfsmynd heimilisins sem svo hlýtur aftur að endurspegla fólkið sjálft sem persónur. Oftar en ekki breytist sýn mín á fólki eftir að ég hef komið inn á heimili þess. Það einhvern veginn flokkast á annan hátt í höfðinu á mér og ég fæ betri mynd af því hvernig ég tel það vera og hvernig ég skynja það sem persónuleika. Ég fæ svo mikið af auka upplýsingum um það út frá því hvernig það býr. Efnisleg menning gefur okkur ákveðnar vísbendingar um heimssýn, heimspeki og hugmyndafræði fólks. Með hlutum skapa menn sjálfa sig veröld sína og því mætti segja hluti heimilisins ákveðna holdgervingu okkar sjálfra. Maður notar sinn smekk og hugvit til að skilgreina sig frá öðrum.

Heimilið getur einnig birst sem ákveðið valdarými þar sem fólk deilir um hvernig á að vera. Mismunandi smekkur fólks gerir það að verkum að oft þarf fólk að semja um hvernig heimilið skuli vera. Eins og hjá þessu vinafólki okkar. Flest af þessu "drasli" var gamalt dót frá húsbóndanum sem húsfrúin vildi losna við. Spurning hvort húsbóndinn sé sammþykkur því? Aðilar sem flytji inn saman og ætla að stofna heimili þurfi oft á tíðum að fórna ýmsum hlutum sem hafa ákveðna táknræna merkingu fyrir það og sem því þykir vænt um. Að sama skapi þurfa þeir einnig að búa með ýmsum hlutum sem það þolir ekki. T.d hefur fólk lýst því sem algjöra martröð að þurfa að búa „með“ teppi sem það hafði ekki valið sér sjálft. Það teppi endurspeglar þá að öllum líkindum ekki þá sjálfsmynd sem það vill koma til skila í gegnum heimilið. Það er að sumu leyti hægt að líta á teppið sem leifar af sjálfsmynd fyrri íbúenda þess heimilis sem var þar áður, en einnig sem eitthvað algjörlega merkingarlaust fyrirbæri með enga táknræna merkingu, þar sem fólk vill helst losa sig við það.

Mér er þá aftur hugsað til sófamálverkssýningarinnar. Þar birtust textar með sófamálverksljósmyndunum sem voru orð heimilisfólksins. Í þeim kemur í ljós að ekki næstum því allir voru ánægðir með þá mynd sem hékk fyrir ofan sófann. Til dæmis gat myndin verið gjöf sem fólk fann þörf til að setja upp af kurteisi einni saman, eða þá það hefði ekkert annað til að hengja upp. Einnig var einhver sem sagðist finnast málverkið fyrir ofan sófann sinn forljótt og í raun ekki skilja af hverju það væri þarna, en makinn hafi keypt myndina og hengt hana upp.

Ljóst er að hugmyndin um heimili er allt annað en einföld. Heimili eru ekki einsleit stöðluð fyrirbæri sem hægt er að fjalla um á einfaldan hátt. Hér að ofan hef ég reynt að gera grein fyrir því hvernig hvert heimili er táknrænt fyrir þá aðila sem það byggja og hvernig heimilið og hlutmenningin er í raun holdgerving fólksins sem skapar hana. Sjálf er ég mikill fagurkeri og legg mikla vinnu í að byggja upp heimili mitt, því um leið finnst mér ég einnig vera að byggja upp ákveðinn persónulegan lífsanda. Þannig verður heimili mitt ég sjálf. Það er hægt að byggja hús, en það verður að rækta heimili og ræktunin er þessi sjálfssköpun. Ég er að skapa mig og mitt líf í gegnum heimilið og hlutmenninguna sem inni á því ríkir. Heimilið er tjáning okkar á því hver við erum og hugmynd mín um heimili samræmist að miklu leyti hugmynd minni um hvernig lífi ég vill lifa.
Aðeins á þennan hátt get ég skilið af hverju „heima er best“"

Jahá! Mig er nú bara farið að langa aftur í skóla!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker