<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, nóvember 13, 2004

Nóvemberbrúnkan 

Við búum á Íslandi þar sem sólin sjaldan skín. Að viti að minnsta kosti. Á veturna glittir stundum í hana á milli svartra skýja en lítið meira en það. Því er afar áhugavert að sjá ungt fólk á Íslandi kaffibrúnt að lit og það um miðjan nóvember! Sólin skín bara langt frá því nægilega mikið að maður fái bronsaðan sumarlegan hörundslit hér á landi. Tuttugmínútna sól í roki gerir það bara ekki. Ljósabekkir eru jú vinsælir til sólbaða hér á landi og til er fólk sem fer í ljós þrisvar í viku og mætir reglulega sólbrúnt í líkamsrækt. Það fer svo í Hollywood um helgar með mynd af ljósabekknum í vasanum. Nei, ég segi svona. En þetta er alveg met. Að sjá snickersbrúnar ungar dömur um miðjan vetur á Íslandi er hjákátlegt. Ég segi það ekki, það er allt í lagi að líta hraustlega út, hvort sem það kallar á einn eða tvo ljósatíma eða eina umferð af brúnkukremi, en öllu má nú ofgera hér. This aint California.

Horfði á 70 mínútur á PoppTíví í fyrradag og þar fór hann Pétur Jóhann Sigfússon í brúnkuklefa. Var það áskorun á hann sem hann tók. Hann breyttist í stuttu máli úr næpuhvítum venjulega fölum Íslendingi í alltofbrúnan ítaljanó vero. Þeir strákarnir í þættinum, og ég, hlógum svo mikið að þessu því það er auðvitað alveg ga ga að ganga svona langt að transformerast svona gjörsamlega eins og þetta.

En það voru fleiri sem gengu í brúnkudraumagildruna heldur en Pési Jói. Nýja Kastljósdaman steig beint í hana eins og berlega mátti sjá í Kastljóssþættinum í gærkvöldi. Og hún fékk mig til að pæla í þessu brúnkudæmi. Greyið hafði augljóslega farið í brúnkuklefa og látið sprauta á sig gervibrúnku. Hún var svo skringilega gulsvarbrún, og jafn brún í andlitinu og annars staðar. Svo var hárið skjannahvítstrípað og vatnsgreitt aftur til að liturinn fengi nú örugglega að njóta sín. Þetta var alveg fáránlegt við hliðina á skjannahvítum (eins og við eigum að vera!) Sigmari hinum Kastljósspyrlinum. Daginn áður var þessi nýja stelpa Kastljóssins, sem mig minnir að heiti Eyrún, ósköp venjuleg á litin. Svo bara púff... allt í einu gervibrún og kjánaleg. Í alvöru, þetta stakk svo í stúf að ég hló og hló og heyrði lítið um hvað rætt var í þessum Kastljóssþætti. Sjónvarpsmyndavélunum var sjaldan beint að henni nálægri því þetta var bara ekki að gera sig.

Þetta er aðeins farið út í öfgar. Ég viðurkenni það nú samt að ég á eina túpu af brúnkukremi sem ég skelli á mig af og til fyrir einhverja sérstaka viðburði. Er samt viss um að enginn taki eftir þeirri "brúnku" sem myndast af því nema ég sjálf. Auðvitað ber ég þetta á mig til að líta betur út. Að vera glær á veturna með fjólublá landakortalæri er ekki alveg málið. Millivegurinn er hinn gullni vegur í þessu sem og öðru. Nokkrar freknur og temmilega hraustlegt útlit er málið í dag.
Brúnkuklefar fá því falleinkunn hjá mér, og ber ég Pétur Jóhann og Eyrúnubrúnu þess til vitnis.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker