<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Sjónvarpsleysi gefur gull í munn 

Ég var sjónvarpslaus í gærkvöldi.
Stöð 2 með sínu digitalklúðri og öllu sem því fylgir gerði það að verkum að ég sá bara snjó á skjánum í gær. Og ég sem er komin með nóg af snjó. Já, strax. Hann má hverfa fyrir mér. Ég veit að ég talaði vel um hann hér um daginn en komst svo að því að vagnar og snjóófæra fara ekki vel saman. Var kófsveitt að drösla vagninum út í búð og tilbaka. Þvílíkar torfærur. Svo ég vona að það verði bara rigning í bænum í vetur en snjór í fjöllunum. Vá, það væri góður díll.

En alla vega. Snjórinn á sjónvarpinu. Fyrst varð ég alveg svakalega svekkt og vissi ekkert hvað ég átti til bragðs að taka. En svo sá ég það. Þetta var frábært. Ég saknaði Völu Matt nú ekki svo mikið. Og tíufrétta ekki heldur. Var komin með nóg af fréttum um brunann eníveis. Svo ég tók upp prjónana og kláraði önnur handskjól (já, það er nýjasta tískan ef þið vitið það ekki!) svo tók ég í bók og kjaftaði heillengi í símann. Frábært kvöld! Reyndar vildi Vera ekki fara að sofa en það er annað mál...

Ég er enginn sérstakur sjónvarpsglápari. Eiginlega þvert á móti. Það er kannski ástæðan fyrir því að sjónvarpið hjá mér er staðsett lengst uppi í rjáfri og þarf ansi margar tröppur til að komast þangað upp. Maður þarf því að ákveða að fara að horfa á sjónvarpið. Það er ekki bara kveikt á því og maður fer ósjálfrátt allt í einu að horfa. Og þegar maður er einu sinni kominn upp þá fer maður heldur ekki svo glatt aftur niður fyrr en dagskráin er búin. Það er aldrei bara kveikt á kassanum og enginn að horfa. Ég elska það.

Sjónvarpið er í raun fyrir mér ákveðinn samskiptaþjófur. Um leið og það getur á stundum verið góð afþreying þar sem það bjargar manni frá það að þurfa að hugsa og tala þá stelur það um leið fullt af öðru skemmtilegu sem myndi annars gerast væri slökkt á því. Það stelur frá okkur áhugaverðum samtölum sem annars myndu fara fram og ýmsum áhugamálum sem maður annars myndi sinna, eins og bókalestur, spil, prjón, saumur eða annað dútlerídútl. Eða bara að hafa svona fjölskyldustund. Eins og var á fimmtudögum í gamla daga. Vá, það var aðeins á fimmtudögum sem pabbi nennti að spila veiðimann við mann og segja manni brandara. Bara af því það var ekkert sjónvarp. Það er svo auðvelt að bara kasta sér í klessusófann, grafa sig djúpt niður í púðahafið og liggja eins og slytti. Gærkvöldið hins vegar kenndi mér að kvöldin eru oft betur nýtt í annað skemmtilegra sem bara gerist sé slökkt á því.

Það er nú ekki mitt að vera að prédika hér, en eftir gærkvöldið kæri lesandi, mæli ég hiklaust með því að þú slökkvir á sjónvarpinu í eitt og eitt kvöld og búir til nýjan raunveruleika í þínu lífi í stað þess að matast af raunveruleika og óraunveruleika annarra úti í heimi.
Ó, je.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker