<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, september 06, 2006

Menningarsjokk 

Ég fór á landsleikinn í fótbolta í kvöld. Sá Dani rúlla okkur upp. Þetta var minn fyrsti landsleikur í fótbolta og jafnvel sá eini. Ég fékk frímiða og ákvað að nýta þetta tækifæri til að upplifa eitthvað nýtt. Ég hafði smá væntingar um góða stemmningu og sá mig fyrir mér veifandi fána og öskrandi á dómarana. Stemnmningin var sæmileg en samt ekkert miðaði við það sem maður sér á útlenskum leikjum í sjónvarpinu. Og nei, ég hélt mig til hlés, eiginlega var ég alveg frosin og það ekki úr kulda. Ég vissi að það væri ákveðin stemmning á svona fótboltaleikjum en ég var greinilega samt ekki alveg tilbúin í þetta. Menningin á fótboltavellinum var alveg ný fyrir mér og ég þarf greinilega meira en einn leik til aðlögunar.

Maðurinn fyrir framan mig lét dómarana heyra það fyrir mig og ég bara kunni ekki við það að púa á Danina fyrir ekki neitt. Þegar áhorfendurnir í kringum mig misstu sig í brjálæðinu og stóðu upp til að skammast og mótmæla, tja eða fagna þegar þeir héldu að boltinn hefði legið inni, var ég ekki nógu fljót og sat eftir. Frosin.
Mér fannst leikurinn annars fara fram ofurhægt svona life miðað við í sjónvarpinu og ég sá einhvern veginn voða lítið þrátt fyrir að sitja samt á fínum stað í nýju flottu stúkunni (sem ég reyndar hélt fyrst að væri sú gamla...). Það var engin nærmynd af Eiði Smára og ég sá bara alls ekki hvað hann er sætur. Ég sá engin sveitt og sexí fótboltalæri því stuttbuxurnar voru svo síðar - ég vil fá seventísSTUTTbuxnatískuna aftur takk. Mér fannst alls ekki svo leiðinlegt á leiknum en ég var heldur ekki að skemmta mér neitt sérlega vel. Þetta bara svona leið hjá og ég hafði meira gaman af því að fylgjast með fólkinu í kringum með heldur en sjálfum leiknum. Hver hópur af fólki söng áfram Ísland og klappaði í sínu horni svo fullkomlega í ótakt að ég gat ómögulega tekið undir. Svo var ég alltaf að missa þráðinn í leiknum, ætli það megi kannski ekki bara skrifast á almennt áhugaleysi á fótbolta yfir höfuð. Ég vildi að það hefði verði risaskjár sem endursýndi mikilvæg atvik eins og alls kyns brot og færi, þá hefði ég alla vega séð þau. Ég missti alltaf af einhverju sem gerðist, hreinlega bara náði því ekki og gat ekki spurt einn né neinn því samstarfskona mín sem sat við hliðina á mér var á sama fótboltastiginu og ég. Í miðjum leik stóðum við okkur að því að vera farnar að tala um barnahúsgögn og verð á þeim. Það er náttlega mjög spennandi umræðuefni.

Pizzan með pepperóníinu og kókið í hléinu var ágætt en mér varð samt bumbult af því í seinni hálfleik af spenningi því mér var alls ekki sama um að tapa. Ég nagaði stöngina á íslenska fánanum af stressi og vonaði að við myndum skora. En gafst svo upp þegar 10 mínútur voru eftir af ævintýrinu og fór heim með snert af vægu menningarsjokki.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker