<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, september 04, 2006

Helgason Family 

Helgason family dagurinn mikli var á laugardaginn. Þá komu saman systkinin sex og makar þeirra og áttu glaðan og fjörugan dag. Ég og Viggi unnum Amazing race, sem var þessi dúndur ratleikur um Hafnarfjörð og það á reiðhjólum og komum langfyrst og spræk í mark á meðan hinir týndust, eyðilögðu hjólin sín og komu ælandi þreytt í mark. Já, svona er bara frábært að bera af, vera bæði gáfaðastur og fljótastur. Þess má geta að ég vann svo líka stólaleikinn síðar um kvöldið eftir gríðarlega baráttu. Eftir sigurinn mikla tók við pikknikk í blíðunni úti í Hafnfirskri náttúru og þar á eftir meiri hjólatúr um bæinn þar sem systkinin rifjuðu upp æskuminningar með trega en þó aðallega gleðitárum. Þegar hér er komið við sögu voru þátttakendur búnir að staupa sig allmikið en tókst þó að sprikla næstu tvo tímana í fimleikum, skotbolta, klifra og djöflast á trampólíni. Nokkrir tóku magnaðar gólfæfingar sem slóu flestu öðru við þennan dag. Hin pakistanska Shabana kom svo heim í höllina og eldaði ofan í okkur dýrindis kvöldmáltíð sem lífgaði þreyttan mannskapinn aftur við eftir kappsaman dag. Við tóku leikir og skemmtiatriði sem seint gleymast og fjörið lifði lengur en ég man...

Ég sé þarna hvað það er mikil blessun að eiga stóra fjölskyldu. Þau eru sex og þótt þau kannski fíli hvort annað ekkert alltaf í botn og hvert systkin eigi sitt uppáhald (þótt enginn vilji viðurkenna það) þá er alltaf einhver til taks. Og þegar allir koma saman verður til einhver ólýsanlegur skemmtilegur kraftur sem tekur aðra með sér og lifir lengi á eftir.

Ég á einn bróður og við hittumst ekki mikið. Ætli við séum ekki þau ólíkustu á jörðinni, eða svona næstum því gæti ég trúað. Fyrir utan hæðina og að vera kórnörd eigum við lítið sameiginlegt, enda alin upp á sitthvorum staðnum mest okkar líf. Ég á líka eina hálfsystur sem ég gleymi að ég eigi því ég hitti hana aldrei. Helgasynir og dætur eru ómetanleg viðbót við mína litlu skrítnu fjölskyldu. Jú, jú, þau eru líka skrýtin á sinn hátt svona eins og gengur og gerist en það er eitthvað sem fjöldanum tekst að skapa sem er erfitt að lýsa. Ég lít á þau sem mína fjölskyldu enda næstum búin að þekkja þau jafn lengi og ekki - og þá er ég líka að tala um þá eðalmaka sem þeim (ótrúlegt en satt!) hefur tekist að ná sér í.

Eftir svona daga langar mig að eignast ekki færri en svona 10 börn. En um leið get ég ekki hugsað mér það vegna einhvers sem gæti kallast egó eða þreyta eða veraldleg lífsgæði eða bara bull og vitleysa. Ég á eina góða Veru sem er eðalviðbót í Helgason fjölskylduna og hvað gerist næst er óráðið. Tvö eða tíu já hmmmm...

En alla vega, ég skal droppa mér aftur úr væmnagírnum og vera almennileg. Þið verðið að prófa svona stólaleik eftir nokkur glös og finna kikkið þegar þið vinnið leikinn - gleðin leikur um mann eins og lítið barn í fimm ára afmæli aaaaahhhhhhhhhhhhhhh....

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker