<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, febrúar 09, 2004

Ég var spurð af samstarfsmanni mínum á djammi um daginn hvenær ég ætlaði nú að fara að gifta mig. Ég tjáði honum að það væri ekki á dagskránni í bráð þar sem minn heittelskaði unnusti drullaðist ekki á hnén. Og ekki fer ég, svo mikið er víst. Ég sagðist þó hlakka til þessa dags þótt gifting sé alls ekki aðalatriðið í huga okkar hjúa.

Í framhaldi af því spurði hann mig hvort ég vissi nú samt ekki hvaða lög ég vildi hafa í brúðkaupinu, þar sem ég væri þessi fína söngkona (var nýbúin að garga í karókí rétt áður). Og ég get nú bara sagt ykkur það að ég hef oft pælt í því (hvaða unga "lofaða" stúlka á sér ekki draumabrúðkaup í laumi??) og ég vissi um kannski 1-2 lög sem ég vildi hafa. En svo tjáði ég honum hins vegar annað sem ykkur á kannski eftir að finnast skrýtið og það er að ég veit frekar hvaða lög ég myndi vilja láta spila í jarðaförinni minni þegar að henni kemur. Nei, ekki misskilja mig - ég er ekki á förum, alla vega ekki viljandi og vona að dauðinn sæki mig seint um síðir. En ég veit samt hvaða lög skulu spiluð við athöfnina. Alla vega svona ef maður deyr undir fimmtugu eða eitthvað.

Heyr himnasmiður myndi fá að óma fyrst. Í blönduðum kór. Það er alveg geggjað lag. Hef oft sungið það með Hamrahlíðakórnum á sínum tíma og táraðist í hvert sinn. Sofðu unga ástin mín fær svo að koma næst. Helst í einsöng, samt ekki óperu. Bara svona fallega klassískt. Þetta er eiginlega uppáhalds íslenska lagið mitt. Ain´t no sunshine fær svo að hljóma að lokum. Já, það verður ekkert sólskin eftir að ég dey. Alla vega ekki hjá mér!

Ok, klikkaðar pælingar en frábær lög.

Þá er það alla vega orðið skjalfest :)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker