<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, mars 21, 2007

21. mars 1923 

Amma mín Silla hefði átt afmæli í dag. Það eru að verða 2 ár síðan hún dó. Og ég er enn að berjast við söknuðinn.Ég sakna hennar ótrúlega mikið. Ég fer aldrei upp í kirkjugarð, veit ekki hvað ég á svo sem að gera þar annað en fara að grenja. Ég er reyndar grenjandi núna.... Ég hugsa svo oft um hana við alls konar aðstæður. Alltaf á sunnudögum, þá var yfirleitt ömmumatur. Alla vega kaffi, vöfflur og kókó. Svo heimsótti ég hana oft þegar ég var í háskólanum yfir miðjan daginn, þá sat hún við eldhúsborðið og saumaði út eða réði krossgátur með gömlu flottu skrifstofustafaskriftinni sinni. Með gufuna mjög hátt stillta. Og við ræddum ýmislegt. Rifumst stundum ef við vorum ekki sammála. Amma sagði nefninlega alltaf sína meiningu, jákvæða eða neikvæða, umbúðalaust. Kannski ég hafi fengið það frá henni. Ef maður kom þegar Nágrannar voru í sjónvarpinu fékk maður enga athygli.

Amma var svona hörkukona. Afi dó þegar hún var bara 54 ára og hún var alltaf ein eftir það. Ein í stóra húsinu sínu sem hún og afi byggðu. Sem nú er orðin ópersónulegt og leigt undir fullt af unglingum sem vita ekkert um sögu staðarins. Vita ekkert um öll fjölskyldumatarboðin í borðstofunni, öll áramótin í stofunni, allt kaffið í eldhúsinu, allar gistinæturnar í aukaherberginu og allan galsann og öll grillpartýin í verðlaunagarðinum. Hvað þá um umönnun ömmu í gróðurhúsinu sem nú er í niðurníslu. Það síðasta sem Vera og amma gerðu var high five. Vera sló í lófann á henni og þær léku sér. Þótt amma væri mjög lasin og gæti varla setið upprétt þá samt kættist hún og brosti til Verunnar. Sem var bara pínulítil og fær því miður aldrei að kynnast þessari flottu konu sem amma var. En ég mun segja henni mikið frá ömmu Sillu, hún veit nú þegar að sú amma á heima hjá englunum á himninum.

Það var ekki hægt að gefa ömmu neitt í afmælisgjöf, hún átti allt. Og fussaði og sveijaði svo yfir því ef hún fékk einhvern óþarfa. Það var alltaf afmæliskaffi, amma var alltaf að baka tertur og bollur og brauð. Svakalega myndarleg og dugleg alltaf. Ég sakna hennar svo.

Hún hefði aldrei viljað missa af tónleikunum í kvöld, hún mætti alltaf og skemmti sér vel. Ég veit ekki af hverju en ég saknaði þess extra mikið í kvöld að sjá hana ekki skælbrosandi og stolta af mér á fremsta bekk.

Ég veit og finn að amma er alltaf í kringum mig. Kallið mig ímyndunarveika en ég bara veit það samt. Hún þurfti alltaf að hafa hæst og trana sér fram og skipta sér af öllu svo það bara getur ekki annað verið en að hún sé hér að fylgjast með og stjórna hlutunum. Ég þykist nú samt vita að hún nái ekki að lesa þetta blogg en samt, - til hamingju með daginn elsku besta amma Silla engill hvar sem þú ert.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker