<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, mars 19, 2007

Hjartans mál 

Ég er einstaklega ánægð, þokkalega hneyksluð, svaka spennt og virkilega fegin í dag.

Ánægð yfir því að heyra að frumvarp um breytingu á skattaumhverfi Alcan hafi ekki verið afgreitt af Alþingi. Þá eru þessar milljón billjónir sem gráðugir álreiðir álkallar og kjéddlingar sjá sem fjárhagslegan ávinning fyrir Hafnarfjörð fokin út í veður og vind. Æjæj, æðislegt. Álhræðsluáróðurinn heldur samt áfram af Alcan og þeir gera sitt besta með því að fara frjálslega með mengunartölur og segjast hugsanlega kannski vera til í að splæsa í vothreinsibúnað. Já, einmitt. Ég verð heitari og heitari í þessu máli. Og hvað þá þegar ég uppgötvaði að þeir ætla að taka framtíðarútivistarsvæði Hafnfirðinga og allra borgarbúa undir álversmegnun. Ég sem hélt að motocrossbrautin hafi verið komin á deiliskipulag.

Samtökin Framtíðarlandið eru að koma sterk inn og á hárréttum tíma í umræðunni og ég er orðin bjartsýn yfir því að stækkuninni verði hafnað. Ég vona að ég sé ekki orðin rugluð þegar ég las úr viðtalinu við Ingibjörgu Sólrúnu í Kastljósinu í kvöld að hún væri mótfallin stækkun álversins. Það er náttlega bannað að segja það beint sem formaður og allt það en gerist það stórslys að stækkun verði samþykkt af Hafnfirðingum skyldist mér að fröken formaður ætlaði að leita annarra leiða til að stöðva batteríið. Komast að samkomulagi og leita samninga eins og hún orðaði það svo pólitískt rétt. Þið getið skrifað undir sáttmála Framtíðarlandsins hér og lagt ykkar af mörkum við að bjarga bænum mínum og borginni ykkar.

Framtíðarlandið bendir á að ef áfram heldur sem horfir að þá klárum við alla raforkuna innan fáeinna ára og ekkert verður eftir handa næstu kynslóðum. Og pæliði í því að ef það kemur t.d. einhvern tímann nægilega öflug internettengin við landið og eitthvað flott tölvufyrirtæki vill koma og vera með e-s konar data starfsemi hér þá mun það ekki eftir að vera mögulegt vegna þess að það verður ekki til nægt rafmagn til þess. Allt út af (k)álhausunum. Svo ef við tölum um peninga þá benti ein vinkonan mér á það að við erum í raun að gefa raforkuna svo ódýr er hún, miðað við að geta selt hana eftir 15-20 ár á margfalt hærra verði. Næstu kynslóðir eiga rétt á því að njóta þess.

Já, já og sei sei. Svo er ég líka hneyksluð. Hneyksluð móðir. Jordan var valin móðir ársins og ekki ég! Af því henni tókst svo vel að höndla frægðina og vera góð við börnin sín um leið. Vá, þvílíkur árangur. Og af því hún er með svo stór brjóst og smá silla í vörunum líka og nær að halda sér svona frægri fyrir ekki neitt. Frábær mamma. Það er náttlega svakaleg vinna að vera mamma og líta vel út, það vita allar flottar mæður. En hvað með mig... búúhúú... Ég er ekkert smá flott og frábær mamma og mig langar líka í verðlaun! (æj, hættaðvæla kerling).
Reyndar finnst mér að allar mömmur ættu að fá verðlaun á hverjum degi fyrir að höndla litlu ormana sína. Og pabbar líka. Og leikskólakennarar. En samt sérstaklega ég. Vera er á klikkuðu ákveðnis-frekjuskeiði. Að hennar mati tek ég tannburstann vitlaust upp úr skúffunni, opna tannkremstúpuna alls ekki rétt, set tannkremið kolrangt ofan á tannburstann og auðvitað er ekki að ræða það að ég fái að bursta. Svo má ég ekki klæða hana, hún vill ekki klæða sig sjálf, grenjar og vælir yfir því að ég meiði hana þegar ég svo treð henni í fötin á morgnanna og vill gera allt sjálf. En samt ekki. Svolítið erfitt frekjudósalíf þessa dagana fyrir músina. Og mömmuna. Og mig langar í VEEEEERÐLAUN!

Ég er líka spennt. Spennt fyrir komandi tónleikum með mér og Bardukha. Og svo gusgus um helgina. Svo er ég líka mjög spennt fyrir mæjónesbrauðtertum og marsipanbombum í fermingunum á sunnudaginn.

En mest er ég samt fegin. Fegin því að hafa fengið staðfestingu á því að ég sé með gott hjarta.

Samkvæmt Hjartavernd er ég í feiknagóðu formi og með einstaklega gott, hlýtt, sterkt og fallegt hjarta. Ég leitaði til þeirra í rannsókn eftir að hafa upplifað nánast stöðugar hjartsláttatruflanir og aukaslög síðan í desember. Niðurstaðan er að hjartað er í lagi, en það er víst eitthvað aðeins að ruglast af því ég er komin í svo feiknalega gott form. Þá hægist á púlsinum og hjartað er ekki alveg að ná því ennþá og kemur með back-up planið frá vararafstöðinni og gefur þessi líka flottu aukaslög sem svo rugla allt af því að það misreiknar hægan púlsinn. Hann hefur jú hægt eitthvað á sér eftir að ég byrjaði að hlaupa eins og gengur og gerist. Maður hefur náttlega ekki hreyft sig neitt af ráði sl. 4 ár vegna óléttu og barnastúss og svo er hjartað víst ekki búið að meðtaka það að mín ætlar að vera í formi. En það hlýtur að fara að læra. Kannski, sagði læknirinn. Ég finn bara fyrir þessu í kyrrstöðu en ekki við áreynslu því þá er púlsinn hraður og hjartað ekkert að skipta sér af. Það er svolítið óþolandi að vera alltaf meðvitaður um hjartsláttinn í sér og finna þetta en fyrst ég er fullfrísk ætla ég sko ekki að kvarta yfir þessu flotta hjarta (vá, tókuð þið eftir flotta ríminu?).

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker