<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, september 19, 2005

Helgin skrýtna 

Þetta var vægast sagt skrýtin helgi. Gerði allt og ekki neitt um leið. Hvernig er það hægt? Jú, það skal ég segja ykkur. Með því að gera ekkert sérstakt en vera samt á fullu. Að gera eitthvað sem mann langar ekkert sérlega til að vera að gera. Og það sem maður endar svo á að gera er bara skrýtið.

Vera varð lasin á föstudagskvöldið. Var með hita en var samt tiltölulega spræk. Á laugardagseftirmiðdag hækkaði hitinn allverulega og mér leist lítið á blikuna. Hleypti pabbanum samt á djammið og þóttist höndla ástandið. Pabbinn tók ginflöskuna undir hendi og skundaði á FH djamm. Mamman varð eftir heima með veika Veruna, enda nóg djamm framundan hjá henni jibbí jei! Veru hafði liðið illa allan daginn og var ólík sjálfri sér. Lá bara uppi í rúmi að hvíla sig, með hálfopin augun, eða vældi í hálsakotinu á mér. Vildi bara láta knúsa sig og þetta er sko vera sem vill helst aldrei knúsa. Hún var með 39 stiga hita og átti bágt. Svo kl. 01 um nóttina þá vaknaði ég upp við að hún var grátandi og með hitakrampa, með 40 stiga hita. Þvílíkt sjokk fyrir mömmuna sem hefur aldrei séð neitt þessu líkt. Panikkaði að sjálfsögðu og hringdi í pabbann sem að sjálfsögðu heyrði ekkert í símanum á balli í Krikanum. Þá hringdi ég á læknavaktina sem ráðlagði mér að fá lækni til að kíkja á dömuna. Vera var líka með útbrot um allan líkamann sem hjúkkan í símanum vildi endilega láta kíkja á. Ok, gott og vel. Ég náði í pabbann, sem kom angandi hissa heim, og stuttu síðar kom læknirinn. Sem betur fer var til ópal fyrir pabbann! Lækninum leist ekkert á Veru sem hélt varla haus og þar sem hitalækkandi lyfin voru ekki að gera sig. Hann sendi okkur um hánótt á Bráðamóttöku barna þar sem var tekin blóðprufa til að útiloka þvagfærasýkingu. Þeir gáfu henni einnig meiri lyf til að lækka hitann og það tókst loks. Daman overdósaði og svaf til hádegis næsta dag, enda klukkan orðin 5 um nótt þegar við komum aftur heim. Þetta var þá vírus sem lét svona illa.
Púff.
Í gær var hún svo enn með hita en ekki eins mikinn, og gat varla gengið sökum stirðleika eftir volkið, og jafnvægið var líka ekki upp á marga fiska! Það tekur greinilega á fyrir svona lítinn líkama að fá háan hita. Í dag var hún svo svaka spræk, með nokkrar kommur og naut þess að vera heima með mömmu og leika sér.

Í gær átti svo að arka á Heklu. En því var slaufað á laugardagseftirmiðdegi eftir að ég talaði við veðurfræðing á veðurstofunni. Hann sagði mér að fresta för á fjallið þar sem það yrði grenjandi rigning og rok og snjókoma á Heklu! Ég hefði nú hvort eð er ekki farið eftir næturbröltið og Veru veiku. En stefnan er sett á Heklu á góðum degi í október. Ég er alltaf að bjóða öllum að ganga með mér á þessi blessuðu fjöll en það hefur aldrei neinn áhuga. Skrýtið.

Í gærkvöldi fórum við kærustuparið (!) í leikhús og sáum Woyzeck í Borgarleikhúsinu. Það er sami hópur sem leikur í því og var með Rómeó og Júlíu loftfimleikauppfærsluna. Woyzeck er skrýtið leikrit. Öðruvísi og fyndið á köflum. En fyrst og fremst steikt og súrt. Skrýtið að sjálfsögðu. Átti maður að fatta þetta? Ég veit ekkert um höfundinn eða annað um verkið, en þetta hlýtur að vera hluti af því sem kallast póstmódernismi. Uppfærslan sjálf var auðvitað allt annað en hefðbundin, loftfimleikar, vatn og stillasar voru þar í stóru hlutverki. Leikurinn var góður og tónlistin fín, en hún var sérstaklega samin fyrir verkið af Nick Cave. Eins hafði ég gaman af karlakór sem tók þátt í sýningunni. Stundum fannst mér þó eins og það væri aðeins of mikið verið að REYNA. Reyna svo mikið að gera þetta öðruvísi og kúl að það sást í gegn. Sem mér fannst óþægilegt. Þau voru jú búin að setja upp Rómeó og Júlíu sem tókst svo svakalega vel að það var auðvitað ekki annað hægt en að gera þetta eins "öðruvísi". Æj, veit ekki. Hafði gaman af því að sjá þetta, þó kannski aðallega af því að komast úr húsi og það að fara í leikhús yfir höfuð sem er alltaf svo gaman. Ég var þó ansi þreytt í leikhúsinu eftir tvær svefnlausar nætur. Teygaði kók fyrir sýningu til að poppa mig upp.
Og ég sem drekk ekki einu sinni kók.
Já, það var margt skrýtið við þessa helgi.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker