<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, apríl 25, 2005

Amma mín Silla 

Amma mín hún Silla dó í gær.

Hún veiktist með afar erfiða og sjaldgæfa tegund af lungnabólgu fyrir rétt um 3 vikum og náði sér aldrei á strik eftir það. Ótrúlegt, því hún amma Silla harkaði hreinlega allt af sér, sama hvað það var. Þetta gerðist svo hratt. Bara allt í einu var hún komin í öndunarvél og barðist um líf sitt. Hetjan sú. Ég veit að hún var ekki tilbúin að fara. Og við hin vorum ekki tilbúin að missa hana strax. Hún var enn svo lífsglöð og hafði fullt að gefa.

Ég trúi því þess vegna ekki enn að hún sé dáin. Það virkar of óraunverulegt fyrir þessa súperömmu. Og því er tilveran ansi tóm nú án hennar. Hún var áberandi í mínu lífi og ég í hennar. Ég á eftir að sakna hennar mikið.

Ég vil muna hana glaða í garðinum. Talandi hátt við matarborðið. Tínandi blóm handa mér. Leikandi við Veru barnabarnabarn sitt. Syngjandi með útvarpinu. Færandi mér flatkökur. Og ekki síst monta sig af fólkinu sínu sem var best í öllu. Sem er auðvitað rétt. Ég er stolt af því að heita í höfuðið á slíkri kjarnakonu sem amma var svo sannarlega.

Nú er vorið komið, uppáhaldstíminn hennar ömmu. Krókusarnir eru komnir upp og nokkrir túlípanar blómstrandi rauðir og gulir í garðinum. Þeir minna mig á ömmu. En engin er amma Silla til að dást af dýrðinni. Og engin amma Silla til að slíta blóm og gefa mér. Orkan í vorinu gefur mér von um að ömmu líði vel. Amma Silla er nú komin til afa Axels og hvar sem þau eru þá sitja þau vafalaust saman úti í sólinni, umvafin hamingju og blómadýrð.

Þannig ætla ég að muna ömmu mína Sillu.


Sigurlaug Arnórsdóttir - amma Silla Posted by Hello

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker