<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, apríl 29, 2005

Til hinstu hvílu 

Amma Silla verður jörðuð í dag.
Ég skrifaði minningargrein um hana sem birtist í Mogganum og hér kemur hún fyrir þá sem ekki eru áskrifendur eins og ég:

Hún amma Silla var frábær kona. Það er hreinlega enginn eins og hún var. Amma Silla var svakalega hress, virk og klár kerling allt fram til þessa skyndilega dauðadags.

Hún veiktist með afar erfiða og sjaldgæfa tegund af lungnabólgu fyrir rétt um 3 vikum og náði sér aldrei á strik eftir það. Ótrúlegt, því hún harkaði hreinlega allt af sér, sama hvað það var. Þetta gerðist svo hratt. Allt í einu var hún komin í öndunarvél og barðist fyrir lífi sínu. Hetjan sú. Reyndar var amma aldrei veik og sagðist geta talið skiptin sem hún hafði tekið verkjalyf. Það var ábyggilega satt. Þetta var hin hressasta kona og var hún heppin á lífsleiðinni með sitt heilsuhreysti sem var henni svo mikilvægt. Hún stundaði grimmt bæði leikfimi og sund en hún synti að jafnaði 600 metra hvern einasta dag fram að veikindunum og skildi ekkert í mér, fyrrverandi sunddrottningunni, að synda ekki eins og hún amma sín til að halda sér í formi. Eins var hún á fullu í að stunda leikhúsin, sinfóníuna, skátana og nokkra sauma- og matarklúbba og yfirleitt var það þannig að amma var upptekin fleiri kvöld í viku hverri heldur en ég sjálf ung konan. Þess á milli sem hún stundaði félagslífið í Hafnarfirði sat hún heima við hannyrðir en amma var handavinnusnillingur. Verst að ég erfði ekki þetta handavinnugen frá henni. Hún prjónaði hraðar og betur en prjónavél og heklaði og saumaði út dúka og fleira fallegt. Hún reyndi að kenna mér snilldina sína og það kom mér á óvart hvað amma var góður kennari. Mér tókst með hennar aðstoð að klára fyrstu og einu prjónapeysuna eftir sjálfa mig. Ég á nokkuð mikið af handavinnulistaverkum eftir hana og mun handbragð hennar lifa lengi.

Amma Silla var lífsþyrst og stundaði lífið af kappi fram á hinsta dag. Og naut þess í botn. Þrátt fyrir árin 82 var hún sífellt að plana framtíðina og til marks um það hóf hún t.d. spænskunám áttræð. Hún var reyndar eini gamlinginn í kúrsinum en fannst það lítið mál. Henni fannst hún verða að geta bjargað sér lítillega þegar hún færi til Kanarí! Amma ferðaðist mikið og hafði komið heimshornanna á milli. Þegar ég þóttist vera að uppgötva heiminn í heimsreisu sem ég fór í fyrir nokkrum árum komst ég að því að hún amma hafði fyrir löngu kannað langflestar heimsálfurnar á lífsleiðinni. Hún hafði komið út um allan heim! Fyrir henni var lífið alltaf jafn gott og hún alltaf jafn ung og tilbúin í allt. Hún tileinkaði sér nýjungar og var nýbyrjuð að lesa bloggsíðuna mína í tölvunni sinni þar sem hana langaði að fylgjast með og sjá myndir af langömmubarninu sínu sem hún hafði svo gaman að. Ég á eftir að segja Veru dóttur minni síðar frá þessari hressustu langömmu bæjarins sem hún getur tekið sér til fyrirmyndar í svo mörgu. Amma var einnig nýbúin að kaupa sér nýjan bíl, áætlaði búferlaflutning að sumri loknu og ætlaði að skreppa til útlanda í sumar. Eftirfarandi orðatiltæki sem ég sá einhvers staðar um daginn er eins og samið um ömmu Sillu: "Jafnvel þótt ég vissi að heimsendir myndi koma á morgun, myndi ég samt planta eplatrénu mínu". Framtíðin var hennar þrátt fyrir aldurinn. Hún var ekki tilbúin að fara. Við vorum ekki tilbúin að missa hana strax.

Ég trúi því þess vegna ekki enn að hún sé dáin. Það virkar of óraunverulegt fyrir þessa súperömmu. Mér finnst bara eins og hún sé í saumaklúbbi alveg rétt ókomin heim eða þá að hún sé alveg að koma í kaffi til mín með heimabakaðar flatkökur í farteskinu. Að síminn eigi eftir að hringja og hávær skellandi röddin í ömmu sé í símanum sem spyrji mig hvar ég sé nú eiginlega búin að vera, ég hafi bara ekkert látið heyra í mér í heilan dag! Mikið á ég eftir að sakna þessarar orkumiklu konu sem var svo fyrirferðamikil í lífi mínu. Amma Silla var þannig karakter að maður fann fyrir nærveru hennar hvar sem var. Hún talaði hátt og passaði vel upp á fólkið sitt með því að bjóða því reglulega í kókó og vöfflur og lambalæri.
Og því er tilveran ansi tóm nú án hennar.

Húsið hennar ömmu var samkomustaður fjölskyldunnar og það er erfitt til þess að hugsa að fallega heimilið hennar muni hverfa okkur. Það var fyrir mig ákveðið skjól og kjölfesta í lífinu. Fastur punktur sem ég á á erfitt með að ímynda mér lífið án.
Ég á eftir að sakna þess eins og hennar.

Vorið minnir mig á ömmu. Ilmurinn og blómin. Grasið og trén. Amma Silla var mikil garðáhugamanneskja og elskaði blómin sín og ræktaði garðinn sinn af miklum metnaði. Jörðin var ekki fyrr þiðin að vori þegar amma var komin á fjóra fætur að róta í beðum og saga tré. Jafnvel með handsög ef þess þurfti. Og allt gerði hún sjálf, það mátti helst enginn annar krukka í garðinum hennar, það var aldrei nógu vel gert. Hún átti því ein heiðurinn af blómahafinu og ævintýraheiminum á sumrin sem garðurinn hennar svo sannarlega var. Hún hengdi stolt upp á vegg viðurkenningarskjal fyrir verðlaunagarðinn sinn svo allir gátu séð hvað garðurinn var henni mikils virði. Við grilluðum stundum á sumrin hjá ömmu og borðuðum oft úti í garði eða inni í gróðurhúsi og það var sannarlega sumarleg og ömmuleg upplifun sem ég gleymi aldrei.

Ég vil muna ömmu Sillu glaða í garðinum. Talandi hátt við matarborðið. Tínandi blóm handa mér. Leikandi við Veru barnabarnabarnið sitt. Syngjandi með útvarpinu. Færandi mér flatkökur og bollur. Og ekki síst stæla sig brosandi glöð af fólkinu sínu sem var best í öllu. Sem er jú auðvitað rétt. Ég er stolt af því að heita í höfuðið á slíkri kjarnakonu sem hún amma var svo sannarlega.

Nú eru krókusarnir komnir upp og nokkrir túlípanar blómstrandi rauðir og gulir í garðinum hennar ömmu. En engin er amma Silla til að dást af dýrðinni. Og engin amma Silla til að klippa blóm og gefa mér. Orkan í vorinu minnir mig á ömmu og gefur mér von um að henni líði vel. Amma Silla er nú komin til afa Axels og hvar sem þau eru, þá sitja þau vafalaust saman í sólinni, í gróðurhúsi Guðs, umvafin hamingju og blómadýrð. Og englum.

Góður Guð geymi þig elsku amma mín.
Ég mun aldrei gleyma þér.

Þín,
Erla Sigurlaug

Heyr, himna smiður,
hvers skáldið biður,
komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Því heit eg á þig,
þú hefur skaptan mig,
ég er þrællinn þinn,
þú ert Drottinn minn.

Guð, heit eg á þig,
að græðir mig,
minnst, mildingur, mín,
mest þurfum þín.
Ryð þú, röðla gramur,
ríklyndur og framur,
hölds hverri sorg
úr hjartaborg.

Gæt, mildingur, mín,
mest þurfum þín
helzt hverja stund
á hölda grund.
Set, meyjar mögur,
máls efni fögur,
öll er hjálp af þér,
í hjarta mér.

(Kolbeinn Tumason
Þorkell Sigurbjörnsson)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker