<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, apríl 17, 2005

Sunnudagur ömmudagur 

Í mörg ár hafa sunnudagar verið hálfgerðir ömmudagar. Ég hef ábyggilega ekki sleppt mörgum sunnudagsheimsóknum til ömmu Sillu um ævina. Annað hvort til að fá mér vöfflur og kókó eða kvöldmat. Jah, eða bara til að tékka á gömlu konunni og aðeins að spjalla eins og gerðist meira nú í seinni tíð. Sunnudagurinn rann upp og ég hreinlega varð að fara til ömmu Sillu einhvern tímann yfir daginn. Annars væri þetta ekki alvöru ekta sunnudagur fyrir mér.

Í dag er svo sunnudagur. Og engin amma til að heimsækja. Ekki nema upp á spítala þar sem hún liggur í djúpum svefni og háir tvísýna baráttu um lífið. Það liggur við að ég skelli í vöfflur og malli heitt kókó bara upp á sunndagsstemmninguna. En finnst það um leið ekki passa. Kannski óviðeigandi án ömmu. Ég veit það ekki. Ég veit bara það að í þessu millibilsástandi er maður svo tómur. Veit ekki hvað maður á að halda. Get ekki grátið því hún lifir, get ekki glaðst því enginn er batinn hjá henni.

En í staðinn fyrir að drekkja sér í sunnudagsvolæði og vitleysu fórum við Vera í heimsókn þar sem við hittumst nokkrar mömmur úr Gallup með börnin okkar. Og þvílík dýrð og læti og krúttlegheit! Vera elskar að vera innan um börn, eiginlega þangað til einhver er aðeins of harðhentur við hana eða rífur af henni dót. Þá er ekki alveg eins gaman. En hún þarf að venjast daman því alvara lífs hennar hefst á morgun. Aðlögun hjá dagmömmunum! Pabbinn ætlar að sjá um það og höfum við litlar áhyggjur af félagsVerunni okkar. Ok, það örlar á pínuponsu magapínu hjá mömmunni, en ætli það sé ekki frekar bara allt jukkið sem á át í mömmuhittingnum áðan.
Segjum það bara.

Ég sé að 38 manns hafa kosið í krúttlegu könnuninni sem ég setti upp hér til hliðar. Um leið veit ég og hef talað við þó nokkra sem hafa enn ekki kosið. Hvað á það að þýða elskurnar?? Á ekki að nýta atkvæðisrétt sinn hér sem annars staðar í mikilvægum málum? Ég meina, þetta er mikilvægt fyrir forvitnar pennapíur eins og mig! Ég veit að mun fleiri en þeir 38 sem hafa tekið þátt eru að lesa síðuna því nú hef ég skráð síðuna inn á www.statcounter.com sem telur allar flettingar yfir sólarhring og greinir niður nýjar flettingar og endurteknar flettingar. Segir mér meira að segja hvaðan flettingar á síðuna koma! Svo ég get farið að spæja um ykkur....Það kom mér til dæmis verulega á óvart þegar ég sá að á föstudaginn voru á heildina litið 126 flettingar á síðuna frá 80 mismunandi aðilum! Ekki að ég þekki 80 manns að ég held, en gaman að því að vita þetta!
Án gríns. Takið upp músina og klikkið á könnunina og látið ykkar skoðun í ljós!! Ok, þessi fyrsta könnun er kannski ekki sú allra merkilegasta en hver veit hvað ég set inn næst!
EN bara ef þið verðið dugleg :)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker