<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, desember 18, 2004

18. desember 2004 

Í dag er 18. desember. Já, sá dagur rennur upp á hverju ári eins og aðrir. En mér finnst hann smá pínu merkilegri en aðrir fyrir þær sakir að í dag eru nákvæmlega 12 ár síðan ég kynntist Vigganum. Ég endurtek, 12 ár. 18. desember 1992. Já, til hamingju, við eigum 12 ára ammæli í dag. Við reyndar byrjuðum saman stuttu síðar, eftir áramótin, en það er sama, 18. desember er dagurinn er við hittumst allra fyrst. Við höfðum þó ábyggilega sést á vappinu í Hafnarfirði fyrir þann dag án þess að hafa veitt hvort öðru athygli. Ég vissi samt hver Viggi var, en það var bara af því Auðun var bróðir hans og Auðun var í 10. bekk þegar ég var í 7. og gvuð hvað hann Auðun var sætur. Ég kaus hann Herra Víðó og allt á sínum tíma. Auðun og Viggi eru ekki svo ólíkir! Hei, ekki misskilja mig samt, þetta var þegar ég var 13 ára og hafði ekki enn hitt Vigga in person!

Alla vega, ég hef áður á síðum þessa bloggs (18. desember í fyrra) sagt frá því hvernig örlögin leiddu okkur Vigga saman á þessum degi. Það voru ýmsar tilviljanir sem gerðu það að verkum að við vorum á sama stað á sama tíma. Við vorum bæði á Hótel Íslandi tjúttandi við Sálina á jólaballi HSÍ.

Þessi tími er skýr í minningunni. Ég var svo skotin í Vigganum eftir að við hittumst þarna fyrst að ég gerði hvað sem er til að hitta hann aftur. Tróð mér í ýmis Hafnarfjarðarpartý þar sem ég vissi að hann myndi vera, fór að mæta á FH handboltaleiki upp úr þurru öskrandi úr mér lungun að styðja rétta liðið og vildi helst gista hjá Elvu vinkonu á Flókagötunni í Hafnarfirði í stað heima í Eskihlíðinni í Reykjavík, þar sem það var nær því sem Viggi bjó. Já, ég held að segja megi að ég hafi við fystu kynni orðið alveg snarbiluð af ást! Vigginn var aðeins rólegri í tíðinni með þetta. Fannst ég óþroskuð gelgja sem var að æfa sund en ekki handbolta sem var ekki alveg nógu kúl. Ég var rauðhærð og stór – stærri en hann (og miklu stærri á hælum!), gekk í heimasaumuðum hippafötum og var með stóran lokk í nefinu. Neeeeeeei, hann var ekki alveg sjor með þessa ofvöxnu athyglissjúku gelgju.

Ó, well. Ég var 16 og hálfs og var að byrja að verða töffari. Samt smá enn að æfa sund svo maður var svona að staðsetja sig. Var farin að skrópa á einni og einni æfingu til að geta laumast í partý og svona. Nú, ég fór heim með Vigga eftir ballið á Hótel Íslandi. Ég man að ég var klædd í heimasaumaðar hippabuxur úr gömlu appelsínugulu og brúnu gardínuefni, leðurvesti, og kanínuskinnsjakka. Ég man það því ég svaf í öllum fötunum uppi í rúmi hjá honum. Var að kafna en vá, þorði sko ekki fyrir mitt litla líf úr fötunum strax með þessum gæja. Hann var soldið hættulegur í mínum augum! Með sítt rokkað hár, í leðurbuxum og með hringi í báðum eyrum. Alveg hrikalegur töffari. Fæ bara í magann að hugsa um það núna!

Eftir þetta kvöld lét ég hann finna fyrir mér. Ég samdi ljóð handa honum og fór með til hans. Alveg blinduð af ást. Fór með ljóðið til hans in person (já, hef alltaf verið svona væmin!) og litli bróðir Vigga tók við því þar sem kauði var ekki heima. Ég er núna viss um að hann hafi hlegið sig máttlausan yfir því! Hlýtur að vera því það meikaði engan sens! Þarf að ræða þetta við Vigga! Eins gerði ég allt til að komast inn á skemmtistaðina sem ég vissi að hann og Hafnarfjarðarpungarnir stunduðu, Hressó og Rósinbergkjallarann. Ég gerði hvað sem er. Eitt kvöldið tók ég mig sérstaklega til og ætlaði mér að hitta Viggann. Þetta var rétt eftir áramót og það var 10 stiga gaddur úti. Ég var í stuttum þröngum stuttbuxum sem voru svo stuttar að sást í rassaslepjurnar, nælonsokkabuxum og háhæluðum hnéháum stígvélum. Og auðvitað kanínuskinnsjakkanum. Ég gerði mig eins pæjulega og fullorðinslega og ég gat því dyraverðirnir yrðu að trúa því að ég væri 20 ára. Ég var búin að týna falsaði skírteininu mínu svo þetta bara yrði að ganga. En nei. Það tókst ekki þetta umrædda kvöld. Ég alveg brjáluð og hljóp því bakvið hús þar sem Hótel Borg er, klifraði þar á þrjóskunni upp á eitthvað grindverk og upp á þak. Tiplaði á þakinu yfir hús og hýbýli þar til ég kom að Hressógarðinum. Þar hoppaði ég niður, orðin vel tætt, í rifnum sokkabuxum og hárlausum kanínujakka, og tróð mér inn um lítinn glugga. Þar lenti ég svo öfug beint á dansgólfinu í miðju Deep Jimi and the Zep Creams eðahvaðþeirnúhétu lagi (ó mæ god, muniði eftir þeim?? Var sko rokkari í den...!), stóð upp og byrjaði að dansa eins og ekkert væri! Fann svo Vigga og var hæst ánægð með kvöldið! Já, maður var snarbilaður af ást. Og er enn. Eftir þetta hringdi hann í mig og bað mig um að koma að passa með sér. Jahá, passaði töffarinn svo líka börn... ú, rómó! Og þá var það komið!

Ég ætla að baka amerískar pönnslur á morgun í tilefni dagsins og færa Vigganum í rúmið. Eins er ég búin að kaupa heila öskju handa honum af alls konar hjartalöguðu belgísku eðalkonfekti. Já, soldið slísí en skýr skilaboð. Og húmor er öllum 12 ára samböndum góður. Svo er hann Viggi minn þvílíkur súkkulaði(sætur)nammigrís.
Amminamm.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker