<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, desember 05, 2004

Aðventufílingur 

Eins og ég hef áður sagt er ég ekki jólastelpa.
Kannski það sé samt smá að breytast því það kominn ogguponsupínulítill aðventufílingur í mig.

Ég klambraði saman einum aðventu"krans" í dag, en það tók mig innan við mínútu að græja hann. Hann s.s. samanstendur af 4 silfurlituðum kubbakertum á hvítum diski og þá er það upptalið. Já, sumum kann að finnast það lítið jólalegt en er ekki minimalisminn að tröllríða öllu núna? Ég meina, maður reynir að fylgja tískunni. Nei... þetta var nú aðallega af því ég átti ekkert meira á hann. Ætla að tína nokkra köngla í garðinum hjá ömmu á morgun og leggja á diskinn. Og svo kannski smá greni líka. "Kransinn" unir sér vel á nýja borðstofuborðinu sem splæst var í í dag. Reyndar fyrir löngu en það var ekki til fyrr en í dag. Ikea stendur fyrir sínu. Við vorum komin með leið á því gamla sem við keyptum okkur fyrir 5 árum í Antikbúðinni og nú fær það aftur að fara þangað, en litli feiti karlinn með yfirvaraskeggið í Antíkbúðinni er svo næs að selja það bara aftur fyrir okkur.

Það hjálpaði til við að ná upp smá stemmningu í stelpuna að vinir okkar komu til okkar í mat í gærkvöldi. Eða þeir komu MEÐ mat. Við fengum símhringingu frá þeim um sex leytið og voru þau að óska eftir fólki sem vildi borða með þeim þessa líka dýrindis nautasteik sem þau áttu í ískápnum hjá sér. Og maður segir nú ekki nei við því. Spáiði í því að eiga svona frábæra vini! Sem bara biðja um að fá að koma til manns með nautasteik og elda hana. Vá, það var æði. Við kjöftuðum fram á nótt eftir að nautið hafði runnið ljúflega niður.

Páll Óskar og Monika settu svo punktinn yfir i-ið í aðventufílingnum (jú, það er eitt i í því...!). Ég var rétt í þessu að koma af jólatónleikum með þeim og þeir voru alveg æðislegir. Ég fíla þau í botn. Palli er svo mikið krútt prútt að það hálfa væri nóg. Hann gefur sig allan í þetta og syngur eins og engill. Túlkunin hjá honum er algjör og hann er hann sjálfur allan tímann. Setur sig aldrei upp á stall eins og hann ætti að vera eitthvað goð eða flottari og betri en aðrir. Hann bara er sá sem hann er og það virkar. Annað en sumir feitir dvergvaxnir tenórar... en vá, förum ekki nánar út í það. Hann er bara í stuttu máli h-á-l-v-i-t-i að mínu mati.
Palli og Monika settu mig smá í gírinn og ég hafði gjörsamlega gleymt stað og stund þegar ég labbaði út í rokið og rigninguna eftir tónleikana. Verð að segja að þá datt stemmingin aaaaðeins niður.

Jólatónleikarnir kórsins míns eru svo 7. og 8. des. nk. (aðaltónleikarnir þann 8. ef þér dettur í hug að mæta) og jólaglögg í vinnunni þann 10.
Það er því nóg jólajóla framundan.
Svo þetta er allt að koma hjá mér.
Hver veit nema ég verði bara jólastelpa í ár eftir allt saman.
Geri mitt besta.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker