<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, desember 17, 2004

Barnauppeldi 

Hafði ekki beint gert mér grein fyrir kúnstinni að ala upp börn áður en ég átti Veru. Og eiginlega fram til dagsins í dag. Allt í einu finnst mér hún orðin svo stór og vitur (sérstaklega gáfað barn) og þykist vera með heiminn á hreinu að ég þurfi að fara að beita ákveðnum aðferðum á hana við hitt og þetta. Ætli þær kallist ekki uppeldisaðferðir. Býst við því. Vera verður brátt 5 mánaða og verður æ klárari með hverjum deginum sem líður. Mér finnst svo gaman að sjá hana þroskast. Einn daginn hefur hún allt í einu svaka áhuga á tánum á sér og grípur í þær við hvert tækifæri, svaka uppgötvun þessar tær! Ekkert smá sætt. Svo allt í einu er hún farin að uppgötva snuðið sitt. Tekur það lymskulega út úr sér og skoðar og setur aftur upp í sig, svaka hissa - jahá - er það þá þetta sem mér finnst svo gott að sjúga fyrir utan brjóstið á mömmu. Og þar fram eftir götunum. Allt að gerast núna einhvern veginn finnst mér. Og þá poppar orðið uppeldi upp í hugann. Að ala upp. Jesús minn, hvað þýðir það eiginlega? Ég hef ekki lesið staf um uppeldi á ævinni. Á óléttunni las ég ekki um óléttuna, heldur lét þetta bara líða áfram og leyfði mér að komast að því sem var að gerast jafn óðum. Og það sama er með Veru. Já, táslutímabilið er núna já. Aha, hún er á mannfælutímabilinu núna. Og þannig skiljiði. Margar mæður detta í lestur og lesa sér til um hvernig á að gera hlutina, hvað rannsóknir sýna að virki best varðandi hitt og þetta. En ekki ég. Er ég áhugalaus mamma? Ég hef í fyrsta lagi ekki tíma til að lesa og í öðru lagi hef ég aldrei verið góð í að taka skipunum (er frekar meira fyrir að gefa skipanir... hmmm). Svo ég læt þetta bara líða áfram í sínum rólegheitum.

Og svo kom að því fyrir um 10 dögum að Vera vildi ekki fara að sofa. Og alla dagana þar á eftir. Og þegar hún sofnaði vaknaði hún oft og iðulega spræk sem læk(ur) syngjandi glöð og blaðrandi nonstop við sjálfa sig og einhverja drauga í loftinu. Í nokkra klukkutíma. Og stundum fram á miðja nótt.
Og þá voru góð ráð dýr. Hvað skildi gera? Hvað segja fræðingarnir? Gvuð, ég hef ekki hugmynd um það. Við reyndum okkar besta í að svæfa hana aftur og gera okkar thing en ekkert virkaði. Í 10 daga núna og mamman orðin verulega grumpy. Farin að blóta upphátt fyrir framan dömuna kl. 3 á nóttunni og hreyta orðunum í hana í stað þess að tala blíðlega eins og vanalega. Ég bara var ekki að meika þetta í sannleika sagt. Maður reynir og reynir og heldur í smá stund að manni hafi tekist að svæfa hana aftur... og svo líða 2 mínútur og allt var fyrir bí. Það getur verið slítandi.

Ég var næstum því farin á bókasafnið í dag til að kíkja á réttu lausnina. Ákvað þó í staðinn að tala frekar við reyndar mömmur sem ég þekki vel. Sérstaklega eina vinkonu who know it all. Á 2 börn og virðist bara vita allt sem þarf að vita. Ætli hún sé ekki að lesa allt sem þarf að lesa. Svo spyr ég bara og fæ allar nýjustu og bestu upplýsingarnar, bæði fræðilega og reynslulega. Góður díll það! Hún ráðlagði mér að ignora hana og leyfa henni bara að spjalla og láta svona, hún myndi á endanum verða þreytt og sofna. Ég skyldi kaupa mér eyrnartappa og fara sjálf að sofa.

Svo ég splæsti í eyrnartappa í dag og er nú þegar búin að stilla þeim upp við koddann minn. Ahhh. Það verður friður í nótt. Og nú er klukkan 12 á miðnætti og daman búin að sofa eins og draumur í kvöld. Svo kannski þetta sé bara búið. Vonandi. En eyrnartapparnir eru á sínum stað in case if. Ætla að vera útsofin um jólin takk fyrir.
Vonandi er þetta tímabil bara liðið hjá og Vera engill farin að sofa aftur eins og engill. Ég held það hafi einmitt staðið í manúalnum sem fylgdi henni þegar hún fæddist.
Já, einmitt.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker