<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, desember 31, 2004

Uppgjör 

Nú árið er liðið í aldanna skaut og ekki út vegi að rifja aðeins upp hvað gerðist á því herrans ári 2004.
Árið var í heildina mjög gott. Við fórum í svaka fínt Ameríkufrí og eignuðumst dóttur! Geri aðrir betur :)

Janúar: Komin stutt á leið en leið mjög vel og djöflaðist í nokkur skipti á snjóbretti í ágætu færi. Fór í sónar og sá kraftaverkið í fyrsta sinn. Það er ógleymanleg upplifun!

Febrúar: Sagði vinkonunum í vinnunni frá óléttunni og þær trúðu mér ekki: "Ha, ha, fyndin - þú? Eeeeemmmett! Jæja, haltu áfram með söguna... Nei, í alvöru - ertu ekki að djóka? Ó, fyrirgefðu... til hamingju elskan!" Jebb, ég var greinilega ekki grunuð hjá þeim! Tókst að leika á þær og fela þetta svona vel - svo kannski hafa þær ekki séð mig sem þetta dæmigerðu mömmutýpu - veit ekki. En alla vega, þær trúðu mér á endanum eftir soldið moj. Eftirminnilega fyndið móment!

Mars: Árshátíð IMG á Akureyri stendur upp úr í mars. Það var fínt edrú djamm og tókst mér óléttri dömunni að fara með þeim síðustu í bælið upp úr kl. 8 um morguninn. Ein besta snjóbrettalausa Akureyrarferð sem ég hef farið í. Já, það var helsta afrek marsmánaðar.

Apríl: Ameríkuferð aldarinnar var farin í apríl. Vorum í rúmar 3 vikur í New York og Californiu. Var í fyrsta sinn í USA og varð ekki fyrir vonbrigðum. Gleymdi öllu um stríð og vesen á meðan ég var þar og var bara í góðum ameríkufíling með rúllandi erri! Steig 4 sinnum upp í flugvél í ferðinni og læknaðist ágætlega af flughræðslunni. Kominn tími til. Afi Skarpi fór upp til himna. Blessuð sé minning hans.

Maí: Mín 28 ára. Maí er alltaf góður mánuður. Vorið er komið og komið ágætt veður og svona. Ég man nú ekki eftir neinu sérstöku í maí nema bara komin 6 mánuði á leið og leið ágætlega. Kúlan var svona að springa út þarna.

Júní: Óvænt brúðkaup hjá Elvu og Torfa - já, þau laumuðust til að gifta sig í skírn sonar síns - í lopapeysum og gúmmískóm í þokkabót og ég grét af gleði (og hormónasjokki). Kolla og Aron útskrifuðust sem læknir og verkfræðingur - ágætis parasamsetning þar á bæ! Mývatnsferð með kórnum mínum var frábær og ber þar hæst í minningunni afar spes hljómsveitarstjóri...

Júlí: Harpa og Gunni giftu sig 10. júlí og ég stýrði stuðinu í partýinu. Það var rosa gaman. Slædaði mér svo á kúlunni þegar ég brussaðist um að reyna að grípa brúðarvöndinn. Og ég greip hann!! En ekkert bónorð ennþá. Kjartan bróðir Vigga og konan hans giftu sig svo 24. júlí. Við vorum á leiðinni í brúðkaupið þegar ballið byrjaði. Já, Vera var tilbúin að koma í heiminn. Og hún kom þann 25. júlí. Ólýsanleg stund með öllu. Getið lesið nánar um fæðingarsöguna hér. (skrifuð 1.ágúst).

Ágúst: Fyrsti mánuðurinn sem mamma og það gekk eins og í sögu. Smá brjóstastíflur og þreyta en hei - ljúfasta barnið var mitt! Vera var skírð 22. ágúst og buðum við í 50 manna veislu heima á Hverfó sem var svo skemmtilegt! Elska að halda veislur.

September: Vera fór í fyrsta sinn til Akureyrar. Við heimsóttum vini okkar þangað og skiptum á Borunni og THE JEEP - Discoveryinn er þvílíkt að standa sig. FH urðu Íslandsmeistarar og haldiði að það sé ekki bara mynd af mínum manni á leiknum í bókinni "Risinn er vaknaður" (FH bók sem kom út um jólin).

Október: Halldóra frænka sem býr í Sverige (með sænskum hreim) og Skarphéðinn sonur hennar sem er 2 vikum eldri en Vera komu til Íslands í heimsókn. Það var æðislegur hang-out mömmutjill tími. Frábært að hafa frænku sína í sömu sporum og geta mömmast með henni. Ég grét þegar þau fóru aftur heim. Snökt. Vera byrjaði í ungbarnasundi og það er frábært! Bara vonandi að börnin skemmti sér eins vel og foreldrarnir!

Nóvember: Ég neydd viljug í Starfsmannafélag IMG. Gott að byrja að virkja heilabúið aðeins aftur. Mamma varð fimmtug.

Desember: Ég naut jólaundirbúningsins aftur í fyrsta sinn í langan tíma. Dedúaði við heimilið og föndraði fyndið jólakort (að mínu mati alla vega!) Skipulagði IMG jólaglögg sem tókst svaka vel og jólaball fyrir börnin sem þeim fannst skemmtilegt. Mamma kom heim og jólin voru svaka fín. Gamlárs er svo í kvöld og ég þarf að fara að undirbúa 15 manna matarboðið okkar...

Ég er ábyggilega að gleyma einhverju svakalega skemmtilegu og eftirminnilegu - en ég kenni brjóstaþokunni bara um það.
Ég vill bara þakka öllum þeim sem hafa lagt í púkk í að gera árið 2004 gott fyrir mig. Ábyggilega þar með talið þér sem ert að lesa þetta.
Love you gæs.
E

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker