<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Afmælisstelpan mín 

Í dag er Vera Víglunds 2 ára!

Það var fyrir tveimur árum sem ég barðist við að koma henni í heiminn, og það tók á. Án efa æðislegasta, skrýtnasta og mest spennandi stund sem ég hef upplifað. Hér má lesa um fæðinguna fyrir þá sem vilja vita eða rifja upp (1. ágúst - Hún er fædd).

Tveggja ára Vera er yndisleg vera.

Hún er næstum orðin altalandi og talar mikið. Ok, ætli það komi ekki frá mér. Hún getur stundum ekki sofnað á daginn þegar ég reyni að rölta með hana til að hún hvíli sig fyrir sjálfri sér talandi. Það er allt svo spennandi: "Mamma, sjáu bíll, gulur bíll, pabbi á líka gulan bíl, pabbi í vinnunni, pabbi elska Veru sína, mamma líka, Vera líka, allir saman..." Bla bla út í gegn um allt og ekkert. Svakalega sætt. Og svo gaman að geta virkilega rætt málin við hana og hún skilur mig og ég hana.

Vera kann orðið fullt af lögum, og syngur sum alveg sjálf, eins og Allir krakkar, Gamli Nói, Atti Katti Nóa og að sjálfsögðu Hún á afmæli í dag. Hún hefur greinilega gaman af því að syngja, enda eins gott, mamman er sígaulandi. Reyndar er eitt nýtt hjá henni þegar ég syng hátt eitthvað lag sem er henni ekki að skapi: "Mamma hæææættttu!!!". Já ok...

Vera er frekar róleg en ég sé hér úti í Stokkhólmi að það er samt töggur í minni. Lætur ekki auðveldlega rífa af sér og getur verið jafn frek og öskrandi reið eins og aðrir 2 ára eiga að vera. En það er yfirleitt afar auðvelt og fljótlegt að tala hana til. Bara að segja henni sögu af hesti eða hundi myndi laga ansi margt!

Svo er aðalfréttin náttúrulega sú að daman er farin að pissa í kopp. Hún er búin að vera mikið bleyjulaus hér í hitanum í Sverige og Skarpi frændi var farinn að pissa í kopp. Svo mín fór bara líka að segja til og nú er aðalsportið að pissa sem oftast í koppinn. Glæsileg frammistaða!

Ég gæti talað endalaust um dömuna mína, en læt hér staðar numið þar sem ég þarf að fara að undirbúa sænska afmælisveislu. Það verður að sjálfsögðu bleik prinsessukaka :)


Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker