<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, janúar 08, 2005

Framhaldsjól 

Það eru ennþá jól hjá mér. Auk þess sem jólatréð stendur enn í allri sinni ljósadýrð í stofunni þá hafa gjafirnar streymt til mín stríðum straumi. Já, ég fékk ekki margar jólagjafir þessi jól en það bjargaðist eftir jól með fyrirbæri sem kallast ÚTSALA! Jebbs, útsala, útsala. Allt er falt og það á 100% afslætti -eða var það á 100% lánum? Skiptir ekki máli. Jólin halda áfram á útsölunum og ég gef sjálfri mér eftirjólagjafir. Svaka sniðugt! Ég keypti ekkert á útsölum í fyrra þar sem ég var ólétt og passaði ekki í neitt svo ég réttlæti þessi kaup með því að mega kaupa helmingi meira en vanalega. Vá, ég heppin!

Með það að leiðarljósi lagði ég í musteri kapítalismans, enn í jólaskapi með kortið á lofti og röntgenaugun á smartheit fyrir mömmuna. Ekki veitti af því að poppa sig aðeins upp eftir að hafa verið í óléttufötum og heimagalla síðastliðið árið. Eitthvað hefur þó komið fyrir mig með mömmutitlinum því ég missti mig alls ekki og keypti bara ekkert mikið. Og engan óþarfa eða furðuföt! Keypti bara jarðarliti og voða praktíska hluti. Fór í þvílíkum gír í forútsölu í GK tilbúin að kaupa mér flotta öðruvísi hönnun með skrautlegu munstri eins og flest þar inni er, en nei, nei, mín kom út með gallabuxur og skyrtu. Hvað gerðist? Hemm. Er ég orðin týpulaus mamma? Er litríka Erlan farin? Ég veit það ekki. Kannski er það veturinn og skammdegið. Vonum það. Reyni betur á sumarútsölunum. Vei, þá koma aftur jól!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker