<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, október 29, 2006

Persónuleikinn ég 

Loksins er búið að greina persónuleikann mig. Ég er ekki alveg eins frek og fljúgandi og ég virðist vera. Ég er ekki skitsó og ég er ekki sjúk. Smá skrýtin kannski en að sjálfsögðu aðallega frábær, æðisleg og meiriháttar. Á mínum forsendum!

Ég tók merkilegt persónuleikapróf um daginn sem kallast Myers-Briggs en það mælir og metur hvernig við kjósum að beina athygli okkar, hegðun og hugsun. Það mælir EKKI hvernig við hegðum okkur heldur hvernig við myndum helst vilja hafa okkur í frjálsu umhverfi. En hei, hvenær er maður svo sem í algerlega frjálsu umhverfi? I wish.

Ég komst að því að ég er ENFP.
Fyrir áhugasama þá stendur ENFP fyrir Úthverft innsæi ásamt tilfinningu:
Extrovertion: (Ytra). Breiðara áhugasvið. Viðkomandi fær kraft og orku frá umhverfinu með því að taka þátt, gera og með því að vera í samskiptum við umhverfið og aðra. Þeir sem eru úthverfir beina athygli sinni helst að fólki og fyrirbærum í ytra umhverfi. Úhverft fólk sækir orku í atburði umheimsins og hneigist til að beina eigin orku þangað. Þeir kjósa oft að tjá sig í ræðu heldur en riti. Það hefur þörf fyrir að upplifa heiminn til að skilja hann og kjósa því athafnir og tilbreytingu. Andstæðan við Extrovertion er þá Introvertion (einbeitt áhugasvið).

Ég mótmæli ekki að þetta ER ég. Langar oft upplifa atburði og annað á sem ítrastan hátt. Sjúga í mig fólk og hugmyndir. Enda fékk ég hátt skor í þessari vídd. Ef ég væri alveg frjáls þá myndi ég pottþétt éta heiminn. Samt í mörgum litlum misjafnlega löguðum bitum og smjatta vel á milli.


Intuition (innsæi - óáþreifanlegra/falið/ópraktískt).
Athyglin beinist að mynstri og tengslum á milli staðreynda, frekar en staðreyndunum sjálfum. Meiri áhugi fyrir því sem gæti verið heldur en því sem er, hugmyndum, samhengi og möguleikum. Fólk sem treystir á innsæið sér heildarmyndina og reynir að koma auga á víðara samhengi hluta. Það leggur mikið upp úr hugmyndaflugi og innblæstri. Andstæðan við Intuition er Sensing (skynjun - praktístk og raunverulegt).

Er þetta ekki fiðrildið ég? Langar mest að fljúga og ferðast um eftir veðri og vindum. Samt verð ég að vita og passa að liturinn á vængjunum dofni ekki á leiðinni og alls ekki að ég blotni of mikið ef það er rigning. Svo þar kemur kannski praktíkin mín inn í. En það er rétt, sé heildarmyndina og lokatakmarkið án þess að missa mig í smáatriðum hvernig ég geri það. Ég bara geri það. Oft einhvern veginn...úps.

Feeling (tilfinning - heitt).
Kýs að taka ákvarðanir með því að setja sig vel inn í aðstæður. Við töku ákvarðana veltir hann fyrir sér hvaða áhrif ákvörðunin hefur á hann sjálfan og aðra. Leitar eftir samræmi með því að meta mismunandi gildismat þeirra sem eiga í hlut. Þeir sem eru tilfinningaríkir hafa gaman af því að vera innan um annað fólk og verða oft skilningsríkir, háttvísir og eftirtektarsamir gagnvart öðrum. Þeir leggja áherslu á samstarfsanda og vinna sjálfir að því að skapa hann. Andstæðan við Feeling er þá Thinking (hugsun - kalt - rétt/rangt - staðfastar reglur).

Já, það þarf enginn að segja mér að Erla perla sé people person. Aðrir skipta mig miklu máli og ég finn oft þörf fyrir að poppa upp stuðið (tja, eða "samstarfsandann" í hvers kyns hópum sem ég er hluti af. Eins er sanngirni er skrifað á ennið á mér með rauðu.

Perceiving (opin - "kreistarar" (tannkremstúpan!).
Kýs að vera opin fyrir nýjum möguleikum og upplýsingum. Kýs að lifa lífinu á sveigjanlegan hátt og finnst gaman að taka ávarðanir með stuttum fyrirvara. Finnst áætlanir skipta minna máli og kýs að gera það sem er mikilvægt þá stundina. Þeir vilja frekar öðlast skilning á lífinu en hafa stjórn á því. Þeir kjósa að vera opnir gagnvart nýrri reynslu því þeir njóta og treysta á hæfni sína til að aðlagast nýjum aðstæðum. Andstæðan er þá Judging (lokað - "rúllarar" (tannkremstúpan aftur!).

Þetta er skvettan ég. Slash! Hvatvísa Erla perla sem talar áður en hún hugsar. Stelpan sem elskar óvæntar uppákomur og nýja reynslu og leiðir og gerir oft alltof mikið til að reyna að skapa sér þær aðstæður. Mig langar kannski helst að rúlla tannkremstúpunni og byrja kannski á því en... svo er hún bara öll útötuð í tannkremi og krumpuð, og það er fínt.

Þessi lýsing hér að ofan er í raun ekki lýsing á mér heldur þeim eiginleikum sem hver vídd hefur að geyma. Svo fékk maður misjafnlega hátt skor í hverri vídd og svona, en þetta er meginniðurstaðan. Þetta eru eðlislægir eiginleikar mínir sem láta mér líða eðlilega og vel, gefa mér sjálfsöryggi og orku.
Sjúff, er búin að vera í bullandi sjálfsskoðun! Skil ruglið í mér svo mikið betur og vonandi þið líka!

Frekari niðurstaða um hver ég aksjúlí er, er eftirfarandi lýsing á ENFP týpunni mér sem prófið segir:
Hlýlegur og áhugasamur, kátur, snjall og hugmyndaríkur. Nýjungagjarnir og fjölhæfir einstaklingar. Getur gert næstum hvað sem hann hefur áhuga á. Fljótur að finna lausn á hverju vandamáli og reiðubúinn að hjálpa hverjum sem er með vandamál sitt. Treystir oft á hæfni sína til að leika af fingrum fram í stað þess að undirbúa sig. Getur yfirleitt stutt óskir sínar með góðum og gildum rökum. Hefur mikið innsæi og ómælt þrek til þess að athuga nýjar aðferðir og möguleika

Já, takk!
Hvað þetta svo gagnast mér og hefur áhrif á líf mitt á eftir að koma í ljós. Það var hins vegar niðurstaða út af fyrir sig að deildin sem ég vinn í er ágætlega samsett og við skiljum hugsanlega hvort annað betur heldur en áður. Að þótt markaðsstjórinn sé að springa úr áhugasemi og baðandi höndunum á fundum og hönnuðurinn hljóður og eins og hann diggi mann ekki ... þá er það ekki endilega svo skrýtið eða slæmt. Eða þá þegar ég tala of mikið og flýg aðeins af stað án þess að rýni í smáatriðin. Hei, svona erum við bara.

Og þá vitið þið það og ég veit að þið takið ómælt tillit til mín næst þegar eitthvað eitthvað eitthvað truflar ykkur við mig... Þetta próf stuðlar að afstæði og fordómaleysi. Og smá egóbústi hehe.

Kveðja,
Erla
- Nokkuð Flott Perla.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker