<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, október 18, 2006

Íþróttastelpan ég 

Ég er íþróttastelpa.
Kannski ekki eins áköf og í gamla daga og heldur alls ekki eins góð. Og hvað þá eins flott. En hei, ég er bara sæmilega sæt sveitt í spandexhlaupagallanum og miðað við mig í dag þá er ég alveg ágæt bara. Þokkalega ánægð miðað við að hafa lítinn tíma, hafa æ minni áhuga á líkamsræktarstöðvum per se og að ég sé árangurinn sjaldnast í kílóafjölda. Reyndar er eitt farið en mér sýnist ég ekki sjá það á rassinum þar sem ég vildi helst heldur frekar á æ minnkandi brjóstmáli og spurning hvað það má missa mörg kíló (eða kannski frekar grömm!) þar.

En í dag var íþróttastelpan ég í stuði.
Það voru bæði átök og árangur. Og gaman líka. Ég setti persónulegt met í hlaupabrettahlaupi, en það er sérstök íþróttagrein sem ég stunda nokkrum sinnum í viku. Ég sem gat aldrei hlaupið, enda með alltof langa skanka sem ég réði illa við - nema kannski í sundlauginni á sínum tíma. Að hlaupa á hlaupabretti er það helsta sem ég geri svona þær mínútur sem ég eyði í ræktinni. Og svo smá magi og teygjur. Brjáluðu tímarnir hennar Dísu eru í hvíld hjá mér, en ég fæ svoldið illt í bakið af öllu þessu pallabrölti. Og núna vil ég sem sagt tilkynna það fyrir áhugasömum að í dag hljóp ég þrjá og hálfan kílómeter á innan við 20 mínútum sem gerir hvorki meira né minna en hraða upp á 11 kílómetra á klukkustund. Og þetta er algjört persónulegt met á hlaupabrettinu - og ég þakka hrósin. Ég skal ekki fullyrða um hvað ég gæti á malbiki úti í kulda og roki enda er það kannski ekki markmiðið (hmmm hvert er annars markmiðið?!) en ég finn að þetta er allt að koma. Ég var í hlaupastuði og teknótónlistin sem ég var með í eyrunum var allt í einu uppáhaldstónlistin mín. Gaf mér kraft og ég bara hljóp eins og vitleysingur. Miðað við mig sko ;)

Svo var komið að enn meira gamani. Eins og veðrið er búið að vera undanfarið þá var bara ekki hægt að sleppa því að skella sér í smá hjólatúr eftir vinnu í dag. Ég náði að leika mér í um klukkustund sem jafngildir nokkrum góðum hringjum í Sólbrekkubrautinni. Það er einbeiting, átak og skemmtun allt í senn. Það voru nokkrir hálf frosnir pollar í brautinni sem mér fannst skemmtilegast að tæta í gegnum. Ég varð hundblaut því ég kann víst ekki ennþá að prjóna í gegnum pollana eins og "á að gera" hehe. Efast nú reyndar um að ég prjóni nokkurn tímann á þessu hjóli eða öðru. Ég næ ekki að verða alveg hauslaus á þessu. Hef aldrei dottið (sem er víst soldið glatað í motocross :S) og fer enn löturhægt í beygjurnar þrátt fyrir að geta gefið vel í inn á milli. Ég er farin að lyfta báðum dekkjum upp af nokkrum pöllunum og fara létt yfir úpsurnar. Svo fæ ég kikk út úr því að reisa við einhvern þótt hann sé miklu betri en ég. Elta hann og keppast við hraðann. Keppnismanneskjan ég fæ sem sagt aðeins meiri útrás í brautinni heldur en á brettinu þótt ég efist um að ég eigi nokkurn tímann eftir að keppa i motocross. Eins og Vigginn ætlar að gera í fyrsta sinn á laugardaginn kemur, gúbb.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker