<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, september 25, 2007

Walter á vefinn! 

Ég fer alveg að birta uppgjör söfnunarinnar hér á síðunni, peningarnir ykkar eru í góðum höndum og allt að gerast hér.

Auk þessa dýrmæta fjársjóðs frá ykkur hef ég fengið 2 digital myndavélar í hendurnar og eina fartölvu. Slæmu fréttirnar í þeim góðu eru hins vegar þær að fartölvan sem í boði var og Viggi kom með út var aðeins of gömul og hæg og virkaði ekki á netinu hér í Níka. Ég fór með hana á tölvuverkstæði og lét meta hana og þetta var niðurstaðan: Óstarfhæf :(

Fyrir þá sem hafa fylgst með undanfarið þá vita þeir að þessi fartölva var ætluð Walter spænskukennaranum mínum. Þegar tölvan verður hans fær hann myndavélina líka. Við Walter hittumst ennþá einu sinni í viku til að spjalla og halda kontakt (og hann að halda smá aukavinnu = launum!) Við ræðum lífið og tilveruna og ég sé blikið í augunum hans þegar ég svara honum varðandi ferðalög mín um heiminn. Um lífið mitt á Íslandi og hvernig hlutirnir virka utan Níka. Hann er áhugasamur kennari sem þyrstir í þekkingu og vísdóm. Hann er venjulegur millistéttar Níka með 30 þúsund krónur á mánuði samtals að meðtalinni þeirri einkennslu sem hann krækir sér í hér og þar og sér fyrir fjórum börnum auk konu. Hann kvíðir fyrir jólunum og sumarfríum því þá er hann kauplaus. Hann keyrir enn um á eldgamla mótorhjólinu sínu í hvernig veðri sem er og kaup á regngalla er á dagskránni frá okkur til hans. Við eigum fyrir því.

Ég sagði Walter um daginn frá hugmyndinni með fartölvuna, að það væri fullt af fólki heima sem vill taka þátt í að gleðja Níkana sem ég væri að segja sögur af. Hann væri orðinn þekktur meðal lesenda og það væri alveg sjéns á að útvega honum tölvu. Walter, eins hlédrægur og rólegur og hann er tók bara um höfuðið og þorði ekki að trúa mér. Kleip sig svo í handlegginn og athugaði hvort hann væri vakandi þegar ég sagði honum að það væri búið að útvega tölvu fyrir hann – frá ykkur. Ég var því kannski aðeins of fljót á mér þegar ég minntist á að tölvan væri komin í hús og það liði ekki á löngu þar til vegir internetsins væru honum opnir og hann myndi loks frelsast og fljúga um upplýsingaviskubrunninn sem enginn áhugasamur ætti að lifa án...
En ansans. Oh.

Því spyr ég aftur auðmjúklega mín kærustu hvort þið vitið um einhverja gamla, en þó ekki eldeldgamla, fartölvu sem mögulegt væri að láta af hendi til hans Walters? Það væri draumur. Verðandi Aupairin hennar Gerðar kemur hingað út eftir viku og gæti tekið hana með sér. Nú ef það gengur ekki upp er planið að splæsa í eina notaða hér úti.

Walter sagði mér að síðasta vika hafi verið sú lengsta í lífi hans í langan tíma. Það var sem sagt vikan á milli þess sem ég sagði honum að tölvan væri komin og að hann fengi hana eftir skoðun. Hann hafði meira að segja farið á markaðinn og keypt sér nýja tösku sem tölvan kæmist ofan í auk kennslugagnanna.
Æts. Ég var bara svo spennt sjálf!

Ég treysti ykkur því til að kíkja í skúffur og skápa og í alla vasana og athuga hvort gamla fartölvan fái að fara í góðan málsstað hingað til Nicaragua.
Koma svo, við viljum fá Walter á vefinn!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker