<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júlí 30, 2007

Ég og Kían 

Ég er orðin bíleigandi hér í Nicaragua.
Eftir nokkra daga athugun á markaði notaðra bíla hér út um alla borg með bílstjóra sendiráðsins er ég nokkru nær. Til dæmis veit ég að Yaris er vinsæll hér eins og heima, nema hér er hann með skotti. Algjör krútti. Pallbílar eru ekki eins ódýrir og ég hélt enda langvinsælastir, þú kemur jú heilu stjórfjölskyldunni aftan á pallinn sem getur jú verið afar hentugt. Hér er líka vinsælt eins og heima á Íslandi að flytja inn bíla frá Bandaríkjunum, nema í flestum tilfellum eru það tjónabílar sem gerðir eru upp hér og seldir aftur. Rauðir bílar eru sjaldgæfir og víst ekki sérlega kúl að mati Nicabúa, rautt er því ódýrasta lakkið þegar sprauta á tjónabíl frá USA að nýju eftir viðgerð, flestir bílasalar eru svindlarar og það er erfitt að þurfa að efast um hvern einasta hlut í viðskiptum. Eða það finnst mér. Efast um að tryggingin sé í lagi, efast um að það sé ekki búið að fikta í km fjöldanum í mælaborðinu, efast um að bílasalan sé lögleg, efast um að bíllinn sé ekki tjónabíll sem var keyrður í þvílíka steik og klessu að flest í honum sé illa fengnir varahlutir og úr heimatilbúnu brotajárni.

En mér tókst að kaupa mér bíl þótt ferlið hafi tekið heilan dag. HEILAN DAG. Ég fór út í gærmorgun kl. 8:30 til að ná í pening og var komin heim kl. 19 - en þá með kaggann! Fyrir utan það að þurfa að sparka í öll dekkinn á bílunum sem ég skoðaði tíu sinnum og með báðum fótum (efast muniði) og horfa og hlusta á bílstjórann vin minn rökræða og díla og skvíla við sveitta bílasalasvikarana í þeim tón eins og þeir væru að fara að bretta upp ermarnar og taka í hvorn annan, þá var pappírsvinnan þegar ég loksins landaði draumabílnum upplifun út af fyrir sig. Feiti bílasalinn minn var með þykka gullkeðju um hálsinn og nokkra hringa og velmegunarbumbu sem lafði langt niður fyrir strenginn á gallabuxunum hans. Hann þurrkaði sér oft með svitaklútnum sínum og hann sleikti yfirvaraskeggið sitt reglulega í samningaviðræðunum af stressi og þegar hann var að sannfæra mig um að hann væri honest guy. Hann talaði pínu ensku og ég tók þátt í samningaviðræðunum af miklum móð og hafði gaman af. Þetta var alvöru.

Skrifræði og pappírsvinna hvers kyns er í hávegum höfð hér í Nicaragua. Þegar ritari bílasalans tók upp eldgamla kúluritvél til að vélrita samninginn á löggildan pappír brosti ég innra með mér. Hún pikkaði einbeitt með einum putta. Minnti mig á þegar mamma vann í gamla daga við að vélrita upp illa handskrifaðar ritgerðir fyrir háskólanema. Þá sofnaði ég iðulega við þetta sama hljóð og heyrðist í vélinni á bílasölunni. Mamma var aftur á móti svakalega fljót að vélrita og yfirleitt langt á undan ritvélinni sem var ennþá að hamast á meðan mamma fékk sér kaffisopa á milli blaðsíðna. Þetta var fyrir 25 árum eða svo. Og líka í Nica í gær.

Já, þá er ég orðin stoltur eigandi af rauðum töffaralegum (töffaralegur fer sko eftir því við hvað maður miðar) Kia Sportage! Með svörtum sólrúðum og samlæsingu. Já, nú get ég líka verið þekkt fyrir það að hafa átt ekta slyddujeppa. Og ég veit að margir sem ég þekki munu hlæja... sé sérstaklega fyrir mér bróður minn og Helgu Hlín bílatöffara fá kastið. En ég er hæstánægð með bæði dílinn og bílinn og hlakka til að krúsa á honum um landið.

Fann svo loks bílstól fyrir Veruna í dag og þá á ég bara eftir að kaupa rúm áður en dömurnar mæta á svæðið á föstudaginn. Og jú, tryggja bílinn, fara með hann að láta skrá hann, í mengunarmælingu... og god, man ekki hvað allt hitt var, en það voru nokkrir staðir í viðbót sem ég þarf að fara á til að keyra löglega á Kíunni minni. Jebb, skrifræðið muniði. EN ég er svo sniðug og Níka svo frábært að ég ætla að ráða til mín mann fyrir lítið til að sjá um þetta fyrir mig takk. Og allir græða.

Þá er bara að kaupa sér sólgleraugu í stíl eins og Gerður megapæja (líka á rauðum bíl sko) benti mér réttilega á.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker