<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, febrúar 16, 2007

Erla perla á Egilsstöðum 

Egilsstaðir voru afrek. Ég tók flugið á hælinn þrátt fyrir notalegan strekkingsvind eins og flugstjórinn kallaði ókyrrðina á leiðinni. Ég greip bara einu sinni LAUST í arminn á samstarfsfélaganum (var búin að heita mér því að grípa ekki í lærið á honum sama hvað myndi ganga á) á leiðinni austur og var slök sem slefandi áhyggjulaust barn á leiðinni heim (ekkert andvarp og hvað þá grip!). Á leiðinni las ég bæði Moggann og svo bróderaði ég eins og brjáluð væri í mestu hossunum. Taldi út og einbeitti mér að listaverkinu mínu. En púlsinn var normal og ég svitnaði ekki dropa. Ég er ennþá með flugriðu eftir ókyrrðina en hræðslan er farin. Jibbí - ég er útskrifuð innanlands sem utan!

Egilsstaðir eru pínulítill bær að mér virtist. Alla vega miðað við Hafnarfjörð og að þetta eigi að heita höfuðstaður Austurlands. Ég hafði einu sinni áður komið á Egilsstaði, fyrir fjórum árum þegar við Viggi þræddum hvern einn og einasta austfjörð í sumarfríinu okkar. Þá stoppuðum við stutt við, kíktum á Hallormsstað, á Skriðuklaustur, í Bónus og fengum okkur kaffi og köku í sólinni á kaffihúsi bæjarins. Í gær var hins vegar dimmt yfir og grenjandi rigning og ég sá alls ekki svo mikið út um móðukennda gluggana á bílaleigubílnum frá flugvellinum og að fundarstað. Í aðfluginu sá ég að Lagarfljótið var gaddfreðið og mér sýndist ormurinn svamla undir yfirborðinu. Eða var sú sýn bara von um meira ævintýri en ég vissi að þessi fundarferð yrði? Snitturnar á Hótel Héraði voru afbragð og hvítvínið rann vel niður (þótt ég hafi sko alls ekki verið að staupa mig fyrir heimflugið, neibb, bara hrein samdrykkja og mingl við viðskiptavini og ekkert annað) Hreindýrin héldu sig uppi á heiði en ég naut þess þó vel að borða hreindýrahamborgara á Búllunni.

Ég hitti engin Egil en þetta var samt fínn staður.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker