<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, febrúar 23, 2007

Hlaupadjamm 

Stelpupartý og þrítugsafmæli er það sem er á döfinni þessa helgina. Útstáelsinu mun greinilega seint linna hjá mér, jafnvel ekki fyrr en ég leggst hreinlega í gröfina. Gaman að því. En ég er að taka mig á, ætla að vera róleg, drekka sprite í klaka til að vera hress og njóta fjölskylduleiks helgarinnar. Og svo tekur maður jafnvel í krossarann eða fer út að hlaupa ef veðrið verður gott. Já, ég ákvað það í dag að reyna við 1-2 víðivangshlaup í vor, 10 km. Sá á www.hlaup.is að Víðivangshlaup Hafnarfjarðar er 19. apríl og ekki seinna vænna en að fara að æfa sig betur í útihlaupi. Og bæta jafnt og þétt við vegalengdina. Þá hlýt ég að drattast þetta. Á endanum. Útihlaupin mín eru nú orðin ALVEG 4 talsins en vonandi mun bætast jafnt og þétt í sarpinn á næstu vikum þar sem skipulögð útihlaup með vönum hlaupurum í hádeginu eru á dagskrá. Sjávarsíðan hér við Borgartúnið er auðvitað ídeal æfingasvæði og Laugardalurinn líka segja þeir vönu.

Ég er komin með nýjan hlaupavænan Ipdod sem ég er búin að ákveða að gefi mér slatta kraft undir seglin. Svo óska ég mér alls kyns girnilegs hlaupadóts í afmælisgjöf til að peppa mig upp: Hlaupaúr, hlaupabuxur (vetrar og sumar með stuðningi við kálfann!) hlaupajakka, hlaupahúfu, hlaupasokka... Jamm, það er víst allt svona hlaupa hitt og þetta til. Ég veit alveg að það eru meira en 2 mánuðir í afmælið mitt en hei, ég er afmælisstelpa og þetta var fyrsta auglýsingin. Mig vantar þetta náttúrulega mjög nauðsynlega til að skrúfa upp hlaupaímyndina. Árangurinn fylgir svo kannski jafnvel hugsanlega í kjöfarið.

En guðminngóður, ég ætla svo sannarlega að vona að þið haldið ekki að ég sé orðin voða öflugur hlaupari, ó nei, því fer fjarri. EN mun betri nú en áður þar sem ég var jú arfaslakur hlaupari sem rétt komst kílómeterinn, illt í hnjám og baki, móð og másandi. Það er liðin tíð þótt ég verði nú seint hlaupameistari.is. Bara alltaf gaman að eignast nýtt áhugamál.is. og gaman að sjá árangurinn þótt hægur sé.

Árangurinn birtist líka í almennri vellíðan ásamt því að sjást á kílóafjöldanum en það eru þó nokkur kg farin frá því ég byrjaði hlaupin í haust. Einhver hrósaði mér með þeim orðum að ég væri orðin eins og "blað í vindi". Ég veit ekki hvort það sé kúl eða ekki og veit ekki hvernig blöðum í vindi líður, en ég hef það fínt. Held meira að segja að ég hafi séð (örugglega ímyndaðan) sixpakk í speglinum um daginn. Sá reyndar líka ennþá beyglurnar á lærunum en það er aukaatriði...

Meira um hlaupin síðar.
Djammið líka.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker