<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, ágúst 01, 2004

Hún er fædd! 

Í síðasta bloggi (föstudaginn 23. júlí) bauð ég kúlubúanum að koma í heiminn þar sem nú væri allt klárt. Hann tók mig þokkalega á orðinu. Ég reyndar bað hann sérstaklega um að bíða fram yfir helgi þar sem ég væri upptekin um helgina í brúðkaupi hjá Kjartani bróður Vigga og henni Svövu. En kúlan fór sko sínar eigin leiðir...

Ég vann minn síðasta vinnudag í bili í Gallup þann föstudag og fór heim sæl og glöð tilbúin að fara nú að hvíla mig og undirbúa komu kúlunnar í heiminn. Ég var búin að vera á góðu spani undanfarið, m..a. veislustjóri í öðru brúðkaupi og að redda hinu og þessu fyrir komu kúlubúans. Ég segi nú ekki að ég hafi ekki haft flest allt nú þegar tilbúið, en ég átti þó nokkuð eftir að gera þó sem ég ætlaði að dúlla mér í, í þeirri löngu (og leiðinlegu skv. mæðrum...!) bið eftir nýja meðlimnum.

Ég þurfti þó ekki að bíða lengi. Á laugardeginum 24. júlí, sjálfum brúðkaupsdeginum Kjartans bróður Vigga og Svövu gerðist það. Ég var hin hressasta og við Viggi buðum systkinum hans, mökum og börnum í brunch til að ná upp stemmningu fyrir brúðkaupið og æfa atriði sem þau systkinin ætluðu að flytja í veislunni. Það gekk vel. Ég bakaði muffins og milljón pönnukökur ofan í liðið og allt fór fram með sóma. Fólkið fór svo heim og ég ætlaði að leggja mig fyrir kvöldið.
Þá ákvað svokallaður slímtappi að losna....en það er fyrsta stig fæðingar.
Ég hafði lesið að þótt slímtappinn færi gæti verið allt upp í viku í fæðingu. Ég var ekki með neina verki svo ég lagði mig sæl og glöð yfir þessum góða fyrirvara kúlubúans. Ég hafði ekki legið lengur en í 10 mínútur þegar ég heyrði hávært „crack“ koma innan úr mér og legvatnið flaut um allt rúm. Jahá! Fæðingin var þokkalega komin af stað. Og ekki hjá því komist að setja sig í gírinn og fara upp á fæðingardeild í skoðun.
Ég byrjaði reyndar á því að taka nett grátkast yfir því að ég væri búin að eyðileggja daginn fyrir Vigga þar sem hann myndi missa af brúðkaupi bróður síns... en hei - hormónarnir tóku alveg völdin á þessum tímapunkti... æts!

Við brunuðum upp á fæðingardeild. Klukkan var 15. Brúðkaupið átti að vera kl. 18:15. Ég var enn ekki með neina verki svo ég eygði von um að komast þrátt fyrir allt í brúðkaupið. Ég vildi ekki „eyðileggja“ daginn fyrir Vigga! Rassblaut og stressuð vorum við látin bíða frammi fyrir utan fæðingardeildina í á hálfan annan tíma sökum anna. Það ákváðu víst mun fleiri börn að koma í heiminn þennan fallega dag heldur en ljósmæðravaktin hafði gert ráð fyrir. Allar stofur voru fullar og ekki einu sinni pláss til að skoða mig fyrr en eftir dúk og disk. Að lokum var ég þó skoðuð og var ég þá byrjuð að finna fyrir byrjunarstigi hríðanna. Mónitorinn sagði hjartslátt barnsins í góðu lagi og hríðarnar jukust jafnt og þétt. Mér leið vel en var þó að keppast við klukkuna þar sem ég ætlaði mér í brúðkaupið hvað sem á dundi. Ljósurnar gáfu mér brottfararleyfi upp á eigin ábyrgð með loforði um að koma svo strax aftur eftir kirkjuathöfnina upp á deild. Í framhjáhlaupi sagði ein þeirra mér að taka með mér teppi því ef barnið myndi skyndilega fæðast væri langmikilvægast að halda á því hita... á þeim tímapunkti spurði ég sjálfa mig hvort ég væri hreinlega biluð. Og Viggi líka....!

Við brunuðum heim og sturtuðum okkur og sjænuðum á mettíma. Verkirnir voru bærilegir og Viggi aðstoðaði mig við baðið og að klæða mig.

Við rétt náðum í kirkjuna á þeytispani áður en Svava brúðir gekk inn kirkjugólfið. Það var yndisleg stund. Ég byrjaði strax að væla. Það var bara of mikið að gerast á einum degi! Páll Óskar og Monika spiluðu undurfögur lög og nálægð dýrðar og gleði (og jú jú...hormóna og stress...!) var svo þrungin og mikil að ég þurfti ansi marga snýtuklúta til að komast í gegnum þetta. Hríðarnar ágerðust í kirkjunni. Það voru komnar um 2 og hálf mínúta á milli hríða og ég taldi niður á milli og undirbjó mig æ fyrir þá næstu. Þá lokaði ég augunum og reyndi að nota Palla til slökunar. Það gekk bærilega. Ég man reyndar ekki ýkja mikið eftir athöfninni sem slíkri þar sem ég var meira upptekin við að díla við verkina og að bæla þá niður með skældu brosi á vör. Ég missti meira að segja af kossinum. En hei - hann er víst til á vídeó svo....!

Eftir athöfnina stóð ég upp í keng. Kvaddi liðið sem óskaði okkur góðs gengis. Og aftur brunuðum við upp á fæðingardeild. Kolla læknir vinkona var einnig brunandi til okkar frá Snæfellsnesi þar sem hún hafði ætlaði sér að vera í útilegu umrædda helgi. Kolla ætlaði nefnilega að taka á móti krílinu. Hún hafði hringt í mig á hádegi til að athuga hvort hún fengi ekki örugglega brottfararleyfi út úr bænum, þ.e. hvort eitthvað væri að gerast með mig og ég sagði henni endilega að fara þar sem ég finndi alls ekki fyrir neinu og það væri sko akkúrat ekkert að gerast! Klukkutíma síðar fór svo umræddur slímtappi og ballið byrjaði.

Kolla var mætt upp úr klukkan 20 og baráttan við hríðarnar hófst fyrir alvöru. Ég skiptist á að kremja og klípa hendurnar á Vigga og Kollu sem gáfu mér ómældan stuðning þegar verkirnir komu. Ég var í banastuði og þvílíkt tilbúin að massa þessar hríðar. Þær skyldu ekki fá að buga mig. Og það tókst bærilega. Allt til klukkan 2 um nóttina þegar sóttin var orðin verulega hörð og engin pása á milli verkja. Úff. Ég ætla nú að leyfa mér að blóta [varúð]: ÞVÍLÍKT HELVÍTI ÞESSAR HRÍÐAR. Shit. Ég held það verði aldrei neitt á ævinni vont eftir að hafa upplifað þetta. En alla vega... ég var þvílíkt að massa þetta og allt var í gangi. Útvíkkunin orðin fín og allt að gerast. Þegar við fáum þær fréttir eftir skoðun ljósmóðurinnar að barnið sé sitjandi!

Bíddu, bíddu... - ha - what - say it again. Neeeeeeeeeeeeeeeeeeiiii, ég trúði því ekki! Tvær ljósmæður í mæðraverndinni í Hafnarfirði höfðu staðfest að barnið væri með höfuðið skorðað í grindinni, ásamt tveimur uppi á fæðingardeild. Í þessari skoðun kl. 2 snerti ljósan svo allt í einu litla rassaskoru í staðinn fyrir koll þegar hún var að tékka á stöðunni. Jahá. Það var ekkert annað. Fæðingarlæknir var kallaður til sem staðfesti að um sitjandi barn væri að ræða og kallaði hann til skurðarjúnitið fyrir bráðakeisara.

Mín fyrstu viðbrögð voru vonbrigði. Vonbrigði með fagleg vinnubrögð þess fólks sem taldi krílið skorðað. Vonbrigði yfir því að hafa þurft að ganga í gegnum hríðarnar svona langt og vonbrigði með að fá ekki að fæða barnið mitt „eðlilega“ í þennan heim.

Mér var trillað inn á skurðstofu og mænurótardeyfingin virkaði sem heróin (ekki að ég hafi nú samt prófað heróín... - en get ímyndað mér áhrifin... ahhh!). Vonbrigðin hurfu eins og dögg fyrir sólu. Kolla segist aldrei munu gleyma smælinu sem lagðist yfir andlitið á mér þegar mænurótardeyfingin byrjaði að virka. Ó, ljúfa líf. Ég var virkilega búin að gleyma því hvernig verkjalaust líf væri. Þvílík sæla! Ahhhhhhh..... Þetta var ekki lengur í mínum höndum, heldur grænna geimverulækna með hanska og grímur.

Nokkrum mínútum síðar, eða kl. 02.23 þann 25. júlí, kom undurfagurt barn í heiminn. Dóttir mín. Ég tárast ennþá þegar ég hugsa um þessa stund. Þetta var magnað. Við grétum af gleði og létti. Hún var heilbrigð og fín. Þandi lungun fyrstu mínúturnar í hinum alvöru heimi sem mest hún gat en róaðist strax þegar hún fékk að koma til okkar. Ég trúði ekki eigin augum þegar ég sá hana fyrst. Þetta gat ekki verið mitt barn, hún var alltof falleg til þess! Það var ekki eitt stingandi rautt hár á kolli hennar þótt vel væri leitað! Hún var slétt og fín og agnarsmá, tæpar 12 merkur og 47,5 cm (ath. Komma fimm!), enda kom hún rúmum 2 vikum fyrir settan tíma. Snemma í því eins og mamma sín er alltaf. Að flýta sér. Ég virkilega bjóst við rauðhærðri, þrútinni risastórri bollu með bólur og bauga... ekki að það hefði orðið neitt verra...!

Við mæðgur dvöldum svo næstu 5 daga á Sængurkvennadeildinni þar sem ég jafnaði mig á keisaraskurðinum. Ég vissi ekki mikið um keisaraskurði áður en ég upplifði hann sjálf, en maður er alveg ristur á hol sem gerir mann ansi lamaðan og fatlaðan í nokkra daga á eftir. Það er vont að hreyfa sig og lífsins ómögulegt að hósta, hnerra og hlæja fyrstu dagana á eftir! Nú eru mestu verkirnir í skurðinum farnir og ég farin að geta hlegið á ný :) Er satt best að segja eiginlega búin að vera í hláturskasti síðan ég kom aftur heim og var á tímabili að spá í því að hringja upp á deild til að tékka á því hvort eitthvað væri til sem kallaðist „sængurkvennaHLÁTUR“!! En það var búið að vera mann við þeim fræga sængurkvennagráti sem konur lenda oft í þegar heim er komið vegna hormónarússíbana. En hlátur var það heillin. Sem betur fer :)

Þrátt fyrir þessa furðulegu fæðingarsögu hef ég mjög jákvæða upplifun af öllu þessu ferli.
Ég á yndislega dóttur sem er heilbrigð, vær og góð og auðvitað sú fallegasta sem finnst í heimi hér.

Við misstum af brúðkaupsævintýrinu en upplifðum annað og betra ævintýri sem varir að eilífu.
Framtíðin er okkar.


Skvísan dagsgömul.


Hér er daman 6 daga gömul. Posted by Hello
Posted by Hello

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker