<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, október 27, 2004

My skinny jeans 

Ég mæli með: Gallabuxum og Þjóðminjasafni Íslands.

Við Vera fórum á Þjóðminjasafnið í dag. Það var mjög gaman og fræðandi. Ekki það að maður hafi ekki séð þetta flest áður (og jú jú, kunni Íslandssöguna upp á hár) en í nýjum glæsilegum húsakynnum. Það er frítt inn á miðvikudögum svo endilega að drífa sig.

Annars er í dag mikill gleðidagur.
Ég komst í gallabuxurnar mínar aftur eftir laaaaaaanga bið! Jibbí jei. Og mikil djö... pæja er ég í þeim. Reyndar eru þær það þröngar ennþá að mér er búið að vera ansi kalt á lærunum í allan dag. En hvað um það, hvað gerir maður ekki fyrir stælinn! Oh, hvað það er góð tilfinning að vera í gallabuxum. Þröngt, kalt og stíft, mmmmmmmm. Það er fátt betra.

mánudagur, október 25, 2004

Vera 3 mánaða! 


Vera er 3 mánaða í dag. Ég trúi því bara ekki hvað tíminn líður hratt. Það er ótrúlegt. Hann líður víst hratt þegar það er gaman. Enda er þessi tími búinn að vera ótrúlega skemmtilegur. Mamman að njóta sín í botn í orlofinu með músinni sinni.

Vera fór í þriggja mánaða skoðun í morgun og fékk fyrstu sprautuna. Ái, mamman gat ekki horft á það. Vera stóð sig eins og hetja og öskraði bara pínupons. Eins og sjá má á myndinni þá blæs litla daman gjörsamlega út af rjómanum sem hún fær hjá mömmunni. Í morgun var hún mæld 6 kg og 62 cm og trónir þar einu fyrir ofan meðaltal. Geri aðrar mýs betur!  Posted by Hello

sunnudagur, október 24, 2004

PartýVera? 

Jæja, þá er hún Vera búin að fara í partý.
Þetta gerist fljótt!
Fyrsta partýið var gæsapartý á laugardagskvöldið. Vera tók þá sjálfstæðu ákvörðun að neita allt í einu upp úr þurru að vilja pelann þegar pabbinn var heima með músina. Pabbinn barðist um í þó nokkurn tíma að koma ofan í hana þó ekki væri nema nokkrum dropum en Vera afþakkaði með látum og gráti. Og þá voru góð ráð dýr. Foreldrarnir dóu ekki ráðalausir og pabbinn brunaði með krílið úr Firðinum og lengst upp í Reykjarvíkursveit þar sem fögnuðurinn fór fram til þess eins að leggja Veru á brjóstið á mömmunni. Í miðju stelpupartýi. Vera fór á kostum, saug eins og hún ætti lífið að leysa og kjaftaði svo aðeins við stelpurnar áður en hún fór heim að lúlla. Eða það átti hún alla vega að gera. Sofnaði samt víst ekki fyrr en að ganga kl. 01 eftir dágóða baráttu. Hún er allt í einu orðin eitthvað svo stór og farin að fatta umhverfið og fólkið sitt. Pabbi er ekki mamma og mamma er með brjóst = pabbi er ekki með brjóst = ég vill ekki lúllast hjá pabba! Þvílíkt gáfuð stúlka hún Vera! Hún er farin að snúa sig úr hálsliðnum til að fylgjast með því hvar mamman er og getur kvartað hástöfum ef einhver leiðinlegur ókunnugur vill knúsa hana. Já, hún er farin að ráða á heimilinu. Við snúumst eins og skopparakringlur í kringum hennar þarfir og langanir. Og höfum lúmst gaman að því. Vonandi samt ekki frekju. Ekki strax. En hvað sem það var þá endaði það með því að Veran fór í partý.

Eftir að partýbrjóstagjöf lauk og Vera og pabbinn voru farin aftur í Fjörðin leið mér skringilega. Ég var hræðileg móðir. Er ekki hjá dóttur minni þegar hún vill mig. Þarf mig. Vantar mig. Ég veit, hún vill mig, þarf mig og vantar mig alltaf alltaf alltaf og ég þarf mitt persónulega partýfrelsi og allt það, sem þýðir að hún verður bara að kyngja því og vera ánægð með pabbann. Sem er auðvitað frábærasti pabbinn á jörðinni. Stendur sig vel þessi elska. En þessi líðan gerði mig svo leiðinlega. Ég var alls ekki hress og samt í ansi vel hressu og skemmtilegu partýi. Það eina sem ég hugsaði var hvort ég ætti bara ekki að fara að drífa mig. Ég hugsaði það eiginlega allt kvöldið. Og skemmti mér því ekkert sérlega vel fyrir vikið. Var allan tímann að hugsa um hvað mig langaði heim að knúsa músina sem þarfnaðist mín svo (...eða hvað?). Gvuð hvað ég var leiðinleg. Sagði voða lítið og heyrði voðalega lítið hvað aðrir voru að segja. Ef ég sagði eitthvað voru það áhyggjuhugsanir sem ég hugsagði upphátt. Auðvitað um Veru, hvað annað. Hugurinn var heima. Og ég hef held ég bara aaaaaldrei verið eins leiðinleg í partýi og í gærkvöldi. Jesús minn hvað mér fannst ég vera leiðinleg. Var að mygla á sjálfri mér. Bara alls ekki eins og ég á að mér að vera (oh, Vera... djók!). Gat ég ekki bara gleymt þessu og tjillað eins og hinar tútturnar? Ég sem er alltaf svo hress. Eða VAR ég bara alltaf svo hress? Einu sinni. Það rann náttúrulega ekkert áfengi mér í æðum til að komast í gírinn. Er maður þá bara leiðinleg edrú mamma að drepa aðra úr leiðindahjali um barnavesen? Verð ég hér eftir bara leiðinleg og tíðindalaus í partýjum?
Ég var alla vega ekki partývera í gærkvöldi. Svo eitt er víst.

Kæri Póstur: Hvað get ég gert? Hjálp.
Ein leiðinleg.

miðvikudagur, október 20, 2004

Matur er manns gaman... 

...eða hvernig var það nú? Er það? Sumir éta of mikið og aðrir of lítið. Það er soldið flókið trix að éta. Eitt er víst að ég er sífellt að spá í mat. Maður er annað hvort of saddur eða að kálast úr hungri. Ræð lítið við mig. Ég leyfi mér nú að matast hvar og hvenær sem er þessa dagana (mánuðina!) því það er víst svo óhollt að pæla í megrun og minni mat mjólkandi eins og moi. Svo ég er stikk frí. Heppin ég - víhíííí´...Og afleiðingin er að ég ét hvað sem er. Pæli í þessu seinna. Vera er að fíla átvaglið mömmu sína og stækkar og stækkar af rjómanum sem ég framleiði úr öllu gumsinu. Og það er auðvitað það sem skiptir máli!

Mér finnst viðhorf eldra og yngra fólks til matar vera afar ólíkt. Bara pabbi gamli sem er ekki einu sinni svo ýkja gamall þusar yfir því að súpa, sallat og pasta sé sko ekki matur! Maður þorir ekki að bjóða honum í mat lengur - "Ó, sgjúsmí, átti ég að hafa hjörtu og nýru með mörbráð"? Mér varð eitthvað svo hugsað til þessara mismunandi matarvenja, bæði milli landa og kynslóða þegar amma bauð okkur í slátur um daginn. Ég borðaði það að sjálfsögðu með bestu lyst. Amminamm. Blóðmör, þvílíkt lostdæti. Í Laos borða þeir rottur, i Kine spiser de hunde og á Íslandi er það m.a. slátur. Þetta er allt jafn skrýtið eða venjulegt. Blóð, fita, rúgur og rúsínur hrært saman og troðið í kindavömb er málið í dag. Jahá! Þvílíkt og annað eins skrýtmeti hef ég ábyggilega ekki bragðað. En samt þykir þetta svo eðlilegur matur og góður hér á landi. Bara eins og soðin ýsa. Eða næstum því. Ok, viðurkennum það bara, þetta er kannski frekar eins og soðin kanína, svo furðulegur er þessi herramannsmatur í raun. Ég verð að segja að ég fæ nú smá gæsahúð við tilhugsunina um innihaldslýsinguna á slátrinu en þetta er víst svo hollt. Þeir segja það gamanlmennin sem enn nenna að hræra í blóði og mör upp að olnboga. Amma býður mér í slátur og ég henni í nýstárlegt kjúklingasallat þar sem hún skoðar hvern munnbita áður en hún stingur upp í sig og spyr mig efasemdarröddu hvað þetta sé eiginlega sem hún sé að láta ofan í sig. "Avocado, þistilhjörtu, sesamfræ..."


Slátur frá ömmu Posted by Hello

En ég á góðar minningar frá því ég var lítil að aðstoða við sláturgerð. Gramsaði aðallega í haframjölspokunum að leita að límmiðunum sem þar leyndust. Bróderaði svo í eina og eina vömb þess á milli. Ég efast um að ég eigi eftir að vera það praktísk og dugleg húsmóðir að taka slátur á haustin. Þótt þetta sé án efa ódýrasti matur sem hægt er að fá í dag í dýrtíðinni. Maður kaupir þetta bara tilbúið eins og allt annað. Eða næstum því. Ef ég fer að spá í það þá kann ég lítið að elda svona ekta heimilismat eins og maður fékk hjá múttu eða ömmu í den. Jú, sýð ýsu og kartöfflur og stappa í hús og skip með tómatsósu, en kann t.d. ekki að búa til kjötbollur í brúnni sósu eða fiskhakkbollur með lauk. 1944 réttirnir bjarga mér alveg þar. Ég hef einu sinni steikt lambahrygg í ofni og brúnað kartöflur. Það tókst vel en einhvern veginn er þessi good-old-time heimilismatur ekki alveg á borðum hjá okkur unga fólkinu í dag. Veit ekki af hverju. Ég bæði kann það ekki þannig að það bragðist nákvæmlega eins og hjá mömmu eða ömmu og þá er sko betra að sleppa því! Eins tími ég hreinlega ekki (og nenni ekki...) að eyða tíma í að elda svona "flókinn" mat. Æj, þið skiljið hvað ég á við.
Stóla bara á ömmu og tengdó hvað svona mat varðar.
Og býð sjálf upp á dýrindis "gervi"mat a la unga kynslóðin.

sunnudagur, október 17, 2004

Úti að leika 

Í dag rifjaðist það allt í einu upp fyrir mér hvernig Landrover auglýsti einhvern tímann bílana sína: "Komdu út að leika" var slagorðið. Og vá hvað það á við. Að fara út að leika á Landrovernum er hin besta skemmtun. Það er komin ákveðin hefð fyrir því að fara út að leika á jeppunum okkar nokkur saman á sunnudögum. Reyndar ekki allir á Landrover - og bara aumingja þau... Segi svona. Endum svo í vöfflum með rjóma á eftir, eftir torfærur og góða adrenalínaukningu á köflum.

Við s.s. fórum út að leika í dag. Vei vei, gaman, gaman! Skelltum okkur upp í Bláfjöll sem voru svo ber og snjólaus að maður fór hjá sér. Bara brún drullu- og steinahrúga með nokkrum stólum hangandi á staurum hér og þar. Sem var girnilegt fyrir Jeppalúðana. Við krúsuðum upp á toppinn og fórum einhverja slóða hingað og þangað um svæðið. Enduðum á að leika okkur á góðu drullusvæði eins og smákrakkar í sandkassa. Spæna mold á hvort annað (hahah ligga ligga lái) og taka eins krappar beygjur og maður þorði (með Veru í aftursætinu...)

Að leika á Landa er málið á annars frekar tilburðarlitlum sunnudögum!


Landinn í drullumalli Posted by Hello

miðvikudagur, október 13, 2004

Sofandi í sólarlagi 


Á meðan mamman útbjó dýrindis klúbbrétti fyrir saumóinn í gær svaf Vera sínu værasta úti í sólarlaginu til klukkan að ganga 19:30. Hvað mega ungabörn annars vera lengi úti??! Eins gott að barnaverndarnefnd frétti ekki af þessu...  Posted by Hello

þriðjudagur, október 12, 2004

Íslenski lúxusinn 

Allir Íslendingar sem hafa búið í einhvern tíma í útlöndum vita að Ísland er best í heimi. Og jafnvel líka einhverjir sveitadurgar sem hafa aldrei stigið út fyrir landssteinana. Ísland er allt það besta og frábærasta og hvernig sem á það er litið. Ok, við eigum ekki olíu, en við eigum vatn og orku. Ok, við eigum ekki mikið af sól en við eigum mikið af frábærum úða, hressandi slyddu, skemmtilegum hellidembum, láréttri rigningu, púðursnjó, rokíallaráttir og hávaðaroki líka. Og ég fíla það. Ég nefninlega veit að Ísland er bezt í heimi. Ég uppgötvaði það þegar ég bjó einu sinni fjarri þessum dásemdum í dágóðan tíma.

En ég var hins vegar búin að gleyma þessu þar til í gær. Í skugga kennaraverkfalls, pólitískra hæstaréttarskandala, dýrtíð og dimmu var ég bara hreinlega búin að gleyma því.

Þar til að íslensk frænka mín fögur og fríð sem býr Svíþjóð kom hingað heim í heimsókn og rifjaði það upp fyrir mér. Við skelltum okkur í syndsamlega gott sund fyrir 300 kall (og settum meira að segja krílin í pössun á staðnum á meðan = Laugar, geri aðrir betur :)), fengum okkur vöfflur með rifs og rjóma, súkkulaðisnúð, eina með öllu og önduðum að okkur ferskasta haustloftinu í heimi. Á meðan það kurraði í frænkunni af gleði þegar hún svamlaði í sundinu í heitu vatninu undir berum himni og teygði úr sér og slakaði á eftir brjóstagjöf og barnastúss sl. 3 mánuði, rifjaðist það upp fyrir mér á ný við hversu mikinn lúxus við búum. Oh, hvað það er gott að búa hér! Best, bestara, bestast! Frænkan sem er líka í fæðingarorlofi öfundaði mig fyrir að geta verið að spóka mig í sundi og líkamsrækt hele dagen í orlofinu fyrir skid og ingen ting. Úti í Svíþjóð hefur hún bara ískalda laug með kraftlausum sturtum og engum potti. Og auðvitað enga barnapössun á staðnum svo hún getur ekki einu sinni farið þótt hún vildi.

Ég notaði þetta auðvitað á hana sem pressu á að flytja aftur heim því hún fann þessa frábæru tilfinningu auðvitað mun sterkar en ég eftir alla þessa fjarveru frá íslensku fínheitunum. Fín staða doktors í umhverfisvistfræðum á sænskri rannsóknarstofu er bara aukaatriði miðað við íslenska lúxusinn. Og ég er ekki frá því að þetta sé eitthvað að virka hjá mér og Íslandi. Ég ætla alla vega að halda áfram að fara með hana í sund og gufu og gera henni glaða íslenska daga á meðan hún er hér næstu 3 vikurnar.

Ísland já takk! (og heyrðirðu það Halldóra elsku frænka mín!)

föstudagur, október 08, 2004

Svefnpurrkan mín 

Verð bara að deila því með ykkur, þótt ég sé handviss um að engum finnist það merkilegt nema sjálfri mér, að hún Vera svaf í heila 8 tíma í nótt! Fór að sofa kl. 22 og vaknaði kl. 6 í morgun! Geri önnur ungabörn betur! Þetta hlýtur að vera Íslandsmet! Mamman er stolt af því að eiga svefnpurrku :)

fimmtudagur, október 07, 2004

Spegill, spegill herm þú mér... 


Vera er að uppgötva hvað speglar eru frábærir. Hún getur horft í spegilinn stundunum saman og dáðst að því sem í honum er. Það er auðvitað ekki að furða því hún sér nefninlega alltaf eitthvað svo svakalega fallegt og yndislegt þegar hún lítur í spegilinn...:) Posted by Hello

Skódella 


Jesús minn, hún Vera fer að ná mér í fjölda skópara þótt hún sé aðeins tveggja mánaða og auðvitað ekki byrjuð að labba! Spurning hvort mamman sé eitthvað að smita hana af skódellunni....?! Posted by Hello

miðvikudagur, október 06, 2004

Mömmumórall 

Ég er með hjartaverk. Algjöran mömmu-hjartaverk. Sem ég vissi ekki að væri til fyrr en Vera fæddist. Gerði áður hálfgert grín að paranoid mömmum sem mér fannst taka börnin sín aðeins of alvarlega. Mömmur sem spurðu pössupíuna, jah eða pabbann þegar hann var með krakkann, í þaula um hvernig hafi gengið með barnið: "Kúkaði hún?", "Kúkaði hún mikið eða lítið?", "Hvernig var kúkurinn á litinn?", "Sofnaði hún eitthvað?", "Klukkan hvað sofnaði hún?", "Klukkan hvað vaknaði hún svo?", "Hva, varstu ekki að taka tímann?", "Hvernig svæfðirðu hana?", "sofnaði hún strax eða...?", "Hvernig leið henni?", "Hvað meina ég...? Bara hvernig fannst þér henni líða?", "Var hún glöð, ergileg, pirruð, hló hún...?"....

Ég er orðin þessi mömmutýpa. Mér er ekki sama hvernig barninu mínu líður og mér finnst ég þurfa að hafa algjört yfirlit yfir það sem gerist. Treysti pabbanum samt fullkomlega fyrir sínu hlutverki þegar ég er ekki til staðar. Bara verð samt að spyrja. Eins og asni.

Ég fór á kóræfingu í kvöld. Kóræfingin er í rúma tvo tíma frá kl. 20-22. Og fyrir dálitlum tíma tók Vera upp á því að fara að sofa milli kl. 20:30 og 21:30. Auðvitað akkúrat þegar mamman er að gaula fjarri góðu gamni. Þá vill Vera fá sér mikið að drekka fyrir nóttina. Ná upp forða fyrir nóttina. Og þá er ekkert brjóst til að sofna á. Æi...... og í kvöld varð hún frekar mikið svekkt með það. Lét pabbann sko heyra í sér. Hún var ekki að fíla þetta fyrirkomulag. Hvað er mamma að gera úti í bæ þegar ég þarf á henni að halda? Grátur og gnístran tanna.
Maaaaaaaaaaaaammmmmmmmaaaaaaa!!!
Brrrjjjjjjóóóóóst!!!

Pabbinn þurfti að mixa þurrmjólk í pela til að brauðfæða barnið. Og mamman fær verk í brjóstið. Þeim megin sem hjartað er.

En ég ætla að halda áfram að mæta á kóræfingar. Með hjartaverk á miðvikudagskvöldum. Pabbinn reddar þessu með pela og Vera verður bara að læra á lífið á kórkvöldum. Svona verður það. Því ég veit að í fyrramálið vaknar hún glöð og sæl og brosir fyrirgefningarbrosi framan í mömmuna með móralinn.

sunnudagur, október 03, 2004

Jeppalúðar á ferð! 

Í dag fóru nokkrir Jeppalúðar í jeppaferð. Ég vill vekja athygli áhugasamra á nýjum link hér til hliðar í kjölfar þess að þessi frábæri jeppaklúbbur hefur verið settur á fót: Bloggsíða Jeppalúðaklúbbsins. Þar má m.a. finna nokkrar myndir af okkur lúðum að jeppast. Já, Jeppalúðar eru málið í dag. Það er inn að eiga jeppa og töff að fara á fjöll. Og alveg helvíti gaman! Þeir sem vilja djoina á sínum fjallabílum bara endilega!

föstudagur, október 01, 2004

Áfram Svava! 

Þá er Idolið að byrja aftur í kvöld. Ég væri nú ekki svo spennt yfir þessu nema af því að svilkona (úff, hver fattaði nú upp á þessu skrýtna orði?!- Svilkona = kona bróður mannsins míns) mín er að taka þátt í Idolinu. Já, hún hefur undurfagra rödd og gekk vel. Má víst ekki segja meira. Hún heitir Svava Jóns svona fyrir ykkur sem fylgjast með þessu og er saga hennar sögð í þættinum, þ.e. henni var fylgt eftir með viðtölum o.fl. Svaka spennó. Þið eigið s.s. að kjósa hana takk ef hún kemst svo langt!

Annars missi ég af þessum fyrsta þætti í kvöld þar sem ég er á leið í óvissuferð með vinnufélögunum í IMG. Kominn tími til að taka eina óvissuferð eða svo. Viggi pabbast bara með Veru á meðan og notar pelann fyrir brjóst :)

Hér eru annars nokkrar myndir af Verunni minni sem ég dáist að á hverjum degi eins og dáleidd mamma...(á það ekki annars að vera þannig??!)


Veru finnst svaka gaman að horfa á og leika með alls kyns óróa Posted by Hello


Við fórum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn um daginn með fleiri Gallupmömmum og börnum Posted by Hello


Vera sæta Posted by Hello

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker