<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, október 20, 2004

Matur er manns gaman... 

...eða hvernig var það nú? Er það? Sumir éta of mikið og aðrir of lítið. Það er soldið flókið trix að éta. Eitt er víst að ég er sífellt að spá í mat. Maður er annað hvort of saddur eða að kálast úr hungri. Ræð lítið við mig. Ég leyfi mér nú að matast hvar og hvenær sem er þessa dagana (mánuðina!) því það er víst svo óhollt að pæla í megrun og minni mat mjólkandi eins og moi. Svo ég er stikk frí. Heppin ég - víhíííí´...Og afleiðingin er að ég ét hvað sem er. Pæli í þessu seinna. Vera er að fíla átvaglið mömmu sína og stækkar og stækkar af rjómanum sem ég framleiði úr öllu gumsinu. Og það er auðvitað það sem skiptir máli!

Mér finnst viðhorf eldra og yngra fólks til matar vera afar ólíkt. Bara pabbi gamli sem er ekki einu sinni svo ýkja gamall þusar yfir því að súpa, sallat og pasta sé sko ekki matur! Maður þorir ekki að bjóða honum í mat lengur - "Ó, sgjúsmí, átti ég að hafa hjörtu og nýru með mörbráð"? Mér varð eitthvað svo hugsað til þessara mismunandi matarvenja, bæði milli landa og kynslóða þegar amma bauð okkur í slátur um daginn. Ég borðaði það að sjálfsögðu með bestu lyst. Amminamm. Blóðmör, þvílíkt lostdæti. Í Laos borða þeir rottur, i Kine spiser de hunde og á Íslandi er það m.a. slátur. Þetta er allt jafn skrýtið eða venjulegt. Blóð, fita, rúgur og rúsínur hrært saman og troðið í kindavömb er málið í dag. Jahá! Þvílíkt og annað eins skrýtmeti hef ég ábyggilega ekki bragðað. En samt þykir þetta svo eðlilegur matur og góður hér á landi. Bara eins og soðin ýsa. Eða næstum því. Ok, viðurkennum það bara, þetta er kannski frekar eins og soðin kanína, svo furðulegur er þessi herramannsmatur í raun. Ég verð að segja að ég fæ nú smá gæsahúð við tilhugsunina um innihaldslýsinguna á slátrinu en þetta er víst svo hollt. Þeir segja það gamanlmennin sem enn nenna að hræra í blóði og mör upp að olnboga. Amma býður mér í slátur og ég henni í nýstárlegt kjúklingasallat þar sem hún skoðar hvern munnbita áður en hún stingur upp í sig og spyr mig efasemdarröddu hvað þetta sé eiginlega sem hún sé að láta ofan í sig. "Avocado, þistilhjörtu, sesamfræ..."


Slátur frá ömmu Posted by Hello

En ég á góðar minningar frá því ég var lítil að aðstoða við sláturgerð. Gramsaði aðallega í haframjölspokunum að leita að límmiðunum sem þar leyndust. Bróderaði svo í eina og eina vömb þess á milli. Ég efast um að ég eigi eftir að vera það praktísk og dugleg húsmóðir að taka slátur á haustin. Þótt þetta sé án efa ódýrasti matur sem hægt er að fá í dag í dýrtíðinni. Maður kaupir þetta bara tilbúið eins og allt annað. Eða næstum því. Ef ég fer að spá í það þá kann ég lítið að elda svona ekta heimilismat eins og maður fékk hjá múttu eða ömmu í den. Jú, sýð ýsu og kartöfflur og stappa í hús og skip með tómatsósu, en kann t.d. ekki að búa til kjötbollur í brúnni sósu eða fiskhakkbollur með lauk. 1944 réttirnir bjarga mér alveg þar. Ég hef einu sinni steikt lambahrygg í ofni og brúnað kartöflur. Það tókst vel en einhvern veginn er þessi good-old-time heimilismatur ekki alveg á borðum hjá okkur unga fólkinu í dag. Veit ekki af hverju. Ég bæði kann það ekki þannig að það bragðist nákvæmlega eins og hjá mömmu eða ömmu og þá er sko betra að sleppa því! Eins tími ég hreinlega ekki (og nenni ekki...) að eyða tíma í að elda svona "flókinn" mat. Æj, þið skiljið hvað ég á við.
Stóla bara á ömmu og tengdó hvað svona mat varðar.
Og býð sjálf upp á dýrindis "gervi"mat a la unga kynslóðin.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker