<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, ágúst 20, 2007

Walter og ég 

Já, hann Walter.
Spænskukennarinn minn ágæti. Fínn kall. Hann er 42 ára og á konu og 4 börn. Hann býr með seinni eiginkonu sinni og 8 mánaða syni hjá tengdaforeldrum sínum en konan hans er í orlofi. Walter kemur nýsturtaður, í nýstraujuðum fötum í vinnuna, vel greiddur og með skjalatösku - en á eldgömlu mótorhjóli. Hárið er þá vel klesst eftir hjálminn. Hann á ekki regngalla fyrir demburnar og þarf oftar en ekki að keyra í bleytunni frá mér í kennsluna í háskólanum. Hann verslar allt sem til þarf á markaðnum, hvort sem um ræðir kjöt eða lyf, og um daginn þegar hann var að tala um að hann þyrfti að fara að kaupa þurrmjólk handa syninum áður en hann færi heim - rigningunni - sagði ég við hann að það væri nú lítið mál að koma við í La Colonia á leiðinni en sá súpermarkaður er svona eins og Bónus/Hagkaup heima.
Það var í raun þá sem ég fyrst fattaði að Walter hafði það í raun ekki eins fínt og ég hélt. Hann hristi hausinn með skrýtið augnaráð og sagði mér að versla þar væri ekki inni í myndinni.

Ég sá það svo enn betur hvernig staðan á Walter og fjölskyldu var þegar bróðir hans dó skyndilega í síðustu viku. Maðurinn var 38 ára og fékk hjartaverk. Hann keyrði á næsta spítala sem var að sjálfsögðu public spítali. Þar fékk hann að sjálfsögðu arfaslaka þjónustu og dó á meðan blóðprufan - eina testið sem var tekið - var í rannsókn á öðrum prívat spítala. Að leggja hann inn á sæmilegan prívat spítala hefði kostað fjölskylduna of mikið eða um 150 USD á dag og það kom ekki til tals. Fyrir utan það að læknirinn á public spítalanum gaf það aldrei í skyn að maðurinn væri nálægt því að deyja. Sem sagt, engir peningar, engin þjónusta. Já, bróðirinn hrökk upp af og fjölskyldan þurfti að taka líkið með heim af spítalanum sama kvöld. Þau keyptu ódýrustu líkkistuna sem kostaði samt 500 USD. Einn bróðirinn sem býr í Californiu borgaði það víst. Walter sá svo um að hringja í alla vini og ættingja til að tilkynna andlátið, fór nokkrar ferðir á mótorhjólinu sínu að kaupa kók og smákökur fyrir gesti sem streymdu að næstu 3 sólarhringa dag og nótt og fór svo upp í kirkjugarð á þriðja degi til að grafa sjálfur holuna sem bróðir hans var jarðsettur í. Skófluna fékk hann lánað hjá vini. Þá klæddi hann bróður sinn, þriggja daga gamalt rotnandi lík (eftir 33 gráður á dag) í föt, en hann hafði dáið á boxerunum einum. Já, það er jú alltof dýrt að kaupa jarðafararþjónustu.

Walter er venjulegur Níka úr millistétt. Hann er sennilega efri millistétt. Hann er menntaður þýðandi, vinnur sem stundakennari í Háskólanum við að kenna útlendingum spænsku og Níkum ensku. Stundum fær hann svo aukapening í einkakennslu með nemandur eins og mig. Samtals um 5-600 USD á mánuði. Maður leyfir sér víst ekki mikið aukreitis með það.

Það sem ég er sífellt að upplifa hér er að ég held svo oft að fólk sé bara á svipuðu róli og ég sjálf hvað stöðu og möguleika í lífinu varðar. Nema ég versla gæði í bestu matvörubúðinni, er með miklu hærra kaup sem starfsnemi, á hús og kagga og langar til að kaupa besta 66° N regngalla á kappann.
Við sameinumst einungis í því sem gerist í skólastofunni og restin er bil sem ég ekki skil.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker